Leita í fréttum mbl.is

Ísland og Nató

Leiðari Morgunblaðsins í dag sem ber heitið Ísland og Nató er athygliverður. Ég er í öllum aðalatriðum sammála leiðarahöfundi og hef bent á ýmis þau atriði sem þar er fjallað um undanfarið.

Bent er í leiðaranum á ummæli utanríkisráðhera þar sem hún segir  að Ísland verði að axla ábyrgð innan Atlantshafsbandalagsins og taka aukinn þátt í verkefnum innan þess. Þessi ummæli verða ekki skilin með öðrum hætti en við eigum í auknum mæli að hafa afskipti af helstu verkefnum bandalagsins en það langstærsta og mannfrekasta nú er hernaður bandalagsins í Afghanistan. Sú spurning er því gild hvort utanríkisráðherra vilji að við höfum frekari afskipti af málum þar?

Ég er þeirrar skoðunar að Atlantshafsbandalagið sé á villigötum. Bandalagið er varnarbandalag. Hluverk þess er að gæta sameiginlegra hagsmuna með því að hafa varnarviðbúnað og aðildarríkin styðja hvort annað þ.e. árás á eitt bandalagsríki er árás á þau öll. Það er inntakið í því sem við sömdum um þegar við gengum í Atlantshafsbandalagið.

Hernaðurinn í Afghanistan er óeðlilegur og við Íslendingar hefðum átt að mæla af öllum krafti gegn því að herlið frá bandalaginu yrði sent til Afghanistan.  Við eigum jafnframt að krefjast þess að herlið bandalagsins sé kallað heim og við eigum að kalla þá íslendinga sem eru á vegum hins opinbera heim frá Afghanistan. Við erum vopnlaus þjóð og eigum ekki að taka þátt í stríðsátökum. Við eigum að krefjast þess að Atlantshafsbandalagið verði varnarbandalag sem stuðli að friði og friðsamlegri sambúð en fari ekki með herlið í ríki eða til að styrkja ríkisstjórnir í fjarlægum heimshlutum

Eins og nú háttar til tel ég ekki neinar þær forsendur til að við íslendingar höfum frekari afskipti af málum Atlantshafsbandalagsins sem tengjast stríðsátökum og þess verður að krefjast af utanríkisráðherra að hún skýri orð sín. Hver er stefna ríkisstjórnarinnar í þessum málum? Hvað á utanríkisráðherra við þegar hún segir að við verðum að taka aukinn þátt í verkefnum Atlantshafsbandalagsins?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Villi Asgeirsson

Sammála. NATO er varnarbandalag og á ekki að gera innrásir í önnur lönd. Sameinuðu Þjóðirnar eiga að sjá um friðargæslu þar sem þörf er á. Það má vel vera að það þurfi að endurskoða friðargæslusveitirnar svo það sé yfir höfuð hægt, án þess að verkið drukkni í pólitískum umræðum.

Írak er svo allt annað mál. 

Villi Asgeirsson, 31.8.2007 kl. 16:59

2 Smámynd: Halldór Jónsson

Ömurlegt er að lesa þetta Jón. Af hverju erum við vopnlaus þjóð  en erum í hernaðarbandalagi ? Til hvers er Atlantzhafsbandalagið fyrir okkur ? Það er til þess að við þurfum persónulega engu að fórna í baráttu við myrkraöflin öðru en að leyfa afnot af landinu sem yrðir hvort sem er tekið hernámi ef þurfa þætti. 

 Og myrkraöflin eru sannarlega til og virðast um þessar mundir helst eiga sitt helsta föðurland  í múslímaheiminum. Þau eru svo sannarlega að verki í Afganistan þar sem Osama BinLaden og Talibanaviðbjóðurinn, með sína kvennakúgun, menningar-og menntunanrfjandsemi og stjórnlausa grimmd í garð alls sem þeim er ekki þóknanlegt, réði ríkjum.  Það var landhreinsun og nauðsyn að gera þar duglega innrás og við ættum að skammast til að leggja því máli lið eftir föngum meðan að Atlanzhafsbandalagið nennir að starfa að því að gera Talibanann og aðra óværu á mannkyninu óskaðlegan.

Mér leiðist þessi landlægi  ræflatónn,  sem við Ílendingar höfum tileinkað okkur og kemur ekki af öðru en að við getum ekkert annað en kýla eigin vömbina vegna fólksfæðar.  Ef við værum þúsund sinnum fleiri þá værum við líka í alvöru pólitík og með her eins og Kaninn.

Halldór Jónsson, 31.8.2007 kl. 20:45

3 Smámynd: Haukur Nikulásson

Sem gamall samferðarmaður þinn úr íhaldinu, Jón, þykir mér miður að þú skulir ennþá sjá einhvern tilgang í veru okkar í NATO. Á meðan við erum þar félagar er hægt að krefja okkur um tilhlýðilegt félagsgjald í milljörðum talið og þar með er okkur áskapað að láta fé af hendi rakna í þau verkefni sem meirihluti NATO-þjóðanna ákveður. Við ráðum þar engu um og þér hlýtur að vera það ljóst.

Með því að koma okkur þaðan burt, getum við ráðið sjálf okkar fjármunum til öryggismála, og þá til lögreglu, sérsveita og strandgæslu, að eigin geðþótta og mati.

Ég held ég hafi það fram yfir þig að hafa verið í góðri stöðu hjá varnarliðinu og fylgdist því með því hvernig þeim fjármunum var varið og tók auk þess virkan þátt í að "eyða" fjárveitingum bandaríkjastjórnar og tryggja að örugglega engu yrði skilað til baka!

"Auk þess legg ég til að... Ísland gangi úr NATO!" 

Haukur Nikulásson, 31.8.2007 kl. 22:31

4 identicon

Síðan hvenær eru Íslendingar vopnlaus þjóð? Þessu er oft haldið fram, en það er í algerri andstöðu við staðreyndir mála. Íslendingar eiga vopn og hafa átt allt frá upphafi. 

Pétur Guðmundur Ingimarsson (IP-tala skráð) 31.8.2007 kl. 23:57

5 identicon

Vonandi skilur þingmaðurinn að öryggismál eru oft flóknari en svo að það sé hægt að sitja heima og bíða eftir árás. Aðgerðir NATO í fyrrum Júgóslavíu bundu t.d enda á stríð sem ógnaði stöðugleikunum í Evrópu og hefði getað haft miklar hættulegar afleiðingar.

Þegar ráðist var á Bandaríkin 11. September 2001 var fimmta grein Atlantshafssáttmálans virkjuð. Þetta ver gert með samhljóma ákvörðun allra utanríkisráðherrana, líka þess íslenska. Þáttaka NATO í aðgerðum í Afganistan kemur í kjölfarið á þessari ákvörðun og var líka ákveðin með samhljóma ákvörðun. Það má vera að bandalagið ætti að fara að hugsa sér til hreyfings en það þjónar varla hagsmunum Íslendinga að setja fordæmi fyrir hentugleikatúlkunum á skuldbindingum aðildarríkja.  

Mig grunar að þingmaðurinn viti þessa hluti en hafi látið freistast til að beita lýðskrumi.

Haukur veit það e.t.v ekki að framlög Íslands til NATO eru smáræði og það sem við þiggjum á móti er mun meira virði. Auk þess eru ákvarðanir jafnan teknar samhljóma en ekki með meirihluta atkvæða.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 1.9.2007 kl. 00:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.12.): 220
  • Sl. sólarhring: 491
  • Sl. viku: 4436
  • Frá upphafi: 2450134

Annað

  • Innlit í dag: 200
  • Innlit sl. viku: 4129
  • Gestir í dag: 196
  • IP-tölur í dag: 194

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband