Leita í fréttum mbl.is

Frelsi eða flokksræði

Frá því var sagt í fréttum RÚV í gær, að athafnamaðurinn Bolli Kristinsson, sem er innmúraður og innvígður Sjálfstæðismaður hefði beðið miðstjórn Sjálfstæðisflokksins, að samþykkja að flokksfólk gæti borið fram auka- og/eða viðbótarlista svo sem heimilt er í kosningalögum til að aukinn stuðningur gæti komið frá kjósendum við grunngildi Sjálfstæðisstefnunnar þ.e. DD eða jafnvel DDD lista. Hugmyndin kviknar vegna þess að Bolli telur uggvænlega horfi með stuðing við Sjálfstæðisflokkinn í næstu kosningum og skoðanakannanir bera þess glöggt vitni. 

Því miður brást formaður Flokksins illa við þessum hugmyndum og taldi að sér vegið, en fjarri fer því. 

Umræða um auka- eða viðbótarlista Sjálfstæðisflokksins hefur iðulega komið upp jafnvel löngu áður en formaður Sjálfstæðisflokksins fæddist. Að hverjum var þá vegið?

Veturinn og vorið 1968 var umræða um málið mjög hörð innan Flokksins og ungir Sjálfstæðismenn leiddu þá umræðu. Þar fór fyrir hópunum Ármann heitinn Sveinsson laganemi, sem með skarpskyggni og frábærri rökhyggju rak málið. Á þeim tíma var ágreiningurinn um það hvort að stefna ætti í átt til flokksræðis með því að ekki fengist að bjóða fram aukalista nema miðstjórn eða sambærilegt stjórunarapparat flokka samþykkti það. Við kölluðum það á þeim tíma "flokksræðistillögu" og vildum að flokksmenn hefðu frelsi svo sem verið hefði til að bjóða fram lista í nafni flokksins síns. Bolli er í raun ekki að fara fram á neitt annað .

Við stóðum fyrir stórum fundi í hádegi á laugardegi vorið 1968 í Odd Fellow húsinu, þar sem framsögumenn voru Jóhann Hafstein þáverandi dómsmálaráðherra, sem bar fram flokksræðistillöguna (eins og við kölluðum hana)og Ármann Sveinsson. Eftir að hart hafði verið tekist á, þar sem ég hafði mig töluvert í frammi ásamt Ármanni, lauk fundinum eins og vera bar og þegar ég var á leið út úr fundarsalnunum. Heyrði ég kallað djúpri röddu dómsmálaráðherra sem sagði "Jón viltu koma og tala við mig." Nú bjóst ég við að fá yfirhalningu því að Jóhann var nokkuð þykkjuþungur á stundum á fundinum. En svo var ekki. Jóhann sagði. "Viltu tala við hann Ármann og ég vil fá ykkur í heimsókn heim til mín upp í Háuhlíð kl 4 í dag.

Við mættum og áttum ekki von á góðu, en það fór heldur betur á annan veg. Umræður okkar voru málefnalegar og einlægar og þegar þeim lauk var bryddað upp á fleiru svo sem nauðsyn sérstaks átaks í húsnæðismálum fyrir ungt fólk  "eign fyrir alla." 

Þó tekist væri hart á um þessi mál, þá leit Jóhann ekki á það sem einhvern óvinafagnað sem stefnt væri gegn sér. Á þeim tíma var alsiða í Sjálfstæðisflokknum, að forustumenn og aðrir flokksmenn mættu til umræðna á fundum á jafnréttisgrundvelli en ekki eins og nú er, þar sem boðið er upp á það í besta falli, að bera fram fyrirspurnir til hávelborinheitanna. 

Þessi eftirmiðdagur á heimili Jóhanns og góð samskipti sem tókust með okkur í framhaldi er mér ógleymanleg og þessi vaski stjórnmálaleiðtogi sem hafði staðið í stórorustum þegar kommúnistar og nasistar sóttu að frelsinu og haft sigur með félagi sínu Vöku félagi lýðræðissinna í Háskóla Íslands.

Þegar deilur urðu í Flokknum síðar sagði Jóhann Hafstein þessi fleygu og eftirminnilegu orð á Landsfundi á Hótel Sögu. Stuðningsfólk Geirs Hallgrímssonar og Gunnars Thoroddsen deildu hart á fundinum og þá sagði Jóhann: 

"Það er engin maður svo merkilegur að Sjálfstæðisflokkurinn sé ekki miklu merkilegri." 

Forustumenn Flokksins á hverjum tíma ættu að tileinka sér þessi sjónarmið. 

Nokkrum sinnum hafa komið óskir frá frambjóðendum að bjóða fram DD lista og mér er sérstaklega minnistæð tilmæli Sigurlaugar Bjarnadóttur og Jóns G. Sólnes, sem bæði höfðu verið þingmenn flokksins. Því miður sagði miðstjórn nei og setti sig í sömu stellingar og fákeppnisfyrirtæki. Ég sat á þeim tíma  í miðstjórn og talaði fyrir því einn manna að þeim yrði heimilað að fá DD lista. Hefði það gengið eftir hefði Sjálfstæðisflokkuinn í bæði skipti bætt við sig þingmanni. Skoðað í baksýnisspeglinum þá hefði það ekki verið neitt nema gott með sama hætti og þeir þingmenn Sjáflstæðisflokksins sem voru í stjórnarandstöðu á tímum "Nýsköpunarstjórnarinnar" svokölluðu sátu þingflokksfundi með stjórnarþingmönnunum. 

Einu sinni kastaðist svo í kekki milli vinanna Ólafs Thors formanns Flokksins og Péturs Ottesen bændahöfðingja, að Ólafur sagði "Nú skil ég af hverju þú ert eina sauðnautið sem hefur þrifist hér, Pétur." Pétur varð svo reiður að hann hljóp á dyr og skellti svo rækilega á eftir sér að rúða sem var í hurðinni mölbrotnaði. Talað var um að kaupa nýja rúðu en Ólafur sagði. "Ekki fyrr en Pétur kemur aftur"   Mér finnst þetta dæmi um heilbrigð skoðanaskipti manna sem keppa að sama marki, en sjá mismunandi leiðir til þess á stundum. 

Vegna þess að það hefur verið eindregin afstaða miðstjórnar að hafna viðbótaraframboðum, þá er eðlilegt að Bolli Kristinsson leiti eftir því þar sem honum er í mun, að Sjálfstæðisflokkurinn geti vaxið og dafnað og verði á ný stór og öflugur flokkur, þjóðarflokkur,  og leitar því leiða með því að bera þessa fyrirspurn undir miðstjórn.  Ekkert er eðlilegra og því fer fjarri að það sé verið að ráðast á einn eða annan. Það væri gaman ef Flokksforustan mundi taka þessa tilögu til alvarlegrar umræðu meðal flokksfólksins.

Á þeim tíma sem við Ármann stóðum í eldlínunni og börðumst fyrir auknu frelsi flokksfólksins var einvalalið í forustu Flokksins. Nægir að nefna Bjarna Benediktsson eldri formann flokksins, Jóhann Hafstein, Birgir Kjaran sem var ómetanlegur hugmyndafræðingur Flokksins, Gunnar Thoroddsen og Geir Hallgrímsson. Engin stjórnmálaflokkur á Íslandi hefur nokkru sinni átt slíku einvalaliði á að skipa eins og Sjálfstæðisflokkurinn á sjöunda áratug síðustu aldar. Þar voru garpar, sem lögðu sig í líma við að hlusta á flokksfólkið og taka tillit til þess. Við dáðumst að þessu mönnum og tókum þá okkur til fyrirmyndar eftir því sem við gátum. Því var heldur betur ekki fyrir að fara að við værum að ráðast á þá sem við dáðum mest í pólitík, þó við værum ekki alltaf sammála þeim.

Ég hef lagt það til, að Sjálfstæðisflokkurinn efni til funda um allt land, þar sem staða og stefna Flokksins verið rædd hispurslaust og í einlægni og forustufólk og aðrir Flokksmenn sitji við sama borð í þeim umræðum. Það er nóg að hafa einn eða tvo forustumenn á hverjum fundi. 

Það þarf ekki að vera rútubílafarmur.

 

Oft var þörf en nú er nauðsyn og það væri þá alla vega komið plan sem ungir Sjálfstæðismenn eru að kalla eftir.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur Ágúst Hraundal

Heyr, heyr. Án samtals verður engin breyting. Það sem vantar hjá flokksforystunni er að taka samtalið og hlustsa, hvað fólkið á gólfinu hefur að segja. Oft er betra að hlusta, því okkar dýrmætasti maður er sá er segir minnst.

 

Það skemmir ekki fyrir að hvað það er mikið að fallegu og frambæru ungu fólki í flokknum, ásamt gömlu héraðs höfðingjunum og spúsum er standa sem fastast við fúnu fjölina.

 

Langar mig að enda þetta að orðum Áslaugu Örnu.

 

 

„bretum upp ermar og stöndum saman og leggjum allt undir til að við getum orðið, en meiri. Miklu, miklu stærri Sjálfstæðisflokkur“.

Ólafur Ágúst Hraundal, 6.9.2024 kl. 08:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 351
  • Sl. sólarhring: 720
  • Sl. viku: 4865
  • Frá upphafi: 2426735

Annað

  • Innlit í dag: 327
  • Innlit sl. viku: 4515
  • Gestir í dag: 321
  • IP-tölur í dag: 306

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband