Leita í fréttum mbl.is

Vitræn barátta og upphlaup.

Flestir eru sammála um að ekki skulið gengið of nærri landsins gæðum og aðgát skuli höfð til að við skilum komandi kynslóðum landinu í svipuðu helst betra ástandi en þegar við tókum við því.

Þó við séum sammála um þetta meginmarkmið þá eru líka flestir á því að eðlilegt sé að nýta landkosti til arðsköpunnar og uppbyggingar í landinu.  Í nærumhverfinu er mikilvægt að kenna fólki að fara vel með og skilja ekki eftir sig rusl og drasl út um allt eins og því miður er allt of algengt að sjá. Þar er verk að vinna.

Náttúruvernd er ekki það sama og koma í veg fyrir allar framkvæmdir sem raska að einhverju leyti umvherfinu.  Hún er heldur ekki fólgin í að gera þær kröfur að litlum hagsmunum megi ekki fórna fyrir mikilvæga hagsmuni.

Undanfarin ár hafa þau sem helst hafa gert sig gildandi í sambandi við náttúruvernd iðulega valið sér vond vígi til að berjast í. Virkjanir í Þjórsá eru hagkvæmasti virkjanakosturinn í landinu og hefur lítið jarðrask á landinu í för með sér. Sama á við um síðustu ákvörðun umhverfisráðherra. Það er því holur hljómur og órökrænn í máli þeirra sem vilja blása til sóknar gegn þessum áformum og tala um að þarna sé á ferðinni aðför fólks sem sé sama um umhverfi sitt. 

Þó svo að það sé ákveðið að nýta hagkvæma virkjunarkosti þá þarf ekki að hefja framkvæmdir fyrr en þörf er fyrir orkuna það er svo annað mál. 

Umhverfisverndarsinnar sem andæfa hagkvæmum virkjunarkostum eins og í Þjórsá eða grípa til fráleitra aðgerða vegna vegagerðar um hraun sem engu máli skiptir koma álíka óorði á náttúruvernd og sagt hefur verið að rónarnir á brennivínið.  Þau skaða málstaðinn í stað þess að vinna honum gagn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Landsvirkjun er síst af öllum innlendum aðilum fallið til að hafa forystu um náttúruvernd á Íslandi. Hingað til hefur þurft lög og reglur til að halda þessu fyrirtæki í skefjum og dugar varla til.

Fyrirtækið býr til og notar núna verðmiða á fyrirhugaða veitu framkvæmd sem rök gegn náttúruvernd og þú og umhverfisráðherra takið gagnrýnislaust undir það. Öðru vísi mér áður brá hvað þig varðar, kæri félagi.

Vissulega má fullyrða að vegur í gegnum Gálgahraun skipti ekki höfuðmáli. Sömu rök eiga þá líklega við um Rauðhóla og annað smotterí. En hvað skiptir þá höfuðmáli? Eigum við að vaða áfram í hvert skipti sem Landsvirkjun þóknast eða eigum við að vera gagnrýnin? Hvað skiptir höfuðmáli þegar bæjarstjórn Garðabæjar eða önnur sveitarfélög hugsa sér til hreyfings? Þú?

Er lítið jarðrask í lagi? Og hver er munurinn á litlu eða miklu jarðraski? Hvenær á maður svo að álíta svo að nóg sé komið af „jarðröskum“ og skemmdum á smotteríum ...?

Ég held og vona að fjöldi sjálfstæðismanna séu mjög uggandi yfir umhverfis- og náttúruvernd hér á landi og þeir líti ekki svo á, eins og þú, að smávægileg atriði skipti litlu. Það er nú einu sinni svo að smáatriðin skipta máli, jafnvel þau í náttúru landsins. Þannig er nú orðið að stóru atriðin, víðernin, eru fá. Hvað er þá eftir til að hafa áhyggjur a.

Rammaáætlunin er góð sátt um nýtingu landsins en hana, eins og aðrar sáttir, verður að halda. Mundu svo, gamli vinur, að það eru ekki þeir sem þú kallar náttúruverndarsinna sem rufu sáttina. Líttu svo á það óorð sem mislyndir ráðherrar og bæjarstjórnir hafa komið á stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Þessir aðilar rjúka upp til handa og fóta vogi fólk að gagnrýna fyrirhugaðar framkvæmdir. Kommar, náttúruverndarhyski er hrópað af sjálfskipuðum verndurum Landsvirkjunar og ríkisvaldsins, og öll rök gegn framkvæmdum eru talin til persónulegra árása og þau því stórhættuleg.

Er nú ekki furða þó illa sé komið fyrir stofnunum ríkisins, löggjafarvaldinu og ríkisvaldinu þegar ekki er betur staðið að málum og sættir einhliða rofa. Er ekki bæjarstjórinn í Garðabæ og umhverfisráðherra komnir í sömu stöðu og rónarnir sem sagðir eru hafa komið óorði á brennivínið.

Hver sagðist nú ætla að afnema ný náttúruverndarlög einn og óstuddur? Sá nefndi ekki Alþingi í yfirlýsingu sinni, hans var löggjafarvaldið og dýrðin. Þannig verður óorðið til ... og öðrum verður ómótt.

Ég bið þig svo afsökunar á því að hafa eytt öllu þessu plássi undir andmæli gegn pislinum þínum. Ástæðan var einfaldlega sú að ég varð fyrir vonbrigðum, hélt að þú værir í góða liðinu en þar eru nú bara helv... kommar og náttúruverndarhyski ... og ég, sjálfstæðismaðurinn.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 7.1.2014 kl. 14:52

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Í Efri-Þjórsá er tekist á um þrjá stóra fossa í ánni, og tveir þeirra eru á stærð við Gullfoss. Ef þeir sem vilja verndarnýtingu á þessum fossum í líkingu við verndarnýtingu Gullfoss "koma óorði á náttúruvernd", hvað má þá segja um Sigríði í Brattholti á sínum tíma?

Ómar Ragnarsson, 7.1.2014 kl. 17:47

3 identicon

Hvar finnst þér annars að ekki eigi að virkja -- og ekki leggja vegi?

Mörður Árnason (IP-tala skráð) 8.1.2014 kl. 13:14

4 Smámynd: Jón Magnússon

Það á t.d. ekki að virkja Gullfoss, Skógarfoss, Dynjandi, Aldeyjarfoss, Goðafoss og Dettifoss svo dæmi séu tekin. Hef sjálfur skrifað á móti jarðraskinu og áformum um virkjanir Aldeyjarfoss, sem ég tel einn fallegasta foss landsins.  En það yrði ansi löng upptalning ef farið yrði út í þetta. En almennt finnst mér að við eigum að nýta landsins gæði svo fremi við göngum ekki varanlega á þau þannig að landnýting og landvernd fari saman.  Það sem ég gagnrýni eru upphrópanir um landníð sem eru út í bláinn.

Jón Magnússon, 9.1.2014 kl. 13:02

5 Smámynd: Jón Magnússon

Ómar ég er ekki sammála þér varðandi þessa fossa og hugmyndir um virkjarnir í neðri hluta Þjórsár, sem þú ert líka á móti eru að mínu viti skynsamlegar og kosta lítið jarðrask af hverju má ekki virkja þar. Það eru ekki allir stórir fossar Gullfoss. 

 Svo varðandi vegalagningu sem ég gleymdi að svara Merði. Þá gefum við fólki aukna möguleika að njóta náttúrufegurðar landsins þeim mun fjölbreyttara og betra samgöngukerfi sem við höfum líka á hálendinu. Annars er þetta eingöngu fyrir göngu- og hestafólk.  

Jón Magnússon, 9.1.2014 kl. 13:05

6 Smámynd: Jón Magnússon

Sigurður ég er ekki að tala um að fela Landsvirkjun að fara með náttúruvernd í landinu. Rauðhólarnir voru perla sem átti að varðveita, En því miður var gengið þannig á þá þannig líka eftir friðun að það er spurning hvað á að gera þar. Sennilega best að koma þeim sem eru enn í lagi í betra horf og girða þá af bílheldri girðingu. Annars sækir fólk áfram möl í skjóli nætur og þarf það ekki endilega til.

Mér fannst of langt gengið í rammaáætluninni.  Ég vil landvernd Sigurður en ekki neina viltleysu. Svo er það alveg makalaust að verið sé að eyða milljónum og jafnvel milljörðum í skoðun á jarðstreng til að flytja orku til útlanda þegar við getum ekki einu sinni þjónustað eitt álver í Helguvík sem vantar orku.

En það er svo annað mál hvort við eigum að þjónusta það?   En fólk sem vill náttúru- og landvernd ætti að skoða vel bullið í kringum jarðstrengsumræðuna og hvað það þá þýðir. Það borgar sig að taka umræðuna fyrirfram en ekki með upphlaupi í öllum tilvikum þegar virkjanaframkvæmdir hefjast.  

Jón Magnússon, 9.1.2014 kl. 13:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.12.): 816
  • Sl. sólarhring: 1016
  • Sl. viku: 4362
  • Frá upphafi: 2448092

Annað

  • Innlit í dag: 770
  • Innlit sl. viku: 4074
  • Gestir í dag: 724
  • IP-tölur í dag: 696

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband