Leita í fréttum mbl.is

Kreppa á húsnæðismarkaðnum?

Lánastofnanir bjóða nú upp á mun lakari lánakjör en áður. Vextir hafa verið hækkaðir verulega af húsnæðislánum og lánakjör gerð óaðgengilegri fyrir lántakendur. Þetta gerist á þeim tíma sem ætla mátti að færi að draga úr eða farið var að draga úr þenslunni á húsnæðismarkaðnum.

Með þessum aðgerðum sínum geta lánastofnanir valdið verulegum erfiðleikum á þessum mikilvæga markaði sem munu hafa keðjuverkanir um allt þjóðfélagið. Mér þætti gaman að sjá hvað greiningadeildir bankanna segja núna um húsnæðismarkaðinn og hvernig þeir meta þróunina á þeim markaði.

Mér er gjörsamlega óskiljanlegt af hverju bankastjórn Seðlabankans fannst rétt að hækka stýrivexti við þær aðstæður sem nú ríkja í þjóðfélaginu. Sjálfur formaður bankastjórnar Seðlabankans fyrrverandi forsætisráðherra talar um dýfu í efnahagsmálum eða kreppu. Hækka menn stýrivexti Seðlabanka við slíkar aðstæður þegar þeir meta ástandið í efnahagsmálum þjóðarinnar sem dýfu eða kreppu. Það er alla vega hagstjórn sem er öfug við það sem aðrir seðlabankar beita í heiminum.

Sé það mat Seðlabankastjóra rétt að um dýfu sé að ræða eða kreppu á íslenska fjármálamarkaðnum þá er Seðlabankinn og lánastofnanirnar heldur betur að stuðla að því að dýfan eðan kreppan verði sem þungbærust.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Á aðeins 3 árum hafa afborganir af samskonar íbúð sem keypt væri í dag hækkað um 235%. Úr 51.875 á mánuði í 173.994 á mánuði. Er þetta ekki heimsmet í rugl fjármálastjórn þjóðar. Auðvitað ættu þeir að vera að byrja að lækka vexti núna, vexti sem aldrei hefðu átt að verða svona háir. Auk þess er með þessu verið að etja fólki út í gengistryggð lán sem eru stór hættuleg. Ég hef horft á vel fjársterkan mann lenda í vandræðum vegna gengistryggðs láns sem þó var ekki svo stórt. Þetta var um árið 2000. En hann stóð það af sér fyrir rest. Hvað verður um meðal íslendinginn sem lendir í slíkum hremmingum.

Sveinn hinn Ungi (IP-tala skráð) 9.11.2007 kl. 11:23

2 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Þetta var alltaf fyrirsjáanlegt.

Þeir setja upp 80-100% húsnæðislán, metta þann markað, bíða eftir að lántakendurnir lendi í fyrirsjáanlegum vandræðum og hækka þá vextina vegna aukinnar áhættu. Þetta er elementarí. Sumir reyndu að ræða þessa fyrirsjáanlegu þróun fyrir 3-4 árum en þá voru Dabbi og Dóri með góðærið á heilanum og sögðu fólki að pæla ekki í hinu liðna (reynslu annarra þjóða af fjármálabólum) heldur horfa þess í stað fram á veginn. Þessir menn og ráðgjafar þeirra eru ekki sérlega hrifnir af svok. samræðustjórnmálum, sem kunnugt er, og vilja bara framkvæma og koma af fjöllum síðar.

Baldur Fjölnisson, 9.11.2007 kl. 12:13

3 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Núna eru síðan bankarnir (og byggingaraðilar í vasanum á þeim) með svo til heilu hverfin "á lager". Þið ættuð að keyra um þessi nýju hverfi hérna á Reykjavíkursvæðinu og kanna málið. Þetta er ótrúleg vitleysa en samt virðast furðu margir raunverulega trúa á "frjálsa" markaði sem stjórnist af "framboði og eftirspurn" sennilega vegna þess að það stendur í ruslpóstinum.

Baldur Fjölnisson, 9.11.2007 kl. 14:14

4 Smámynd: B Ewing

Hef heyrt því fleygt að bankarnir og verktakarnir séu í stöðugum makaskiptum á eignum, einmitt til þess að halda þenslu húsnæðisverðs uppi.  Þegar litið er á tölur Fasteignamats Ríkisins um veltu á markaði þá fáist ekki lengur raunveruleg velta heldur sé hluti þinglýstra kaupsamninga einfaldlega hrókeringar fram og til baka á fjölda íbúða milli verktaka og banka.

Þetta er hinsvegar eigöngu orðrómur og hugsanlegt að ekkert sé hæft í þessu.  Hinsvegar er leiðin galopin fyrir þá sem vilja standa í þess konar braski. 

B Ewing, 9.11.2007 kl. 16:51

5 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Hækkandi vextir eru örugglega ekki hollir kerfi hvers mikilvægasta atvinnustarfsemi er skuldapappíraframleiðsla (peningaframleiðsla). Það segir sig sjálft. Hins vegar þora fáir að ræða þessa stöðu enda flestir bundnir í skuldafjötrum og búnir að veðsetja sig fram í tímann með yfirdrætti og þess háttar. Þeir vilja status quo og alls eki rugga bátnum. Skuldugur maður er ekki lengur frjáls, hann hefur misst sjálfstæði sitt. Sem að sjálfsögðu gerir hann að fyrirtaks mjög þægum ritstjóra næsta ruslpósts sem skammtar umræðuna í okkur.

Baldur Fjölnisson, 9.11.2007 kl. 17:40

6 Smámynd: Guðrún Magnea Helgadóttir

Sæll Jón Magnússon. Fundur á morgun á Kaffi Paris klukkan 2. Þarna komum við saman nokkrir einstaklingar sem viljum skera upp réttarkerfið í heild sinni... Ef þú vilt mæta hjá okkur þá bjóðum við upp á kaffi

Guðrún Magnea Helgadóttir, 9.11.2007 kl. 19:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.11.): 6
  • Sl. sólarhring: 150
  • Sl. viku: 2957
  • Frá upphafi: 2428218

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 2701
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband