Leita í fréttum mbl.is

Ríkisstjórnin brýtur rétt á borgurum sínum.

Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna úrskurðaði á síðasta ári að íslenska fiskveiðistjórnarkerfið bryti í bág við 26. gr. sáttmálans um  borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Um er að ræða sáttmála sem Ísland hefur undirritað og fullgilt.  Mannréttindanefndin gaf íslenskum stjórnvöldum 180 daga frest til að bregðast við og leggja tillögur um umbætur fyrir nefndina.

Nú eru 14 dagar eftir af frestinum og sjávarútvegsráðherra upplýsti á Alþingi í dag að hann mundi ekki leggja neinar tillögur fyrir til að koma í veg fyrir áframhaldandi mannréttindabrot og taldi auk heldur spurningu um hvort að við værum bundin af þjóðarrétti af áliti mannréttindanefndarinnar.

Í mínum huga er engin spurning um að við erum bundin að þjóðarrétti. Benda má á að um fullgildan alþjóðasamning er að ræða og við höfum skuldbundið okkur til að fara eftir honum. Þá tók íslenska ríkið til varna og véfengdi ekki hæfi nefndarinnar meðan málsmeðferð stóð gegn Íslandi.

Við þingmenn Frjálslyndra og vinstri grænna lögðum fram þingsályktunartillögu í janúar þar sem lagt var til að Alþingi ályktaði að farið skyldi að niðurstöðum mannréttindanefndarinnar. Sú tillaga fékk við umræður á Alþingi stuðning allra flokka nema Sjálfstæðisflokksins en fæst ekki afgreidd úr sjávarútvegsnefnd þingsins. Þannig kemur annar ríkisstjórnarflokkurinn í veg fyrir að vilji Alþingis í málinu komi skýrt og ótvírætt fram.

Þetta er atlaga að þingræðinu og virðingu Alþingis. Við munum ekki gefast upp við að koma málinu á dagskrá þegar þing kemur saman í haust. 

Það kemur ekki til greina að Ísland haldi áfram að brjóta mannréttindi á borgurum sínum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Svaraðu endilega einu Jón Magnússon.  (Ég veit reyndar að þú munt ekki svara, það gerir ekker til, það var nefnilega vitlaust gefið).

Af hverju skipta erlendir dómstólar og mannréttindi svona miklu máli þegar kemur að kvótamálum - en litlu máli þegar kemur að trúmálum og skólum?

Ég skil ekki þessa þversögn í málflutngi þínum.

Matthías Ásgeirsson, 29.5.2008 kl. 20:48

2 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Mér finnst framkoma Geirs í þessu máli heldur aumleg. Hann heldur því ranglega framað við séum ekki skuldbundin til að fara að úrskurði mannréttindanefndarinnar.  Hvað er maðurinn að meina?  Með þessu opinberar forsætisráðherrann vanþekkingu sína á alþjólegum skuldbindingum landsins.  En segjum að hann hefði nú rétt fyrir sér finnst honum þá allt í lagi að brjóta mannréttindi?

Að hinu leytinu finnst mér það slappt hjá forsætisráðherra að sega að "lögfræðingar muni svara mannréttindanefndinni". Íslensku lögfræðingarnir eru búnir að skila greinargerð úrskurðurinn er fallinn.  Mannréttindanefndin er að bíða svara um hvenær ríkisstjórnin ætlar að láta af mannréttindabrotum. Þetta hljómar eins og pörupiltur sem staðinn er að verki og segist ekki svara fyrr en lögfræðingurinn komi, í veikri von um að honum verði reddað. 

Sigurður Þórðarson, 29.5.2008 kl. 21:05

3 Smámynd: Jón Magnússon

Matthías dómar mannréttindadómstóls Evrópu sem þú ert vafalaust að vísa í varðandi mál sem var höfðað gegn Noregi skiptir miklu máli og við umræðu um Grunnskólafrumvarpið vék ég sérstaklega að lögskýringu á þeim dómi í ræðu við 2. umræðu um frumvarpið og þú getur hlustað á það á vef Alþingis. Það er ekkert í skólamálafrumvörpunum sem brýtur í bág við mannréttindi eða niðurstöðu mannréttindadómstóla eða alþjóðanefnda.

Það er engin þversögn í mínum málflutningi eins og þú getur auðveldlega komist að ef þú nennir að kynna þér það.

Jón Magnússon, 29.5.2008 kl. 23:54

4 Smámynd: Jón Magnússon

Sigurður ég er algerlega sammála þér. Þetta er að mínu viti laukréttar athugasemdir.

Jón Magnússon, 29.5.2008 kl. 23:55

5 identicon

Jón!

 Kemur ekki til greina að Ísland haldi áfram að brjóta mannréttindi á borgurum sínum??

Segðu það við sjálfan þig.

Eitthvað var ég að reyna að kynna þér hérna í vor, mjög alvarleg mannréttindabrot af hálfu Íslenska ríkisins og Hæstaréttar.

Áhugi þinn virtist nú ekki sérstaklega mikill. 

Er ekki sama hvert málið er, eða verður það að snúast um peninga til þess að það skipti máli?

Kv: Guðmundur Þórarinsson. 

Guðmundur Þórarinsson (IP-tala skráð) 30.5.2008 kl. 16:49

6 identicon

Hver getur treyst ríkisstjórn sem fer ekki eftir lögum, sem hún sjálf hefur staðfest?

Nei er ekki tími til að hún segi af sér!

Og þau sem halda að Ísland eigi  erindi í öryggisráðið? 

 Com on, Solla og Geir, lítið ykkur nær og takiði til í ykkar bakgarði, þið voruð kosin af Íslenskri alþýðu, farið nú og vinnið fyrir hana.

Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 30.5.2008 kl. 22:41

7 Smámynd: Ásta Erna Oddgeirsdóttir

Mig langar til að vita hvort ekki teljist til mannréttindabrota þegar íslensk kona sem flutti úr landi með 3 börn, sín þar sem lífið hér var orðið of strembið,fékk til að byrja með meðlag með börnunum,en svo breyttist eitthvað í lagabákninu, og nú eiga börnun hennar ekki rétt á að fá greidd meðlög vegna þess að þau búa í vitlausu landi!! Ég álít að verið sé að mismuna og brjóta á börnunum vegna þess hvar á jarðarkringlunni þau búa. Þau eru samt jafn miklir íslendingar og ég og þú. Er ekki verið að brjóta á mannréttindum þessara barna? Eiga þessi börn minni rétt á að lifa sómasamlegu lífi en önnur íslensk börn? Getur einhver útskýrt þetta fyrir mér því ég get bara ekki skilið svonalagað.

Ásta Erna Oddgeirsdóttir, 2.6.2008 kl. 01:36

8 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Eins og þegar hefur verið bent á, þá kýst þú að túlka niðurstöður þessara dómstóla eins og þér henta hverju sinni.

Í því felst þversögnin.

Matthías Ásgeirsson, 2.6.2008 kl. 16:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 266
  • Sl. sólarhring: 782
  • Sl. viku: 4780
  • Frá upphafi: 2426650

Annað

  • Innlit í dag: 245
  • Innlit sl. viku: 4433
  • Gestir í dag: 241
  • IP-tölur í dag: 235

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband