Leita í fréttum mbl.is

Friðarins jól

Í fyrri heimstyrjöld stóð þýskur hermaður varðstöðu á hernumdu svæði í Frakklandi á jólanótt. Breskur hermaður sem, hafði orðið viðskila við liðsmenn sína sá þýska hermanninn og mundaði byssuna til að skjóta hann. Á sama augnabliki dró ský frá fullu tungli og breski hermaðurinn sá andlit þýska hermannsins greinilega. Allt í einu hóf þýski hermaðurinn auglit sitt til himins og fór að syngja "Heims um ból".  Breski hermaðurinn lét byssuna síga og hlustaði á yndislegan sönginn og ákvað að skjóta ekki og fara til baka.

Allmörgum árum síðar var stórt farþegaskip á leið yfir Atlantshafið til Bandaríkjanna á aðfangadag. Fjöldi farþega var um borð og meðal þeirra frægur þýskur söngvari. Skipstjórinn bað hann um að syngja Heims um ból á aðaldekkinu þegar kvöldaði. Veður var kyrrt, tunglið var komið upp og gekk sinn gang. Þýski stórsöngvarinn horfði til himins og hóf síðan upp raust sína og söng "Heims um ból". Þegar hann hafði lokið söng sínum vék sér að honum maður og spurði hvort hann minntist þess að hafa staðið varðstöðu í fyrri heimstyrjöld á ákveðnum stað í Frakklandi fyrir mörgum árum á aðfangadagskvöld. Söngvarinn sagðist muna vel eftir því. Þá sagði sá sem vék sér að honum. Ég var þar líka og ætlaði að skjóta þig. En þegar þú byrjaðir að syngja og eftir það, þá gat ég ekki fengið það af mér. Þú átt söngnum það að þakka, að þú ert hérna núna.

Þessi saga segir okkur að í miðri vifirringu styrjaldar, þá horfir kristið fólk til þess, að jólin eru táknmynd friðar og velferðar alls mannkyns. Það er okkar að reyna að tryggja það, að þannig geti allt kristið fólk notið jólahátíðarinnar. Við Íslendingar höfum verið svo gæfusöm þjóð, að hafa notið friðar öldum saman og getað rækt trú okkar óáreitt. Fjöldi annarra kristinna er ekki svo lánsamur.

Skýrsla sem unnin var fyrir breska utanríkisráðuneytið og kom út í s.l. maímánuði segir að sumsstaðar á jörðinni séu útrýming kristins fólks svo mikil og skipulögð að raunverulega sé um þjóðarmorð að ræða. Þar sem vagga kristninnar stóð í Mið-Austurlöndum hafa árásir á kristna verið hvað mestar og fjöldi kristinna í Írak eru nú rúmlega 100 þúsund, en þeir voru árið 2003 ein og hálf milljón. Lagt er til að þess verði krafist af ríkjum í Mið-Austurlöndum, Egyptalandi og löndum norðanverðrar Afríku, að þau hlutist til um að tryggja réttindi og öryggi kristins fólks og fjallað um það hvernig þjóðir heims geti lagt sitt að mörkum og leiðir til þess að tryggja trúfrelsi kristins fólks.

Í stefnuskrá breska Íhaldsflokksisn fyrir síðustu kosningar kom fram, að flokkurinn ætlar að beita sér fyrir að þær tillögur, sem koma fram í skýrslunni nái fram að ganga. Boris Johnson forsætisráðherra mun hafa brugðið verulega þegar hann var utanríkisráðherra Breta þegar hann sá þær staðreyndir, sem eru fyrir hendi um ofsóknir á hendur kristnu fólki og  hvað það þarf að þola. Að jafnaði eru 12 kristnir drepnir í trúarbragðaofsóknum á hverjum einasta degi.

Í jólaávarpi sínu í dag mun Boris Johnson lýsa yfir samúð með kristnu fólki sem sætir ofsóknum um allan heim og heita því að styðja það til að það geti iðkað trú sína og segja;

"Í dag umfram aðra daga, vil ég að við minnumst kristins fólks um allan heim, sem þarf að þola ofsóknir" og síðan; "Sem forsætisráðherra vil ég breyta ákveðnum hlutum. Við munum standa með kristnu fólki hvar sem er í algerri samstöðu og verja réttindi ykkar til að iðka trúarbrögð ykkar hvar sem er í heiminum" 

Þessi boðskapur breska forsætisráðherrans og stefnumörkun Íhaldsflokksins fyrir síðustu kosningar um að standa vörð um réttindi kristins fólks í heiminum er kærkomin nýlunda í hinum vestræna heimi. Fram að þessu hafa stjórnmálamenn Vestur Evrópu og því miður kristnar kirkjur látið eins og þeim komi málið ekkert eða lítið við. 

Nú skiptir máli að orðunum fylgi athafnir og kristnar þjóðir fylki sér einhuga undir þann gunnfána frelsis og mannréttinda, sem Boris Johnson talar um og gæti þess að kristið fólk njóti mannréttinda hvar sem er í heiminum og fylgi því eftir með þeim hætti, sem þörf krefur til að sá árangur náist, að kristið fólk hvar sem er í heiminum megi njóta friðarjóla og geti iðkað trú sína án stöðugs ótta. 

Ég óska ættingjum mínum og vinum sem og landsmönnum öllum og kristnu fólki hvar sem er í heiminum;

GLEÐILEGRA JÓLA.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Gott að lesa þennan góða pistil og ein kristin sendir til baka hugheilar óskir um - Gleðileg Jól! 

Helga Kristjánsdóttir, 24.12.2019 kl. 13:06

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Fallegt er þetta jólablogg þitt, nafni. Undursamleg þessi saga úr heimsstyrjöldinni.

En frá deginum í dag:

Hve guðsþakkarvert að Boris Johnson ætlar sér þetta, og hvílíkar eru líka knýjandi, sorglegu ástæðurnar!

En margir stjórnmálamenn á Vesturlöndum hafa hummað þetta fram af sér, og þegar ég og fleiri höfum (t.d. á Facebók) leyft okkur að stinga upp á, að hingað verði fengnir KRISTNIR flóttamenn og Jasídar frá Sýrlandi og Írak fremur en múslimskir, þá höfum við jafnvel verið atyrtir fyrir það, vændir um "mismunun" einu sinni enn! En þetta eru meðal góðra og gildra ástæðna til að fá hingað kristna flóttamenn fremur en aðra:

1) Þeir eru ofsóttasti trúarbragðahópur heimsins í dag, en samt hefur lægra hlutfall af þeim fengið hér landvist heldur en af þeim múslimsku.

2) Þeir eiga auðveldara, vegna kristni sinnar, með að aðlaga sig að okkar samfélagi og siðum heldur en múslimar, geta m.a. farið strax að stunda sína trú í kirkjum hér, og það er ekki lítils virði að vera þar í reglulegum athöfnum, með rítúali og söng, til að ná núönzunum í framburði íslenzkunnar (sem allir nýbúar eiga auðvitað að læra); og þeir hafa síður en múslimar einhverja andfélagslega siði, sem há þeim, á skjön og ská við okkar siði.

3) Það er því líka auðveldara fyrir okkur að aðlagast þessu kristna fólki.

4) Nú stefnir í að ein eða ein og hálf milljón manns streymi í nýrri bylgju flóttafólks frá Sýrlandi til Tyrklands á næsta ári (og að Grikkir fái þá til sín 100.000 flóttamenn frá Tyrklandi). Hætt er við, að meðal einmitt þessa stóra hóps sé hærra hlutfall öfgamanna Ríkis islams (ISIS), sem hafa beðið þarna ósigur, heldur en í fyrri flóttamannahópum. Þeim mun meiri ástæða er til að taka hér aðeins við kristnu flóttafólki.

Og ef "jákvæð mismunun" (sem femínistar og vinstri menn hafa oft verið mjög hlynntir) hefur einhvern tímann átt við, þá er það einmitt nú --- eins og líka í Indlandi; þar láta stjórnvöld engan tala sig inn á það að fjölga þar múslimum, heldur reyna að bjarga ofsóttum hindúum frá ýmsum nágrannalandanna.

Jón Valur Jensson, 24.12.2019 kl. 15:38

3 Smámynd: Jón Magnússon

Takk fyrir það Helga sendi til baka góðar kveðjur til þín.

Jón Magnússon, 24.12.2019 kl. 17:04

4 Smámynd: Jón Magnússon

Þakka þér fyrir Jón Valur. Ég er algerlega sammála þér í því sem þú skrifar í þína athugasemd.

Jón Magnússon, 24.12.2019 kl. 17:05

5 Smámynd: Benedikt Halldórsson

Gleðileg jól

Benedikt Halldórsson, 24.12.2019 kl. 20:32

6 Smámynd: Jón Magnússon

Gleðileg jól Benedikt. Vona að þú og þínir eigið góðan tíma um þessa jólahátíð. 

Jón Magnússon, 25.12.2019 kl. 11:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.1.): 30
  • Sl. sólarhring: 823
  • Sl. viku: 5766
  • Frá upphafi: 2472436

Annað

  • Innlit í dag: 23
  • Innlit sl. viku: 5251
  • Gestir í dag: 21
  • IP-tölur í dag: 21

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband