Leita í fréttum mbl.is

Hvað með hin áttatíu

Aðeins 20% kjósenda greiddu lista Dags B. Eggertssonar borgarstjóra atkvæði sitt og meirihlutinn sem hann klambraði saman fyrir 4 árum er ekki lengur meirihluti. Nú reynir á oddvita Sjálfstæðisflokks og Framsóknar að freista þess að mynda nýjan meirihluta, gangi það ekki eftir hefur þeim mistekist hrapalega strax í upphafi kjörtímabilsins. 

Í sjálfu sér má segja að kjósendur hafi ekki heldur verið sérstaklega að kalla á Sjálfstæðisflokkinn til forustu í Reykjavík þar sem flokkurinn tapaði umtalsverðu fylgi og hefur aldrei notið eins lítils stuðnings kjósenda hlutfallslega og núna.

Við slíkar aðstæður hefðu margir talið að eðlilegt væri fyrir Flokkinn að hugsa sinn gang og gaumgæfa hvað er það sem veldur þessu afhroði í kosningunum því það verður ekki kallað neitt annað, eftir að Flokkurinn var búinn að vera í fjögur ár í stjórnarandstöðu gegn hraklega lélegum meirihluta.

Í pólitík er  aldrei valkostur að gefast upp, þó stundum geti verið skynsamlegt að huga að öðru en valdastólum. En við þær aðstæður sem nú eru í Reykjavík þá verða oddvitar Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks að reyna til hins ítrasta að mynda starfhæfan meirihluta í Reykjavíkurborg. Kjósendur veittu þeim ekki atkvæði sitt til að kalla Dag yfir sig enn einu sinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sammála þér.  Það yrði pólitískt "harakiri" hjá Einari, oddvita Framsóknar, að ganga til samstarfs við afdankaðan borgarstjórann eftir að hafa hamrað á nauðsyn breytinga, þegar hann sóttist eftir atkvæðum.  Þau komu ekki til hans frá vinstri.  Þau komu frá hægri.  

Bjarni Jónsson, 16.5.2022 kl. 17:22

2 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Þriðjungur þjóðarinnar mætti ekki; Það eru atkvæði gegn Lýgveldinu.

Guðjón E. Hreinberg, 16.5.2022 kl. 21:45

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Í kosningum eru aðeins talin þau atkvæði, sem greidd. Fjarvera kjósenda er ekki hægt að meta sem atkvæði gegn eða með neinum. 

Ómar Ragnarsson, 17.5.2022 kl. 00:36

4 identicon

Ég segi það sama. Vandamálið með Dag er bara það, að hann þekkir ekki sinn vitjunartíma, og vill vera borgarstjóri til dauðadags, hvað sem hver segir. Við kjósendur eigum bara að sætta okkur við það, og ekkert múður. Hann tekur ekkert mark á kosningum. Þær eru líka í rauninni óþarfar, ef Dagur og kó heldur áfram. Ég sá alveg fyrir, að hann mundi reyna að fá sósíalistann til að stökkva um borð í vagninn sinn, svo að hann og hans lið geti í annað sinn stolið sigrinum til þess að halda áfram eyðileggingarverki sínu í borginni, og verið þar sem hann er, þangað til honum þóknast að detta niður dauður. Hann er farinn að líkjast einum of mikið afrísku og suðuramerísku forsetunum, sem neita með öllu að gefa öðrum eftir völdin, og láta heldur bera sig út í böndum eða skjóta sig ella, heldur en að viðurkenna ósigur og draga sig í hlé. En Samfylkingin bíður líka tjón af að þessu öllu saman, enda segi ég alltaf, að þeir Logi og Dagur muni endanlega ganga að Samfylkingunni dauðri. Það er alveg áreiðanlegt.

Guðbjörg Snót Jónsdóttir (IP-tala skráð) 17.5.2022 kl. 10:33

5 Smámynd: Geir Ágústsson

Er ekki alltaf nýr Dagur eftir kosninganótt í Reykjavík? Sama hvað?

Geir Ágústsson, 18.5.2022 kl. 22:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.12.): 214
  • Sl. sólarhring: 509
  • Sl. viku: 4430
  • Frá upphafi: 2450128

Annað

  • Innlit í dag: 195
  • Innlit sl. viku: 4124
  • Gestir í dag: 191
  • IP-tölur í dag: 189

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband