Leita í fréttum mbl.is

Hvað þýðir að draga úr vægi verðtryggingar?

Öðru hvoru reyna stjórnmálamenn sem hafa svikið loforð sín um að afnema verðtryggingu á neytendalánum að klóra í bakkann og segjast vilja draga úr vægi verðtryggingar. Í dag sagði Katrín Júlíusdóttir fjármálaráðherra þetta.  Þetta hjal hefur enga merkingu í raun.

Dregið hefur úr verulega úr vægi verðtryggingar á þessu kjörtímabili ekki vegna þess að stjórnmálamenn hafi gert neitt heldur vegna þess að neytendur vilja ekki taka verðtryggð lán. Þeir vita að það eru dýrustu og verstu lán í heimi. Spurningin er að afnema verðtrygginguna á neytendalánum. Annað hefur ekki merkingu.

Verðtryggð lán til neytenda samrýmist ekki leikreglum þess fjármálakerfis sem við erum aðilar að. Ætlum við samt að halda í verðtrygginguna? Verðtryggð lán mundu ekki fást samþykkt ef setja ætti þau á í dag. Þau eru ósamrýmanleg reglum um neytendavernd á Evrópska efnahagssvæðinu. Ætla menn samt að halda þessu áfram?

Eitt er að afnema og annað að leiðrétta stökkbreytta höfuðstóla. Þeir sem á annað borð vilja gæta hagsmuna neytenda ættu að sameinast um það að afnema verðtryggingu á neytendalánum strax. Svo er það flóknara úrlausnarefni að færa niður stökkbreytta höfuðstóla en það verður samt að gera til að Ísland komist sem fyrst út úr kreppunni.

Verðtrygging eykur verðbólgu og étur upp eignir fólks. Verðtrygging er óréttlát gagnvart lántakendum og þess vegna getur hún ekki verið valkostur í þjóðfélagi sem vill gæta réttlætis, sanngirni og jafnréttis borgaranna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sumarliði Einar Daðason

Samkvæmt því sem Seðlabankinn hefur látið fara frá sér þá má ekki verðtryggja höfuðstólinn, heldur aðeins afborganir. Þess vegna er það beinlínis rangt að tala um verðtryggðan höfuðstól og gefa skuldurum það til kynna að eftirstöðvar hafi hækkað. Lánastofnanir mega því ekki eignfæra verðtryggðan höfuðstól útlána.

Á hinn bóginn túlka ég lögin þannig að verðtryggð lán séu með öllu ólögleg; afleiðuviðskipti á milli fjármálastofnana og einstaklinga eru ólögleg. Bindandi tímabundnir samningar, s.s. verðtryggðir leigusamningar, eru líka ólöglegir að mínu mati.

Sumarliði Einar Daðason, 21.2.2013 kl. 16:33

2 identicon

Ég er búinn að vera að velta þessu svolítið fyrir mér og ef það væri borgað meira inn á lánin í hverjum mánuði þ.e. ekki fá vexti og verðbólgu lánað alltaf þá væri verðtryggt lán skárri kostur.

Hinsvegar ef að verðtryggingin verður klippt af öllum lánum í einu þá hefur það mjög jákvæð áhrif því verðbólga mun lækka osfv. Þá er ekki lengur akkur í því fyrir bankana að halda uppi hárri verðbólgu.

Eina hættan af óverðtryggðum lánum eru sveiflur í mánaðargreiðslum.

Það á bara að hætta þessu væli og leysa málið, ILS er núna sagður vanta 100 milljarða, það er kallað á góðri ensku "Throwing good money after bad".

Hvernig væri að gera upp ILS og hætta þessu rugli ?

Það virðast allir styðja að losa við verðtryggingu nema þegar þeir eru í stjórn, þetta er mjög skrítið.

Emil Emilsson (IP-tala skráð) 21.2.2013 kl. 18:58

3 Smámynd: Þorsteinn Sverrisson

Sæll Jón, það væri gott og blessað að afnema verðtrygginguna. Segjum að það verði gert en verðbólga haldi áfram vegna gengisfalls krónunnar og lélegrar efnahagsstjórnar. Hvað verður þá um lífeyrissparnaðinn okkar?
Kveðja,
þs

Þorsteinn Sverrisson, 21.2.2013 kl. 21:16

4 identicon

Sæll Jón

Ég átta mig ekki alveg á nauðsyn þessarar skerðingar á samningsfrelsinu sem þú leggur til. Verðtrygging er velþekkt í viðskiptum erlendis, almenn í leigusamningum víðast hvar, en minna notuð í lánsviðskiptum. Mörg ríki gefa út verðtryggð ríkisskuldabréf svo dæmi séu tekin. Málið er þetta; ef verðbólga er núll þá er verðtrygging núll. Verðbólga er því vandamál sem þarf að uppræta. Réttlætið í brennslu lífeyrissparnaðar gamla fólksins á verðbólgubálinu fer alveg fram hjá mér.

Með kærri kveðju.

Einar

Einar S. Hálfdánarson (IP-tala skráð) 21.2.2013 kl. 22:19

5 Smámynd: Jón Magnússon

Ég er þeirrar skoðunar Sumarliði að það mundi ekki ganga að setja verðtryggingu á núna. Spurning um lögmæti vegna óslitinnar notkunar verðtryggðra lána í 30 ár.

Jón Magnússon, 21.2.2013 kl. 22:28

6 Smámynd: Jón Magnússon

Það er alveg rétt hjá þér Emil. Verðtrygging hefur ekki stuðlað að verðhjöðnun heldur hefur verið viðvarandi mun meiri verðbólga hér en annars staðar í nágrannalöndum okkar þannig að Ólafur Magnússon hagfræðingur virðist hafa rétt fyrir sér um að verðtrygging auki á verðbólgu.

Jón Magnússon, 21.2.2013 kl. 22:29

7 Smámynd: Jón Magnússon

Hann dregst saman Þorsteinn eins og annar sparnaður sem liggur í krónugildi í banka.  En það eru margar leiðir til að tryggja verðgildi peninga aðrir en verðtrygging. Verðbólga er alltaf afleiðing agaleysis í hagstjórn. Ef miklir hagsmunir lægju undir þá væræi meiri agi en nú þegar endalaust er hægt að velta hagstjórnarmistökum yfir á almenning í landinu.

Jón Magnússon, 21.2.2013 kl. 22:31

8 Smámynd: Jón Magnússon

Verðtryggingin neytendalána er hvergi til í nágrannalöndum okkar Einar. Það er bara verið að tala um þau. Það eru margvíslegar takmarkanir á samningafrelsinu þegar um er að ræða aðila á markaði þar sem mikið ójafnræði er ríkjandi. Hér er skortur á samkeppni á lánamarkaði m.a. sem gerir það að verkum að allt tal um samningsfrelsi er einhliða fyrir seljanda en ekki neytanda.

Jón Magnússon, 21.2.2013 kl. 22:33

9 identicon

Sæll Jón

Ég skil ekki síðustu athugasemd þína, þú segir hér réttileg að ofan að vægi verðtryggingar sé að minka vegna þess að bankar bjóða nú upp á óverðtryggð lán og neytendur fylkjast um að taka þau. Svo segirðu núna síðast að samningsfrelsi á lánamarkaði sé einhliða fyrir seljanda en ekki neytanda?

Mín spurning er kannski þessi, til hvers þurfa pólitíkusar að gripa til boða og banna ef markaðurinn er sjálfur farinn að leysa málið?

Eysteinn (IP-tala skráð) 22.2.2013 kl. 11:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 292
  • Sl. sólarhring: 716
  • Sl. viku: 4113
  • Frá upphafi: 2427913

Annað

  • Innlit í dag: 268
  • Innlit sl. viku: 3804
  • Gestir í dag: 260
  • IP-tölur í dag: 249

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband