Leita í fréttum mbl.is

Fréttir. Ekki fréttir og Rangar fréttir

Fréttamaður á Ríkisútvarpinu til margra ára vakti réttilega athygli á því fyrir skömmu hversu afkáraleg fyrsta útvarpskvöldfrétt RÚV var á sunnudagskvöld. Því miður er fréttastofa RÚV ekki ein um þá hitu að koma með ekki fréttir og rangar fréttir.

Í fréttum fjölmiðla hefur ítrekað verið sagt frá því að fólk sæki meira í verðtryggð lán vegna þess hvað afborganir séu hagstæðar í byrjun. Ekki er bent á það að verðtryggingin étur upp alla eignamyndun.  En þessar fréttir eru rangar. Í riti Seðlabankans um fjármálastöðugleika nr. 1.2014 segir:

"Athygli vekur hversu mikið vægi verðtryggðra skulda lækkaði á síðasta ári eða sem nemur um helmingi af þeirri lækkun sem aðgerðum ríkisstjórnarinnar er ætlað að ná. Hlutur óverðtryggðra lána heldur áfram að aukast og er eina lánaformið sem eykur hlutdeild sína af heildarskuldum, þ.e. í lok árs 2012 var hlutdeild óverðtryggðra lána 16,5% en 18% í lok síðasta árs."

Fréttir um að fólk sé að taka verðtryggð lán í stórum stíl eru draugasögur  sjálfsagt  fabrikeraðar hjá verðtryggingarfurstum til að sýna hversu fráleitt sé að afnema verðtryggingu.

Í annan stað er því ítrekað haldið fram að heimilin standi nú mun betur að vígi og skuldir þerira lækki og lækki. Þetta er villandi frétt og að hluta röng. Í áður tilvitnuðu riti kemur fram á bls. 51 að lækkun skulda heimila sé aðallega vegna endurútreiknings ólögmætra gengislána.  En það er ekki öll sagan. Einnig kemur til að fjármálafyrirtæki hafa keypt eignir fólks m.a. á nauðungaruppboði og þar með lækkar skuldastaðan. Þetta eru ekki merki um batnandi stöðu með blóm í haga.

Í þriðja lagi sögðu fjölmiðlar frá því í dag að skuldsetning fyrirtækja hafi dregist saman og lækkað um 24% af þjóðarframleiðslu frá því í fyrra. Af fréttunum mátti ráða undraverðan rekstrarbata fyrirtækjanna, en svo er ekki.  Ástæða skuldalækkunar fyrirtækja er vegna afskrifta fjármálafyrirtækja á skuldum þeirra eins og einnig kemur fram í ofangreindu riti.

Ekki kemur fram hvað margir tugir eða hundruð milljarða voru afskrifuð á fyrirtækjunum. 

Í staðinn fyrir að birta rangar fréttir og ekki fréttir ættu fjölmiðlar að segja okkur fréttir t.d. hvað mörg hundruð milljarðar hafa verið afskrifaðir af skuldum fyrirtækja í landinu.

Talsmenn fjármálastofnana og ASÍ sem hafa amast við skuldalækkun venjulegs fólks ætti síðan að fá í viðtöl til að gera okkur grein fyrir af hverju það er í lagi að afskrifa skuldir á fyrirtæki en ekki hjá fólki.

Fréttamenn ættu að skoða það sem máli skiptir og beina sjónum sínum að því sem skiptir máli fyrir fjöldann í stað þess að vera stöðugt að leita uppi einstaklingsbundin vandamál raunveruleg, orðum aukin eða tilbúin.

Vantar ekki fleiri fréttamenn sem eru neytendavænir og hafa metnað til að flytja fólki góðar og heildstæðar fréttir? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Takk fyrir þessa samantekt Jón.

Þá mættu fjölmiðlar einnig skoða hversu mikið verðtryggð lán "lækka" við minni verðbólgu. Sú hækkun sem fellur á þessi lán við aukna verðbólgu er færð ofaná höfuðstól og fer ekkert þaðan þó verðbólga hjaðni. Þessum staðreyndum er haldið frá fólki, meðvitað eða af vanþekkingu fréttamanna.

Gunnar Heiðarsson, 14.4.2014 kl. 21:40

2 Smámynd: Jón Magnússon

Góð og nauðsynleg athugasemd Gunnar takk fyrir það.

Jón Magnússon, 15.4.2014 kl. 09:22

3 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Er ekki rétt hjá mér að svona venjulegur Íslendingur fær ekki greiðslumat til að taka hátt óverðtryggt lán þar sem greiðslubirgðin af því er svo há í byrjun! Er það ekki þessvegna sem fólk er nú að taka verðtryggð lán. Og jafnvel treystir á að á næstu árum verði verðtrygging bönnuð og/eða auðvelt verði að skipta í óverðtrygglán síðar.  Þannir sýnist mér að afborgun í byrjun sé um 131 þúsund af óvertryggðu 18 milljóna láni með 7,4% vöxtum en um  95 þúsund af vertryggðu láni með 3,85% vöxtum ef að verðbólgan ríkur ekki upp næstu árin. Þetta er miðað við 3 til 3% verðbólgu.

Og ef við miðum við meðaltekjur þá á húsnæðiskosnaður ekki vera meiri en 35 til 30% þá með fasteignagjöldum og örðu  og aðarar skuldir þá held ég að fólk þurfi skolli háar tekjur til að ráða við milli 130 til 140 þúsund  á mánuði af bara húsnæislánum. 

Magnús Helgi Björgvinsson, 15.4.2014 kl. 17:13

4 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Jón. Þarna ert þú að gagnrýna fréttstofnuna fyrir að hafa ekki komið fram með þá röngu fullyrðingu að "verðtryggingin éti upp eignarmyndun". Þessi fullyrðing er þvæla. Verðtrygging kemur í veg fyrir eignarrýrnun lánveitanda en eyðir ekki eignarmyndun lántaka.

Ef við skoðum húsnæðislána og húsnæðismarkaðinn milli janúar 2002 og janúar 2014 þá hefur vísitala neysluverðst til verðtryggingar hækkað um 89,8% á þeim tíma. Á sama tíma hefur húsnæðisverð á höfuðborgrasvæðinu hækkað um 143,1%.

Ef við tökum einstakling sem hefur keypti ibúð í janúar 2002 sem hefur hækkað í verði til samræmis við meðalverðhækkun íbúða á höfuðborgarsvæðinu og hann fjármagnaði hana 100% með lántöku það er átti ekkert í henni þegar hann keypti hana þá ætti hann núna 21,9% af verðmæti hennar ef hann hefði einingis greitt vexti af láninu en ekki greitt það neitt niður. Hann væri sem sagt búin að eignast rúmlega fimmtung af verðmæti íbúðarinnar án þess að greiða neitt fyrir það. En að sjálfsögðu væri hann búinn að greiða lánið eitthvað niður og ætti þá eigin fé í íbúðinni sem því nemur umfram 21,9%.

Vissulega gæti lánið verið hærra í krónum talið en þegar hann tók það en það skiptir engu máli því verðmæti íbðuðarnnar er líka hærra í krónum talið.

Á sama tíma hefur launavístiala hækkað um 108,6%. Ef laun þessa manns hefðu hækkað á þessu tímabili til jafns við almenna launaþróun í landinu og greiðslubyrði lánsins hafi verið 40% af tekjum í upphafi þá hefði hún í janúar 2014 verið komin niður í 36,4% af tekjum.

Hvert er vandamálið?

En varðandi skuldaniðurfellingar. Afskriftir skulda hjá fyrirtækjum eru hvort eð er tapa fé og því aðeins verið að raungera það með afskriftum. Það hefur líka verið gert gagnvart einstaklingum. Sá kostaður lendir á kröfuhöfum í þrotabú gömlu bankanna enda reiknast endanlegt verð sem nýju bankarnir þurfa að greiða fyrir lánasöfnin að mestu út frá því hversu mikið mögulegt er að innheimta af lánunum. Almenningur þarf því ekki að fjármagna þessar afskriftir. Öðru máli gegnir um þær niðurgreiðslur sem stjórnvöld hyggjast nú standa fyrir. Það eru bara tifærslur úr einum vasa hjá almenningi yfir í annan. Það gilda allt önnur lögmál og allt önnur viðhorf um slíkt og þegar slíkt á sér stað þarf að réttlæta það.

En ef við tökum mannin sem keypti sér íbúð í janúar 2002 og hefur hagnast um sem nemur 21,9% af verðmæti íbúðarinnar vegna hækkunar húsnæðisverðs umfram hækkun neysluvísitölu þá ætti hann nú að fá allt að 4 milljónir niðurgreiddar af skattgreiðendum á grunvelli einhvers Ímyndaðs forsendubrests sem hann átti að hafa orðið frir. Þar með verður hagnaður hans orðin allt a 4 milljónir umfram þau 21,9% sem hann hefur þegar hagnast um á þesum viðskiptum.

Sigurður M Grétarsson, 15.4.2014 kl. 21:21

5 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Og Jón. Ég þarf fljótlega að fara að stækka við mig íbúð. Ég hef reiknað út hvaða lánsform er hagstæðast fyrir mig í þeim íbúðakaupum. Ég er viðskiptafræðingur og er því fullfær um að reikna það út. Niðurstaðan er sú að hagstæðasta formið er verðtryggt lán til 40 ára.

Af hverju vilt þú fremja skemmdarverk á mínum fjárhag með því að banna mér að taka þá gerð láns sem er hagstæðast fyrir mig? Af hverju má ég ekki taka það lán í friði fyrir stjórnvöldum?

Sigurður M Grétarsson, 15.4.2014 kl. 21:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.1.): 384
  • Sl. sólarhring: 1350
  • Sl. viku: 5526
  • Frá upphafi: 2469910

Annað

  • Innlit í dag: 366
  • Innlit sl. viku: 5074
  • Gestir í dag: 365
  • IP-tölur í dag: 358

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband