Leita í fréttum mbl.is

Utanríkisráðherra setur upp slæðu.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra hefur ekki verið þekkt fyrir að bera höfuðföt. Almennt hefur utanríkisráðherra tileinkað sér látlausan, frjálslegan og smekklegan klæðaburð sem hæfir henni og stöðu hennar vel. Nú brá hins vegar þannig við í upphafi dymbilviku að utanríkisráðherra fannst tilhlýðilegt að setja upp slæðu að hætti sumra íslamskra kvenna þegar hún átti fundi með fyrirfólki í Afghanistan.  Slæðuna þurfti utanríkisráðherra ekki að setja upp vegna þess að það gustaði um hana eða það væri úrkoma. Slæðuna setti hún upp í blankalogni innandyra.

Mér finnst alltaf miður þegar íslenskar konur sérstaklega þær sem kenna sig við baráttu fyrir jafnstöðu kvenna við karla og femínisma eins og utanríkisráðherra gerir setja upp þetta tákn kynbundins mismunar. Mustafa Kemal Atatürk bannaði þessi kynbundnu tákn kvennakúgunar þegar hann kom á nútímaþjóðfélagi í Tyrklandi.  Mér er því spurn af hverju setti Ingibjörg Sólrún fyrrverandi kvennalistakona og formaður Safmylkingarinnar og utanríkisráðherra upp þetta tákn sem m.a. hefur verið bannað í frönskum skólum í tilefni af viðtali sínu við Hamid Karsai sem situr sem forseti í skjóli friðargæsluliða og hermanna frá Nato ríkjum. 

Utanríkisráðherra þurfti ekki að bugta sig eða beygja eða nota slæðu frekar en henni hentaði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég ætlaði að drepast út hlátri þegar ég sá súperfemínistann leggjast í duftið fyrir feðraveldinu, ég hugsaði reyndar meira en það er of dónalegt til að smella því hér ;)

DoctorE (IP-tala skráð) 20.3.2008 kl. 11:26

2 identicon

Mér verður áglatt?  Hverjum var Ingibjörg Sólrún að þóknast?  Hvar er virðingin fyrir kynsystrum hennar. Hverjum var þessi falska auðmýkt ætluð?  Eftir að sjá þessa Íslandsskömm....ekki betri en þjóðarósóminn þeirra Davíð Oddsonar og Halldórs Ásgrímssonar, þegar þeir tóku sér það vald að styðja Íraksstríðið.... fyrir mína hönd og annara íslendinga... get ég sagt með tærri samvisku " Fari Samfylkingin FJANDANS til"  Aldrei skal ég kjósa hana aftur.  Verð að bæta við umræddum embættisverkum Össurar, sem mörg hver eru honum til skammar.  Mikið getur þetta fólk þegar það eldist, hlakkað til að fara yfir farinn veg og verið STOLT.

 Sigurður R. Þórarinsson

Sigurður R. Þórarinsson (IP-tala skráð) 20.3.2008 kl. 13:03

3 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Það kemur mér á óvart Jón, þröngsýni þín sem hér blasir við. 

Ég hefði búist við meiri skilningi eða víðsýni af  "heimsvönum" manninum.

Siðmenntað fólk sýnir virðingu fyrir hefðum þess lands og þjóðar sem það heimsækir.

Það gera kvenstjórnendur t d með því að hafa slæðu um hálsinn í opinberum heimsóknum til þeirra landa þar sem þessar hefðir eru. 

Marta B Helgadóttir, 20.3.2008 kl. 13:42

4 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Sammála þér Marta B.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 20.3.2008 kl. 14:36

5 identicon

Karlmenn Alþingi Íslands eru skyldaðir til að vera með bindi í þinginu. Mörgum þeirra þykir það óþægilegt en nenna ekki að standa í því að vera með mótmæli.

Ef vestræn kona ferðast til svæðis eins og Afganistan, þar sem mikil íhaldssemi ríkir um klæðaburð kvenna, og gefur skít í allar venjur sem þar ríkja, er hún ekki aðeins að setja sjálfa sig í meiri hættu en ella að verða fyrir áreiti, heldur er einnig hætt við að allt sem hún segir fari fyrir ofan garð og neðan og öll athyglin lendi á klæðaburði konunnar.

Ég hef sjálf lent í því a.m.k. tvisvar sinnum, einu sinni í Afríku og einu sinni í Mið-austurlöndum, að klæða mig fyrir slysni á þann hátt að heimafólki var misboðið. Þetta er gríðarlega óþægilegt og maður nær engu sambandi við fólk því það er svo upptekið við að stara og hneikslast.

Með fullri virðingu fyrir þér Jón, þá held ég að þú sért einfaldlega ófær um að setja þig í þær aðstæður sem konur á framandi slóðum geta lent í vegna þeirra hefða sem ríkja um klæðaburð kvenna og hvað þyki sæmilegt eða ósæmilegt.

Auður H Ingólfsdóttir (IP-tala skráð) 20.3.2008 kl. 14:43

6 identicon

Eg get ekki orða bundist þegar fólk svarar svona eins og Auður hér að ofan. Eins og út úr kú. Og ekki síst af virðingarleysi fyrir kynsystrum sínum sem eiga sér ENGA VON um sjálfsögð mannréttindi. Það er tvennt ólíkt hvort einhver er að rápa til útlanda einir síns liðs eða í hópum og EÐA hvort einhver kemur fram fyrir alþjóð og er í orði og verki ímynd síns lands og menningu þar. Með hóp af vörðum allt í kring.  Eða gerir Auður ráð fyrir að Ingibjörg Sólrún hafi komið þarna fram sem málssvari illa kúgaðra kvenna og þessvegna þurft að haga sér sem slík?  Eða var ekki sjálfsagt að hún kæmi fram sem frjálsborin kona.  Kona sem er fædd í frelsi og mun væntanlega deyja sem sem slík.  Hvar eiga frjálsbornar konur að koma mannréttindum á framfæri EF EKKI ÞARNA, í opinberum heimsóknum?  Auður í guðanna bænum reyndu að hugsa eins og frjálsborin manneskja.  FYRR eiga kynsystur þarna úti þínar ENGA VON.  Farðu vel með þig

Sig. R. Þórarinsson (IP-tala skráð) 20.3.2008 kl. 15:56

7 Smámynd: Jón Magnússon

Það er alltaf skilgreiningaratriði hvað er að vera þröngsýnn Marta. En í þessu sambandi spyr ég, var Mustafa Kemal Atatürk þröngsýnn þegar hann bannaði blæjuna. Voru frönsk stjórnvöld þröngsýn þegar þau bönnuðu slæðuna? Stjórnmálamaður í vináttuheimsókn hefur fullt frelsi til að fara að eigin siðum. Ekki mundum við láta okkur detta í hug að krefjast þess af forsetum Egyptalands eða vinaríkis Ingibjargar Sólrúnar, Íran, að þeir yrðu viðstaddur messu við setningu Alþingis þó þeir kæmu þann dag til að vera viðstaddir setningu Alþingis. Það er annað hvort Ingibjörg Sólrún veifaði krosstákninu í Afghanistan eða samsamar sig með Íslömskum hefðum með því að setja upp slæðu. Umburðarlyndi er dyggð en undirgefni að ástæðulausu er það ekki.

Jón Magnússon, 20.3.2008 kl. 16:55

8 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Jón, þetta eru útúrsnúningar hjá þér og það veistu vel sjálfur.

Auður kemst einmitt að kjarna málsins þarna.

Marta B Helgadóttir, 20.3.2008 kl. 18:55

9 Smámynd: Halla Rut

Er ekki búið að leyfa slæðurnar aftur í Tyrklandi. Ég held að ég hafi lesið þá á BBC.

Ef við (konur) eigum að bera slæðuna þar skulu þær taka hana niður hér. Það er gagnkvæm virðing. En þannig er það nú bara að þeir heimta virðingu hér en gefa okkur hana ekki þar. 

Halla Rut , 20.3.2008 kl. 18:59

10 identicon

Sigurður R. Þórarinsson er bara nokkuð æstur. Ég held jafnvel að honum gangi gott eitt til og vilji bæði mér og kynsystrum mínum allt hið besta. Að mínu mati ristir skilningur hans á málinu þó ekki djúpt. Ég þakka hinsvegar kærlega fyrir innblástur að færslu á minni eigi bloggsíðu

Auður H Ingólfsdóttir (IP-tala skráð) 20.3.2008 kl. 19:13

11 identicon

Kratarnir eru bara alltaf í fjölmiðlasjói,hér á landi ráða þeir flestum fjölmiðlum, þessir lyga....

bb (IP-tala skráð) 20.3.2008 kl. 20:12

12 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég vil benda á nýlegt viðtal við baráttukonu fyrir kvenréttindum í múslimskum ríkjum þar sem hún benti á að ekki væri hægt að alhæfa um það að slæðan væri kúgunartákn. Hún sagði að mörgum múslimskum konum fyndist það þvert á móti geta verið þægilegt að skýla sér með slæðunni og að þær ættu að hafa rétt til þess ef þær vildu.

Um reglur í frönskum skólum gildir öðru máli en um frjálst fólk á almannafæri. Ofangreind orð mín þýða það hins vegar ekki að ég hrífist af því bláeyga þýlyndi sem utanríkisráðherrann okkar virðist of oft vera sleginn.

Hún var flutt inn í verndað umhverfi á völdum stað í Afganistan þar sem ástandið er skást. Ég tel að það hafi verið rétt af henni að fara þangað en hins vegar mjög ólíklegt að þar hafi hún séð allt sem hún þurfti að sjá.

Ómar Ragnarsson, 20.3.2008 kl. 20:47

13 identicon

Auður, ekki segja mér að ef þú verður undir í rökræðum að þú beitir svona brögðum....alltof oft þegar konur komast í þrot þá er þetta þrautarlendingin. Hann er bara æstur eða hann er bara þetta eða hitt.... Eg er eða var ekki æstur.  Þarf MIKLU meira til. En reyndar þegar ég fór að lesa bloggið þitt (Fyrst núna áðan)  og sá í hverju þú ert menntuð, þá BRÁ mér virkilega.  Sökum menntunar þinnar bjóst ég við meiru af þér.  Meira innsæi og meiri rökfestu, meiri skilningi á málefnum kvenna í austurlöndum nær og fjær.   Ekki segja mér og eða hinum að ef þú færir sem fulltrúi frjálsra kvenna til þessara landa að þú feldir þig á bak við slæðu og kufl (til aðeins að þóknast þarlendum).  Þá yrði mér illa brugðið sem íslendingi og þekkingu minni á skaplyndi íslenskra kvenna í mínum vina og kunningja hópi, sem allar myndu bera höfuðið hátt.  Ekki síst þar sem allt yrði morandi í vörðum......  En sumar hafa bein í nefinu og geta, þora og vilja. En ekki þú og Ingibjörg Sólrún En svona er lífið.  Enn og aftur gangi þér vel.

Sig. R. Þórarinsson (IP-tala skráð) 20.3.2008 kl. 20:48

14 identicon

Sæll.

Er þetta ekki sama TRIXIÐ og þegar ÍRAK var heimsótt.Ég sæi Arabana eða blessaða Muslimana fara að að klæða sig að hætti Íslenskra "Ofurkvenna".Mér finnst hún eigi bara að vera hún.

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 20.3.2008 kl. 20:53

15 identicon

Ég sagði ÍRAK en Meinti SAUDI-ARABIA.

Afsakið.

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 20.3.2008 kl. 20:54

16 identicon

Sigurður: Komst ég í þrot í rökræðum? Veit ekki betur en ég hafi skrifað heilan pistil þar sem ég skýri mín sjónarmið og vísa í hann í krækju. Sýnir það mikla virðingu gagnvart konum að segja:

....alltof oft þegar konur komast í þrot þá er þetta þrautarlendingin

Ef þér finnst ég hafa framið einhvern óskaplegan glæp að draga þá ályktun að þú værir æstur eftir að þú sakaðir mig um virðingarleysi gagnvart kynsystrum mínum og að hugsa ekki eins og frjálsborin manneskja þá vinsamlegast ekki klína þeim glæp á allar kynsystur mínar líka.

Er annars forvitin - hvað þýðir það að hugsa eins og frjálsborin manneskja - felur það í sér að maður þurfi að vera sammála þér?

Ég upplifi báðar athugasemdir þínar þar sem þú talar til mín sem dónalegar í minn garð, og er ég þó ekkert sérlega móðgunargjörn. Stundum lætur fólk orð falla í hita leiksins og ég get svo sem fyrirgefið það. Mér finnst verra að heyra ef dónaskapurinn er framinn í fullkominni yfirvegun. Það hlýtur að vera hægt að ræða þessi mál án þess að vera með sleggjudóma um persónleika þeirra einstaklinga sem maður er ekki sammála. 

Auður H Ingólfsdóttir (IP-tala skráð) 20.3.2008 kl. 21:34

17 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Ef þið væruð nú samkvæm sjálfum ykkur Marta smarta og Heimir hefðu þá ekki karlkyns forverar Ingibjargar í embætti átt að klæðast kuflum og  Bedúína viskustykki þegar þeir heimsóttum Miðausturlönd? Ekki haldið þið því fram að konur skuli vera skör lægra settar? Ekki varalita ég mig og púðra þó ég fyrir forvitnisakir reki nefið inn á veitingastað fyrir kynskiptinga og samkynhneigða. Ekki krefjumst við þess að útlendingar breyti klæðnaði sínum þó þeir komi í heimsókn til Íslands.  Það blasir við að rök ykkar halda ekki vindi, hvað þá vatni. Svokallað fordómaleysi ykkar var í minni sveit kallað heimóttaskapur.   Þetta breytir ekki því að það ber að þakka það sem vel er gert. Á bloggsíðu minni hef ég hrósað Ingibjörgu Sólrúnu í hásterkt fyrir að reyna að setja sig inn í flókin þjóðfélagsvandamál í Afganistan.  Utanríkisráðherra þarf ekki að setja sig inn í efnahag- og mannréttindamál tengd meingölluðu fiskveiðistjórnarkerfi.  Því væntum við mikils af starfi hennar í Afganistan.

Sigurður Þórðarson, 20.3.2008 kl. 23:34

18 identicon

Ekki alls fyrir löngu kom sendinefnd frá Mið-Austurlöndum til Svíþjóðar. Tekið var á móti þeim eins og venja er í Svíþjóð og þeim heilsað með handarbandi. Maud Olofsson (aðstoðar forsætisráðherra m.m) stóð með útrétta hönd og brosandi. Þeir neituðu hins vegar að taka í hendina á henni. Báru við siðum í EIGIN heimalandi!

Daníel (IP-tala skráð) 21.3.2008 kl. 01:21

19 identicon

Ef ég væri að ferðst "þar" myndi ég glöð setja upp slæðu - ef þær tækju hana niður hér. En eins og Halla segir.. Þær munu ekki gera það.

Svo ætli ég láti mér bara ekki nægja það nettó, hárið eins og það kemur fyrir:) 

Kristín (IP-tala skráð) 21.3.2008 kl. 12:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 447
  • Sl. sólarhring: 641
  • Sl. viku: 4961
  • Frá upphafi: 2426831

Annað

  • Innlit í dag: 418
  • Innlit sl. viku: 4606
  • Gestir í dag: 407
  • IP-tölur í dag: 382

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband