Leita í fréttum mbl.is

Strákarnir í ráðuneytinu

Deilt er um hvort umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu (ES) hafi verið formlega dregin til baka eða ekki. Engin ágreiningur er um að á sínum tíma var stefna þáverandi ríkisstjórnar að draga umsóknina til baka og hún taldi sig hafa gert það. 

Á þeim tíma var utanríkisráðherra sem kunni lítt til erlendra tungumála og hafði farið í tvær hópferðir til Kanaríeyja þegar hann tók við embættinu, en ekki haft frekari samskipti við útlenda og þekkti auk heldur lítt til kanselímálsins í ráðuneytinu. Hann fól starfsmönnum ráðuneytisins að hlutast til um að framkvæma stefnu ríkisstjórnarinnar, en þar sem strákarnir í ráðuneytinu voru ekki alls kostar sáttir þá var e.t.v.frá tilkynningunni gengið með þeim hætti, að valdstjórnin í Brussel gæti lesið þannig úr henni, að hún væri ekki tilkynning um að ljúka aðildarviðræðum heldur eitthvað allt annað sem kæmi málinu ekki við þótt tekið væri fram í tilkynningunni með hefðbundnum kanselístíl að aðildarviðræðum væri lokið.  Færustu Merðir Valgarðssynir í Brussel gátu e.t.v. snúið út úr þessu með sama hætti og yfirmörður Brusselvaldins, Úrsúla frá Leyen. 

Þetta mál sýnir mikilvægi þess að ráðherrar hafi gripsvit á því verkefni sem þeim er ætlað að sinna sem ráðherrar, en því miður hafa stjórnmálaflokkarnir annan skilning á því sbr. mannval núverandi ríkisstjórnar.

Valdtaka embættismanna er ekki ný af nálinni og gengur þeim mun betur sem ráðherrar vita minna og hafa takmarkaða eða enga hugmyndafræðilega kjölfestu til að starfa eftir. 

Í þessu sambandi er rétt að minna á það feigðarflan, þegar ríkisstjórn eftir ríkisstjórn og ráðherra eftir ráðherra þó aðallega 2 tóku upp það sem meginstef í íslenskum utanríkismálum, að Ísland ætti fulltrúa í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, sem aðallega fjallar um vopnuð átök milli landa. 

Engin stjórnmálaflokkur hafði það á stefnuskrá sinni að Ísland ætti fulltrúa í Öryggisráðinu. En strákarnir í ráðuneytinu seldu utanríkisráðherra eftir utanríkisráðherra, að þannig þyrfti þetta að vera og Halldór Ásgrímsson heitinn sem byrjaði á þessari vitleysu eins og ýmissi annarri, m.a. að gera Ísland að fjármálalegri miðstöð alheimsins, sótti þetta fast og aðrir utanríkisráðherrar erfðu þetta eftir hann en sumir höfðu vit á því að sinna þessu í engu þangað til Ingibjörg Sólrún þá formaður Samfylkingarinnar gerði þetta að meginstefi utanríkismála sinna og endasentist milli einræðisherra þriðja heims landanna til að fá stuðning þeirra við þessa endemis dellu.

Öll þessi viðleitni þoldi eðlilegar hrakfarir, sem viti bornu fólki átti að vera ljóst, þó að hagsmunaaðilar í störfum hjá utanríkisráðuneytinu hafi stöðugt hvíslað bullinu í eyra ráðherra og talið upp á mikilvægi dellunar. 

Þessi dæmi tvö sýna fyrst og fremst vanldtöku embættismanna og skort á getu ráðherra til að greina aðalatriði rétt. 

Slíkur skortur á að greina aðalatriði, kemur nú fram hjá utanríkisráðherra Þorgerði Katrínu. Í fyrsta lagi að tilkynna ekki Brussel valdinu að Ísland líði ekki að verndartollar verði settir til að koma í veg fyrir að íslensk framleiðsla njóti ekki sömu kjara og önnur framleiðsla á EES svæðinu. Í annan stað að hafa ekki fylgt eftir réttmætum kröfum Íslands um tollfríðindi gagnvart Bandaríkjunum, sem við eigum fullan rétt á. Glýja aðildar að ES byrgir utanríkisráðherra sýn sem fyrr og þarf ekki strákana í ráðuneytinu til að hjálpa til núna. 


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Hver er summan af þremur og ellefu?
Nota HTML-ham

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.8.): 16
  • Sl. sólarhring: 686
  • Sl. viku: 4307
  • Frá upphafi: 2576971

Annað

  • Innlit í dag: 16
  • Innlit sl. viku: 3995
  • Gestir í dag: 16
  • IP-tölur í dag: 16

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband