Leita í fréttum mbl.is

Heimskautaísinn er ekki að bráðna.

Ísinn á suðurskautinu eykst en minnkar nokkuð á norðurskautinu.  Heildar ísbreiða jarðarinnar hefur verið svipuð á jörðinni frá 1979. Þetta er staðreyndin. Heimsendaspámönnum hnattrænnar hlýnunar af mannavöldum líka þær ekki.  

Í september 2007 var ísinn á norðurskautinu minni en hann hafði verið nokkru sinni áður frá því að mælingar úr gervitunglum byrjuðu 1979. Þá voru settar fram spár um að ísinn á Norðurskauti mundi hverfa algjörlega yfir sumartímann,  innan 5 ára eða 2011.

Þegar gervitungl NASA, bandarísku geimferðarstofnunarinnar, sýndu í síðasta mánuði að bráðnun þessa árs yrði meiri en metárið 2007 birtust sambærileg skrif og árið 2007.  Fréttamiðlar eins og BBC og The Guardian stóðu heimsendavaktina ásamt Greenpeace og WWF að þessu sinni ásamt fleirum og sögðu að nú væri komið að því.  Einn helsti trúboðinn Peter Wadhams prófessor sagði „endalokin væru að gerast og mundu vera algjör um  2015 eða 2016. 

Þegar sjórinn fór allt í einu að frjósa aftur þá sýndi NASA vídeó sem sýndi að sterkur hvirfilbylur í byrjun Ágúst s.l. hafði haft þessi áhrif á ísbreiðuna og ýtt gríðarlegu magni af ís inn á heitari sjó lengra í suðri með þeim afleiðingum að ísinn bráðnaði. Nasa sagði að þessi hvirfilbylur hefði leikið lykilhlutverk í því að metbráðnun var á ísnum á norðurskautinu

Hitamælingar NASA á yfirborðinu sýna að Norðurskautið var nokkru hlýrra upp úr 1930 en það hefur verið nokkru sinni síðan. Auk þess þá gleyma hitafræðingarnir í hræðsluáróðrinum alltaf að segja okkur frá því að pólísinn á hinum hluta jarðarinnar hefur náð metþykkt á undanförnum árum. Í síðustu viku var ísinn á Suðurskautinu örlítið frá því mesta sem hefur mælst.

Graf á vísinidablogginu „Watts up with that“  http://wattsupwiththat.com/ sýnir að íssvæði og ísþykkt jarðar hefur verið nánast það sama síðustu 33 árin eða frá 1979 þó það þynnist stundum á einum stað jarðar en þykkni á hinum. 

Við erum að tala um hnattræna hlýnun en ekki svæðisbundna ekki satt. (Byggt á grein Christopher Booker í the Daily Telegraph í dag)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Af hverju er íhaldsmönnum eins og Jóni Magnússyni svo mikið í mun að afneita hlýnun jarðar?

Það hefur vissulega ekkert með vísindi að gera, því þar er téður maður óviti.

Passar þetta ekki inn í þeirra hugmyndheim? Eru menn að friða samviskuna vegna rányrkju á auðlindum jarðar með sjálfsblekkingu?

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 30.9.2012 kl. 18:48

2 Smámynd: Rebekka

Emmm, Jón, gæti þessi metþykkt Suðurskautsíssins kannski átt því að þakka að á Suðurskautinu ríkir núna vetur?

Að auki, a.m.k. samkvæmt þessari frétt, þá hefur Suðurskautsísinn aukist um rétt 1% á áratug seinustu 30 árin, en að sama skapi hefur Norðurskautsísinn minnkað um rúm 15% á áratug.

Ég finn ekki þetta graf, en íssvæði (ice extent) og heildarmagn íss á skautunum er ekki það sama. E.t.v. er heildarísbreiðan sú sama og árið 1979, en heildarmagn íss hefur minnkað.

Rebekka, 30.9.2012 kl. 19:57

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég veit ekki hversu ábyggilegar upplýsingar þínar eru Jón. Ég leyfi mér að efast um þær.  Það er almennt viðurkennt að þessi bráðnun á sér stað en styrinn stendur um af hvers völdum það er. Eðlilega. Það eru miklir hagsmunir þar á ferð. Sjórinn frýs og þiðnar á milli árstíða Jón. Þú vissir það kannski. NASA getur staðfest það einu sinni á ári þessvegna.

Ég legg annars til að þú skreppir í ferðalag til þess fallega bæjar Ilulissat og ræðir við menn þar um ísinn á Discoflóa. (sem nú er non existant s.l. 10 ár eða svo) Flugfélagið var með áætlunarferðir þangað, síðast þegar ég vissi. 

Það eru ýkjur í gangi á báða bóga í þessu máli og hátimbraðar fullyrðingar einnig, eins og þetta ber vitni um hjá þér.  En ísinn er að hopa ár frá ári, hvort sem það er bundið eðlilegum náttúrulegum sveiflum eður ei.  

Jón Steinar Ragnarsson, 30.9.2012 kl. 20:17

4 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Sæll Jón. Hér verð ég að fá að nefna nokkur atriði enda er þetta á mínu áhugasviði.

1. Því var aldrei SPÁÐ árið 2007 að hafísinn á Norður-Íshafinu myndi hverfa á 5 árum. Vangaveltur voru þó um að Norðurpólinn GÆTI orðið íslaus á því tímabili en það voru þó bara vangaveltur.

2. Heildarísbreiðan á Jörðinni verður alltaf talsverð vegna þess að þegar sumar er á norðurhveli og hafís í lágmarki þá er vetur á suðurhveli og hafís í hámarki.

3. Ísbreiðan á norðurhveli hefur dregist mikið saman síðustu áratugi en á sama tíma hefur lítlsháttar aukning verið á suðurhveli sem dugar þó enganvegin til að bæta upp tapið á norðurhveli. Samanlagt hafa því ísbreiður jarðar minnkað.

4. Vísindamenn tala um að lægðin sem myndaðist yfir Norðurhveli hafi vissulega haft sitt að segja en þó aðallega flýtt fyrir því sem hefði gerst hvort sem er núna í sumar.

5. Ísinn á Suðurhveli hverfur næstum því alveg á suðurhvels-sumrum en myndast aftur yfir veturna. Ísinn þar er því ekki að þykkna. Hinsvegar hefur fjölæri ísinn á Norðurhveli minnkað mikið og þynnst á undanförnum árum og eru aðstæður þar að líkjast meir því sem er á Suðurhveli, þ.e. mjög lítil sumarútbreiðsla en áfram talsverð vetrarútbreiðsla.

Emil Hannes Valgeirsson, 30.9.2012 kl. 20:26

5 Smámynd: Jón Magnússon

Haukur ég er ekki íhaldsmaður og hef aldrei verið. Ég er róttækur, hægri maður.  Í lýðræðisþjóðfélagi hafa leikmenn líka leyfi til að hafa skoðun á vísindaskoðunum. Sumir kynna sér málin betur en aðrir Haukur en það er öllum frjálst að hafa skoðun. Það þarf ekki að fara í hrokann þó menn séu ekki sammála.  

Jón Magnússon, 30.9.2012 kl. 21:54

6 Smámynd: Jón Magnússon

Að sjálfsögðu er vetur á Suðurskautinu eða réttara að koma vor. En samt þá eru samanburðarmælingar miðaðar við sama tíma og núna er hvert metið slegið varðandi þykkt og útbreiðslu íssins á Suðurskautinu.

Jón Magnússon, 30.9.2012 kl. 21:56

7 Smámynd: Jón Magnússon

Þakka þér fyrir þetta innlegg Jón Steinar.  Ég hef gengið mikið á fjöll á Íslandi síðustu 26 ár vetur sumar vor og haust.  Ég átta mig á því að það munar ekki miklu með fjöll í nágrenni Reykjavíkur hvað varðar snjóalög. Aðeins merkjalegt að það sé minni snjór á haustin en það er venjulega vegna þess að það hefur snjóað minna undanfarna vetur en áður (með undantekningu hvað síðasta vetur áhrærir) Ef við hefðum ekki fengið svona einstakt sumar þá væri meiri snjór í fjöllum núna en undanfarin ár.

En mér skilst að það snjói meira í fjöll á Norður Spáni ef það snjóar lítið hér. Kann ekki skil á því.

Jón Magnússon, 30.9.2012 kl. 21:59

8 Smámynd: Jón Magnússon

Þakka þér fyrir greinargott innlegt Emil en upplýsingar okkar stangast eilítið á. Ísinn á Suðurskautinu hverfur aldrei og íshellan þar er mjög þykk.

Jón Magnússon, 30.9.2012 kl. 22:00

9 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Við erum væntanlega báðir að tala um hafísinn eins gert er á WUWT-síðunni. Hér eru linkar á frávik frá meðaltalinu:

Norðurhvel: http://arctic.atmos.uiuc.edu/cryosphere/IMAGES/seaice.anomaly.arctic.png  -2,486 milljón m2

Suðurhvel: http://arctic.atmos.uiuc.edu/cryosphere/IMAGES/seaice.anomaly.antarctic.png  +0,871 milljón m2

Jökullinn mikli verður áfram á Suðurhveli um langan aldur.

Emil Hannes Valgeirsson, 30.9.2012 kl. 22:37

10 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Takk fyrir svarið. Eitthvað er upplifun okkar misjöfn. Ég hef farið mikið á jökla landsins á yfir 20 ára ferli í bíóbransanum og ég get alveg sagt þér að það er merkjanlegt frá ári til árs hve mikið jöklarnir hopa.  Þar sem skálar stóðu áður við jökulbrún er nú hundruð metra upp í einhverja kílómetra af ófæru klungri að sömu brún.  Snæfellsjökull hefur rýrnað mjög hratt og hefur glitt nokkrum sinnum í kollinn á honum undanfarin ár.  Snjóalög koma og fara og eru misjöfn frá ári til árs. Það er ekki góður mælikvarði máli þínu til stuðnings.

Ég er enginn sérstakur áhangandi Global warming spámanna en lýsi því bara hér hvað fyrir mín augu hefur borðið.  Umræðan er afbökuð af hagsmunum, svo ég treysti mér ekki til að leggja mat á hinar og þessar greinar með og á móti. Þetta er alavega það sem ég hef séð með eigin augum, bæði hér á landi og í mörgum ferðum mínum til Grænlands.

Jón Steinar Ragnarsson, 1.10.2012 kl. 00:53

11 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Það er annars ansi afstætt hvort sumarið hafi verið gott yfir meðallagi hér í ár. Reykvíkingum er hætt við að miða allt við góðviðriskafla eins og komu þar í lok sumars. Norðan heiða og austan var sumrið kalt framanaf og náði sér ekki á strik fyrr en í Júlí. Það var því fremur stutt. 

Án þess að vera mikill vísindamaður, þá get ég mér til að þessi mikli kuldi úr norðri eigi upptök sín í mikilli bráðnun. Þ.e. kuldi losnar úr læðingi og berst um andrúmsloftið við bráðnun, svona eins og þú býrð til frost með að setja lúku af salti í holu af snjó. (algeng aðferð til að gera sér kæliskáp á fjöllum)

En hvað veit ég. Ég segi bara frá því sem ég sé og skynja og reyni að álykta sem minnst.

Jón Steinar Ragnarsson, 1.10.2012 kl. 00:58

12 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Áratugurinn 2001 - 2010 er eini samfelldi árartugurinn sem vitað er til að öll árin hafi allar fannir í Esju horfið að fullu og öllu. Lengst af sl. 200 ár hafa fannirnar lifað öll sumur og samfellt áratugum saman. Árið 2011 náði síðasta fönnin ekki að hverfa að full en nú 2012 er hún hrofin aftur.

Svo eitthað er breytt - um sinn í það minnsta.

Eitthvað rámar mig í að feikna stórar íshellur hafi brotanð frá Suðurskautinu í heilu lagi fyrir fáum árum, Voru þær ekki á stærað við ísland eða stærri og yfir hundrað metra þykkar?

Helgi Jóhann Hauksson, 1.10.2012 kl. 02:42

13 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Á þessari vefsíðu er fjöldi ferla frá hinum ýmsu stofnunum. Þetta eru beintengdir ferlar sem uppfærast sjálfkrafa:

Sea Ice Page.

Efst eru ferlar sem sýna m.a. heildarhafísmagnið, síðan nokkrir ferlar sem sýna norðurhvel og þar fyrir neðan ferlar sem sýna hafísinn á suðurhveli. Neðst eru svo krækjur fyrir helstu hafísrannsóknarstofnanir.

Á ferlunum sem sýna hafísinn á suðurhveli (Antarctic graphs) má sjá að hafísinn þar er óvenju mikill í ár miðað við undanfarin ár. Sjá t.d. ferilinn frá NSIDC þar sem dökki ferillinn er meðaltal áranna 1979-2000.

Ágúst H Bjarnason, 1.10.2012 kl. 06:28

14 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Varðandi þróun hitastigs á norður heimskautasvæðum þá er þessi mynd frá NASA Earthobservatory fróðleg.  Takið eftir hve hlýtt var um 1930:

http://earthobservatory.nasa.gov/Features/ArcticIce/Images/arctic_temp_trends_rt.gif

Ágúst H Bjarnason, 1.10.2012 kl. 06:37

15 Smámynd: Jón Magnússon

Ég þakka ykkur öllum fyrir fróðlegar og skemmtilegar athugasemdir. Því miður hef ég ekki tíma til að svara þeim að sinni. Það er rétt nafni minn að upplifun fólks er mismunandi. Varðandi fannirnar í Esjunni að þá er þetta spurning um mismun sem varðar e.t.v. 2-3 vikur þegar best lætur. Ég man eftir því þegar ég gekk oft á mörgum sinnum upp í Gunnlaugsskarð til að sjá þegar fannirnar færu þar í fyrsta skipti í langan tíma. Það var gaman, en það stóð ekki lengi.

Jón Magnússon, 1.10.2012 kl. 22:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.12.): 220
  • Sl. sólarhring: 503
  • Sl. viku: 4436
  • Frá upphafi: 2450134

Annað

  • Innlit í dag: 200
  • Innlit sl. viku: 4129
  • Gestir í dag: 196
  • IP-tölur í dag: 194

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband