Leita í fréttum mbl.is

Meirihlutinn vill flotkrónuna burt.

Það er athygliverð niðurstaða sem kemur fram í skoðanakönnun Fréttablaðsins í dag að 63% vilja aðra mynt en krónuna. Ég skil þá niðurstöðu þannig að fólk sé í sjálfu sér ekkert á móti krónunni sem slíkri en óttist að hafa flotkrónu sem sveiflast eftir geðþóttaákvörðun erlendra fjárfesta.

Væntanlega sér fólk hvað það er hættulegt að hafa gjaldmiðil sem getur sveiflast um 20-30% vegna efnahagsástands í öðrum löndum en okkar. Slík gengisstefna tekur ekki mið af íslenskum aðstæðum eða hagsmunum framleiðslufyrirtækjanna.

Lítil myntsvæði er viðkvæm fyrir sveiflum og það gildir allt annað um þau en stór myntsvæði en þetta virðist yfirseðlabankastjóri ekki skilja. Það skiptir venjulegan Bandaríkjamann litlu og yfirleitt engu máli þó að dollarinn falli i verði miðað við Evru eða Evrópumanninn hvort Evran fellur miðað við dollara. Yfir 90% og iðulega nánast allt sem fólk kaupir á stórum myntsvæðum eins og dollara- og evrusvæðinu er í dollurum eða evrum. Verðið sveiflast því ekki að neinu leyti á almennum neysluvörum. 

Hér á landi aftur á móti í minnsta myntkerfi heims sveiflast stór hluti af neysluvörunum eftir því hvort krónan hækkar eða lækkar gagnvart erlendum gjaldmiðlum.  Það er ósköp eðlilegt að venjulegt fólk sé orðið þreytt á gælugjaldmiðli sem hefur þá helstu þýðingu að fela mistök í hagstjórn en þjónar hvorki hagsmunum fólks eða fyrirtækja e.t.v að sumum fjármálafyrirtækjum undanskildum.

Það eru brýnir hagsmunir  almennings að taka upp Evru eða tengjast evru t.d. í gegn um dönsku krónuna til að vera með gjaldmiðil sem er viðmiðun í öllum viðskiptum fólks og viðskiptin geti þá orðið gegnsærri og auðveldara að átta sig á fyrir neytendur hvort að verðbreytingar eru vegna ofurverðlagningar eða eiga rétt á sér.

Mér finnst undarlegt að hvorki ríkisstjórn né Seðlabankastjórar skuli sjá hættuna sem efnahagslífinu getur stafað af djúpum sveiflum flotkrónunnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Danska krónan er tengd evru fast. Danski seðlabankinn er með 0.25% hærri stýrivexti en seðlabanki evrulandanna það er sama hvort evru löndin hækki eða lækki stýrivexti danir fylgja alltaf á eftir til að halda þessum mun og í staðinn halda þeir sjálfstæði sínu.

Ég tel mikilvægara að þjóðin og þá sérstaklega þingmenn hennar gefi sig meiri tíma í að hafa augun opin vegna úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna því tíminn líður hratt í því máli.

Baldvin Nielsen, Reykjanesbæ

Baldvin Nielsen (IP-tala skráð) 11.2.2008 kl. 10:49

2 Smámynd: Johnny Bravo

Veit ekki hvar þú lærðir þjóðhagsfræði, en mér var kennt að gengið færi aðallega eftir vöxtum og vöxtum sé stjórnað til að breyta eftirspurn, sem svo hefur áhrif á verðbólgu.

Eitt markið var í efnahagsmálum frá 1950-1990, að ná stjórn á verðbólgu, á þessum tíma var mikill skortur á fjármagni, þennan skort hafa bankar verið að koma á réttan veg. Sú verðbólga sem hefur verið síðustu 10ár myndi kallast stöðuleiki á þessum tíma.

Það kemur nú flestum á óvart hvað krónan er stöðug. Einnig breytist hún ekki bara tilviljunarkennt, heldur veikist hún þegar vextir eru lækkaðir og gerir það að verkum að útflutnings eykst og eflir efnahaginn.

Það sem þú kallar, felur lélega efnahagsstefnu, það er kannski rétt að stjórnmála menn verða aldrei sérstaklega miklir hagfræðingar og eru meira hugsjónarfólk og þurfa þeir einfaldlega seðlabanka og krónu til að jafn út gerðir þeirra.

Svo er vert að benda fólki á að verðbólga á íslandi er ekki örðuvísi þó að við fáum evru. Ef hér væru 5% stýrivextir hefði húsnæði hækkað meira og það er kallað verðbólga.

Við ættum kannski að klára okkar kerfi áður en við fáum okkur nýtt, mikilvægt er að hætta með fasta vexti og verðtryggingu svo að vextir á lánum breytist þegar seðlabankinn breytir vöxtum, þetta myndi skapa meiri stöðuleika í fjármagnsflæði milli krónunnar og annarra gjaldmiðla.

Bankar og auðmenn vilja evru og reka fyrir henni mikinn áróður. Mér er spurt ef að krónan er svona hræðileg, hvers vegna gengur þá Íslandi betur í þjóðhagsframleiðsluvexti umfram verðbólgu en evru svæðinu?

Neytendur þurfa frjálst flæði vöru "án tolla og hafta" og samkeppni í innflutningi og smásölu. Og þegar tollar eru farnir getum við verslað meira á netinu. Kannski þú gætir tekið þetta upp á alþingi?

1. ekki fasta vexti á fasteignarlánum

2. enga verðtryggingu,

3. enga tolla

4. enga neytendaskatta nema virðisauka.

5. Bannað að leggja saman fyrirtæki ef sameiginleg markaðshlutdeild sé meiri en 20-25%

Johnny Bravo, 11.2.2008 kl. 17:29

3 Smámynd: Jón Magnússon

Ég hef lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi ásamt nokkrum þingmönnum Frjálslynda flokksins og Vinstri grænna um að Alþingi álykti að fara að áliti mannréttindanefndarinnar Baldvin.

Johnny ég hef lagt fram mál á Alþingi varðandi það verðtrygging verði felld niður.  Sammála þér með að hafa enga neytendaskatta nema vsk.

Jón Magnússon, 11.2.2008 kl. 19:01

4 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Johnny Bravo, krónan hefur verið allt annað en stöðug síðustu árin og núna er hún að testa botn frá árinu 2006 og þegar hann brestur þá liggur leiðin í botninn frá árinu 2001. Ásamt meðf. verðbólgu að sjálfsögðu. Þetta er vítahringur úr helvíti. Ríkissjóður er gjörsamlega fallít þar sem seðlabankinn er vanmáttugur og blankur dvergur sem aðeins hefur gjaldeyrisvarasjóð upp á einn tíunda hluta skammtímskulda þjóðarbúsins - og það eftir að ríkissjóður neyddist til að taka 90 milljarða lán fyrir rúmu ári til að koma þessu hlutfalli úr svo til engu í nánast ekkert. Við höfum með öðrum orðum tapað efnahagslegu sjálfstæði okkar, höfum ekkert með gengi eigin gjaldmiðils að gera og erum hvað það varðar alveg í vasanum á erlendum spekúlöntum og spákaupmönnum. Brátt neyðist seðlabankinn til að byrja að lækka vexti og erlenda fjármagnið veit það og hefur verið að byrja að færa sig um set, sbr. yfirstandandi hrun hlutabréfa og krónu.

Baldur Fjölnisson, 11.2.2008 kl. 22:20

5 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Krónan hefur verið að hrynja gagnvart evru, danskri krónu og öðrum evrópumyntum eins og þið getið fullvissað ykkur um á krossasíðum bankanna. Þetta sýnir einfaldlega fjárstreymi milli gjaldmiðla. Þeir hafa mjólkað vaxtamuninn hér en nú hillir undir lok partísins og menn eru því að tínast á brott - og eftir sitjum við með Dabba og Halldór Blöndal og Hannes Hólmstein. Er það ekki traustvekjandi? Hins vegar hefur krónan staðið sig betur gegn gjaldþrota gjaldmiðlum BNA og Japans. En Evrópa er uppspretta jöklabréfanna margfrægu. Þeir eiga eftir að hirða auðlindir okkar upp í skuldir.

Baldur Fjölnisson, 11.2.2008 kl. 22:56

6 Smámynd: Johnny Bravo

Þakka svörin Jón, nenni ekki að svara þessum terrorista í þessari umræðu.

Fyndið hvað sumir kalla spekúlanta og aðrir kalla fjármagnsflæði. Auðvitað leitar fjármagn að afkasti.

Johnny Bravo, 11.2.2008 kl. 23:16

7 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Fýluvæl og persónulegar árásir skila engu. Betra er að taka á málefnum.

Baldur Fjölnisson, 11.2.2008 kl. 23:27

8 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Hvers vegna höfum við raðað undirmálsmönnum í stjórn seðlabankans? hvers vegna stöndum við núna uppi með gjaldþrota ríkissjóð og höfum tapað okkar efnahagslega sjálfstæði? Ég vil bara fá svar við því. Eru geðsjúklingar við stjórn á hælinu sjálfu og skipa þeir sig sjálfir í æðstu stöður?

Baldur Fjölnisson, 11.2.2008 kl. 23:39

9 identicon

Úr grein ''Íslenska þjóðin í álögum kvótans'' eftir undirritaðan sem birtist í Fréttablaðinu í maí 2005 núna er þetta allt að gerast sem fjallað er um í þessum úrdrætti því miður.

 ,,Úthlutaðar þorskveiðiheimildir á þessu fiskveiðaári eru 209 þúsund tonn og því hægt að sjá að verðgildi þessara veiðiheimilda hafa hækkað á sex mánuðum um rúma 52 milljarða króna. Aðrar veiðiheimildir í öðrum tegundum má áætla að séu til samans annað eins. Þetta hefur sömu virkni eins og peningafalsanir á efnahagslífið enda má sjá að erlendar skuldir eru komnar í 200% af vergri landsframleiðslu. Hér er ef til vill lausnin komin hvers vegna stórar gengisfellingar hafa ekki orðið ennþá síðan þetta kerfi var styrkt með lögum um stjórn fiskveiða nr.38 1990 og útskýrir hvers vegna sjávarútvegurinn hafi ekki þurft á gengisfellingum að halda þetta tímabil þrátt fyrir allt of hátt gengi krónunnar fyrir sjálfbæran rekstur. '

P.S. Í dag eru skuldir Íslensku þjóðarinar komnar í um 500% af vegri landsframleiðlu.

Jón eru ekki allir þingmenn Frjálslynda flokksins og allir þingmenn Vinstri Græna sem standa að þessari þingsályktunartillögu á Alþingi að gera þessa ályktun að fara eftir áliti mannréttindanefndarinar hjá Sameinuðu þjóðunum ? Hvað vil Samfylking gera í þessu máli ætlar hún bara að kalla evra,evra í öðru hvoru orði??? Evran er ekki hugsuð sem bjargráðasjóður fyrir þjóðir sem hafa eytt um efni fram því miður.

Baldvin Nielsen, Reykjanesbæ

Baldvin Nielsen (IP-tala skráð) 12.2.2008 kl. 00:13

10 Smámynd: Jón Magnússon

Baldvin tveir þingmenn Samfylkingarinnar hafa tjáð sig um málið á þingi og sagst styðja það.

Jón Magnússon, 12.2.2008 kl. 13:36

11 Smámynd: Gísli Bergsveinn Ívarsson

Kíktu á síðuna mína og segðu hvað þér finnst um NOVA auglýsinguna

Gísli Bergsveinn Ívarsson, 14.2.2008 kl. 00:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 55
  • Sl. sólarhring: 476
  • Sl. viku: 4559
  • Frá upphafi: 2467510

Annað

  • Innlit í dag: 47
  • Innlit sl. viku: 4237
  • Gestir í dag: 47
  • IP-tölur í dag: 47

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband