Leita í fréttum mbl.is

Forsetakosningar og framtíð þjóðar

Frækinn árangur landsliðsins í Frakklandi hefur fangað huga þjóðarinnar og dreift athyglinni frá því að á laugardaginn 25. júní kjósum við nýjan forseta lýðveldisins.

Allir eru sammála um, að til að landslið nái árangri verður að velja bestu leikmennina. Leikmenn sem hafa sýnt að þeir bugast ekki og kunna að bregðast við aðstæðum.

Í stjórnmálum telur fólk stundum að önnur sjónarmið gildi.

Sá frambjóðandi sem hefur bestan undirbúning og reynslu af þeim sem nú gefa kost á sér, er Davíð Oddsson. Miklu skiptir að við veljum þann hæfasta til að skipa þetta öndvegi í íslenskum stjórnmálum.

Því fer fjarri að við Davíð Oddsson höfum verið vinir í gegn um tíðina. Oft hefur okkur orðið sundurorða og haft mismunandi meiningar og átt í illdeilum. Ég hef oft á tíðum gagnrýnt Davíð hart m.a.afstöð hans til Íraksstríðsins, kvótakerfisins í sjávarútvegi og fjölmargra fleiri mála.

Hvað sem líður því að vera sammála eða ósammála þá er alltaf mikilvægt að virða hvern einstakling fyrir það sem hann stendur fyrir og getur. Þess vegna virði ég Davíð og hef gert vegna þeirra kosta sem hann hefur óháð því hvernig samskiptum okkar hefur verið háttað.

Í Hruninu 2008 varð mér ljóst að hrunvaldarnir gerðu allt sem þeir gátu til að koma þeirri sök á Davíð Oddsson að hann bæri ábyrgð á því að stærstu bankarnir urðu gjaldþrota. Það var ómaklegt og þau ár sem liðin eru frá Hruni hafa sýnt okkur að margt í starfsemi bankanna var andstætt lögum og aðgerðir framkvæmdar til að blekkja m.a. Seðlabanka og Fjármálaeftirlit.

Þau ár sem liðin eru frá Hruni hafa líka sýnt okkur að hefði ekki verið öflugur maður eins og Davíð Oddsson í áhrifastöðu þegar þeir atburðir gerðust þá hefðu afleiðingar Hrunsins orðið mjög þungbærar fyrir þjóðina og því fer fjarri að við byggjum við jafn góðan efnahag í dag og raunin er hefði hans ekki notið við.

Við greiðum ekki skuldir óreiðumanna sagði Davíð Oddsson þegar stærstu einkafyrirtækin á íslenskum fjármálamarkaði féllu. Davíð var legið á hálsi fyrir þessa afstöðu. Því var jafnvel haldið fram að vegna þessa hefðu Bretar beitt okkur því harðræði sem var langt yfir öll siðleg mörk í samskiptum þjóða, þegar þeir settu á okkur hryðjuverkalög. Allt slíkt tal var úr lausu lofti gripið eins og sagan hefur sýnt.

Það var einmitt þessi afstaða Davíð að greiða ekki skuldir óreiðumanna sem kristallaðist í aðgerðum stjórnvalda strax eftir Hrunið og þá var unnið þrekvirki við að bjarga málum og síðan í Icesave deilunni sem Davíð sýndi slíka dómgreind og fór fram með þeim hætti að komið var í veg fyrir að þjóðin yrði bundin á skuldaklafa erlendra áhættufjárfesta um áratuga skeið.

Þessar staðreyndir verður að hafa í huga. En það kemur fleira til. Því er haldið fram að maður sem hefur lengi verið í framlínu stjórnmála geti aldrei orðið sameiningartákn þjóðarinnar. Sé svo þá er eðlilegt að spurt sé hvort Ólafur Ragnar Grímsson forseti hafi ekki fljótlega eftir að hann tók við embætti forseta Íslands áunnið sér slíka stöðu.

Davíð Oddsson leiddi Sjálfstæðisflokk og Alþýðuflokk til samstarfs í ríkisstjórn og síðan Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk. Hann var forsætisráðherra í samsteypustjórnum lengur en nokkur annar íslenskur stjórnmálamaður frá lýðveldisstofnun. Til að vel fari við slíkar aðstæður þarf stjórnmálamaður að búa yfir stjórnunarhæfileikum og nauðsynlegri lempni til að ekki springi allt í loft upp. Maður sem hefur þá hæfileika að ná samsteypustjórn um árabil til að vinna saman hefur meiri burði en flestir aðrir til að sameina þjóðina.

Margir töldu óráðlegt á sínum tíma að velja Ólaf Ragnar Grímsson til forseta vegna fortíðar hans í stjórnmálum. Hann hefur getað hafið sig yfir flokkspólitískar þrætur og náð frábærum árangri í þessu mikilvæga starfi. Með sama hætti og ekki síður er Davíð Oddsson líklegur til að hefja sig yfir flokkadrætti og sameina þjóðina þegar þess er mest þörf.

Nú berast þær fréttir að Bretar hafi ákveðið að ganga úr Evrópusambandinu. Það eru því að renna upp nýir tímar, þar sem nauðsynlegt er að við stjórnvölin í mikilvægustu embættum landsins sé fólk sem veit hvað það vill. Veit hvert nauðsynlegt er að stefna og hefur sýnt það að hagsmunum lands og þjóðar er vel fyrir komið í þeirra höndum. Í forsetakosningunum á laugardaginn eigum við kost á að velja slíkan frambjóðanda Davíð Oddsson.

Oft gerist það í lýðræðsríkjum að nýungin er valin fram yfir reynsluna. Það gerðu Bretar í lok síðara heimstríðs. Þeir höfnuðu Winston Churchill sem leitt hafði þjóðina til sigurs og völdu nýungina. Þess vegna töpuðu Bretar friðnum og efnahagsleg hnignun urðu þeirra örlög.  

Stríðshrjáð rústað Þýskaland aftur á móti valdi sína bestu menn til verka og varð efnahagslegt stórveldi nokkrum árum síðar.

Það nær engin þjóð árangri nema hún velji besta fólkið.

  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.12.): 220
  • Sl. sólarhring: 502
  • Sl. viku: 4436
  • Frá upphafi: 2450134

Annað

  • Innlit í dag: 200
  • Innlit sl. viku: 4129
  • Gestir í dag: 196
  • IP-tölur í dag: 194

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband