Leita í fréttum mbl.is

Fjórmenningaklíkan/ The gang of four

Sú var tíðin að hópur valdþyrstra einstaklinga, kölluð fjórmenningaklíkan reyndi að ná alræðisvaldi í kínverska Kommúnistaflokknum og þar með Kína. Klíkan stóð fyrir menningarbyltingunni í Kína, en sú bylting var til að niðurlægja pólitíska andstæðinga Maos formanns og reyna að tryggja honum alræðisvald. Þegar leið á valdaránstilraunina þá réttu andstæðingar fjórmenningaklíkunnar jafnan upp fimm fingur en fimmti valdaránsmaðurinn var að sjálfsögðu Mao Tse Tung.

Samfylkingin hefur átt sína fjórmenningaklíku um nokkurra ára skeið. Hún kom fyrst fram grímulaust á Alþingi þegar greidd voru atkvæði um Landsdómsmálið, en þá skáru þau Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Skúli Helgason, Ólína Þorvarðardóttir og Helgi Hjörvar sig úr hópi þingmanna Samfylkingarinnar og greiddu atkvæði með ákærum á hendur m.a. Geir Haarde.

Ýmsir urðu til að halda því fram að þarna hefði verið um að ræða þaulhugsað plott Samfylkingarinnar, en svo var ekki. Það var bara fjórmenningaklíkan sem stóð fyrir þessu, en þá eins og í Kína forðum, þá glitti í andlit Jóhönnu Sigurðardóttur á bakvið plottið eins og í andlit Mao forðum í Menningarbyltingunni.

Í hlutafélagi hefði það verið talin tilraun til fjandsamlegrar yfirtöku hefði hópur hluthafa paufast með mótframboð gegn sitjandi stjórn og safnað liði á laun og látið til skarar skríða þegar gagnaðilinn uggði ekki að sér. .Í Samfylkingunni er samskonar tilraun til fjandsamlegrar yfirtöku og valdaráns af hálfu fjórmenningaklíkunnar kallað virkt lýðræði

Foringi valdaránstilraunarinnar, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, sagði eftir tap sitt að hún væri að íhuga stöðu sína af því að hún hefði orðið fyrir árásum. Það tók hana ekki nema nokkra klukkutíma enda öllum ljóst að með því var hún aðeins að biðja sér griða. Formaðurinn sem Sigríður Ingibjörg vóg að úr launsátri,  lýsti því yfir í kristilegum kærleiksanda að syndir hennar væru henni fyrirgefnar.  

Öll Samfylkingardýrin eiga að vera vinir þrátt fyrir að nætur hinna löngu hnífa séu jafnan tiltækar plottmeisturum fjórmenningaklíkunnar. Þegar valdaránstilraunin hafði mistekist voru sumir hershöfðingjar valdaránsins eins og Ólína Þorvarðardóttir fljótir að beina athyglinni að einhverju sem engu máli skipti eins og  tillögu ungra Samfylkingarmanna um að hætt skuli tilraunum til olíuvinnslu í íslenskri lögsögu. Tillaga sem vó að fyrrverandi formanni Samfylkingarinnar Össuri Skarphéðinssyni. Væringjum innan Samfylkingarinnar er ekki lokið, af því að fjórmenningaklíkan hefur enn trausta valdastöðu. Á bakvið þau fjögur glittir í fimmta andliðit. Andlit Jóhönnu Sigurðardóttur sem  engu hefur gleymt, en ekkert man þegar það hentar.

Er það virkilega bara Sighvatur Björgvinsson og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir meðal Samfylkingarfólks,  sem geta talað þokkalega hreint úr pokanum um það sem Vilmundur heitinn Gylfason hefði kallað sk...pa..

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

jæja Jón minn - nú þykir mér aldeilsi vera farið að súrna í samsærispottinum hjá þér. Þetta eru ein furðulegustu skrif sem ég hef séð lengi og sannarlega ekki í þeim anda sem mér hefur þótt einkenna þig um nokkurt skeið.

Hafði álit á þér um tíma ... eiginlega  bara þar til ég las þetta.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 26.3.2015 kl. 10:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 273
  • Sl. sólarhring: 761
  • Sl. viku: 4094
  • Frá upphafi: 2427894

Annað

  • Innlit í dag: 254
  • Innlit sl. viku: 3790
  • Gestir í dag: 249
  • IP-tölur í dag: 238

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband