Leita í fréttum mbl.is

Stríð eða friður

Það eru tvær leiðir til að ljúka stríði. Annar aðilinn vinnur eða gerðir eru friðarsamningar. 

24.febrúar n.k. hefur stríð  Rússlands og Úkraínu staðið í þrjú ár. Stríðið hefur verið kyrrstöðustríð í tvö ár með gríðarlegum mannfórnum. Varfærnar spár telja að allt að fimmhundruð þúsund ungra manna hafi fallið og eignatjón er gríðarlegt. Samt sem áður hafa engar markvissar tilraunir verið gerðar til að ná friðarsamningum.

Biden stjórnin hefur haft mestan hug á því að nota þetta stríð til að  einangra Rússa og valda þeim sem mestu tjóni. Þeir sem hafa kallað eftir friði hafa verið úthrópaðir sem sporgöngumenn Rússa. Afleiðingin er sú m.a. að styrkja stöðu Írana, Norður Kóreu og Kína. Gat það virkilega verið markmið Nato þjóðanna?

Þessi stefna Biden stjórnarinnar, sem Evrópuþjóðir tóku upp líka þar á meðal illu heilli Ísland hefur kostað gríðarlega fjármuni og verri lífskjör í Evrópu vegna hækkunar orkukostnaðar, matvælaverðs, vaxta o.s.frv.

Biden stjórninni hefur verið einkar hugleikið sem og forustu NATO þjóðanna, að standa sem dyggastan vörð um þau landamæri sem Jósep Stalín og kommúnistastjórn hans drógu í lok síðari heimstyrjaldar. Peningum hefur verið mokað til Úkraínu til að þeir geti haldið áfram að stríða og svarað fyrir sig og valdið sem mestu tjóni í Rússlandi. 

Raunar hefur Biden stjórnin gert Zelensky forseta Úkraínu að koma með hverja stríðsáætlunina á fætur annarri sem sýndi fram á fullnaðarsigur Úkraínu meira að segja að þeir ynnu Krímskagann til baka. Öllum var ljóst að þessar áætlanir mundu ekki standast, en samt var billjónum evra og dollara hellt áfram á ófriðarbálið á grundvelli þessarar lygi, sem allir sem hafa einhverja glóru í höfðinu var ljóst, að gæti aldrei staðist.

Stjórnendur Íslands urðu svo helteknir af Biden heilkenninu, að þeir gengu lengra en aðrir og lokuðu sendiráði Íslands í Moskvu og girtu fyrir eðlileg samskipti og viðskipti á milli þjóðanna, á meðan þjóðir þar sem vitsmunir stjórnenda og virðing fyrir hagsmunum eigin borgara er ögn meiri eins og Danir héldu áfram viðskiptum og selja Rússum t.d. lyf og aðrar nauðsynjavörur.

Það er löngu kominn tími til þess að NATO ríkin taki af skarið og falli frá skammsýnni fáránlegri stefnu Biden og félaga og stefni að samningum. Zelensky er farinn að tala um samninga og Trump sem tekur við sem forseti Bandaríkjanna innan 5 daga. Rússar hafa líka sent ákveðin merki sem benda til að þeir séu reiðubúnir til viðræðna.

Um hvað á að semja og um hvað er hægt að semja? Rússar munu vafalaust ekki fallast á að Úkraína verði NATO ríki, en þeir gætu samþykkt að aðildarviðræður Úkraínu og Evrópusambandsins gætu hafist. Hægt væri að semja um menningarleg og tungumálaleg réttindi minni hluta innan Úkraínu og e.t.v. að hluti hernumina svæða í Úkraínu yrði skilað á sama tíma og viðurkennt yrði að Krím væri rússneskt og fallið yrði frá öllum efnahagsglegum og stjórnmálalegum þvingunaraðgerðum gegn Rússum.

Með því að ná þessu fram nær Úkraína þeim árangri að hafa á vígvellinum tryggt sjálfstæði Úkraínu sem gæti orðið aðili að Evrópusambandinu innan tveggja ára. NATO og Úkraína eiga þann kost að ná fram friðarsamningum þar sem erfiðasti hlutinn yrði að kyngja því að Rússar fengju Krímskagann eða halda áfram að vera í stríði með tilheyrandi billjóna evra og dollara útgjöldum vegna stríðs,sem mun aldrei geta fært Úkraínu meiri ávinning en þann sem líklegt er að næðist fram við samningaborðið núna. 

Er ekki skynsamlegt að Ísland láti af þeirri utanríkisstefnu stríðs og hernaðarátaka sem mótuð var af fyrri ríkisstjórn og núverandi hefur tekið undir, en hverfi aftur að þeirri utanríkisstefnu sem var Íslandi svo farsæl frá lokum síðara heimsstríðs 1945:

"Ísland er vopnlaus þjóð og tekur ekki þátt í styrjaldaraðgerðum." 

Þess vegna neituðu íslenskir stjórnmálamenn að segja Þjóðverjum og Japönum stríð á hendur í lok hildarleiks síðari heimstyrjaldar og urðum fyrir vikið að þola þær refsiaðgerðir að fá ekki að vera ein af stofnþjóðum Sameinuðu þjóðanna. En Ísland stóð vel eftir og stærra en áður fyrir þessa stefnufestu friðar á grundvelli hagsmuna Íslands og íslendinga.


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Hver er summan af þremur og fjórum?
Nota HTML-ham

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.1.): 324
  • Sl. sólarhring: 677
  • Sl. viku: 5862
  • Frá upphafi: 2462536

Annað

  • Innlit í dag: 304
  • Innlit sl. viku: 5305
  • Gestir í dag: 298
  • IP-tölur í dag: 293

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband