Leita í fréttum mbl.is

Krafa um ritskoðun?

Sérkennileg utandagskrárumræða fór fram á Alþingi í gær. Umræðuna hóf Guðni Ágústsson formaður Framsóknarflokksins og kveinkaði sér yfir sérstakri útgáfu DV fyrir kosningar en það tölublað taldi hann vega að Framsóknarflokknum. Formaður Framsóknarflokksins taldi þetta vera andstætt hugmyndum á bak við lög um fjárreiður stjórnmálaflokka.  Formaður Sjálfstæðisflokksins, forsætisráðherra var til andsvara tók undir þetta að hluta og taldi þetta blað hafa verið sérstaklega vinsamlegt stjórnarandstöðunni.

Það má fallast á það með formanni Framsóknarflokksins að það var sótt að Framsóknarflokknum í fjölmiðlum fyrir kosningar vegna aðgerða í ríkisstjórn. Um hinn ríkisstjórnarflokkinn Sjálfstæðisflokkinn var ekki fjallað með jafn neikvæðum hætti þó full ástæða hefði verið til. Sjálfstæðisflokkurinn nýtur þar blaðamanna, þáttastjórnenda og ritstjóra sem styðja flokkinn.

Við í Frjálslynda flokknum máttum þola mjög neikvæða og óréttmæta umfjöllun í fjölmiðlum meginhluta vetrar. Reynt var af ákveðnum fjölmiðlum að stuðla að því að kljúfa flokkinn. Við náðum vopnum okkar og héldum fylginu þó að okkur væri sótt með þessum hætti.

Meginatriðið er þó ekki hvort fjölmiðlar sækja að stjórnmálamönnum og flokkum og þá hverjum. Það er þeirra hlutverk í lýðfrjálsu landi.  Stjórnmálamenn þurfa iðulega að sætta sig við óvægna umfjöllun og stundum ranga. Það er hluti af þeirri þjóðfélagsgerð sem við búum við. Sama er um auglýsingar frá auðmönnum en þeir hafa fullan lýðræðislegan rétt á að nýta peningana sína með þeim hætti.

Þess vegna voru þeir Geir Haarde og Guðni Ágústsson á vitlausri leið þegar þeir nánast gerðust talsmenn ritskoðunar. Rétta leiðin er að efla fjölmiðlun í landinu og gera kröfur til þeirra. Það tölublað DV sem var ástæða umræðunnar var venjuleg eðlileg blaðamennska og betri en meginhlutinn af þeirri blaðamennsku sem þjóðinni var boðið upp á fyrir kosningar.

Foringjar lýðræðisflokka geta ekki og mega ekki gerast talsmenn ritskoðunar eða skerts tjáningarfrelsis en það var það sem mátti lesa út úr máli þeirra formanns Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján H Theódórsson

Sannleikanum verður hver sárreiðastur!

Máltækið sannar sig hér með sýnilegum hætti hjá Framsóknar-Guðna!

Kristján H Theódórsson, 7.6.2007 kl. 10:54

2 identicon

Það skal engan undra þó framsóknarmaðurinn Guðni Ágústsson kenni árinni um róðralagið. Að vísu tók hann við nálega áralausum bát og þarf að finna ráð til að ná skriði á ný. En ritskoðun er í framsóknareðlinu. Verst að Geir H. fór að taka undir. Ólíkt honum.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 7.6.2007 kl. 15:13

3 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæll Jón.

Guðni er alveg óvanur því að vera í stjórnarandstöðu og þarf að átta sig betur á þeirri stöðu að sjá má .

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 8.6.2007 kl. 01:32

4 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Ég er sammála Viðari um bæði Guðna Ágústsson og auðmennina. Það er engin ástæða til þess að taka þegjandi við því sem fjölmiðlarnir segja þó svo að þeir hafi rétt til að segja það sem þeir vilja. Við eigum líka okkar lýðræðislega rétt ekki satt. Það er  fróðlegt að fylgjast með slagnum núna um alvitran Egil sem 365 og Rúv eru að berjast um. Alveg stórmerkilegt að hafa svona mikinn áhuga á einum manni. Mér finnst nú sumir fréttamenn á stöð 2 að rifna af sjálfsdýrkun og flissið og óformlegheitin eins og fólkið sé í einkaþáttagerð en ekki að koma inná heimili landsmanna. Guðni á eftir að verða góður í stjórnarandstöðu þegar fer aðeins að skafa yfir embættisverk hans spái ég og finna árarnar sínar..:)

Kolbrún Stefánsdóttir, 9.6.2007 kl. 13:54

5 Smámynd: Helga Guðrún Eiríksdóttir

Það er auðvitað forkastanlegt árið 2007 að láta sér detta í hug að mæla með aukinni ritskoðun á Íslandi. Málfrelsi og ritfrelsi má aldrei skerða svo að réttur til tjáningar skoðanna og framsetning upplýsinga sé takmarkaður við annað en það sem landslög kveða á um. Ef Framsóknarflokknum líkar það miður þá er ekki nema eitt um það að segja; Tough! Live with it!

Helga Guðrún Eiríksdóttir, 10.6.2007 kl. 15:43

6 Smámynd: Hreiðar Eiríksson

Umræðan um afskipti auðmanna af stjórnmálum er ekki ný af nálinni.  Hún hefur risið hæst á Ítalíu og þá í kringum Berlusconi.  Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að hver sem er verði að geta tjáð stjórnmálaleg viðhorf sín í fjölmiðlum eins og honum sjálfum þóknast.  Ég get ekki séð að setja eigi "auðmönnum" einhverjar skorður um slíkt.  Öryggisventillinn er alltaf atkvæðisréttur almennings sem jafnan finnur leið til að ná því fram sem ætlast er til.

Hitt er annað mál að fyrirkomulag Alþingiskosninga er með þeim hætti að auðvelt er fyrir auðhringa að hafa áhrif sér í hag.  Raunverulegar ákvarðanir, um hvaða einstaklingar fara á þing, eru teknar þegar raðað er á framboðslista.  Það er því auðhringum í lófa lagið að beita fjármunum sínum til að styrkja tiltekna einstaklinga í prófkjörsbaráttur og beita fjölmiðlum sínum til að styðja við það.  Gæta verður þess að styrkja einstaklinga úr öllum flokkum og þá má einu gilda, hvernig atkvæði falla milli flokka, auðhringurinn hefur alltaf nægilega marga vinveitta þingmenn.

Mér sýnist Framsóknarflokkurinn og Guðni vera að jafna sig og sjá að skýringarinnar á slæmu gengi flokksins er að leita innan flokksins fyrst og fremst.  Ég hlakka til að sjá hvernig flokkurinn stendur sig í stjórnarandstöðu.  Menn vilja gleyma því hve mikilvæg stjórnarandstæðan er í lýðræðisþjóðfélagi.

Hreiðar Eiríksson, 19.6.2007 kl. 12:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 276
  • Sl. sólarhring: 757
  • Sl. viku: 4097
  • Frá upphafi: 2427897

Annað

  • Innlit í dag: 256
  • Innlit sl. viku: 3792
  • Gestir í dag: 251
  • IP-tölur í dag: 240

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband