Leita í fréttum mbl.is

Vér einir vitum

Arfakóngar fyrri alda töldu sig einir vita hvað þegnunum væri fyrir bestu. Þeir töldu sig hafa þegið vald sitt frá Guði og gengju næstir páfanum að óskeikulleika.

Nú hafa 9 þingmenn lagt fram þingsályktunartillögu sem byggð er á viðhorfum arfakónga. Hugmyndir manna eins og John Stuart Mill um Frelsið og þau sjónarmið sem lögð voru til grundvallar við myndun nútíma lýðræðisríkja er þeim fjarlæg.

Óneitanlega sérstakt að  þingmaður Sjálfstæðisflokksins taki þátt í þessu og tveir þingmenn Hreyfingarinnar.  Sér í lagi þar sem þingsályktunartillagan fer í bág við hugmyndir um frelsi borgaranna, sjálfsákvörðunarrétt og virðingu fyrir ólíkum lífsstíl og löngunum  og umburðarlyndi.

Tillaga þingmannanna sem telja sig ganga næst arfakóngum að gáfum kveður á um margháttaðar frelsissviptingar reykingafólks og einungis megi selja tóbak í apótekum. Af hverju apótek. Selja  þau ekki heilsuvörur og lyf?

Næsta tilllaga verður  um að hangikjöt, saltað folaldakjöt og annað saltkjöt, transfitusýrur og franskar kartöflur verði eingöngu seld í apótekum eða bannað vegna skaðsemi fyrir heilsuna.

Þeir einir sem hafa höndlað sannleikann um réttan lífsstíl eins og þingmennirnir 9 og telja sér heimilt að ráða fyrir öllum öðrum munu þá væntanlega ganga  leiðina á enda og skylda fólk til að borða að viðlögðum sektum og fangelsisvist í samræmi við matseðil sem gefin yrði út af Lýðheilsustofnun.

Reykingar eru hvimleiðar fyrir okkur sem ekki reykjum. En við eigum samt ekki rétt á því að svipta þá sem reykja öllum rétti til að gera það frekar en að svipta fólk rétti til að borða franskar kartöflur, ís og reykt kjöt svo dæmi séu nefnd.

Þjóðfélag sem virðir grundvallarskoðanir um frelsi einstaklingsins verður að sætta sig við að okkur kemur takmarkað við hvað aðrir gera svo fremi sem það skaðar ekki annað fólk.  Þingmennirnir 9  vilja sjálfsagt í samræmi við forsjárhyggju sína að fólk borði klálböggla og arfa í allan mat og stundi sjóböð fjallgöngur og lyftingar eftir vinnu. En þannig getur það ekki verið í lýðræðisríki.

Forsenda lýðræðis er  frelsi og umburðarlyndi og það má ekki gleyma því að löstur er ekki glæpur


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sumarliði Einar Daðason

Tek undir hvert einasta orð hér að ofan.

Sumarliði Einar Daðason, 31.5.2011 kl. 11:27

2 identicon

Þó ég telji það nú nokkuð ólíklegt að þetta frumvarp verði samþykkt þá þætti mér það ekki leiðinlegt ef það færi í gegn. 

Ég er sammála þér að einhverju leyti Jón, en þetta er samt bara spurning um það hvar á að setja mörkin.  Eru mörkin við tóbak, eða eru þau við sykur og óhollustu.  Eða ef við förum í hina áttina, eru mörkin við hass eða kókaín.

Allt er þetta fólki skaðlegt.  Ef tóbak hefði verið fundið upp í fyrsta skipti í dag og allar aukaverkanir væru þekktar þá er nú alveg líklegt að það væri sett í flokk með eiturlyfjunum.  

Hversu mikið er frelsið?  Hver er réttur fólks til þess að nýta sitt frelsi á kostnað annarra?  Jafnvel fólkið sem reykir úti og kemur svo inn á veitingastað þar sem ég borða angar af sígarettulykt, sem minnkar ánægjuna mína af málsverðinum.  Þó það sama megi nú líka segja um þann sem angar af svitalykt, en erfiðara er að banna hana :)

Svo eru það börnin mín.  Ég veit að börnin mín vilja ekki reykja í dag og ég veit að þau eiga ekki eftir að vilja vera tilneydd til þess að kaupa sér pakka af sígarettum á dag þegar þau eru orðin fullorðin, en þessi erfiðu unglingsár geta fengið þau til þess að taka vitlausar ákvarðanir.  Ef tóbak er eins aðgengilegt og það er í dag eru meiri líkur á að börnin mín taki ranga ákvörðun sem skerðir frelsi þeirra seinna þegar þau eru orðin háð sígarettum.

Andri (IP-tala skráð) 31.5.2011 kl. 12:39

3 Smámynd: Eyjólfur G Svavarsson

Jón!Ég nota ekki tóbak og ekki áfengi, en ég borða hangikjöt og saltkjöt,  og ég er hjartanlega sammála þér!

Eyjólfur G Svavarsson, 31.5.2011 kl. 14:12

4 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Hrákadallar, eða spýtubakkar lögðust af þó ekki væru þeir bannaðir og mér vitanlega eru þeir ekki bannaðir en í dag.  Væntanlega leggjast öskubakkar af og verða fólki framtíðar jafn furðulegir og spýtubakkar eru sumu fólki í dag.

      

Hrólfur Þ Hraundal, 31.5.2011 kl. 17:47

5 Smámynd: Jón Magnússon

Þakka þér fyrir það Sumarliði.

Jón Magnússon, 31.5.2011 kl. 23:30

6 Smámynd: Jón Magnússon

Þetta eru góðar hugleiðingar hjá þér Andri. Í frjálsu þjóðfélagi á fólk að fá að haga lífi sínu eins og það vill svo lengi sem það skaðar ekki aðra.  Það finnst mér vera meginatriðið í viðmiðuninni. Þá er spurningin hvenær skaðar fólk aðra. Sumir halda því fram að reykingar valdi auknum kostnaði í þjóðfélaginu en það má líka rökfæra það að það geri það síður en hinir sem ekki reykja.  Ég er sammála þér með lyktina en þannig þurfum við að þola margvíslega skítalykt. Mér finnst það t.d. hræðilegt þegar fólk borðar hvítlauk og angar af honum en öðrum finnst það í lagi. Ég á enga heimtingu á að aðrir borði ekki hvítlauk þó ég geri það ekki.

Jón Magnússon, 31.5.2011 kl. 23:34

7 Smámynd: Jón Magnússon

Þakka þér fyrir Eyjólfur. Ég borða líka hangikjöt og saltkjöt og finnst það gott en ég veit að það er meinóhollt.

Jón Magnússon, 31.5.2011 kl. 23:35

8 Smámynd: Jón Magnússon

Góður púnktur Hrólfur með hrákadallana og spýtubakkana. Ég man eftir því þegar ég var sendill 12 ára gamall og kom á opinberar skrifstofur þá voru víða hrákadallar en ég man ekki eftir að þeir væru notaðir. Þá var þetta spýterí vegna munntóbaksneyslu að mestu að leggjast af. Þannig held ég líka að það sé betra að beita öðrum aðferðum til að draga úr reykingum. En því má ekki gleyma að reykingar eru mikil fíkn hjá mörgum og drepur fleiri en nokkurt annað eiturlyf hvort heldur það er leyfilegt eða óleyfilegt. 

Jón Magnússon, 31.5.2011 kl. 23:38

9 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Það er alltaf hægt að treysta á þig Jón til varnar frelsinu.

kv.Guðrún María.

Guðrún María Óskarsdóttir., 1.6.2011 kl. 02:24

10 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Hefur einvher á þinni lífsleið reynt að kynna þér samanburðarfræði, Jón Magnússon?

Ég spyr vegna þess, að samanburður þinn á tóbaksnotkun og neyslu á ýmsum matvælum, er að tvennum ástæðum svo ílla ígrundaður, að ekki getur talist annað en ARFAvitlaus!

Magnús Geir Guðmundsson, 2.6.2011 kl. 20:35

11 Smámynd: Jón Magnússon

Þakka þér fyrir Guðrún María.

Jón Magnússon, 2.6.2011 kl. 23:57

12 Smámynd: Jón Magnússon

Magnús Geir samanburðarfræðin er ekki aðalatriðið heldur frelsi einstaklingsins. Annað er arfavitlaus skilningur.

Jón Magnússon, 2.6.2011 kl. 23:59

13 identicon

Sæll Jón

Ég er sammála þér um að þegar mál af þessu tagi eru rædd þarf að horfa til skilgreininga þess merka manns John Stuart Mill á hugtakinu frelsi. Mill lítur ekki svo á að frelsið sé án takmarka, því frelsi einstaklingsins endar við nef náungans. Það fellur undir frumþarfir mannsins að hafa aðgang að hreinu lofti til að anda að sér. Sá sem blæs sígrettureyk framan í náunga sinn er að svipta hann frelsi til að anda að sér hreinu lofti. Í miðbæ Reykjavíkur er frelsið til að anda að sér hreinu lofti skertur af reykingamönnum og bílistum. Eigum við að banna mengandi bíla í miðbænum? Að mínu mati er það vert umræðu. Neysla á transfitusýrum, ís, reyktu kjöti og annarri óhollustu af því tagi skerðir ekki frelsi náungans á næsta borði. Þótt við viðurkennum þessi sjónarmið er málið samt ekki einfalt úrlausnar. Hvað boð og bönn varðar skyldu menn fara varlega. Oft snýst forsjárhyggjan í höndum manna.  Margir telja, með sterkum rökum, að veldi mafíunar í Bandaríkjunum megi rekja til áfenginsbannsins. Tóbak er fíkniefni, áfengi er mörgum fíkniefni. Í gær 2. júní birtist grein í mbl undir fyrirsögninni: http://mbl.is/frettir/erlent/2011/06/02/tapad_strid_gegn_fikniefnum/ Góður tilgangur forsjárhyggjunnar endar ekki alltaf í þeirri niðurstöðu sem stefnt er að. Hver sem afstaða manna er til fíkniefna er hollt að horfast í augu við að núverandi stefna og aðgerðir eru ekki að skila tilætluðum árangri, sbr. umfjöllun í Kastjósi um læknadóp og mikið mannfall í röðum ungmenna vegna neyslu fíkniefna. Þegar horft er í augu við raunveruleikann og að boð og bönn eru oft frekar í ætt við friðþægingu en lausn mála, vaknar næsta spurning: Hvað er til ráða?

Halldór Árnason (IP-tala skráð) 3.6.2011 kl. 06:58

14 Smámynd: Jón Magnússon

Sammála Halldór. Athyglivert að margir gamlir forustumenn í pólitík skuli taka sig saman og mæla fyrir því að fíkniefnalöggjöfin í heiminum verði endurskoðuð og telja bannið ekki þjóna tilgangi heldur gera glæpamenn ríka.  Oft getur verið betra að hlutirnir séu ofanjarðar og undir eftirliti jafnvel þó um óæskilega borgaralega hegðun sé að ræða að mati stórs meirihluta eins og t.d. varðandi fjárhættuspil, vændi, reykingar, áfengis- og aðra fíkniefnaneyslu

Jón Magnússon, 3.6.2011 kl. 15:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 292
  • Sl. sólarhring: 716
  • Sl. viku: 4113
  • Frá upphafi: 2427913

Annað

  • Innlit í dag: 268
  • Innlit sl. viku: 3804
  • Gestir í dag: 260
  • IP-tölur í dag: 249

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband