Leita í fréttum mbl.is

2018

Árið 2018 gæti orðið ár sem fleytir okkur enn lengra áfram til betri lífskjara, aukins jöfnuðar og meiri velsældar. Það er undir okkur komið. Gæfan er fallvölt og oftast getum við sjálfum okkur um kennt hvort við göngum til góðs eða ills. 

Mesta áskorunin sem þjóðin stendur frammi fyrir  er hvernig tekst til með samninga um kaup og kjör. Miklar launahækkanir munu óhjákvæmilega leiða til verðhækkana, fallandi gengis og verðbólgu. Samt er skiljanlegt, að launafólk sæki kjarabætur og telji að ekki sé síður svigrúm fyrir hinn vinnandi mann að sækja kauphækkanir, en yfirstéttir þjóðfélagsins sem fá kaup og kjör ákvörðuð af Kjaradómi. 

Viðmiðun og verklag Kjaradóms skv. lögum um þann dóm, er með þeim hætti að aðalsstéttir þjóðfélagsins hafa fengið kjarabætur umfram aðra. Sú staðreynd hefur ekki leitt til þess að þingmenn hafi fundið sig knúna til að gera breytingar - heldur una glaðir við sitt þó þeir hafi á orði sumir hverjir að niðurstaða Kjaradóms sé umfram allt velsæmi. 

Niðurstaða Kjaradóms um kjör íslenskra aðalsstétta er umfram allt velsæmi. Ákvörðun um kjör Biskups Íslands er afleitt við upphaf kjaraviðræðna. Orð fjármálaráðherra. að ekki sé svigrúm til almennra kauphækkana þó sönn séu hafa því holan hljóm. 

Þrátt fyrir bábiljur og svartsýni sem m.a. kemur fram hjá framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna þá hefur liðið ár fært þjóðum heims aukna velsæld og dregið hefur úr fátækt milljóna.

Við vorum svo lánsömu að á sama tíma og alvarleg efnahagslægð reið yfir vegna óráðssíu og sóunar ásamt falls stærstu viðskiptabankanna að þá fengum við happdrættisvinninga. Fyrst makríl og síðan ofurferðamannastraum sem hefur skipt sköpum til að skapa fulla atvinnu og velmegun í landinu. Sá ávinningur gæti tapast fyrir aðgerðir okkar sjálfra. 

Þjóðina þarf að gæta þessa ávinnings og varðveita vel þá auknu fjármuni sem skila sér vegna þessa inn í þjóðarbúið, í stað þess að eyða þeim strax og jafnvel gott betur. 

Ríkisstjórnin hefur farið fram með glannalegum hætti við afgreiðslu fjárlaga og aukið ríkisútgjöld umfram það sem  skynsamlegt getur talist. Milljörðum er varið til ákveðinna málaflokka án eðlilegrar skoðunar og stefnumörkunar. 

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur nýtur mikils fylgis og er það að vonum þar sem mikil velsæld er í landinu. Stjórnarandstaðan hefur ekki gert annað en staðið í yfirboðum og krafist aukinna útgjalda eins og endalaust megi seilast dýpra í vasa skattgreiðenda, að vísu með einni undantekningu. 

Sjálfstæðisflokkurinn samdi pólitískt af sér við myndun ríkisstjórnarinnar og stendur nú að aðgerðum sem rýra möguleika einyrkja í atvinnurekstri og lítilla fyrirtækja til arðsköpunar og veldur aðstöðumun. Þar verður að verða stefnubreyting. 

Ríkisstjórnin hefur meiri möguleika en nokkur ríkisstjórn frá hruni til að standa að nauðsynlegum grundvallarbreytingum í þjóðfélaginu. Gæta þarf fengins fjár og stuðla að aukinni velsæld og stöðugleika í þjóðfélaginu. Forsendur þess að það takist eru m.a.,að skapa sátt á vinnumarkaði og fulla atvinnu. Tryggja jöfnuð í samfélaginu en síðast en ekki síst að vinna að því með markvissum hætti að draga úr skattheimtu bæði á launafólk og smáatvinnurekendur.

Allir eiga að sitja við sama borð óháð því hvaða atvinnurekstur þeir stunda m.a um greiðslu virðisaukaskatts.

Losa verður einstaklinga úr þeim ofurskattafjötrum sem hefur girt fyrir möguleika til eignamyndunar og sparnaðar.

Draga verður úr ofurvaldi lífeyrissjóða og heimila einstaklingunum að velja sparnaðarleiðir m.a. með því að leggja lífeyrissparnað í eignamyndun eins og eigið húsnæði í stað þess að greiða til lífeyrissjóða og þurfa síðan að taka okurlán hjá lífeyrissjóðnum. Það fyrirkomulag er hrein svívirða og hættulegt samfélagi sem vill vinna að velferð fyrir alla.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.1.): 690
  • Sl. sólarhring: 931
  • Sl. viku: 6426
  • Frá upphafi: 2473096

Annað

  • Innlit í dag: 627
  • Innlit sl. viku: 5855
  • Gestir í dag: 602
  • IP-tölur í dag: 589

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband