Leita í fréttum mbl.is

Þjóðin sjálf á að ráða

Miklu skiptir að stjórnkerfið sé skilvirkt á sama tíma og farið er að lýðræðislegum vilja þjóðarinnar. Í því efni skiptir máli, að ríkisstjórn geti komið nauðsynlegum málum fram á sama tíma og stjórnarandstaða hafi tök á því að hafa um mál að segja.

Undanfarin ár hafa þingstörf oft liðið fyrir langt málþóf um einstök mál. Nú þarf málþóf ekki að vera óvinafagnaður og þeir sem því beita hefðu á stundum mátt ná sínu fram sbr. það þegar Orkupakki 3 varð illu heilli að lögum. 

Spurningin er þá hvort hægt sé að fara aðrar leiðir til að ríkisstjórn geti komið málum fram, en stjórnarandstaðan hafi á sama tíma virk úrræði til að koma í veg fyrir lagasetningu, sem hún telur fráleita og andstæða vilja þjóðarinnar. 

Í því efni gætum við farið að fordæmi Dana, sem hafa þingskaparreglur sem takmarka umræður svo mjög að komið er í veg fyrir málþóf að mestu leyti, en þriðjungur þingmanna getur knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu um nánast öll önnur mál en fjárlög.

Við gætum gengið örlítið lengra en Danir og tryggt aðkomu þjóðarinnar að málum með því að auk þess sem að þriðjungur þingmanna gæti knúð fram þjóðaratkvæðagreiðslu um mál að 10% kjósenda gætu það einnig. Með þeim hætti væri lýðræðið öflugra, virkara og tryggara.

Stjórn og stjórnarandstaða ættu að taka höndum saman um að gera þær breytingar á þingskaparlögum og stjórnarskrá, sem treysta möguleika stjórnarandstöðu til að hafa virk áhrif þó hún sé í minnihluta án þess að grípa þurfi til hvimleiðs málþófs og beitingu 71.gr. þingskaparlaga til að stöðva það.

Til þess að lýðræðið virki sem best verður að setja þá umgjörð og lög um störf Alþingis að bæði stjórn og stjórnarandstaða hafi tök á að hafa virk áhrif á lagasetningu.

Það yrði til vansa fyrir forsætisráðherra úr því sem komið er, ef hún hefði ekki nú forgöngu um að boða formenn stjórnmálaflokka á Alþingi til að reyna að ná sátt um að gera þær breytingar sem nauðsynlegar eru til að lýðræðið og þingræðið virki sem best í framtíðinni.  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Jón.

Þú ert ekki að lýsa þarna lýðræði heldur lýðskrumi þar sem átakafleti ólíkra hagsmuna (sem er lýðræði ef formleg völd fást með kosningum) er vísað milliliðalaust til lýðsins. Þar sem, svo ég vitna nú einhvern spekingin; "Það er þá notað um stjórnmálamann sem tekur afstöðu til mála eftir hentistefnu og eftir því hvað hann telur að nái best eyrum fólks. Oftar en ekki er þetta gert með því að höfða til lægstu hvata kjósenda og með því að stilla einum hópi fólks gegn öðrum".

Lægstu hvata, siga meirihluta á minnihluta, eitthvað sem Samfylkingin hefur gert með svo góðu árangri í veiðileyfagjaldamálinu. Svipuð aðferðafræði sem Mugabe beitti í Zimbabwe þegar hann sigaði borgarlýðnum til að ræna hvíta bændur og rústaði þar með landbúnaðinum, eða upphafi hungursneyðarinnar miklu í Úkraínu þegar Stalín sigaði námsmönnum úr borgum á sjálfstæða smábændur, og þeir rændir allri uppskeru sinni.

Varðandi gagnsemi þessa afskræmingu lýðræðisins, þá gerði sagan út um þá umræðu á blóðvöllum Aþeninga við borgarmúra Sýrakúsa.

En reyndar héldu menn áfram að rífast við söguna, en alltaf með sömu niðurstöðu.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 14.7.2025 kl. 10:12

2 Smámynd: Jón Magnússon

Við erum sem betur fer á allt öðrum stað en íbúarnir undir stjórn Mugabe Ómar. Það er ekki lýðskrum að berjast fyrir sem víðtækustu beinu lýðræði heldur trú á lýðræðið. 

Í Sviss hefur ótal málum verið skotið til þjóðarinnar í meir en 100 ár og þegar grannt er skoðað, þá sést að í öllum tilvikum í Sviss, þá hafði þjóðin rétt fyrir sér en þingið ekki. 

Svo er annað mál að beint lýðræði virðist ekki hafa tekist eins vel í Kaliforníu í USA, en þar er verið m.a. að kjósa um skattlagningu o.fl. Þess vegna miða ég við Danmörku þar sem þetta gengur vel og heimildin er síður en svo ofnotuð. 

Svo minn kæri Ómar, sem ég er sammála í nánast öllum málum, þá verður að finna leiðir til að koma Alþingi út úr þessum málþófsham svo það geti farið að sinna hlutveri sínu með meiri sóma. 

Jón Magnússon, 15.7.2025 kl. 09:17

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Jón.

Ég var nú bara að stríða þér, langaði að fá rökstuðning sem ég gæti lesið og lagt mat á.

Kærar kveðjur hérna úr sólinni fyrir austan.

Ómar Geirsson, 15.7.2025 kl. 13:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.8.): 24
  • Sl. sólarhring: 987
  • Sl. viku: 2610
  • Frá upphafi: 2584413

Annað

  • Innlit í dag: 20
  • Innlit sl. viku: 2436
  • Gestir í dag: 20
  • IP-tölur í dag: 19

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband