Leita í fréttum mbl.is

Öfgafull þjóðfélagsumræða.

Runólfur Ágústsson fyrrverandi rektor Háskólans á Bifröst benti á það í Blaðinu um daginn að þjóðfélagsumræðan væri orðin mjög öfgafull. Hann sagði: "það er sama hvar drepið er niður, hvort það er umræða um femínisma, klám eða stóriðju. Við lifum í svart hvítum heimi þar sem öfgarnar takast á og lítið rúm er fyrir skoðanir þeirra sem standa þar á milli og eru skynsamt og hófsamt fólk"

Þetta er því miður rétt hjá Runólfi. Í dag sjáum við merki þess að fólk sem telur sig hafa einkarétt á því í hverju umhverfisvernd felst stimpli stjórnmálamenn sem vini eða óvini. Þar hefur verið höfðað til mjög þröngra sjónarmiða varðandi græna stefnu og náttúruvernd og það sama á við hjá Vinstri grænum og Ómari Ragnarssyni. Stefnumótun svokallaðra grænna á Íslandi er langt frá því að vera heilstæð eða tæmandi. Umræða þeirra er hins vegar með stimpil öfgana og andstæð náttúruvernd í mörgum tilvikum sbr afstaðan til vatnsaflsvirkjana.

Femínisminn sem hefur aðallega átt sér sem sprgöngukonur metnaðarfullar háskólakonur hafa fyrst og fremst vandræðast með framapot háskólakvenna á grundvelli kynferðis en á það hefur skort að íslensku femínistarnir hafi sinnt hagsmunamálum láglaunakvenna. Þá hafa mannréttindabrot gagnvart konum í Íslömsku löndunum yfirleitt ekki komið þeim við. 

Við Frjálslynd sem viljum vitræna öfgalausa umræðu höfum ekki farið varhluta af þeim öfgum sem er í þjóðfélagsumræðunni eins og fyrrum rektor háskólans á Bifröst bendir á. Frjálslynd viðhorf byggja á því að heimila viðhorf og umræður um mál óháð því hvort þú ert sammála þeim eða ekki. Það er hluti lýðræðisþjóðfélags. Andstæðingar lýðræðisins þola ekki öfgalausar málefnalegar umræður af því að þeir hafa fundið sinn stóra sannleik. Sína sýn á það sem rétt er og rangt. Slíku fólki verður alltaf í nöp við frjálslynd viðhorf.

En samt snýst hún.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Georg Eiður Arnarson

Góður,kv.

Georg Eiður Arnarson, 7.4.2007 kl. 18:22

2 Smámynd: Björn Heiðdal

Ég hélt að Frjálslyndir vildu hafa allt frjálst.  Frjálsar ástir og innflutning á fólki.  En miðað við málflutning ykkar fer nú lítið fyrir frelsinu.  

Björn Heiðdal, 7.4.2007 kl. 18:24

3 Smámynd: J. Einar Valur Bjarnason Maack

Ég held að þú myndir ekki átta þig á frelsi þó það helltist yfir þig Björn minn. Þú getur ekki verið frjáls án ábyrgðar og umburðarlyndis, þar á meðal umburðarlyndis sem sést með því að bera ekki á borð fordóma um skoðanir annara fyrr en þú hefur kynnt þér þær.

J. Einar Valur Bjarnason Maack , 7.4.2007 kl. 18:28

4 identicon

Þú Jón og Runólfur eruð um margt líkir. Ég þekki ykkur báða!

 Ekki vitna í dýrir sem étið hefur verið!! Nú þegar. Þið eruð ekki af því sauðahúsi!

jb 

Jónína Benediktsdóttir (IP-tala skráð) 7.4.2007 kl. 19:06

5 Smámynd: Guðmundur Pálsson

Ég tek undir orð Jóns um afvegaleiðingu feminista. Sérstaklega rótækra feminista. Þær spila sitt sérstaka spil þar sem aðeins ein hugmynd yfirskyggir allt annað: Valdahungur elítukvenna. Ég veit ekki hver tekur mark á þeim - ef menn hugsa málið virkilega ofan í kjölinn - gengur hugmynd þeirra varla upp. Hún er sefjunarkennd og jafnvel órómantísk (ekki eyðileggja rómantíkina góðir hálsar). Lessuleg; má segja þetta. Líka andstæð hagsmunum barna og fjölskyldulífs.

Ég leyfi mér að vitna í áhugaverða athugasemd Vilhjálms Andra Kjartansskonar www.vak.blog.is á moggabloggi nú yfir hátíðarnar, en hann segir:  "Nú heyrst sjaldan eða aldrei í femínistum, tíkum eða öðrum vinstrimönnum þegar kemur að sjómönnum, rafvirkjum, pípulagningamönnum, smiðum, vörubílstjórum, ruslaköllum, bensínafgreiðslufólki(dælumönnum), vélstjórum, bifvélavirkjum eða öðrum álíka stéttum." Er þetta ekki bara laukrétt hjá Vilhjálmi!

Guðmundur Pálsson, 7.4.2007 kl. 20:00

6 Smámynd: Tryggvi Thayer

"Frjálslynd viðhorf byggja á því að heimila viðhorf og umræður um mál óháð því hvort þú ert sammála þeim eða ekki."

Eða óháð því hvort viðhorf og umræður byggja á rangfærslum eða ekki?

Tryggvi Thayer, 7.4.2007 kl. 20:18

7 Smámynd: Ólafur Þórðarson

Umræðan er öfgafull á köflum, það er rétt. Sé það sem einkenni á þessum feik darwinisma um egó samkeppni markaðsbraskerí, og þetta að viðmælendur séu eitthvað til að sigrast á. Hefur lítið með flokkaskiptingu að gera, öfgarnar eru á alla kanta. Fólk bítur í sig fyrstu lesningu sem lokasvar áður en það hefur lesið sig nógu mikið til.

Ólafur Þórðarson, 7.4.2007 kl. 22:45

8 Smámynd: Jón Valur Jensson

Rétt hjá Guðmundi þetta um femínismann -- og vel mælt hjá greinarhöfundi um sömu mál.

Jón Valur Jensson, 7.4.2007 kl. 23:33

9 Smámynd: Guðmundur H. Bragason

Að ala á hræðluáróðri og ótta varðandi erlent vinnuafl og innflytjendur tel ég einnig öfgafulla umræðu því miður og bera vott um svart/hvítt umhverfi.

Guðmundur H. Bragason, 8.4.2007 kl. 01:33

10 Smámynd: Þóra Guðmundsdóttir

Sko, strákar þið verðið að fara varlega í það að gagnrýna femínista. Þeir geta ekki bjargað öllum heiminum. Lengi vel var því haldið fram að konur væru á lægri launum en karlar vegna þess að þær hefðu minni menntun og sæktust síður eftir ábyrgðarstöðum. Þegar svo fjöldi kvenna hafði bætt úr því sem sagt voru búnar að mennta sig og sóttust eftir ábyrgðastöðum þá var launamunurinn enn til staðar og enn voru þeim síður veittar ábyrgðastöður þó svo þær sæktust eftir þeim þá.  Barátta femínista gengur fyrst og fremst útá að jafna hlut þssara kvenna, eðlilega. Mannréttindabrot á íslömskum konum er í raun allt önnur barátta. Eins það hvað hin hefðbundnu kvennastörf við umönnun hverskonar er lágt metin er auðvitað mál okkar allra. Það er líka umhugsunarvert hvers vegna körlum þykir eðlilegt að greiða þeim sem gerir við bílinn þeirra 5000.-kr. á tímann en þeim sem gætir barnsins þeirra 1000.-kr.

Þóra Guðmundsdóttir, 8.4.2007 kl. 01:55

11 Smámynd: Ólafur Þórðarson

Löngu áður en feminismi varð ljótt orð í munni svona margra á Íslandi heyrði ég þetta kvennahatur fyrst spúað hjá ofstækismanni hér í Ameríku, manni að nafni Rush Limbaugh sem talaði þá mikið um "feminazis." Átti seinna erfitt með að gleypa því að Íslendingar hermdu eftir þennann ó-sið af svo vitfirrtum manni.

Ólafur Þórðarson, 8.4.2007 kl. 05:30

12 Smámynd: Ólafur Þórðarson

Sko til. Fann orðið á Wikipediu: http://en.wikipedia.org/wiki/Feminazi

Ólafur Þórðarson, 8.4.2007 kl. 05:32

13 identicon

Femínisminn sem hefur aðallega átt sér sem sprgöngukonur metnaðarfullar háskólakonur hafa fyrst og fremst vandræðast með framapot háskólakvenna á grundvelli kynferðis en á það hefur skort að íslensku femínistarnir hafi sinnt hagsmunamálum láglaunakvenna.

Meðal femínista eru konur af öllum stéttum og launaflokkum. Eitt helsta baráttumál femínista er að hefðbundin kvennastörf séu metin til launa til jafns við hefðbundin karlastörf og að laun leiðbeinenda á leikskólum, aðhlynningarfólks á elliheimilum og fleiri séu hækkuð. Getur verið að þú skellir skollaeyrum við því baráttumáli af því að það fer meira í taugarnar á þér hvað femínistar krefjast einnig aðkomu kvenna að valdastöðum, til dæmis í stjórnmálum? Fer það í taugarnar á þér að konur séu að vilja upp á dekk?

Þá hafa mannréttindabrot gagnvart konum í Íslömsku löndunum yfirleitt ekki komið þeim við. 

Mannréttindabrot eru því miður framin á konum víða í heiminum og við eigum öll að taka höndum saman og berjast gegn þeim. En eigum við að sleppa því að berjast gegn nauðgunum og heimilisofbeldi á Íslandi á meðan við teljum okkur hafa vitneskju um að slíkt sé algengara í öðrum samfélögum? Ef Gunna er slegin utanundir af manninum sínum heima fyrir, má hún ekki leita réttar síns ef hún hefur vitneskju um að nágrannakona hennar er reglulega kýld af sínum manni??

 Það er reyndar alveg rétt að öfgafull orðræða í stjórnmálum er hvimleið en þetta kemur úr hörðustu átt. Ert þú ekki maðurinn sem dregur fólk í dilka eftir því hvaða trúarbrögð þeir aðhyllast? Maður líttu þér nær!

hee (IP-tala skráð) 8.4.2007 kl. 13:10

14 Smámynd: Baldvin Jónsson

Þegar skoðuð er mannkynssagan má sjá svona svart hvít tímabil rísa með mjög reglulegu millibili. Þau fylgja virðist fast á hæla þessum öfgafrjálsu tímabilum þar sem að mannskepnan (við) missir algera stjórn á hvötum sínum, óháð nánast virðingu og siðferði.  Tímabilum þar sem að við komumst að því að við viljum ekki raunverulega algert frelsi gjörða, en við viljum að sjálfsögðu áfram öll algert frelsi skoðana.

Við verðum hins vegar að sjálfsögðu þá líka að geta tekið því að fólk er ekki sammála skoðunum okkar. Margir kalla mig grænan vegna langana minna til að staldra við og skoða næstu skref af yfirvegun.

Margir kalla ykkur rasista vegna skoðana ykkar á erlendum innflytjendum til Íslands. Við höfum frelsi til skoðana, og hinir hafa frelsi til að hafa skoðanir á skoðunum okkar.  Þannig er nú það.

Fyrir mér er það ekki að þið viljið ræða þessi mál sem gerir ykkur rasíska í mínum skoðunum, það er hvernig þið setjið fram umræðuna. Hvernig þið talið niður til og dragið inn t.d. stórundarleg rök um hættu á berklasmiti. Menn nota undarleg rök þegar þeim mistekst að ná til fjöldans með þessum raunverulegu.

En endilega, höfum umræðuna opna. Það er allra meina bót í samfélaginu að að hafa allt uppi á borðinu, að hætta feluleikjum, blekkingum og bitlingapólitík.

Baldvin Jónsson, 8.4.2007 kl. 13:55

15 identicon

Þetta er allt innilega satt hjá Jóni og ég er sammála honum.  Öfgarnar eru svo yfirgengilegar hjá fólki sem telur sig hafa einkarétt á sannleikanum eins og t.d. virkjana- og stóriðjuandstæðingum, Vinstri-Grænum og femínistum.  Þetta eru allt mjög þröngsýnir hópar sem virða ekki skoðanir annarra og þegar þetta fólk er spurt út í t.d. mannréttindabrot á konum í íslömskum löndum þá annað hvort svarar það ekki eða bara svarar með útúrsnúningum eins og þessi mannréttindabrot komi þeim ekki við.  Hverslags fólk er þetta eiginlega???Málflutningur þess og baráttuaðferðir er hávær og öfgakenndur og minnir einna helst á málflutning nazista fyrir valdatöku Hitlers í Þýskalandi.  Femínistar eru í mínum augum valdasjúkar konur sem farið hafa halloka í lífinu líkt og nazistar forðum í Þýskalandi.

Örninn (IP-tala skráð) 8.4.2007 kl. 14:34

16 identicon

Femínistar eru í mínum augum valdasjúkar konur sem farið hafa halloka í lífinu líkt og nazistar forðum í Þýskalandi=Margrét Sverrisdóttir?

Furðufuglinn (IP-tala skráð) 8.4.2007 kl. 16:10

17 identicon

Ykkur til mikils hugarangurs munum við ekki ,,halda kjafti og vera sætar". Miðað við takmarkaðann skilning ykkar og enn meiri fáfræði um feminisma er meira en næg þörf fyrir raddir feminista í íslensku samfélagi. Ef þið kannist ekki við tilvitnunina er hún titillinn á bók Vitu Andersen sem einhver hefði gott af að lesa. Einsleit orðræða tilheyrir einræði, fasisma og kúgun og sem betur fer lifum við ekki í þannig umhverfi þrátt fyrir að flokkar eins og hinn ný-fasíski Frjálslyndi flokkur myndi vilja hafa það þannig.

Gústa (IP-tala skráð) 8.4.2007 kl. 16:31

18 Smámynd: J. Einar Valur Bjarnason Maack

Jæja Gústa mín... alltaf í boltanum?

Það er enginn að mótmæla því sem hófsamir femínístar hafa sagt. Það er enginn að mótmæla því að það er ekki nægur jöfnuður í þjóðfélaginu.

Það er verið að mótmæla 'Karlar eru aumingjar' taktíkinni sem hefur verið beitt og benda á það að Feministar hafa ekki beint verið að einbeita sér að kjörum þeirra sem eru verst settar heldur aðallega að mótmæla því að vissar konur hafi ekki verið ráðnar á þeim forsendum að þær eru konur - þósvo að það hafi aðeins verið farið eftir hæfni við ráðningu... 

J. Einar Valur Bjarnason Maack , 8.4.2007 kl. 16:59

19 identicon

Þetta eru allt mjög þröngsýnir hópar sem virða ekki skoðanir annarra og þegar þetta fólk er spurt út í t.d. mannréttindabrot á konum í íslömskum löndum þá annað hvort svarar það ekki eða bara svarar með útúrsnúningum eins og þessi mannréttindabrot komi þeim ekki við.  Hverslags fólk er þetta eiginlega???

Þetta er nú meiri dómadags vitleysan, hvernig færðu það út að ég láti mig ekki varða mannréttindabrot á konum annars staðar í heiminum? Ég læt mig varða meðferð og framkoma í garð kynsystra minna hvar sem þær eru í heiminum og hið sama gildir um aðra femínista. En mín rök standa og ég stórefast um að nokkur stuðningsmaður Frjálslynda flokksins og/eða andstæðingar femínista hafi nokkra getu til þess að svara þeim. Því að ef íslenskir femínistar eru að gera einhverjum óleik með því að berjast gegn heimilis- og kynferðisofbeldi sem á sér stað hér á landi á sama tíma og það á sér líka stað annars staðar, jafnvel í meiri mæli, þá er alveg eins hægt að spyrja Jón Magnússon á móti:

Með sömu rökum, af hverju látið þið ykkur kjör og aðstæður launþega í Austur-Evrópu engu skipta á sama tíma og þið þykist vera að berjast fyrir kjörum íslenskra launþega? Er ekki bara gott ef fólk getur komið hingað alls staðar að til þess að fá betri laun en þeim byðust í heimalöndunum? Er ekki heillavænlegra að berjast fyrir hækkun lágmarkslauna og hertara eftirliti með vinnuveitendum heldur en að vera að mótmæla komu innflytjenda til landsins?

Á sama hátt og ég læt mig varða mannréttindi kynsystra minna alls staðar í heiminum læt ég mig líka varða kjör launþega alls staðar í heiminum. Það er eitthvað annað en Frjálslyndi flokkurinn sem vill frekar að fátækir launþegar sætti sig við lág laun heima fyrir heldur en að koma til Íslands og freista þess að fá mannsæmandi kjör.

hee (IP-tala skráð) 8.4.2007 kl. 17:27

20 Smámynd: J. Einar Valur Bjarnason Maack

Mannsæmandi kjör þá miðað við í sínu heimalandi eða hérna?

Við erum að reyna að berjast fyrir því að allir sem hingað komi fái mannsæmandi kjör og sé ekki haldið á þrælastandördum, eins og hinir flokkarnir virðast vilja... 

J. Einar Valur Bjarnason Maack , 8.4.2007 kl. 17:34

21 identicon

Þegar ég tala um mannsæmandi kjör er ég að tala í alþjóðlegu samhengi. Þó svo að almenn lífskjör séu að meðaltali lakari í til dæmis Úkraínu heldur en Íslandi er jafn mikilvægt að hinn almenni úkraínski borgari fái tækifæri til þess að öðlast mannsæmandi kjör eins og sá íslenski.

Að því sögðu er ég að sjálfssögðu sammála því að það á ekki að halda erlendum launþegum á þrælastandördum. Ertu semsagt að segja mér að það sé það sem málið snýst um? Af hverju eru Frjálslyndir alltaf að tala um fjöldatakmarkanir þá? Er ekki hægt að sjá til þess að fólk sem hingað kemur fái ásættanleg laun fyrir vinnu sína í stað þess að halda útlendingum fjarri landinu?

Mér finnst reyndar hálf hjákátlegt að flokksbróðir Jóns Magnússonar skuli segja þetta í athugasemdakerfi á hans síðu. Að stefna Frjálslyndra í innflytjendamálum snúist um annað en að draga fólk í dilka og halda fjölda innflytjenda í lágmarki.

hee (IP-tala skráð) 8.4.2007 kl. 18:36

22 Smámynd: J. Einar Valur Bjarnason Maack

Með því að halda fjölda í lágmarki er hægt að gera betur við þá sem hingað koma hvað varðar fræðslu, Íslenskukennslu og sv. frv...

Við getum ekki tekið við endalausu magni fólks, og það segir sig sjálft að þegar kreppan skellur á með komandi vinstristjórn... hverjir verða fórnarlömbin þá?

Ég er ekki hrifinn af því að kynþáttafordómar séu framleiddir eins og núverandi kerfi á Íslandi sækir í að gera. Mér er heldur ekki vel við það þegar ég er vændur um fordóma gegn útlendingum og svokallaða xenophobíu að tilhæfuleysi og án þess að nokkur rök séu borin fyrir því önnur en að ég tilheyri sjórnmálaafli sem hefur stefnu í innflytjendamálum. Það nefnast nefnilega fordómar.

Máské að þú getir kallað þig Frjálslyndrahatara?

Ef þú skoðar síður stjórnmálaflokkana sérðu kannski að XF og XB standa sig best hvað varðar fjölda tungumála  - til þess að aðstoða innflytjendur - á meðan hinir virðast sér láta fátt um finnast og virðast vilja áframhaldandi þrælahald. 

J. Einar Valur Bjarnason Maack , 8.4.2007 kl. 18:56

23 identicon

Ef Frjálslynda flokknum er virkilega umhugað um kjör innflytjenda hér á landi ættu þeir að átta sig á því að besta leiðin til að tryggja velsæld þeirra er ekki að takmarka fjölda útlendinga sem koma til landsins heldur að beita sér fyrir því að öflug eftirlit sé með atvinnurekendum sem grunaðir eru um að borga laun undir taxta, nú ásamt því að tryggja ókeypis íslenskukennslu fyrir aðflutta. Innflytjendur kosta okkur ekki neitt heldur þvert á móti borga með sér.

En óháð því, ef Frjálslyndum gengur gott eitt til skýrir það hins vegar ekki málflutning Jóns Magnússonar og fleiri. Af hverju er verið að hóta okkur með berklum og setja þá í samhengi við innflytjendur? Af hverju er verið að gefa í skyn að innflytjendur fremji hér hryðjuverk og smygli dópi frekar en aðrir (samanber Valdimar Leó á þingi)? Af hverju heldur Jón því fram þvert á allar tölur frá fangelsisyfirvöldum og lögreglu, að útlendingar séu frekar en aðrir að fremja hér glæpi? Af hverju dregur hann fólk í dilka eftir trúarbrögðum þar sem hann kýs kristna vesturevrópubúa umfram "syni Allah"? Af hverju grípa flokksmenn til þess óviðurkvæmilega slagorðs: Ísland fyrir Íslendinga? Hvert er fyrirmyndin sótt?

Ég tek fram að ég er hér að tala sem einstaklingur en ekki málsvari neins stjórnmálaflokks.

hee (IP-tala skráð) 8.4.2007 kl. 21:18

24 Smámynd: J. Einar Valur Bjarnason Maack

Ég hygg að besta leiðin væri að breyta atvinnuleyfakerfinu frá því að vinnuveitendurnir haldi atvinnuleyfunum og í að innflytjendur sjálfir haldi þeim.

Það er staðreynd að það er ónógt eftirlit með heilsu innfluttra Íslendinga og það er einnig staðreynd að nýr stofn af berklum hefur nýlega skotið rótum í gömlu austantjaldslöndunum. Það er hinsvegar vandmeðfarið hvernig er staðið að þeim málum.

Hvað varðar Valdimar Leó get ég ekkert sagt málflutningi hans til varnaðar í það skiptið enda hef ég sjálfur gagnrýnt þessa ákveðnu ræðu hans sem ég tel reyndar að hafi verið byggð á röngum/slæmum upplýsingum. Sjáðu til, þetta er jú flokkur einstaklinga sem ekki eru allir sammála ávalt.

Hvar hefur Jón talað um að útlendingar séu 'frekar en aðrir að fremja hér glæpi'? Ég minnist þess einungis að hann hafi drepið á því að við ættum að varast að flytja inn glæpamenn og finna ný úrræði gegn þeim sem hér ætla að setjast að og hefja hér glæpaferil. Mín helsta hugmynd gegn slíkum vandræðum væri að senda þá aftur til upprunalandsins.

Hvað varðar  trúarbragðaumræðuna er ég ósammála Jóni, þar sem ég er sjálfur trúlaus og fer ekki varhluta af því að öll trúarbrögð séu af hinu slæma séu þau á harðlínurófi, og þá gildir einu hver trúarbrögðin eru. Hinsvegar tel ég að við ættum að varast að flytja inn öfgafólk - þ.e. ef fólk getur ekki virt réttindi annara og farið að íslenskum lögum og okkar stjórnarskrá þá hefur það ekkert að gera hérlendis. Það verður hinsvegar að taka það inn í reikninginn að öfgasinnar finnast á meðal flestra trúarhópa.

Í Ástralíu hefur mikið borið á því að öfgasinnaðir Múslimar hafi ónáðað konur í sólböðum sökum 'ósiðlegs klæðnaðar'... ég veit ekki með aðra, en ég er frekar hlynntur því að konur hérlendis hafi frelsi til þess að fækka klæðum heldur en að þeim sé gert að klæðast búrkum.

Hvað varðar þetta annars ágæta slagorð held ég að það hafi jú reyndar verið klaufalega valið, en það er hinsvegar túlkunaratriði hvað er átt við með þessu. Helst vil ég bæta við;

Ísland fyrir Íslendinga - aðflutta og innfædda.


Ég tek það fram að ég tala ekki sem talsmaður flokksins, heldur sem einstaklingur sem er meðlimur í flokknum.

J. Einar Valur Bjarnason Maack , 8.4.2007 kl. 22:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 51
  • Sl. sólarhring: 848
  • Sl. viku: 4565
  • Frá upphafi: 2426435

Annað

  • Innlit í dag: 44
  • Innlit sl. viku: 4232
  • Gestir í dag: 43
  • IP-tölur í dag: 42

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband