Leita í fréttum mbl.is

Vegin og léttvæg fundin.

Upplýst hefur verið að Sigríður Benediktsdóttir fyrrum framkvæmdastjóri hjá Seðlabanka Íslands nýtti sér fáránlegt hagræði sem Seðlabankinn setti sem heimilaði fólki að selja gjaldeyri á yfirverði. Þeir sem áttu eignir erlendis eða störfuðu þar gátu því hagnast verulega og gerðu það.

Ein af þeim sem nýtti sér þessa leið í hagnaðarskyni var Sigríður Benediktsdóttir fyrrum framkvæmdastjóri hjá Seðlabanka Íslands. Sá böggull fylgdi hinsvegar því skammrifi hvað hana varðar, að þetta gerði hún þvert á reglur Seðlabankans, sem bönnuðu ákveðnum stjórnendum bankans þar á meðal nefndri Sigríður að nýta sér þessa leið til auðsöfnunar. 

Þrátt fyrir að Sigríði væri bannað að selja gjaldeyrinn sinn á yfirverði, þá gerði hún það samt og komst upp með það. Þrátt fyrir ótvírætt brot á reglunum, þá gerði enginn athugasemd við þetta ólögmæta framferði Sigríðar. Þannig braut einn af framkvæmdastjórum Seðlabankans, nefnd Sigríðru þær reglur sem Seðlabankinn hafði sjálfur sett og komst upp með það.

Þannig hagnaðist Sigríður með ólögmætum hætti og taldi það eðlilegt á þeirri forsendu að forréttindaaðlinum sé það heimilt sem venjulegu fólki er bannað. 

Á árinu 2009 settist nefnd Sigríður í rannsóknarnefnd Alþingis varðandi bankahrunið ein þriggja nefndarmanna. Hún tók þátt í því ásamt meðnefndarmönnum sínum að fella dóma yfir fólki oft illa ígrundaða eða jafnvel ranga eins og Hæstiréttur Íslands hefur ítrekað staðfest. Þannig voru alvarlegir dómar felldir yfir fólki sem hafði ekkert til saka unnið eða  minna en Sigríður sjálf gerir sig seka um með ofangreindu atferli. 

Svo merkilegt sem það er í þessu þjóðfélagi þá þykir stjórnendaaðli þessarar þjóðar rétt að velja fólk sem álitsgjafa og stjórnunarstarfa úr þröngum hópi einstaklinga. Sigríður er ein þeirra sem náðarsól stjórnendaaðals þjóðarinnar skín hvað skærust á. Þess vegna var hún valin til þess fyrr á þessu ári að dæma um hæfi umsækjenda í starf Seðlabankastjóra þó að hún sæti í bankastjórn stærsta viðskitpabanka þjóðarinnar, sem heyrir undir Seðlabankann. Þetta var þeim mun fráleitara þar sem að með breyttri löggjöf heyrir Fjármálaeftirlitið líka undir Seðlabankann.

Bankaráðsmaðurinn í Landsbankanum hafði því virk afskipti af vali þess aðila sem á að hafa eftirlit með bankanum hennar. 

Í gamla Rómaríki var málsháttur sem hljóðaði einhvern veginn þannig "Quod licet Jovi non licet bovi". (það sem leyfist Júpíter leyfist ekki nautinu) þ.e. guðirnir mega en ekki alþýðan. Einn þessara guða í yfirfærðri merkinu í þessu þjóðfélagi sem er heimilt að dæma aðra, en er undanþegin allri skoðun og gagnrýni vegna eigin breytni er Sigríður Benediktsdóttir, sem nýtti sér með ólögmætum hætti að hagnast á grundvelli sérreglna Seðlabankans sem henni var óheimilt að nýta sér.

Já og enginn segir neitt af því að forréttindaaðallinn er ekki dæmdur eftir sömu reglum og múgamenn.

Sigríður Benediktsdóttir, sem hefur verið óvægin í dómum sínum yfir öðrum verður þó að sætta sig við að það sem segir í 7.kap. Mattheusarguðspjalls 1-2 vers hvenær svo sem það verður:

"Dæmið ekki svo þér verðið ekki dæmdir. Því að með þeim dómi sem þér dæmið, munuð þér dæmdir og með þeim mæli sem þér mælið mun yður mælt verða.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Góður ertu, nafni, í réttsýnni og tímabærri gagnrýni þinni.

Jón Valur Jensson, 31.7.2019 kl. 14:39

2 Smámynd: Jón Magnússon

Ekki veit ég það svo gjörla ágæti nafni, en hitt veit ég að það sem hún segir um að hún hafi bara skipt lítilli fjárhæð, er einhiða frásögn hennar og Seðlabankinn gefur engar upplýsingar. Almennt var þessi fjárfestingarleið Seðlabankans ekki í boði fyrir venjulegt fólk ef ekki var um verulega hærri fjárhæðir að ræða. 

Jón Magnússon, 31.7.2019 kl. 15:46

3 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Þessar upplýsingar koma í sömu viku og upplýst er um sérlega greiðvikni bankans við starfsmann sem kostaði fyrirtæki og fólk í senn gríðarlega fjármuni og æru.

Hvernig er það hefur enginn eftirlit með bankanum? Hvað með Ríkisendurskoðun?

Ragnhildur Kolka, 31.7.2019 kl. 19:11

4 Smámynd: Jón Magnússon

Einmitt Ragnhildur. Ingibjörg var algerlega vanhæfur starfsmaður, en fékk samt að starfa áfram þrátt fyrir að ávirðingar hennar væru augljósar. Það virðist vera eins og hún og Már hafi verið í einskonar Hræðslubandalagi um að ósómi þeirra yrði opinberaður of snemma. Síðan er það með endemum og sýnir glórulausa spillingu að verðlauna hinn vanhæfa starfsmann með 18.3 milljón króna starfslokasamningi sem sagt er vera námsstyrkur til að hægt sé að stunda skattasniðgöngu. Gjörspillt fólk Már, Ingibjörg og Sigríður Benediktsdóttir og sjálfsagt margir fleiri úr klíkunni. 

Jón Magnússon, 31.7.2019 kl. 22:49

5 Smámynd: Halldór Jónsson

Það er alltaf allt í lagi hjá aðlinum og vinstra liðinu.

Halldór Jónsson, 1.8.2019 kl. 10:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.11.): 70
  • Sl. sólarhring: 344
  • Sl. viku: 3907
  • Frá upphafi: 2428128

Annað

  • Innlit í dag: 59
  • Innlit sl. viku: 3607
  • Gestir í dag: 59
  • IP-tölur í dag: 58

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband