Leita í fréttum mbl.is

Bankinn minn og ég.

Fyrir rúmum 60 árum stofnaði ég til viðskiptasambands við bankan, sem hét Útvegsbanki Íslands. Á þessum 60 árum hefur bankinn breytt um nafn og kennitölu fjórum sinnum, fengið aðstoð frá ísl. ríkinu til að lifa af og á stundum ástundað vafasama fjármálastarfsemi.

Aldrei hefur brugðið skugga á samskipti mín og bankans míns. Bankinn hefur geymt peningana mína og haft af því vænan arð með að lána þá gegn ofurvöxtum en greiða mér litla sem enga í staðinn. Bankinn hefur lánað mér þegar ég hef þurft á að halda og það hefur bankinn minn alltaf fengið greitt á gjalddaga. 

Meðan umsýsla mín var meiri en nú, gat ég alltaf leitað til bankans míns um nauðsynlega fyrirgreiðslu. Þeir vissu að ég var öruggur viðskiptavinur og þurfti ekkert greiðslumat upp á það. 

Ég hafði alltaf rúma yfirdráttarheimild í bankanum, sem var  nánast aldrei notuð, en svo kom að mér var tilkynnt, að ég yrði að fara í greiðslumat vegna yfirdráttarheimildar. Ég ákvað þá að hafa enga slíka. 

Svo fór um daginn, að bankinn sem gerir ekki annað en að geyma eignir mínar og græða á því krafðist þess að ég upplýsti hann um persónulega hluti, sem þeim kom ekki við en geta svo vel séð af rúmlega 60 ára viðskiptasögu okkar. Bankinn færði sig þá upp á skaftið og heimtaði skattskýrslur og hótaði því að annars mundu þeir leggja hald á eigur mínar, sem bankinn hefur ekkert með að gera annað en að geyma fyrir mig. 

Ég þoli ekki hótanir og rís jafnan upp á afturfæturna ef mér er hótað. Ég bauð bankanum að hann gæti fengið umboð til að hnýsast í mínar skattskýrslur hvenær sem hann vildi svo langt aftur í tímann sem hann kysi. En ég kynni ekki við svona tuddameldingar um að þeir ætluðu sér að láta greipar sópa um eigur mínar. 

Nú er bankanum e.t.v. vorkun og uppálagt af ríkisins megtugu kapelánum, að vandræðast sem mest við almenna viðskiptavini. Það er auðveldara en að taka á hinum stóru og kemur sjálfsagt betur út í eftirlitsbókhaldinu að ágengum spurningum hafi verið beint til 80% viðskiptavina og mál þeirra könnuð, en að segja að mál þeirra 10% sem koma e.t.v. til greina í málum varðandi peningaþvætti hafi verið skoðuð.

Já þannig er nú eftirlitsiðnaðurinn hann er sko heldur betur rekinn gegn réttlátum en þeir ranglátu sleppa.

Þannig rifjast oft upp orð sveitunga míns Jóns Hreggviðssonar um réttlæti og ranglæti. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Júlíus Valsson

Okkur er engin vorkunn, Jón. Við kusum þetta lið yfir okkur. Við þurfum nýja hugsun í okkar litla þjóðfélagi. Næst kjósum við taktískt, a.m.k. ég. 

Júlíus Valsson, 6.9.2024 kl. 09:47

2 identicon

Held því miður þetta tengist lítið viðskiptabanka þínum... snýst allt um lög, peningaþvættislög

https://www.althingi.is/lagas/nuna/2018140.html

Kristín (IP-tala skráð) 6.9.2024 kl. 14:29

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Bankinn "þinn" hefur aldrei lánað peningana þína út.

Þegar þú lagðir peningana þína inn í bankann eignaðist hann þá án þess að þú vissir það og skráði það sem innlán sem er bara inneign hjá bankanum en ekki "peningar í geymslu" (ég hef það staðfest frá ríkissaksóknara). Innlán er aðeins tiltekið form kröfuréttinda sem þú hefur heimild til að innleysa eftir þeim skilmálum sem gilda um bankareikninginn samkvæmt sífellt þrengjandi geðþóttaákvörðunum bankans.

Þegar sú sóttir um lán og fékkst það afgreitt voru engir peningar teknir af þér eða öðrum viðskiptavinum bankans til að veita þér lánið heldur skrifaði bankinn bara nýja innstæðu á reikninginn þinn og kallaði það "móttöku endurgreiðanlegra fjármuna" sem hann bókfærði sér til eignar. Þannig bjó bankinn til nýja innstæðu á móti skuldarviðurkenningunni, ekki með millifærslu heldur nýskráningu í bókhaldi sínu.

Þegar bankinn tók við vaxtagreiðslum af lánum þínum var hann ekki að innheimta vexti innlána enda voru þau ekki notuð til að veita útlán, heldur að taka vexti af kröfu sem hann bjó til á hendur þér þegar útlánið var veitt og bjó samtímis til jafn háa innstæðu hjá þér sem lántakanda. Þessar vaxtagreiðslur bókfærði bankinn sér sem tekjur og hirti þannig gróða af innstæðu sem hann bjó til sjálfur. Með öðrum orðum greiddir þú bankanum fyrir hans eigin tilbúning.

Bankinn notaði svo einhvern hluta af þeim tekjum sem hann hafði af þessum tilbúningi til að bókfæra sem vexti á þær innstæður sem þú og aðrir áttu í bankanum. Hversu háar þær færslur yrðu ákvað bankinn af eigin geðþótta þannig að hann væri a.m.k. ekki að lofa meiru en hann sjálfur myndi hagnast um að frádregum rekstrarkostnaði og ávöxtunarkröfu eigenda sinna. Þannig reyndi bankinn að viðhalda þeirri tálsýn að þú værir að fá einhverja ávöxtun á það fé sem þú lagðir inn til hans með því að "lána það út" (sem hann gerði ekki) og gefa þér loforð á móti (en ekki peninga).

Bankinn lánar aldrei peninga, hann veitir bara loforð sem eru aldrei meira virði en það traust sem þú hefur á bankanum. Það er mikilvægt að átta sig á þessu ef þú ætlar að eiga viðskipti við banka. Þess vegna forðast ég viðskipti við banka enda hef ég slæma reynslu af því að þau loforð sem þeir veita standast ekki alltaf og afleiðingarnar af því geta verið mjög slæmar fyrir lífsafkomu þína og þinna nánustu.

Það er löngu orðið tímabært að svipta hulunni af þeirri tálsýn sem bankastarfsemi raunverulega er. Ekki síst vegna þess að útlánin eru talin af Seðlabanka Íslands sem aukning paningamagns í umferð (þó hann neiti því á sama tíma að það séu löglegir peningar) því þetta aukna peningamagn kyndir undir verðbólgu sem rýrir kaupmátt okkar allra og dregur þannig úr lífsgæðum okkar. Enginn kjörinn fulltrúi fer með löglegt umboð til þess heldur er það í höndum ókjörinna aðila og oft á tíðum einkaaðila sem kjósendur hafa aldrei samþykkt að veita slíkt vald.

Hver einasti stjórnmálaflokkur sem þykist berjast fyrir lægri sköttum ætti að byrja á því að einbeita sér að þeim "sköttum" sem ókjörnir bankastjórnendur leggja á almenning í formi vaxta sem þeir taka af sínum eigin tilbúningum. Enda er það stærsti útgjaldaliður flestra heimila.

Hættum að vera leiksoppar fjármálakerfisins!

Guðmundur Ásgeirsson, 7.9.2024 kl. 02:49

4 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Bankaofsóknir hófust hérlendis á svipuðum tíma og í Kanada og Ástralíu og USA og hinum lendum Bretakóngs, á svipuðum tíma og Drottningin dó.

 

Lyfjaður múgsefjunar Almúginn (Dirty Peasant) trúir þvi'ekki frekar en öðru.

 

Velkominn í Útópíu heilags Marx.

 

Guðjón E. Hreinberg, 7.9.2024 kl. 03:58

5 Smámynd: Jón Magnússon

Sammála þér Kristín enda segi ég það í pistlinum að bankanum sé ekki um að kenna. Ég er að tala um aðferðarfræðina og framkomuna. Takk fyrir innleggið. 

Jón Magnússon, 8.9.2024 kl. 11:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.4.): 33
  • Sl. sólarhring: 261
  • Sl. viku: 3224
  • Frá upphafi: 2508670

Annað

  • Innlit í dag: 30
  • Innlit sl. viku: 3019
  • Gestir í dag: 30
  • IP-tölur í dag: 29

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband