Leita í fréttum mbl.is

Órói í þingflokki Sjálfstæðisflokksins?

Morgunblaðið segir í Staksteinum að umtalsverður órói sé í þingflokki Sjálfstæðisflokksins vegna ummæla Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur varaformanns Sjálfstæðisflokksins  um Evrópusambandið á fundi með Sjálfstæðismönnum í Kópavogi í síðustu viku.  Ég efa ekki að höfundur Staksteina hafi traustar heimildir um ástandið í þingflokki Sjálfstæðisflokksins hvorst sem er þetta mál eða önnur.

Þorgerður Katrínu opnaði á Evrópusambandsumræðuna þó ekki með öðrum hætti en þeim að tala um að leggja málið undir þjóðaratkvæðagreiðslu og huga að breytingum að stjórnarskrá. Ég varð þess ekki var að Þorgerður Katrín lýsti yfir stuðningi við Evrópusambandið.

Svo vandmeðfarið er Evrópusambandsmálið greinilega fyrir Sjálfstæðisflokkinn að sérfræðingur flokksins í utanríkismálum Björn Bjarnason og formaður Sjálfstæðisflokksins Geir H. Haarde sáu sig tilknúna til að tjá sig sérstaklega um andstöðu við aðild Íslands að Evrópusambandinu. Varaformaðurinn mátti ekki anda í átt að Evrópusambandinu án þess að reynt sé til hins ítrasta að koma flokkshandjárnunum á umræðuna og dæma ummæli Þorgerðar Katrínar dauð og ómerk.

Staksteinahöfundur sem þekkir vel pólitíska sögu Sjálfstæðisflokksins vísar til að dæmi séu um að varaformaður hafi markað sér sérstöðu í Sjálfstæðisflokknum og vísar í því sambandi til dr. Gunnars Thoroddsen og tekur fram að Þorgerður Katrín þurfi að hafa sterkt pólitískt bakland innan flokksins vilji hún halda þeim lýðræðislega rétti sínum að marka sér pólitíska sérstöðu.

Með öðrum orðum þýðir þetta að það jafngildi klofningi í Sjálfstæðisflokknum að vilja skoða kosti Evrópusambandsaðildar og þeir sem þær skoðanir hafa innan flokksins verði að búa yfir ákveðnum flokksstyrk en ekki er vísað til þess hvað gerist ef slíkur styrkur er ekki fyrir hendi. Hvað er hægt að hugsa sér í því sambandi? Að varaformanninum verði vikið frá á næsta Landsfundi? Að varaformaðurinn teljist ekki lengur hæf til að vera einn helsti talsmaður Sjálfstæðisflokksins?

Sjálfstæðisflokkurinn var sterkastur þegar hann var forustuflokkur þjóðarinnar í utanríkismálum og brautryðjandi í því að koma Íslandi í samfélag þjóðanna. Á þeim tíma var sótt að Sjálfstæðisflokknum fyrir þá afstöðu og honum iðulega brigslað um landráð, landssölu og óþjóðhollustu. Dr. Bjarni Benediktsson sem var helsti talsmaður Sjálfstæðisflokksins á þeim tíma í utanríkismálum hikaði ekki við að berjast fyrir aðild Íslands að Sameinuðu Þjóðunum, NATO og EFTA.  Á þeim tíma voru opnar umræður í Sjálfstæðisflokknum um stefnuna í utanríkismálum og blæbrigðamunur á afstöðu manna varð aldrei til þess að þeim væri hótað viðurlögum vegna skoðana sinna.

Margir töldu að þegar Davíð Oddsson hætti sem formaður í Sjálfstæðisflokknum þá mundi hugmyndafræðileg umræða í flokknum og nútímaleg umræða um utanríkismál þar á meðal Evrópusambandið blómstra en hvorutveggja hafði kalið í valdatíð Davíðs.

Viðbrögin við réttmætum áherslum varaformanns Sjálfstæðisflokksins og ábendingum í Evrópumálum benda  til að sá hugmyndafræðilegi sífreri sem hefur verið  í Sjálfstæðisflokknum frá valdatöku Davíðs Oddssonar hafi ekki náð að bráðna nema örlítið á yfirborðinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæll Jón.

Það verður nú að telja þetta tal Þorgerðar all nokkuð á skjön við stefnu flokksins sem og stjórnarsáttmálann og spurning hvort hún hafi ekki gert tilraun til þess að hafa Sjálfstæðisflokkinn opinn í báða enda eins og Framsóknarflokkurinn nú er líkt og hefur verið gegnum tíðina reyndar.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 19.5.2008 kl. 01:22

2 identicon

Ummæli Þorgerðar Katrínar lýsa vel hugrekki hennar og góðu stöðumati. Hún gerir sér grein fyrir að ESB-bylgjan er farin af stað. Það verður ekki aftur snúið - aðeins spurning hvenær við látum slag standa og setjum Evrópuferlið af stað. Í raun hófst það með aðildinni að EES og hví ekki að ganga alla leið og stuðla að því að við fáum að setja mark okkar á málefni ESB með beinum hætti. Það er mark tekið á rödd Íslands og við þurfum að koma henni afgerandi á framfæri á vettvangi ESB. Ísland á orðið fjölmarga sérfræðinga í Evrópumálum. Þeir hafa viljann til að bera, menntunina og hæfileikana til að vinna í þágu Íslands og ESB að fjölmörgum framfaramálum í þágu hins almenna borgara, neytenda - fólksins í löndunum í kringum okkur.

Sverrir Hans (IP-tala skráð) 19.5.2008 kl. 08:47

3 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Ég var mjög sammála þessum pistli hjá þér Jón.

Þú hefðir örugglega gaman af að skoða "komment" mín vegna ESB aðildar, sem fallið hafa undanfarna daga, m.a. í kjölfar þess að ég lagði spurningu fyrir Geir Hilmar Haarde á fundinum í Valhöll á laugardaginn og fékk ansi einkennileg svör.

Kveðja, Guðbjörn Guðbjörnsson

Guðbjörn Guðbjörnsson, 19.5.2008 kl. 22:24

4 Smámynd: Guðrún Þóra Hjaltadóttir

Þorgerður ríður á vaðið, hún þorir. Þorgerður sagði í viðtali að fáir gætu sussað á hennar skoðanir. Mér fannst liggja í hennar orðum að hún mun halda áfram með þetta. Sjáum hvað gerist.

Guðrún Þóra Hjaltadóttir, 20.5.2008 kl. 11:44

5 Smámynd: Þóra Guðmundsdóttir

Þorgerður þarf að hugsa sinn gang. Hún á greinilega enga samleið með afturhaldskörlunum í Sjálfstæðisflokknum, henni liði eflaust mun betur með víðsýnu frjálslyndu fólki

Án gríns, ,ef flokkur eins og Sjálfsstæðisflokkurinn ætlar sér að vera í forystu yfirleitt þá ætti hann að leiða umræður um Evrópumál, annars dagar hann bara uppi eins og hvert annað náttröll. 

Þóra Guðmundsdóttir, 20.5.2008 kl. 18:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.11.): 1087
  • Sl. sólarhring: 1111
  • Sl. viku: 3336
  • Frá upphafi: 2413437

Annað

  • Innlit í dag: 1023
  • Innlit sl. viku: 3023
  • Gestir í dag: 1006
  • IP-tölur í dag: 959

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband