Leita í fréttum mbl.is

Skikka skal stúdenta til bókakaupa

Í gær var sagt frá áhyggjum Rúnars Vilhjálmssonar prófessors í félagsfræði við Háskóla Íslands vegna þess að minna en þriðji hver stúdent við Háskóla Íslands kaupir sínar námsbækur. Rúnar telur þetta óásættanlegt og hefur hvatt til samhæfðra aðgerða.

Ekki kemur fram til hvaða samhæfðu aðgerða prófessorinn vill að gripið verði. Vafalaust skortir ekki úrræðin í frjóum hugmyndabanka starfslítilla prófessora við Háskóla Íslands. Þeim kæmi e.t.v. í hug að banna þeim sem kaupa ekki nýjar bækur að taka próf. Eða gefa nemendum sem kaupa nýjar bækur 2 í forskot í einkunn og áfram mætti telja.

Prófessorinn telur að minnihluti stúdenta HÍ kaupi nýjar bækur í Bóksölu stúdenta af því að þeir séu í yfirborðsnámi og temji sér slæmar námsvenjur. Auk þess nefnir prófessorinn að minna bóklestri sé um að kenna, námslánin séu ekki nógu góð,nemendur ljósriti og stundi ólöglegt niðurhald og gangi jafnvel svo langt að kaupa notaðar bækur.

Síðan hvenær urðu notaðar bækur verri en nýjar?

Félagsfræðiprófessornum kemur ekki í hug hið augljósa varðandi minnkandi bókakaup stúdenta. Námsbækur sem stúdentum er ætlað að kaupa eru svívirðilega dýrar. Þær eru svívirðilega dýrar m.a. vegna þess að prófessorar við HÍ ætla margir að innleysa gróða af fræðiskrifum sínum sem allra fyrst á kostnað stúdenta.

Í stað þess að vandræðast með að stúdentar kaupi ekki námsbækur eftir innlenda fræðimenn á uppsprengdu verði eða erlendar námsbækur sem fást á Amason fyrir 20-30% af verðinu sem Bóksala Stúdenta krefur fyrir sömu bók, þá væri nær að prófessorinn léti sér annt um hagsmuni nemenda sinna og annarra stúdenta. Mætti t.d. auðvelda nemendum að spara í bókakaupum m.a. með því að lærifeður litu á fræðistörf sín, sem skattgreiðendur greiða hvort sem er, sem hluta af framlagi til nemenda og gæfu þeim kost á að nálgast afrakstur fræðistarfanna á netinu eða með öðrum aðgengilegum hætti í stað þess að okra á ungu fólki.

það er ekkert annað en hrósvert að háskólastúdentar skuli í vaxandi mæli leita hagkvæmra leiða til að varðveita peningana sína og láti ekki okra á sér. Það er mikill mannsbragur af því þvert á það sem prófessorinn í félagsfræði heldur fram. Vonandi er það vísbending um að við komumst út úr okursamfélagi framleiðenda og fjármálastofnana þegar þessi kynslóð sem nú er í Háskólum landsins tekur við stjórnun þessa lands.

Valdbeitingarhugmyndir prófessorsins í félagsfræði gagnvart skynsemi nemenda sinna eru hins vegar nálægt því að vera teknar úr hugmyndabanka vinsælla stjórnmálastefna fyrir miðja síðustu öld. Það ætti hann að gera sér góða grein fyrir sem prófessor í félagsfræði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fyrir fáeinum árum átti ég erindi í aðalbyggingu NTNU í Þrándheimi. Þar inni er bókasafn og lestrarsalur sem ég leit aðeins inn í. Það sem vakti athygli mína var að svo virtist sem enginn þar inni læsi bækur. Allir voru með augun á tölvuskjá eða einhvers konar útprent. Einn piltur fyrir utan salinn var þó með þykka bók um náttúrufræði að mér sýndist. Nokkrum mánuðum síðar átti ég leið á fyrirlestur íOdda. Ég kíkti aðeins inn í lestrarsalinn. Þar var það sama uppi á teningnum. Engin bók í sjónmáli. 

Jón (IP-tala skráð) 27.8.2015 kl. 11:00

2 Smámynd: Jóhann Elíasson

Það er nokkuð margt sem verður að athuga í þessum efnum.  Bækur eru alveg óheyrilega dýrar.  Ekki er óalgengt verð á bók til dæmis sem þarf að nota í viðskiptafræði 12.000 - 14.000 og venjulega kemur ný útgáfa af þessari bók á tveggja til þriggja ára fresti.  Breytingarnar milli útgáfa eru í flestum tilfellum óverulegar (kaflar færði til, nýjar tölur í dæmum og fleira þess háttar) þannig að í höfuðatriðum er bókin sú sama og áður.  En þetta er stór markaður og það er verið að mjólka hann eins og hægt er.  Ekki er óalgengt að bókakostnaður á einni önn hjá nemanda í háskólanámi sé 60.000 - 70.000, þannig að sá sem fer í þriggja ára nám getur reiknað með að bókakostnaðurinn verði 360.000 - 420.000 og þessir nemendur vaða ekkert í peningum og það ætti ekki neinum að finnast óeðlilegt að fólk reyni að draga úr þessum kostnaði með því að kaupa notaðar bækur og jú um leið að stuðla að endurnýtingu og betri umgengni um náttúruna (það fer jú slatti af trjám í þessar bækur).  Ég er bara alls ekki að sjá hvaða aðgerða er hægt að grípa til í þessu en ætli Rúnar hafi keypt allar bækurnar sem hann notaði í sínu námi nýjar?

Jóhann Elíasson, 27.8.2015 kl. 13:57

3 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Það eru nú ekki alli háskólakennarar sem ástunda þessa miður kræsilegur fjáröflun, en vissulega hafa sumir mjólkað nemendur sína ótæpilega. Ummæli prófessorsins um aðgerðir eru þó óneitanlega ógnvekjandi.

Ragnhildur Kolka, 27.8.2015 kl. 17:04

4 Smámynd: Jón Magnússon

Takk Jón. Spurningin er þá af hverju er það slæmt þó að stúdentar kaupi ekki nýjar bækur en kaupi frekar notaðar og noti nútíma tækni.

Jón Magnússon, 27.8.2015 kl. 18:17

5 Smámynd: Jón Magnússon

Góð spurning Jóhann. Ef eitthvað er þá eyða nemendur hærri fjárhæðum en þetta í bókakaup á hverri önn nema þeir kaupi notaðar bækur eða hafi annan útveg.

Jón Magnússon, 27.8.2015 kl. 18:18

6 Smámynd: Jón Magnússon

Sem betur fer Ragnhildur þá eru langt frá því allir háskólakennarar sem hafa nemendur sínar fyrir féþúfur. En það er eins með þá sem það gera og rónana og brennivínið.

Já mér fundust þetta ansi sérkennileg ummæli og ályktanir hjá prófessornum. 

Jón Magnússon, 27.8.2015 kl. 18:19

7 Smámynd: Jón Þórhallsson

Mætti forgangsraða fjármunum betur en gert er hjá ríkinu tengt skólabókum nemenda?

http://thjodarskutan.blog.is/blog/thjodarskutan/

Jón Þórhallsson, 27.8.2015 kl. 19:33

8 identicon

Ég held að það sé verið að leggja rangt útfrá orðum Rúnars,hann gerir kröfur til nemenda og er ekki mikið fyrir að nemendur stytti sér leið.  Þetta veit ég því að hann var leiðbeinandi dóttur minnar og hleypti henni ekki áfram án þess að hún kynni það sem henni bar að kunna sem félagsfræðingur svo að mín þurfti að læra og fyrir það er ég mjög þakklátur.  Undan farin ár hef ég þurft að vinna innan háskólaveggja og hef ekki þótt sniðugt þegar ég hef heyrt nemendur væla undan því að þurfa að læra, og hugsað með þakklæti til Rúnars.

allidan (IP-tala skráð) 27.8.2015 kl. 22:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 285
  • Sl. sólarhring: 456
  • Sl. viku: 4332
  • Frá upphafi: 2427176

Annað

  • Innlit í dag: 252
  • Innlit sl. viku: 4012
  • Gestir í dag: 246
  • IP-tölur í dag: 240

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband