Leita í fréttum mbl.is

Seðlabankastjóri reynir að hafa áhrif á ákæruvaldið

Már Guðmundsson Seðlabankastjóri reynir ítrekað að hafa áhrif á ákæruvaldið og krefst þess aftur og aftur að Ríkissaksóknari ákæri í málum þar sem engar refsiheimildir eru fyrir hendi.

Í gær var illa unnin frétt á Stöð 2 hönnuð af Seðlabankastjóra,  þar sem draga mátti þá ályktun að "vandaðar" rannsóknir Seðlabankans á meintum gjaldeyrisbrotum væru unnar fyrir gíg þar sem Ríkissaksóknari vildi ekki ákæra í málinu. Þessi frétt var einnig flutt af Stöð 2 í ágúst s.l.

Afstaða Ríkissaksóknara lá fyrir í mars á þessu ári. Þar kom fram að fullnægjandi refsiheimildir skorti við þeim brotum, þar sem Seðlabankastjóri vildi ákæra. Seðlabankastjóri taldi þá að ákæruvaldið ætti ekki að fara að lögum, heldur geðþóttaákvörðun hans um að fullnægjandi refsiheimildir væru samt fyrir hendi þótt Ríkissaksóknari hefði komist að annarri niðurstöðu.

Þeir sem aðhyllast hugmyndafræði Ráðstjórnar telja rétt að ákæruvald og dómsvald lúti fremur vilja þeirra en lögum. Sú er afstaða Seðlabankastjóra í þessu máli.

Fyrrverandi Ríkissaksóknari Valtýr Sigurðsson sagði að forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir hefði ítrekað reynt að hafa áhrif á störf hans. Nú er skoðanabróðir forsætisráðherra í Ráðstjórninni, Már Guðmundsson Seðlabankastjóri beraður af því sama gagnvart Ríkissaksóknara. Þau Jóhanna og Már hafa tileinkað sér það viðhorf arfakónga frá fyrri öldum "Vér einir vitum".

Seðlabankastjóra datt ekki í hug þegar álit Ríkissaksóknara lá fyrir í mars s.l. að fara fram á það við Alþingi og ríkisstjórn að lögum yrði breytt og fullnægjandi refsiheimildir sett í lögin. Nei Ráðstjórnin átti að sjá til þess að ákært yrði,  hvað svo sem liði lögum í landinu.

Þannig er málum enn háttað í landinu að hér er réttarríki. Þess vegna fer hvorki Jóhanna Sigurðardóttir eða Már Guðmundsson með ákæruvald og dómsvald í landinu þó fegin vildu. 

Fréttamiðlar ættu að skoða störf Seðlabankastjóra m.a. ámælisverð vinnubrögð við sölu á Sjóvá-Almennum tryggingum sem leiddu til milljarða tjóns fyrir skattgreiðendur. Einnig klúðurslegar rannsóknir og afgreiðslu gjaldeyrismála. Það væru fréttir en ekki tilbúnar fréttir frá Seðlabankastjóra.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Jón Magnússon.

Það er sérkennilegt að sjá að þú telur að seðlabankastjóri sé hönnuður fréttar hjá Stöð 2 í gær. Það sjá náttúrulega allir að þetta er púðurskot út í loftið hjá þér.

Stefán Jóhann Stefánsson, starfsmaður í Seðlabanka Íslands.

Stefán Jóhann Stefánsson (IP-tala skráð) 5.9.2012 kl. 13:53

2 identicon

Var ekki talað um þrískiftingu valds sem :Lögjafarvald,Dómsvald og framkvæmdavald.  Ert þú farinn að tala um fjórða valdið, ákæruvald? Ef ekki hvar staðsetur þú ákæruvaldið, varla hjá dómsvaldinu því var breytt,manstu, þegar sýslumönnum var bannað að ákæra og dæma í sama málinu.  Hvort er það þá hjá framkvæmdavaldinu (ríkisstjórn) eða löggjafarvaldinu (alþingi)?

"Seðlabankastjóra datt ekki í hug þegar álit Ríkissaksóknara lá fyrir í mars s.l. að fara fram á það við Alþingi og ríkisstjórn að lögum yrði breytt og fullnægjandi refsiheimildir sett í lögin."

Vissulega þarf að skýra illa gerð lög en varla ertu þarna að gefa í skyn að ný lög gæfu refsiheimild afturvirkt?

Oft hefurðu nú verið gáfulegri en þetta Jón.  Ætli málið sé ekki að ríkissaksóknari sé einfaldlega að draga lappirnar til verndar klíkubræðrum. Ekki veit ég, en manni dettur það nú svona í hug.

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 5.9.2012 kl. 15:54

3 Smámynd: Jón Magnússon

Hver innan Seðlabankans hannaði þá fréttina fyrst það var ekki hann Stefán. Athugaðu að sambærileg frétt birtist í ágúst um sama málið á Stöð 2. Telur þú það tilviljun að fréttastofan fjalli um málið með þessum sérkennilega hætti?

Jón Magnússon, 5.9.2012 kl. 20:47

4 Smámynd: Jón Magnússon

Nei ákæruvaldið er hluti af framkvæmdavaldinu Bjarni. Raunar var það þannig að á sínum tíma fór dómsmálaráðherra með ákæruvaldið, en mig minnir að Dr. Gunnar Thoroddsen sem ungur þingmaður hafi flutt mál um stofnun embættis ríkissaksóknara til að hann væri sjálfstæður og óháður ríkisstjórn og öðrum stjórvöldum við mat á því hvort ástæða væri til að ákæra í málum eða ekki.  Ýmsir forsætisráðherrar hafa séð ástæðu til að benda sérstaklega á sjálfstæði Ríkissaksóknara t.d. á sínum tíma Geir Hallgrímsson, Steingrímur Hermannsson, Þorsteinn Pálsson og Davíð Oddsson. En Jóhanna er eini forsætisráðherrann sem hefur verið sökuð um að reyna að hafa áhrif á störf Ríkissaksóknara.

Ég geri mér fulla grein fyrir því Bjarni að refsilög verða ekki sett afturvirkt og þess vegna hefðu breytingar á lögum ekki haft áhrif þau atriði sem gerðust fyrir gildistöku refsiákvæðanna. En hafi Seðlabankastjóri talið að nauðsyn bæri til að setja ótvíræð refsiákvæði í lögin þá hefði hann átt að taka málið upp á réttum vettvangi t.d. beina erindi til ríkisstjórnar um að hún flytti málið sem stjórnarfrumvarp.

Þú verður að meta það Bjarni Gunnlaugur hvað þér finnst gáfulegt eða ekki. Ég hef enga ástæðu til að ætla að Sigríður Friðjónsdóttir Ríkissaksóknari stjórnist af öðru en málefnalegum sjónarmiðum og tel þessi ummæli þín í lok athugasemdarinnar vera ómerkilega og ómarktæka aðdróttun í garð Ríkissaksóknara.

Jón Magnússon, 5.9.2012 kl. 20:56

5 Smámynd: Jón Magnússon

Athyglisvert Stefán Jóhann Stefánsson starfsmaður Seðlabanka Íslands að  þú skulir taka sérstaklega fram að það sé rangt hjá mér að halda því fram að Seðlbankastjóri hafi hannað umrædda frétt á Stöð 2. En þú mótmælir því ekki að hann hafi reynt að hafa áhrif á ákæruvaldið. Er það rétt skilið hjá mér?

Jón Magnússon, 5.9.2012 kl. 21:16

6 identicon

Sæll Jón Magnússon.

Ég skil nú ekki hvað þú gerir lítið úr þeirri fréttakonu Stöðvar 2 sem vann umræddar fréttir. Heldur þú virkilega að hún láti einhverja embættismenn úti í bæ hanna fyrir sig einhver fréttaskrif? Seðlabankastjóri hefur líka öðrum skyldubundnari verkefnum að sinna en slíku. Þú getur alveg treyst mér þegar ég segi þér að þessi ályktun hjá þér er alröng. Og þú getur líka treyst því að enginn annar í Seðlabankanum hefur hannað þessar fréttir. Síður en svo. Það var enginn í Seðlabankanum sem hannaði eða stýrði þessum fréttaskrifum.  Ég get hins vegar upplýst þig um að í síðara skiptið kom það í minn hlut að svara spurningum fréttamannsins og það var án aðkomu þess yfirboðara sem þér er ofarlega í huga.

Það er líka rangt hjá þér að seðlabankastjóri reyni að hafa áhrif á störf ríkissaksóknara í einstökum málum. Seðlabankanum er ætlað það hlutverk að hafa eftirlit með að lögum um gjaldeyrismál sé framfylgt. Við vitum báðir að ákveðnar breytingar urðu á þessum málaflokki strax eftir bankakreppuna til þess að verja almenning gegn hættum af því umróti sem þá gat skapast.

Stefán Jóhann Stefánsson

Stefán Jóhann Stefánsson (IP-tala skráð) 5.9.2012 kl. 22:26

7 identicon

Já það er alveg rétt hjá þér Jón að þetta meiga kallast aðdróttanir og bið ég hlutaðeigandi afsökunnar á þeim, mín helsta afsökun er að tortryggnin á réttarkerfinu er orðin talsverð.  En hvað hefurðu annars fyrir þér í því að Jóhanna eða Már vildu fara með dómsvaldið? Hm, smá aðdróttun þarna eða hvað? 

En þetta með ákæruvaldið er umhugsunarefni. Það er sumsé hluti af framkvæmdavaldinu en samt má framkvæmdavaldið ekki skifta sér af því, t.d. ef því finnst lögjafarvaldið ekki hafa sett nógu skýr lög og vill láta reyna á þau.  Á sama hátt má velta fyrir sér ef annar hluti framkvæmdavaldsins þ.e. Seðlabankinn yrði á einhverri allt annari línu en framkvæmdavaldið, t.d. að æviráðinn embættismaður gerðist þar hálfgerður einræðisherra yfir efnahagsmálum þjóðarinnar og kjörnir flulltrúar almennings gætu ekkert að gert og það jafnvel á neyðarstundu.

Sjálfstæði embættismanna gagnvart ríkisvaldi er líklega talið nauðsynlegt til að skapa ákveðna tregðu gagnart óhóflegum stjórnarathöfnum framkvæmdavaldsins,svona dags daglega,dreifa framkvæmdavaldinu. En þurfa nú ekki að vera beinar línur og rauðir símar einhversstaðar þegar mikið liggur við? Framkvæmdavaldið þ.e. ríkisstjórn á ekki að skifta sér af dómsvaldi eða löggjafarvaldi (sem er nú varla í praxis) en að setja framkvæmdavaldinu skorður á neyðarstundu með ofurvaldi embættismannakerfisins er hreinlega varasamt,eða hvað?  Ég hef td. viljað gagnrýna núverandi stjórnvöld fyrir það að vera eins og flugmenn (eða skipstjórar) sem ætla að fara í gegnum neyðarástandið eftir hrunið með sjálfstýringuna á,þ.e. ábyrgð og vald hjá embættismannakerfinu.

Hver ber t.d. ábyrgð á neyðarástandi því (aðdróttun?) sem er að  verða á spítölum landsins?

Þurfa ekki stjórnmála menn að hafa þor og dug til verka og bera svo ábyrgð á þeim gagnvart kjósendum, frekar en að vera litlausir tæknikratar þar sem valdaelítan er eins og höfuðlaus heir þar sem hver og einn hugsar meir um að ota sínum tota (aðdróttun?) en vinna þjóðinni gagn, í mesta lagi að sjálfstýringin er sett á ESB?Allt frekar en að taka af krafti á órétti þeim sem skuldarar eru beittir, ofurvaldi fjármálakerfisins,eða reka þetta hagkerfi þannig að hér sé hvorki verðbólga né þörf á verðtryggingu,vextir eðlilegir,ríkið grípi miskunarlaust inn í þar sem er fákeppni,en eins og mögulega er hægt sé borin virðing fyrir rétti einstakingsins,löggurnar með frauðplast kylfur og enginn þurfi að skifta um sokka ;-)  

Bestu kveðjur.

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 5.9.2012 kl. 22:28

8 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Blessaður Jón,  er búin að klóra mér aðeins í hausnum yfir þessari frétt líka, því ekki var hægt að skilja almennilega um hvað málið snerist.   Af því að þú ert nú lögmaður, og mátt því túlka lög, viltu hjálpa mér að skilja hvernig þessi grein gjaldeyrislaga fjallar ekki um refsiákvæði gjaldeyrislaga?

13.grein Fyrir brot á lögum þessum skal refsa með sektum eða varðhaldi liggi ekki þyngri refsing við broti samkvæmt öðrum lögum. Sé brot framið í þágu lögaðila er heimilt að beita stjórnendur lögaðilans framangreindum viðurlögum og einnig er heimilt að gera lögaðilanum sekt eða sviptingu starfsréttinda. Tilraun og hlutdeild í brotum á lögum þessum eru refsiverðar eftir því sem segir í III. kafla almennra hegningarlaga.

Jenný Stefanía Jensdóttir, 5.9.2012 kl. 23:53

9 Smámynd: Jón Magnússon

Ég leyfi mér Stefán að gagnrýna fréttamenn sem taka hráar upplýsingar sem þeim eru gefnar hjá hagsmunaaðilum eða stofnunum sem hlut eiga að máli. Þú segist hafa gefið henni upplýsingar í síðara skiptið. Hver gaf henni þá upplýsingar í fyrra skiptið? Merkilegt þar sem að í sjálfu sér var engin sérstök viðbót við fréttina í síðara skiptið. Fréttamennskan er ennþá furðulegri að fengnum þessum upplýsingum.

Ríkissaksóknari hefur hafnað því að eiga sérstakan fund með Seðlabankastjóra sem hann óskaði eftir til að reyna að mati Ríkissaksóknara að hafa áhrif á ákæruvaldið. Þarf frekari vitnanna við?

Ég átta mig vel á því að það var nauðsynlegt að grípa til ýmissa ráðstafana í framhaldi af banka- og gengishruni. M.a. hefði þurft að taka verðtrygginguna úr sambandi eins og ég lagði til þegar neyðarlögin voru til umfjöllunnar í október 2008. Ég var alltaf vantrúaður á þessa haftaleið í gjaldeyrismálum. En við erum sammála um að lög ber að virða og brot á þeim eiga að varða refsingu. Þess vegna er þetta allt meiri háttar klúður í lagasetningu. 

Gagnrýni mín varðar því í fyrsta lagi: Lélega og gagnrýnislausa fréttamennsku. 2. Matreiðslu á frétt af hálfu Seðlabankans 3. Nánast endurflutt frétt frá því í ágúst. 4. Tilraun til að hafa áhrif á ákæruvaldið.

Jón Magnússon, 6.9.2012 kl. 00:13

10 Smámynd: Jón Magnússon

Nei það er ekki aðdróttun að þeim Bjarni. Þau hafa gefið yfirlýsingar sérstaklega Jóhanna sem er þess eðlis. Það eru sjálfstæðar stofnanir sem heyra til framkvæmdavaldinu. Þannig erum við t.d. með Samkeppnisstofnun og Fjármálaeftirlit sem eru sjálfstæðar stofnanir og ríkisstjórn getur ekki tekið fram fyrir hendur á þeim. Ekki frekar en Ríkissaksóknara sem er enn sjálfstæðari í sínum störfum og sjálfstæði hans varið sérstaklega að lögum.

Bjarni ég ætla ekki að fara að ræða atriði sem snerta ekki þá færslu sem ég færði hér að ofan. Þannig neita ég mér um þann munað að fara að tala um heilbrigðismál o.fl. í þessu sambandi. Það er allt annað mál.

Jón Magnússon, 6.9.2012 kl. 00:17

11 Smámynd: Jón Magnússon

Góð og málefnaleg athugsemd Jenný. Nú verð ég að viðurkenna að ég hef ekki kynnt mér sérstaklega umfram það sem kom í fréttum fyrir mörgum mánuðum síðan um niðurstöðu Ríkissaksóknara og túlkun hans á lögunum. Ríkissaksóknari hefur hins vegar valdið til að ákæra eða ákæra ekki. Meti hann það svo að refsiheimildir séu ekki fullnægjandi eða ólíklegt að meint brot leiði til refsingar þá á hann ekki að ákæra.  Ég get ekki svarað þessu öðru vísi en með þeim hætti að Ríkissaksóknari taldi þetta ekki vera fullnægjandi refsiheimildir þó að mælt sé fyrir um refsingar í þessari lagagrein sem þú vísar réttilega í. 

Ég var í færslunni ekki að fjalla sérstaklega um túlkun á lögunum heldur ítrekuðum einhliða fréttaflutningi og tilraunum til að hafa áhrif á störf Ríkissaksóknara og jafnvel varpa rýrð á hann.

Jón Magnússon, 6.9.2012 kl. 00:21

12 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Ég er svo vitlaus að vita ekki hver gegnir starfi ríkissaksóknara. Vona að það sé mætur maður en ætlast ekki til að það sé guðleg vera sem hafin er yfir að vera krafin skýringa á athöfnum eða athafnaleysi. Ef handvöm er í löggjöfinni stendur það upp á alþingi.  Stjórnskipulega finnst mér dómstólar frekar til þess fallnir að "ógilda" gallaða lagasetningu en embættismaður.  Allavega er þetta fróðlegt hvernig sem þetta fer.

Sigurður Þórðarson, 6.9.2012 kl. 21:45

13 Smámynd: Jón Magnússon

Sigríður Friðjónsdóttir er Ríkissaksóknari og hún er eftir því sem ég best veit ekki guðleg vera. Hún ræðir því hins vegar hvort hún ákærir eða ekki. Svo er það alveg rétt að það stendur upp á Alþngi og ríksstjórn og það á að beina sjónum sínum að því í stað þess að dæla út fréttum úr Seðlabankanum sem halda ekki vatni.

Jón Magnússon, 6.9.2012 kl. 22:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 300
  • Sl. sólarhring: 683
  • Sl. viku: 4121
  • Frá upphafi: 2427921

Annað

  • Innlit í dag: 276
  • Innlit sl. viku: 3812
  • Gestir í dag: 267
  • IP-tölur í dag: 256

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband