Leita í fréttum mbl.is

Þjóðkirkjan og tjáningarfrelsið

Þegar ég las afsökunarbeiðni kirkjunnar vegna auglýsingar um komu bandaríska evangelista prédikarans, Franklin Graham til landsins þá duttu mér í hug orð séra Sigvalda úr Manni og Konu eftir Jón Thoroddsen "Nú er víst kominn tími til að biðja Guð að hjálpa sér."

Kirkjan biðst afsökunar á því að hafa auglýst komu þessa prédikara til landsins af því að hann er á móti hjónaböndum samkynhneigðra. Jafnframt ítrekar íslenska þjóðkirkjan þetta í tilkynningu: 

"Það var ekki ætlunin með birtingu hennar að varpa neinum skugga á Hinsegin daga eða taka undir orð Franklin Graham um samkynhneigða og hjónaband þeirra. Við biðjumst afsökunar á þessu. Um leið viljum við ítreka að þjóðkirkjan hvikar hvergi frá samstöðu sinni með samkynhneigðum, réttindabaráttu þeirra og hjónabandi samkynhneigðra."

Þá finnst Sigríði Guðmarsdóttur presti í Guðríðarkirkju nægt tilefni vegna þessa til að nota orðið "fokk" í netfærslu vegna þessa.  Prestlegra getur það nú varla orðið. Oh my God hefði Kristján heiti ég Ólafsson yfirneytandi úr Spaugstofunni sennilega sagt við þessu.

Eftir því sem ég fæ skilið þennan málatilbúnað þjóðkirkjunnar og prestsins í Guðríðarkirkju, þá hefur þjóðkirkjan tekið afstöðu gegn tjáningar- og skoðanafrelsi kristins fólks sem talar gegn samkynhneigð og hjónabandi samkynhreigðra.  Eftir því sem ég fæ skilið prestinn í Guðríðarkirkju og tilkynningu þjóðkirkjunnar þá eiga menn ekki lengur samleið með þjóðkirkjunni séu þeir á móti samkynhneigð og hjónaböndum samkynhneigðra og óheimill prédikunarstóll í kirkjudeild Agnesar Sigurðardóttur biskups.  Sérstaklega á þetta við á Hinsegin dögum samkvæmt tilkynningunni.

Þrátt fyrir að ég telji eðlilegt að samkynhneigðir hafi öll lýðréttindi og megi ganga í hjónabönd þá finnst mér of langt gengið þegar það er fordæmanlegt að hafa aðra skoðun en mína hvað þetta varðar. Hinsegin dagar eru til að draga úr fordómum gagnvart samkynhneigðum og berjast fyrir mannréttindum þeirra. Sá tilgangur er góður og með sama hætti verða aðrir líka að njóta sömu réttinda hvorki meiri né minni.

Háskólinn fær iðulega fyrirlesara sem hafa skoðanir sem margir eru á móti og finnst jafnvel fordæmanlegar. Háskólinn risi hins vegar ekki undir nafni ef hann fengi ekki slíka fyrirlesara og gengist fyrir vandaðri málefnalegri umræðu þar sem fólk deilir og sitt sýnist hverjum.  Ég sótti tvo slíka fyrirlestra manna sem ég er andstæður í pólitík sósíalistanna Göran Person og David Milliband. Þó ég væri að mörgu leyti ósammála þeim þá fannst mér miklu skipta að eiga þess kost að hlusta á fróðlegt framlag þeirra og geta spurt þá spurninga og komið að gagnstæðum sjónarmiðum.

Á ekki það sama að gilda innan þjóðkirkjunnar eða er þar aðeins heimil ein skoðun. Sé svo þá er best að Agnes Sigurðardóttir biskup fari að biðja Guð að hjálpa sér þar sem grundvöllur er þá brostinn fyrir þjóðkirkjunni.

Hvernig væri að koma smá skynsemi og umburðarlyndi inn í þetta þjóðfélag?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ekki er ég sammála hverri einustu setningu þinni hér, nafni, en þetta er líflega og skemmtilega fram settur pistill og með mjög virðingarverðum áherzlum mörgum, einkum til varnar tjáningarfrelsi, en eins koma desperat viðbrögð "Þjóðkirkjunnar" (Agnesar) við leiftursókn róttæklingastelpunnar úr VG í 10-fréttum Sjónvarpsins jafn-ámátlega út eins og þau verðskulda.

Sigríður Guðmarsdóttir ættti nú að prófa það að segja ekki aukatekið orð næstu þrjú árin vegna framhjátöku sinnar með rakalausri villuhugmynd sem hefði vakið furðu og hneykslan meðal allra genginna kristinna kynslóða, enda guðlast. Og þetta er manneskja sem ætlaði sér að verða biskup! Það sama á við um séra Þórhall Heimisson, sem einnig skall kylliflatur í biskupskjöri, en var ekki alveg jafn-grófur í því að vanvirða Krist, en tók þó undir orð Sigríðar. Baldur í Þorlákshöfn ritaði svo rakið efasemdarugl og ætti að sendast í nýtt guðfræðinám, þar sem óhætt er að stunda það án villutrúaráhrifa.

Jón Valur Jensson, 9.8.2013 kl. 01:41

2 Smámynd: Ólafur Ingi Hrólfsson

frábært

Ólafur Ingi Hrólfsson, 9.8.2013 kl. 02:54

3 Smámynd: Kristinn Ásgrímsson

Orð í tíma töluð og hjartanlega sammála þér Jón. Á erfitt með að skilja prestinn sem bölvar frá "púlti" því vissulega er hún að tala sem þjónn kirkjunnar. Einu sinni var svona orðbragð bannað með lögum í útvarpi og er kannski enn ?

Kristinn Ásgrímsson, 9.8.2013 kl. 10:17

4 identicon

Sæll

Við þetta er engu að bæta, nema ef vera skyldi að heill söfnuður hér á landi eys hinseginfólk auri, athugasemdalítið af allra hálfu. Meir að segja þeim sem fyrir verða. Og eru verðlaunaðir fyrir vikið!

EINAR S. HÁLFDÁNARSON (IP-tala skráð) 9.8.2013 kl. 10:45

5 Smámynd: Jón Magnússon

Það er nú þannig nafni að seint verða menn algjörlega sammála en ég met það svo að við séum það að verulegu leyti einkum varðandi fráleit viðbrögð þeirra þjóðkirkjumanna og þessa Sigríði Guðmarsdóttur sem hefur ef eitthvað er ítrekað skaðað þjóðkirkjuna sem hún starfar fyrir.

Jón Magnússon, 9.8.2013 kl. 10:56

6 Smámynd: Jón Magnússon

Takk fyrir það Ólafur.

Jón Magnússon, 9.8.2013 kl. 10:57

7 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Ef maður vill hafa skoðana og málfrelsi, og lifa án fordóma annarra vegna þess hvernig maður er og hvað manni finnst, þá verður maður að umbera öðrum það sama.

Það er að sjálfsögðu ekki alltaf auðvelt, en samt sanngjarnt og réttlátt.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 9.8.2013 kl. 10:57

8 Smámynd: Jón Magnússon

Ég veit ekki hvort það er bannað. En vafalaust finnst fæstum það eiga erindi í opinbera umræðu nema e.t.v. þessum sérkennilega prestlingi í Guðríðarkirkju.

Jón Magnússon, 9.8.2013 kl. 10:57

9 Smámynd: Jón Magnússon

Nú er ég svo illa upplýstur í þessu Einar hverjir eru það?

Jón Magnússon, 9.8.2013 kl. 10:58

10 identicon

Ég tek nú ekki undir þetta í öllu Jón, vandamálið er að hér er ríkisrekið trúfélag á ferðinni. Þótt kirkjunnar menn vilji margir hverjir meina að þjóðkirkjan sé;

"„sjálfstætt trúfélag sem nýtur sérstöðu og er í sérstöku sambandi og samstarfi við ríkið og það samstarf og samskipti taki breytingum og þróist í samræmi við samfélagsþróunina"

Svo ég vitni í orð fyrrverandi biskups. Þá er ég ekki viss um að þessi skilgreining Karls geti talist nema í besta falli veiklulegt álit.

Vandamálið er að Þjóðkirkjan gengst ekki við því að hafa í raun staðið á bak við þessa hátíð sem ódámurinn mun taka til máls á í Laugardalshöll. Þau fara í kring um málið og beita slægð og sniðugheitum með því að segja þetta vera framtak 50 kirkna í landinu, en ekki Þjóðkirkjunnar sem þó gerir mannfagnaðinum vegleg og ríkuleg skil á vefsetri sínu.

Þessi hegðun Þjóðkirkjunnar er óásættanleg frá mínum bæjardyrum séð.

Sandkassinn (IP-tala skráð) 9.8.2013 kl. 11:42

11 Smámynd: Einar Karl

Jón, þú segir:

Þrátt fyrir að ég telji eðlilegt að samkynhneigðir hafi öll lýðréttindi og megi ganga í hjónabönd þá finnst mér of langt gengið þegar það er fordæmanlegt að hafa aðra skoðun en mína hvað þetta varðar. Hinsegin dagar eru til að draga úr fordómum gagnvart samkynhneigðum og berjast fyrir mannréttindum þeirra. Sá tilgangur er góður og með sama hætti verða aðrir líka að njóta sömu réttinda hvorki meiri né minni.

Allar skoðanir eru ekki réttháar. Fordómar eru ekki skoðanir sem okkur ber að virða. Það hefur, mér vitanlega, enginn viljað BANNA ameríska bókstafstrúar-sjónvarpspredikaranum að tala, en fólk mótmælir (skiljanlega) því að íslenska Þjóðkirkjan auglýsi fundi þar sem aðalgestur og fyrirlesari er maður sem kyndir undir og útbreiðir fordóma.

"Frelsi" Grahams til að tala um samkynhneigða sem siðferðisleg úrhrök og eitt stærsta vandamál vestræns samfélags er ekki á neinn hátt á jöfnu við frelsi samkynhneigðra til að lifa eins og þau kjósa, með reisn og virðingu og án þess að vera úthrópuð og fordæmd.

Einar Karl, 9.8.2013 kl. 11:44

12 Smámynd: Jón Magnússon

Það er einmitt mergurinn málsins Anna.

Jón Magnússon, 9.8.2013 kl. 11:52

13 Smámynd: Jón Magnússon

Ég er sammála þér í því Gunnar að þjóðkirkjan hefur komið fram í þessu máli með miklum endemum. Ég tek það fram að ég tel feng í að fá þennan prédikara til landsins. Alveg eins og ég taldi feng í að eiga þess kost að hlusta á David Milliband á sínum tíma þó ég meti hann og skoðanir hans afar lítið. 

Jón Magnússon, 9.8.2013 kl. 11:54

14 Smámynd: Jón Magnússon

Einar Karl spurningin er hvernig menn skilgreina fordóma. Eftir því sem ég best fæ séð og miðað við ýmsar athugasemdir frá þér þá ert þú haldinn fordómum gagnvart kristni og kirkju. En það er mín skoðun. Ég þekki ekki prédikarann sem um ræðir en eftir því sem ég kemst næst þá er hann virtur prédikari.  Mér finnst raunar nokkuð sérstakt að tala um að vera með eða móti samkynhneigð. Ég vil að allir njóti sömu lýðréttinda en það þýðir ekki það að ég sé endilega sammála því sem viðkomandi heldur fram eða stendur fyrir. Ég tel líka að fólk eigi að njóta virðingar hvort sem það er samkynhneigt eða ekki.

Jón Magnússon, 9.8.2013 kl. 11:59

15 identicon

Það er þetta með málfrelsið að það gengur í báðar áttir. Megi þessi kall koma og úthúða samkynhneigðum má fólk líka andmæla því.

Anna (IP-tala skráð) 9.8.2013 kl. 12:01

16 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Auðvitað hefur þessi Graham fullan rétt á að hafa sínar skoðanir og viðra þær hvar sem hann vill. Trúfélög og söfnuðir hafa fullan rétt á að bjóða slíkum mönnum hingað til lands.

Vandamálið hér virðist snúast um Þjóðkirkjuna, sem er hvort tveggja í senn, trúfélag og ríkisstofnun með embættismenn. Margir innan kirkjunnar sem utan vilja frekar halda í stofnunina en trúna - og telja henni best borgið innan ríkisfaldsins með því að vera sem meinlausasta.

Þjóðkirkjan þarf að gera upp við sig hvort hún vill vera embættismannastofnun eða trúfélag.

Brynjólfur Þorvarðsson, 9.8.2013 kl. 12:52

17 Smámynd: Einar Karl

Jón,

mér finnst þetta koma úr hörðustu átt, að kalla mig fordómafullan, án nokkurs sýnilegs rökstuðnings. Mér finnst ég bara alls ekki vera fordómafullur!

Ég er ekki trúaður og ég hef verið gagnrýninn á margt í kristilegum boðskap og kenningum, en sérstaklega á samtvinnun ríkis og kirkju hér á landi.

Nú ert þú yfirlýstur hægrimaður og gagnrýnin á vinstri stefnu og vinstriflokka. Það þýðir ekki að þú sért með fordóma út í þá, eða hvað?

Þú ert líka mjög gagnrýninn á íslam og múslima, sumir myndu jafnvel kalla boðskap þinn fordómafullan. Um það ætla ég ekki að fella dóma hér.

Það er ekki samasem merki á milli andstöðu og fordóma.

Einar Karl, 9.8.2013 kl. 15:13

18 identicon

 Ég er sammála ykkur Jóni Val í flestu, en hins vegar er það svo í þjóðkirkjunni, að þar eru mjög skiptar skoðanir um þetta eins og fleira, en það er nú þetta með hana Sigríði, að hún hefur nú alltaf verið heldur fanatísk á flest, blessunin. Ég sem guðfræðingur tel mig fylgja þeim hópi hinna lærðu innan þjóðkirkjunnar, sem hingað til hafa verið nefndir "Svartstakkar", sem eiga sér m.a. talsmann í sr. Geir Waage í Reykholti, og það bylur kannske hærra í fólki eins og Sigríði, heldur en okkur hinum. Við eru hreintrúarfólk, sem erum alls ekki sammála stefnu kirkjunnar í mörgum málum, en teljum okkur ekkert útskúfuð fyrir því, enda á að vera hátt til lofts og vítt til veggja innan kirkjunnar eins og annars staðar. Við vísum á lögmálið og spámennina til að verja mál okkar. Varðandi samkynhneigð, þá stendur það skýrt í þriðju  Mósebók, að það sé andstyggð í augum Guðs. Mér er svo sem sama um þetta fólk, og vil svo sem ekki dæma það, en mín vegna má það fara veg allrar veraldar. Þetta vita flestir innan kirkjunnar, sem mig þekkja, en ég hef aldrei orðið vör við annað, en að málfrelsi sé virt  innan kirkjunnar, og hver fái að segja sína skoðun, eins og honum sýnist, og Sigríður og þeir, sem henni fylgja, ein um það að vilja þagga niður í fólki. Annað næði heldur ekki í nokkra átt.

Guðbjörg Snót Jónsdóttir (IP-tala skráð) 9.8.2013 kl. 17:56

19 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Er það ekki brot á stjórnarskrá að tala gegn mannréttindum tiltekinna hópa í þjóðfélaginu? Að meina samkynhneigðum þeim réttindum (og skyldum) sem fylgir hjónabandi, er að ég held brot á mannréttindum.

Ef hingað kæmi, í skjóli einhverrar ríkisstofnunar, fyrirlesari sem talaði gegn mannréttindum litaðra manna, væri það í lagi af því það er virðing við tjáningarfrelsið?

Gunnar Th. Gunnarsson, 9.8.2013 kl. 19:01

20 Smámynd: Jón Magnússon

Ég vil taka fram að ég hleypi að öllum málefnalegum athugasemdum sem eru innan viðráðanlegra marka að lengd, en ég get ekki farið að taka inn athugasemdir sem eru mun lengri en sjálf færslan.

Jón Magnússon, 9.8.2013 kl. 19:12

21 Smámynd: Jón Magnússon

Að sjálfsögðu Anna.

Jón Magnússon, 9.8.2013 kl. 19:12

22 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Mér finnst alltaf villandi þegar menn eru að tala um árásir á kirkju og kristni.Mín afstaða byggist á að allir eigi að hafa sama rétt.Þjóðkirkjan á að sjá um sig,meðlimir hennar eiga að borga laun presta,annarra starfsmanna og kosnað.Gleymum þessum kirkjujörðum.Ef kirkjan á í raun einhverjar jarðir eru þær væntanlega eign þjóðarinnar.Því þjóðkirkjan er eign þjóðarinnar,ekki satt.Varðandi hjónabandið,er það ekki stofnun kirkjunnar.Ef Samkynhneigðir eru bannaðir i Kristni(sem þeir eru samkvæmt bókstafnum.þ.e hommar,ekki lesbiur) þá er nú kannski óþarfi fyrir þá að vera eitthvað að þvælast í þessum trúargrúppum.Á ekki bara að gefa þessum trúarpostulum langt nef og Segja"Fokk".

Jósef Smári Ásmundsson, 9.8.2013 kl. 19:15

23 Smámynd: Jón Magnússon

Einar Karl það kann að vera að ég hafi tekið svolítið sterkt til orða og bið þig afsökunar á því, en ég var að vísa til orðahnippinga sem við höfum átt m.a. hér á blogginu. Ég er einstaklingshyggjumaður og vil sem minnst afskipti hins opinbera af borgurunum sem slíkur virði ég rétt fólks til að hafa aðrar skoðanir en ég og tel að það hafi jafn mikinn rétt til þess. Fæstir eru án fordóma að einhverju leyti og þér til upplýsingar þá kynnti ég mér m.a. sérstaklega Anarkisma og Íslam til að eyða fordómum ef væru fyrir hendi. Ég er ekki á móti Íslam og virði þau trúarbrögð eins og önnur. Með sama hætti og ég virði vantrú þína. Það eina sem ég sagt er að ég sé á móti öfgamönnum.

Jón Magnússon, 9.8.2013 kl. 19:25

24 Smámynd: Jón Magnússon

Þakka þér fyrir þitt innlegg Guðbjörg. Ég svaraði Jóni nafna mínum þannig að við værum ekki algjörlega sammála þó við værum sammála um margt. Sama er sjálfsagt um okkur.  Ég ber mikla virðingu fyrir sr. Geir Waage og finnst hann með bestu kennimönnum hinnar íslensku þjóðkirkju og hefði viljað sjá hann á biskupsstól. Ég er kristinn og í þjóðkirkjunni ennþá. Ég lít hins vegar ekki á Gamla testamenntið sem mitt trúarrit og hafna því algjörlega sem slíku. Boðun Jesús er um margt andstæð því sem kemur fram í Gamla testamenntinu. Ekkert í boðun Jesús verður túlkað sem andstaða gegn samkynhneigð enda var boðun hans ekki boðun fordæmingar heldur mannkærleika og fyrirgefningar.

Jón Magnússon, 9.8.2013 kl. 19:33

25 Smámynd: Jón Magnússon

Ekki tel ég uppá Gunnar að hann muni tala gegn mannréttindum. Boðskapur hans og umfjöllun er af allt annari tegund ímynda ég mér.

Jón Magnússon, 9.8.2013 kl. 19:34

26 identicon

Nýja testamentið er að sjálfsögðu okkar bók líka, og við förum eftir henni, en ég minni á, að Gamla testamentið var biblía Jesú Krists, og allar kenningar sínar byggði hann á lögmálinu og spámönnunum og útfærði þær á sinn hátt. Hann boðaði vissulega mannkærleika og fyrirgefningu, en hann gat líka fordæmt, ef honum þótti ástæða til. Raunar hafa menn oft misskilið sumt af orðum hans og kenningum. Það var mér a.m.k. kennt í guðfræðideildinni á sínum tíma. Hann gat stundum verið kaldhæðinn í andsvörum sínum, og snúið út úr fyrir fariseunum og fræðimönnunum, þegar þeir voru að reyna hann með spurningum sínum, þótt það sé erfitt að sjá það á pappírnum. En minnumst þess, að án Gamla testamentisins væri ekkert Nýjatestamenti til, því að það hvílir á grundvellinum í Gamlatestamentinu sem Biblíu Jesú Krists. Þess vegna megum við ekki hunsa það heldur eða það, sem þar stendur.

Guðbjörg Snót Jónsdóttir (IP-tala skráð) 9.8.2013 kl. 21:36

27 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ég þakka þér sanngjarnt svarið til mín, ágæti nafni minn.

Sammála er ég þessu hjá þér: "Mér finnst raunar nokkuð sérstakt að tala um að vera með eða móti samkynhneigð." Og hneigðin er raunar ekki fordæmd sem slík (sem grunnhneigð; ég meina þó ekki að grunnhneigðin sé ásköpuð) í Biblíunni, heldur kynferðismök samkynja persóna.

Það er dálítið skrýtið að sjá þig, stuðningsmann Geirs til biskupsembættis, skrifa hér: "Ég lít hins vegar ekki á Gamla testamentið sem mitt trúarrit og hafna því algjörlega sem slíku." -- Þá spyr ég þig: Hafnarðu Davíðssálmunum? Hafnarðu Orðskviðum Salómons, Predikaranum, Ljóðaljóðunum, Jesajaritinu, Jeremía, Hósea, Amos (þeir síðastnefndu tala t.d. mjög gegn þjóðfélagsranglæti) o.s.frv.? Ég er viss um, að þú átt eftir að hugsa þig þarna betur um., og mundu, að það voru m.a. spádómar Jesaja, sem rættust í Kristi og til er vitnað í messutextum kirkjunnar á aðventu og jólum. Raunar eru áframhaldandi textar úr Gamla testamentinu (GT) lesnir í fyrri ritningarlestri alla helgidaga í öllum almennilegum kirkjum heimsins.

Hitt er rétt, að ekki gildir allt lengur fyrir kristna menn, það, sem gilti í GT fyrir Ísraelsþjóð. Það þarf ekki daglegar og árlegar blóðfórnir fórnardýra, því að Jesús Kristur fórnaði lífi sínu fyrir okkur og er hin eina algilda fórn. Ergo falla dauðar niður helgisiðalögmálsreglur GT. Ennfremur linaði Jesús refsingar við hórdómi (Jóh.8), felldi raunar niður refsinguna, og á sama hátt er ekki dauðarefsing meðal kristinna manna við samkynja kynmökum, enda staðfesti Páll í orði og verki þá mildi Krists á því sviði líka (I.Kor.6.11) þrátt fyrir að hann lýsti samkynja mök andstæð náttúrunni (Róm.1.26-27) og svipta menn erfðarétti Guðsbarna til himnaríkis (I.Kor.9-10, og dæmið málið ekki út frá falsþýðingu Biblíunnar 2007!) ... en jafnvel sú útilokun frá himnaríki verður að engu við sanna iðrun og helgun (sjá I.Kor.6.11).

Þú ritar hér neðarlega: "Ekkert í boðun Jesú verður túlkað sem andstaða gegn samkynhneigð." Kannski rétt hjá þér, ef við erum að tala um grunnhneigðina eina, án athafna. En Jesús staðfesti reyndar (Lúk.17.29, Mt.11.23), að dómur Guðs yfir Sódómu var réttlátur, og það segir mikið.

Og ef menn vilja sjá afstöðu hans til "hjónabands samkynhneigðra", þá er hún hin sama og í orðum Guðs og athöfnum í I.Mósebók 1-2, þ.e.a.s. að hjónabandið er fyrir karlmann og konu, þannig eru innsetningarorð þess frá Kristi sjálfum komin (sjá Mt.19.5-6 um þetta, einnig Mark.10.7-8), annað kemur ekki til greina, og það eru bein helgispjöll að kristnum skilningi að snúa þessu upp á karl og karl eða konu og konu. En þetta létu þjóðkirkjumenn yfir sig ganga, fyrst og frest vegna klerkaveldisins þar og kenningarvillu ættaðrar úr vegvilltti guðfræðideild HÍ.

Og vertu nú sæll, ég þakka þér og öðrum lesturinn.

Jón Valur Jensson, 9.8.2013 kl. 22:39

28 identicon

Kjarni málsins snýst um að vera eins og kaninn segir "not on the wrong side of history"

Þeir sem eru á móti hjónaböndum samkynhneigðra í dag , eru í nákvæmlega sömu sporum og þeir sem voru á móti hjónaböndum hvítra&litaðra, einsog var mikið deiluefni t.d í vissum ríkjum bandaríkjanna langt frammeftir seinustu öld.

íhaldið tapar alltaf því miður, jón & jón. Horfið bara á sögu vesturlanda frá stríðslokum til okkar daga, það stefnir allt í eina átt, og það er ekki áttin ykkar.

því að af ykkar eigin vali virðist þið alltaf lenda röngu meginn í sögunni.

Ég vorkenni ykkur smá, en hef samt afskaplega gaman að lesa eyðimerkurhróp ykkar íhaldsmanna :) en það er bara mitt persónulega shadenfreude, enda breiskur maður.

Anton (IP-tala skráð) 9.8.2013 kl. 23:26

29 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þegar talsmaður trúarhreyfingar segir, með blessun Þjóðkirkjunnar (ríkiskirkjunnar) að ekki þurfi að ræða hjónaband samkynhmeigðra [af því það sé gegn vilja Guðs], þá segi ég; "Nei takk!, sú kirkja talar ekki fyrir mína hönd".

Hjónaband (vígð sambúð samkv. lögum) veitir fólki ríkari réttindi, t.d. í skattamálum, erfðamálum o.fl. Sá sem talar gegn því, vill takmarka réttindi minnihlutahóps. 

Gunnar Th. Gunnarsson, 9.8.2013 kl. 23:33

30 Smámynd: Einar Karl

Jón Valur Jensson skrifar:

ú ritar hér neðarlega: "Ekkert í boðun Jesú verður túlkað sem andstaða gegn samkynhneigð." Kannski rétt hjá þér, ef við erum að tala um grunnhneigðina eina, án athafna.

Ég spyr,

af hverju í ósköpunum hefur Jón Valur svona sjúklegan áhuga á kynlífsathöfnum ANNARS FÓLKS??

Ég held ekki að neinn sé að velta sér uppúr kynlífsathöfnum Jóns Vals. Ættum við að gera það Jón Valur, spá og spekúlera endalaust í samförum þínum og þinnar konu, hvort þið notið trúboðastellinguna, fáið bæði fullnægingu, beitið munngælum??

Einar Karl, 10.8.2013 kl. 08:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.11.): 71
  • Sl. sólarhring: 335
  • Sl. viku: 3908
  • Frá upphafi: 2428129

Annað

  • Innlit í dag: 60
  • Innlit sl. viku: 3608
  • Gestir í dag: 60
  • IP-tölur í dag: 59

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband