Leita í fréttum mbl.is

Orsök og afleiðing

Eitt mikilvægasta í starfi Háskóla og háskólakennara var lengi talið að rökfæra með skynsamlegum hætti þær kenningar og sjónarmið sem þeir settu fram. Þegar hlustað er á rökfærslu Þorvaldar Gylfasonar prófessors í hagfræði, um íslenskan veruleika þá virðist þetta liðin tíð.

Þorvaldur Gylfason hélt því fram í viðtali á RÚV í kvöld, að nú væri sannað að bankakreppan íslenska árið 2008 ætti ekki rót sína að rekja til heimsvandans  í bankamálum,  af því að íslensk heimili hefðu það mikið verra en heimili á Norðurlöndum, sem einnig hafi þurft að taka á sig afleiðingar kreppunar eins og aðrar þjóðir. Fullyrðingin er raunar röng en það er annað mál.

Rökfærsla prófessors Þorvaldar er þessi: Þar sem íslensk heimili standa miklu verr efnahagslega, en heimili á Norðurlöndum, þá er sannað að  bankakreppan árið 2008 hefur ekkert með alþjóðlegu bankakreppuna að gera.

Óneitanlega vantar töluvert upp á þessa röksemdafærslu. Hvað leiðir til hvers og hvað sannar hvað og af hverju?

Noregur, Svíþjóð og Finnland gengu í gegn um bankahrun fyrir um 2 áratugum. Þá var ekki sambærileg alþjóða bankakreppa og árið 2008. Heimilin í þessum löndum fóru ekki eins illa út úr bankahruninu og hér vegna þess að þar er ekki verðtrygging á neytendalánum. Í annan stað þá lækkuðu rauntekjur fólksins ekki sambærilega og hér og í þriðja lagi þá var skattheimta á almenning ekki aukin með sama hætti og hér. Þetta er mergurinn málsins. En það kemur alþjóða bakakreppunni og íslenska bankahruninu árið 2008 ekki við.

Norðurlöndin lentu ekki í sambærulegu bankahruni og við árið 2008. Þegar af þeirri ástæðu stenst samlíking og rökfærsla prófessors Þorvaldar ekki. Í annan stað þá urðu heimilin á Norðurlöndunum ekki fyrir skakkaföllum vegna bankahruns árið 2008. Þess vegna er samlíking prófessors Þorvaldar einnig röng.

Íslenska bankabólan var eðlilslík bankabólunni í Bandaríkjunum, Englandi, Írlandi og víðar. Sú staðreynd verður ekki hrakinn með vísan til stöðu heimila á Íslandi og hinum Norðurlöndunum.

Óneitanlega er það athyglivert að prófessor Þorvaldur skuli ekki átta sig á að sá meginmunur sem er á stöðu íslensku heimilanna og frænda okkar á hinum Norðurlöndunum er sú að þar er ekki verðtrygging á neytendalánum.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæll Jón.

Ég er mjög svo sammála þér og mér finnst Þorvaldur hér einungis bera fram pólítiskan boðskap sem hentar núverandi stjórnarherrum til þess að þvo hendur sínar er líður að kosningum.

kv.Guðrún María.

Guðrún María Óskarsdóttir., 4.1.2012 kl. 01:58

2 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ég er sammála þér í því að ÞG er ekki að ná að færa rök fyrir máli sínu.  Ég er samt sammála honum í því að fjármálakreppan er ekki orsök bankahrunsins hér á landi.  Hún flýtti fyrir hinu óumflýjanlega.  Ég er einnig sammála honum í því að orsök bankahrunsins er heimatilbúin, þ.e. ófagleg stjórnun á fjármálafyrirtækjum, dramb og oflát bankamanna  sem héldu að þeir hefðu uppgötvað gullgerðarvélina, svik, spillingin, blekkingar, lögbrot og margt fleira.  Allt raungerðist þetta í óhóflegri áhættusækni, eðlileg varúð var vikið til hliðar, hagsmunum almennra hluthafa var fórnað fyrir hagsmuni stjórnenda og vildarviðskiptavina (sem oft voru stórir hluthafar) og stillt var upp alls konar fléttum sem virtust hafa það eitt að markmiði að gera völdum aðilum kleift að komast yfir sem mestan pening án þess að ætlunin væri að þeir greiddu hann aftur til baka.  Segja má að sem betur fer hafi lausafjárkreppan komið í veg fyrir að þetta yrði að stærra snjóflóði en það þó varð.  Nógu stórt varð það fyrir því.

Marinó G. Njálsson, 4.1.2012 kl. 09:15

3 Smámynd: Emil Örn Kristjánsson

Íslenzkir hag- og viðskiptafræðingar sýna það betur og betur hversu arfaslakir þeir eru sem vísinda- og fræðimenn. Þetta eru upptil hópa gífuryrtir gapuxar, sem bera í raun mesta ábyrgð á hruninu.
Það yrði til stórbóta fyrir land og lýð ef menn eins og Þorvaldur Gylfason og Þórólfur Matthíasson lærðu að grjóthalda kjafti í stað þess að rugla fólk með vanhugsuðum yfirlýsingum.

Háskólarnir verða að horfast í augu við þá staðreynd að til þeirra er horft sem hlutlausra og traustra álitsgjafa. Þegar kemur að hagfræðinni þá hafa þeir algerlega brugðist. Hvernig mátti búast við því að fávís almúgi og illa upplýstir stjórnmálamenn gætu séð aðburðarásina fyrir þegar fræðimannasamfélagið sagði allt vera í fína lagi? Fræðimennirnir, karlarnir og konurnar, sem á sínum tíma völdu Björgólf Thor, Hannes Smárason og Jón Ásgeir menn ársins 2005, 2006 og 2007... og þetta lið telur sig enn þess umkomið að tjá sig...

Emil Örn Kristjánsson, 4.1.2012 kl. 09:45

4 Smámynd: Jón Magnússon

Eitthvað er það Guðrún en alla vega ekki hlutlæg nálgun á vandamálinu.

Jón Magnússon, 4.1.2012 kl. 10:00

5 Smámynd: Jón Magnússon

Ég er sammála þér Marinó. En þessi hegðun íslenskra bankamanna sem þú lýsir og er því miður alveg rétt en sú sama og kemur fram varðandi kollega þeirra í bankahrunslöndunum. 

Jón Magnússon, 4.1.2012 kl. 10:02

6 Smámynd: Jón Magnússon

Sammála þér Emil með þeirri undantekningu þó að Þórólfur Matthíasson færir almennt mjög góð rök fyrir máli sínu hvort heldur menn eru sammála honum eða ekki. Eins og kemur fram hjá þér þá hljóta menn að spyrja hvað voru háskólamennirnir að segja á árunum 2002 og fram að hruni. Því miður lítið og ómarkvisst. Íslenska háskólasamfélagið brást algjörlega og tók fullan þátt í hrunadansinum. Ekki má gleyma þeim sem fóru á ráðstefnur og fyrirlestraferðir út um allan heim styrktir af hrunfyrirtækjunum. Hvað skyldu það vera margir prófessorar?

Jón Magnússon, 4.1.2012 kl. 10:08

7 Smámynd: Halldór Jónsson

Er verðtrygging ósanngjörn?

Ef ég skulda 100 þegar hrunið ríður yfir á ég þá að skulda 100 eftir hrunið? Hrunið leiðir til þess að kaupið mitt hækkar í 200 á einhverjum tíma og allt verðlag líka þar sem krónan fellur um helming.

Ef ég átti 100 í banka þegar hrunið varð, á ég þá að eiga 100 í bankanum eftir hrun?

Eru líkindi til þess að ég vilji lána 100 án þess að fá eitthvað fyrir hrunáhættu? Á að lögþvinga mig til að lána mitt 100 til 40 ára óverðtryggt?

Ég held að umræðan um verðtryggingu sé á villigötum. Hún er nauðsynleg og er allstaðar viðhöfð til lengri tíma. Lesið bara röksemdir Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir samþykkt verðtryggingarlaganna.

Halldór Jónsson, 4.1.2012 kl. 11:40

8 Smámynd: Halldór Jónsson

Og takið eftir því sem felst í niðurlagi viðtalsins við prófessorinn. Ég gat ekki lesdið annað út úr því að eina lækninging væri að ganga í ESB.

Halldór Jónsson, 4.1.2012 kl. 11:41

9 Smámynd: Jón Magnússon

Ég var ekki að ræða verðtrygginguna sérstaklega í þessum skrifum Halldór heldur rökfræðina sem prófessorinn hefur uppi. Hvað sem því líður þá er ljóst að íslenskir neytendur hafa búið við verstu lánskjör í Evrópu frá aldamótum.

Jón Magnússon, 4.1.2012 kl. 12:01

10 Smámynd: Jón Magnússon

Já það er hans mat eins og annarra sem ljúka máli sínu jafnan með því að segja allt þetta mun lagast ef við göngum í ESB.

Jón Magnússon, 4.1.2012 kl. 12:02

11 Smámynd: Emil Örn Kristjánsson

Við erum að tala um sama Þórólfinn er það ekki, Jón? Þennan sama og sagði: "Ísland verður á sama stalli í samfélagi þjóðanna og Norður Kórea og Kúba ef Alþingi samþykkir ekki Icesave-samningana". Og hann  var, vel að merkja, að tala um sk. Svavarssamning...

Emil Örn Kristjánsson, 4.1.2012 kl. 12:22

12 identicon

JÓN ég er sammála þér um að margir Háskólamenn skauta létt yfir málin og rökstuðningur þeirra er oftar í samræmi við það. Oftar hefur mér þótt Þorvaldur Gylfason vera einlægur og mæla af meiri skynsemi um þessi mál en þarna. Það er rétt að gera mikla og ríka kröfu til þess að jafnhæfur maður og Þorvaldur láti  ekki glepjast af augnablikinu. En þú sem lögmaður lærður í að leita uppi skafanka átt að fylgja innsæi þínu vegna óréttmæti verðtryggingarinnar enn fastar eftir. Ég óska þér gleðilegs árs og þakka fyrir marga góða pistla.                                                                                        ÁGÆTI HALDÓR                                                                                                                     Þú spyrð?  Er verðtrygging ósanngjörn?  Á sínum tíma var verðtryggingin sett á til að tryggja bæði lánsfé (skuldir) og laun og ef þú hefur lesið Ólafslögin, grunnplaggið að verðtryggingunni, þá sérðu að eins og þau voru hugsuð áttu þau að halda jafnræði milli eigna,skulda og launa. Það er hverjum holl lesning að lesa alla umræðuna í Alþingistíðindum í aðdraganda þessara laga. Þegar misvitrir og sumir heimskir stjórnmála og embættismenn tóku verðtrygginguna af launum var snérist verðtryggingin í andhverfu sína, ég vil minna á langa umræðu á sínum tíma um að þegar verðbólga væri komin niður í einstafs tölu ætti að afnema hana. Þetta hefur ekki verið gert vegna þess að vertryggingin henta þessu sama óhæfa liði sem hefur stjórnað og þ.m.t. peningastjórn til þess að fela mistök sín og aulahátt.                          Þú spyrð?  Ef ég skulda 100 þegar hrunið ríður yfir á ég þá að skulda 100 eftir hrunið?  Já!   Þú segir: Hrunið leiðir til þess að kaupið mitt hækkar í 200 á einhverjum tíma: Hvenær og hvaða vissu hefur þú og rök fyrir því að kaupið þitt hækki vegna hrunsins?                            Þú segi:  Allt verðlag hækkar líka um 200 þar sem krónan fellur um helming: Af hverju féll krónan um helming, var það vegna skulda Íslenskra heimila? Varð það vegna aflabrests eða varð það vegna verðlækkana á heimsmörkuðum á afurðum okkar? Var það vegna náttúruhamfara? Vill ekki einhver upplýsa mig um af hverju þurfti að fella gengið og hverjir tóku ákvörðun um það:                                                                                                              Þú spyrð: Ef ég átti 100 í banka þegar hrunið varð, á ég þá að eiga 100 í bankanum eftir hrun? Já!   En í mínum huga áttir þú ekki að eiga 150 + verðtryggingu og að auki hæðstu vexti sem þekkjast þar sem menn vilja kalla sig siðmenntaða og ekki verðtrygginguna á vextina.          Þú spyrð:  Eru líkindi til þess að ég vilji lána 100 án þess að fá eitthvað fyrir hrunáhættu? Nei þú átt að fá vexti.                                                                                                                    Þú segir:  Á að lögþvinga mig til að lána mitt 100 til 40 ára óverðtryggt? Nei, lifir þú ekki í landi þar sem samningsfrelsi er, hver neyðir þig til þess að lána peningana þína? ef þú getur ekki ávaxtað eða tryggt þá sjálfur þá að sjálfsögðu lætur þú þína vini og bankamenn hjálpa þér við það.                                                                                                                                          Þú segir:Ég held að umræðan um verðtryggingu sé á villigötum. Hún er nauðsynleg og er allstaðar viðhöfð til lengri tíma: Er þetta ekki nokkuð götótt fullyrðing hjá þér og sögð svona meira út í loftið. Gaman væri að einhver þú eða einhver snillingurinn myndi segja okkur frá þeim löndum sem eru með verðtryggingu eftir sömu formerkjum og Íslendingar.                      Þú segir:  Lesið bara röksemdir Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir samþykkt verðtryggingarlaganna. Ég hef ekki tekið eftir því áður að þú hrífist af Jóhönnu, ég les hana ekki mér er nóg að hafa fylgst með henni í gegnum tíðina og tel að þegar hennar verk verði skoðuð þá fái hún ekki háa einkunn. Í mínum huga er hún fölsk,lýgin, ómerkileg og ósvífinn tækifærissinni sem felur innrætið undir málæði, manneskja sem segist öllum vilja gott en gerir lítið í þá veru. Ágæti Halldór ég óska þér og þínum Gleðilegs árs með þökk fyrir marga góða og skemmtilega pistla.

Sverrir Kristjánsson (IP-tala skráð) 4.1.2012 kl. 14:43

13 identicon

Þessi grein er meingölluð. Virðist höfundur sjálfur ruglast illilega á hvað sé orsök og hvað sé afleiðing. Mér leiðist það þegar menn og konur deila á einhverja aðila út af því hvað þeir sögðu eða gerðu og taka hlutina úr samhengi, án þess að vita alla söguna, eða gera sér hreinlega ekki grein fyrir henni. Ég horfði ekki á umrætt viðtal, en var á námskeiði í þjóðhagfræði hjá umræddum aðila fyrir jól í HÍ, svo ég veit hvað hann er að meina. Er það orsök bankakreppurnar hér á landi og hrunsins að alþjóðlegur heimsvandi kom upp í bankamálum. Bull og vitleysa, það var afleiðing, vegna þess að lánalínur lokuðust, sem betur fer segi ég. Hafa heimili á Norðurlöndum aukið skuldir sínar um 300% á síðastliðnum 20 árum fyrir hrun, eins og íslensk heimili gerðu? NEI. Segir þetta ekki allt sem þarf við mjög svo mótsagnakenndri grein, en ekki með öllu röng samt. Mér finnst það mikið ábyrgðarleysi að slá upp fyrrnefndri fyrirsögn og ráðast á fræðimenn og kennara í HÍ. Ekki sátu þeir á þingi fyrir hrun og höfðu ekkert með atburðarásina að gera, það gerði aftur á móti greinarhöfundur sem sat á þingi um tíma. Gætum okkur á því hvað við segjum. Þar er ég engin undantekning, en sorry, varð að leiðrétta þessar rangfærslur.

þórarinn þórarinsson (IP-tala skráð) 4.1.2012 kl. 16:44

14 Smámynd: Jón Magnússon

Við erum að tala um sama Þórólfinn Emil. Ég sagði ekki að ég væri sammála honum heldur að hann rökfærði mál sitt og það er sitthvað að rugla saman orsök og afleiðingu eða færa fram rök sem standast hugsanlega ekki mótrök.

Jón Magnússon, 4.1.2012 kl. 17:58

15 Smámynd: Jón Magnússon

Þakka þér fyrir Sverrir en ég sé ekki betur en þú sért að svara Halldóri Jónssyni í þessum pistli að hluta  er það ekki rétt hjá mér?

Jón Magnússon, 4.1.2012 kl. 18:00

16 Smámynd: Jón Magnússon

Þetta er ekki rétt hjá þér Þórarinn. Ég er ekkert að rugla með eitt eða neitt enda bendir þú ekki á neitt sem réttlætir staðhæfingu þína. Ég tek hlutina síðan ekki úr samhengi Þórarinn það er rangt hjá þér. Þess vegna birti ég orðrétt það sem kom í fréttaþættinum haft eftir Þorvaldi Gylfasyni. Af hverju lokuðust lánalínurnar Þórarinn? Það var vegna alþjóðlegu bankakreppunnar og þar með ert þú búinn að svara því sjálfur að yfirlýsing Þorvaldar Gylfasonar sem pistill minn fjallar um sé röng.

Mér finnst það ábyrgðarleysi Þórarinn þegar fræðimenn eins og Þorvaldur setja fram staðhæfingar eins og þessar og þar af leiðandi finnst mér nauðsynlegt að benda á það.

Það er rétt hjá þér Þórarinn að ég sat á þingi og gerði allt frá því að ég settist á þing athugasemdir við efnahagsstjórn þjóðarinnar og varaði við sérstaklega haustið 2007 og vormánuðina 2008.  Ég leitaði þá iðulega til ýmissa háskólamanna sem eiga að hafa betri þekkingu en ég í þjóðhagfræði, en fékk litlar undirtektir við þau sjónarmið mín árið 2007 að efnahagskreppa væri framundan. Þú ættir að kynna þér það sem ég sagði um þessi mál þegar ég sat á þingi. Þá sérðu að ég varaði við allan tímann en það var meira en prófessorar Háskóla Íslands eða Háskólans í Reykjavík gerðu því miður. Hvað skyldi valda því?

Ég reyni að gera mitt besta til að halla ekki réttu máli Þórarinn og vona að mér takist það.

Jón Magnússon, 4.1.2012 kl. 18:10

17 Smámynd: Haraldur G Magnússon

Sæll Jón Magnússon

Þegar þú talar um bankamenn ertu þá að tala um bankstjórnendur ,eða gjaldkera ,þlónustufulltrúa eða símadömur .eða alla sem starfa í bönkum ?

Haraldur G Magnússon, 4.1.2012 kl. 18:32

18 Smámynd: Jón Magnússon

Þakka þér fyrir Haraldur að vekja athygli mína á þessu ónákvæma orðalagi hjá mér.  Ég er að tala um æðstu stjórnendur banka ekki aðra. Ég biðst afsökunar á ónákvæmninni. Þetta á að sjálfsögðu ekki við um almennt starfsfólk í bönkum sem vinnur sína vinnu almennt með mikilli prýði og hefur þurft að þola óverðskuldað mikil leiðindi og raunir vegna starfa sinna eftir hrunið.

Jón Magnússon, 4.1.2012 kl. 20:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 303
  • Sl. sólarhring: 676
  • Sl. viku: 4124
  • Frá upphafi: 2427924

Annað

  • Innlit í dag: 279
  • Innlit sl. viku: 3815
  • Gestir í dag: 268
  • IP-tölur í dag: 257

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband