Leita í fréttum mbl.is

Flokksráðsfundur Sjálfstæðisflokksins

FálkinnFlokksráðsfundur Sjálfstæðisflokksins er haldinn um þessa helgi. Yfirleitt hafa flokksráðsfundir ekki verið fundir mikilla tíðinda eða stefnumótunnar.  Þó eru til undantekningar á því og sú helst að þegar flokksráðsfundur var haldinn nokkru eftir að Gunnar Thoroddsen myndaði ríkisstjórn sína með 3 þingmönnum Sjálfstæðisflokksins og 2 sem studdu ríkisstjórnina að auki en flokkurinn var að öðru leyti í stjórnarandstöðu. Þá var tekist á.  Sá flokksráðsfundur skýrði línur innan flokksins

Nú stendur Sjálfstæðisflokkurinn frammi fyrir því að efnahagskerfið er hrunið eftir óslitna stjórn flokksins í meir ein áratug. Hvernig ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að bregðast við því?

Hvaða utanríkismálastefnu ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að marka þegar fyrir liggur að ógnin er ekki úr Austri heldur hjálpræðið?

Vill Sjálfstæðisflokkurinn leita aðstoðar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eða ekki.

Vill Sjálfstæðisflokkurinn aðildarviðræður við Evrópusambandið eða er hann á móti því?

Hvaða hugmyndir hefur Sjálfstæðisflokkurinn til að draga saman ríkisútgjöld þegar fyrir liggur að tekjur ríkisins munu dragast verulega saman. Vill Sjálfstæðisflokkurinn reka ríkissjóð með halla?

Sjálfstæðisflokkurinn verður líka að móta stefnu í gjaldmiðilsmálum. Vill hann halda krónunni og hafa hana á floti eða vill hann aðrar lausnir?

Til að Sjálfstæðisflokkurinn verði trúverðugur flokkur í forustu stjórnarsamstarfs þá verður hann að svara þessum og mörgum fleiri spurningum um hvert flokkurinn vill stefna.

Tími glamuryrðanna er liðinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Já þetta eru allt brennandi spurningar

Sigurður Þórðarson, 11.10.2008 kl. 14:11

2 identicon

Margar góðar spurningar þarna hjá þér. Gaman væri að vita þín svör þar sem ég tel nú að þitt hjarta slái mjög ,,sjálfstætt".

Endurskipulagning og spennandi tímar eru framundan bæði hjá Sjálfstæðisflokknum sem öðrum stjórnmálaflokkum. Nú er einstakt tækfæri til að breyta áherslum og móta nýja stefnu, þvílíkir tímar fyrir menn og konur í stjórmálum. Ég er þeirrar skoðunar að nú muni koma fram hverjir eiga heima í stjórmálum og á Alþingi og hverjir ekki. Hulunni hefur verið svipt frá augum landsmanna bæði innan og utan stjórnmálaflokka og ekkert verður gefið eftir í kröfum um sterka stjórn fjármála, þar sem fyrirhyggjan er höfð að leiðarljósi. Þetta er að minnsta kosti von mín.

Ertu þeirrar skoðunar Jón að ef Sjálfstæðisflokkurinn hefði ekki verið við stjórn síðustu 10 ár, að staðan í dag væri betri? Hugsanlega hefði þennslan verið eitthvað minni, en utanaðkomandi áhrifa hefði samt gætt hér á landi í efnahag og gjaldeyrismálum ekki satt?

Nökkvi (IP-tala skráð) 11.10.2008 kl. 14:53

3 Smámynd: Halldór Jónsson

Nú sjá menn ESB vera að klofna í frumeindir sínar. Þeir stóru Þjóðaverjar, Bretar  og Frakkar eiga ekkert afgangs handa Írum, Spánverjum, Ítölum  og Portúgölum. Hvernig skyldi ganga með atkvæðagreiðsluna um Lissabonsáttmálann enn einu sinni hjá Írum ?

Ef hér hefði verið evra hvernig værum við þá sett ? Hvað biði okkar annað en enn stærri vandamál sem eru þó ærin núna. Ég held að gamla kola-og stálbandalagið muni taka við ef ESB. Þjóðverjar myndu taka upp gamla markið sitt strax ef þjóðin yrði spurð.

Halldór Jónsson, 11.10.2008 kl. 20:58

4 Smámynd: Halldór Jónsson

Tími glamuryrða er liðinn . En það á við um þig líka Jón minn góður. Það þýðir ekkert að tala um ESB eða evruvæðingu núna í stórsjónum

Sjálfstæðistefnan liggur fyrir eins og hún var. Hún gengur út á sjálfstæði landsins og að vinna í innanlandsmálum að víðsýnni og þjóðlegri umbótastefnu, á grundvelli athandafrelsis og einstaklingsfrelsis, með hagsmuni allra stétta fyrir augum.

Núverandi staða er því að kenna að það var ekki fylgst nægilega með því að skálkar léku lausum hala og sköðuðu alla aðra einstaklinga með framgöngu sinni. Sjáið hvernig Bandaríkjamenn taka á öllum þeim sem gerast berir að því að fara ekki eftir reglum um innherjaviðskipti eða öðrum þeim kúnstum serm okkar bófar leika fyrir opnum tjöldum og hælast um. Hér er ekkert virkt eftirlit og ekkert löggæslukerfi sem menn óttast. 6 milljónir Bandaríkjamanna eru í fangelsum og þeir eru þúsund sinnum fleiri en við. Þar er bygging og rekstur fangelsa boðin út. Hér ætlar allt vitlaust að verða ef einkaðilar reka elliheimili eða leikskóla.

Ludwig Erhard sagði "Wohlstand für alle " Og líka "Masshalten" Efni fyrir alla og ekkert óhóf. Meðan Þjóðverjar fóru eftir þessu gekk þeim betur en síðar þegar kröfugerðin náði sér á strik. Hér eru bara til lúxuslóðir á 20 milljónir ef vill fara að byggja með eigin höndum. Eru allir búnir að gleyma Smáíbúðahverfinu, Casa Blanca, eins og við kölluðum það. Það byggði fólkið sjálft utan vinnutíma og hjálpaðist að.  Nú þarf helst að vera Range Rover fyrir utan fyrstu íbúðina og marmari á gólfum. Helst 100 % lán með.

Það væri fáranlegt að hafa ekki einhvern halla á ríkissjóði næsta ár þegar við verðum að reyna að koma atvinnulífinu í gang. 

Utanríkisstefna Sjálfstæðisflokksins er að hér búi sjálfstæð þjóð sem er engum háð, allra síst tollabandalagi gegn Bandaríkjunum eins og ESB er, og vinsamleg samskipti við alla. Við erum í Nato og þessvegna fá Rúsaar ólíklega herskipalægi í Hvalfirði eða olíubirgðastöð. En það er margt sem við eigum að gera til að vingast við Rússa og eiga góð samskipti við þá eins og aðra. Þeir þarfnast okkar eins og við þeirra.  

Sjálfstæðisflokkurinn stendur ekki frammi fyrir því að hugsjónir hans séu hrundar. Hann er það afl sem þjóðin þarnast mest núna. Okkur vantar ekkert áhrifalaust nöldur heldur einbeitta og styrka stefnu. Þannig komumst við úr þessum hremmingum. Krónan  mun styrkjast og vextir munu auðvitað lækka til að styðja við fólkið. Það verður að endurskipuleggja afborganir lána. Það er engum greiði gerður að reka fólkið útaf heimilunum ef nokkur kostur er á öðru.

Stétt með stétt er stefna Sjálfstæðisflokkins. Í seinni tíð hefur vantað á aðhaldið gegn óhófinu eins og Erhard talaði um. En eign fyrir alla er líka stefna Sjálfstæðisflokksins. Hún hefur ekkert breyst. 

Halldór Jónsson, 11.10.2008 kl. 21:26

5 Smámynd: Halldór Jónsson

Til upplýsingar þá er ég ekki í flokksráði Sjálfstæðisflokksins og var ekki á fundinum.

Halldór Jónsson, 11.10.2008 kl. 21:29

6 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Sæll Halldór!

Frábært innlegg hjá þér og ég er þér að mestu sammála, nema hvað ESB aðildina varðar.´

Ég held að þú lesir stöðu Sjálfstæðisflokksins ekki rétt um þessar mundir. Mér sýnist þú vera íhaldsmaður af gamla skóla skólanum líkt og ég og vilt nýta markaðslausnir, þar sem þær eiga við, en nýta ríkið til að leiðrétta markaðsbresti. Krónan er eiginlega orðinn markaðsbrestur og því vil ég skoða ESB aðild og evruna.

Ég hef fylgst vel með þýska sjónvarpinu undanfarna daga og vikur og sé ekki að fólk sé að gagnrýna evruna líkt og þú segir. Þvert á móti virðist fólk hafa sæst við hana og lofar hana jafnvel núna, þegar í ljós kemur hversu sterk hún er.

Ég býst við að gjaldeyrisskorturinn í Evrópu væri enn verri ef myntirnar væru jafnmargar og þær voru áður en evran var tekin upp.

Við erum ekki líkt og íbúar Evrópu "einungis" að fást við stærstu bankakrísu síðan 1914, heldur bætast við gjaldeyrisskortur, vantrú á krónunni og að við erum ekki í þeim klúbbi, sem örugglega hefði rétt okkur hjálparhönd á stundu sem þessari.

Þar að auki fullyrði ég að Seðlabanki Evrópu hefði aldrei leyft viðskiptabönkum okkar að stofna til skuldar upp á15 falda þjóðarframleiðslu okkar. Þeir fylgjast örugglega með skuldum þjóðarbúsins líkt og verðbólgu, viðskiptajöfnuði, afkomu ríkissjóðs o.s.frv.

Við Sjálfstæðismenn eigum að flýta landsfundi og halda hann í janúar og taka þar fyrir Evrópumálin. Ef að ESB aðildarviðræður verða samþykktar gætum við komið í veg fyrir klofning flokksins. Að öðrum kosti er ég ansi hræddur um að 60-70% kjósenda flokksins fari annaðhvort yfir til Samfylkingar eða kjósi annan hægri flokk, sem aðhyllist ESB aðild. Þetta gæti orðið banabiti flokksins, sem stærsta flokks landsins.

Slíkur flokkur hefði dyggan stuðning frá SA, hægra fólki innan ASÍ og fjölda annarra hagsmunasamtaka.

Guðbjörn Guðbjörnsson, 11.10.2008 kl. 22:11

7 Smámynd: Steinar Immanúel Sörensson

Það eru gríðarleg tækifæri fólgin fyrir íslenskan almenning í þessari kreppu sem nú blasir við, möguleiki væri á að núllstilla þjóðina, aðferð sem ég vil kalla " Economical Rebirth "

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að taka ekki á sig ábyrgð skulda bankanna erlendis , þ.e. þeir sem lánuðu bönkunum munu ekki fá til baka það sem þeirra var, hvert fóru þeir peningar, jú í það að lána einstaklingum og fyrirtækjum hérlendis, þvi ætti ríkisstjórnin að leggja til að allir einstaklingar fái nýja byrjun fjárhagslega endurfæðingu, allir fái að halda eigum sínum sem þeir eiga nú og hafa unnið fyrir, einstaklingar sem hafi orðið gjaldþrota fái að byrja með hreint borð á ný, með þessu væru allir íslenskir einstaklingar gerðir skuldlausir.

Kostir sem þetta hefði er að gjaldþrota einstaklingar yrðu á ný gjaldgengir sem t.d. hugvitsmenn sem þora, ég er ekki að segja að það eigi síðan að hlaupa til og veita þeim aftur lán nema viðunandi tryggingar liggji fyrir eins og eðlilegast væri.

Við hefðum yfir að ráða einhverjum öflugasta mannauði sem til er án þess að hann þurfi að grúfa sig niður heima vegna mistaka sem gerð voru í fortíðinni.

Við yrðum frjálsasta þjóð í heimi og sennilega sú hamingju samasta og  framleiðini þjóðarinnar myndi sprengja alla skala.

Notum ástandið, hefjum nýtt líf, allir íslenskir einstaklingar skuldlausir, með þessu móti munum við geta gert þessa litlu þjóð okkar að stórþjóð á alþjóðlegum mælikvarða.

Leggjumst á eitt, gefum öllum nýtt tækifæri, almenningi, stjórnmálamönnum, útrásarmógúlum, elskum að vera til skuldlaus nýfædd.

 Kveðja

Steinar Immanúel Sörensson 

Steinar Immanúel Sörensson, 11.10.2008 kl. 22:28

8 Smámynd: Halldór Jónsson

Sæll Guðbjön, ég held að tillagan um landsfund í Janúar til að afgreiða afstöðu til ESB aðildar sé ekki heppileg. Við höfum öðrum hnöppum að hneppa. Ég held að haustið verði betra þegar rykið fer að setjast af sprengingunni og hellan farin úr eyrunum.

Það var auðvitað óskynsamlegt að láta bankana vaxa svona hratt án þess að hafa á þeim nasamúl eins og maður notar á villingshesta. Ég skil alls ekki hversvegna bindiskyldu var ekki beitt á þenslutímanum með þessum háu vöxtum og fjárinnstreymi jöklabréfa.

60-70 % flokksins vill ekki endilega í ESB, það held ég sé mikið ofmat. Ég hef verið ESB sinni áður en horfið frá því vegna nánari kynna. Ef kapítalismi á að ríkja þá verða að vera öflugt eftirlit og taka menn umsvifalaust og járna ef misferli er í gangi. Stóri bróðir er hvergi öflugri en í USA og beitir miskunarleysi við hvern þann sem spilar bara á svörtu nóturnar. Óttinn er virðingar faðir og móðir eins og Einar sagði. Þú veist af radarnum og keyrir því á krúsinu af því að þú vilt ekki missa teinið

Okkur vantar ekki nýjan flokk, það er nóg af vandræða flokksbrotum hérna sem engu koma til leiðar. Sjálfstæðisflokkurinn er ekki eigu einhverra útvaldra, Stefnan er mótuð á landsfundi og þar hafa allir sín áhrif þó ýmsum mælist betur en öðrum  eins og gengur. Innan flokksins geta menn starfað og rifist að vild. En útávið eigum við að vera sem einn maður og alls ekki standa fyrir óvinafagnaði með vanhugsuðum fjölmiðlayfirlýsingum. Ég mun ekki hlusta á þig þegjandi á landsfundi lofsyngja ESB án þess að reyna að tafsa eitthvað á móti. Kannske mælist þér betur og ég verð undir. En finnst þér rétt að Sjálfstæðisflokkurinn færi í ESB viðræður með aðeins 55 % flokksins að baki slíkri ályktun ?  Er rétt að loka Reykjavíkurflugvelli þegar ef stór hluti borgarbúa vill það ekki ?  

Halldór Jónsson, 11.10.2008 kl. 22:40

9 identicon

Áhugaverðar vangaveltur hjá ykkur Halldór og Guðbjörn. Það er greinilegt að Sjálfstæðisflokksins bíður vandasamt verkefni.  Hvert er hlutverk Frjálslyndaflokksins að ykkar mati? Ættu þeir að vera meðreiðarflokkur Sjálfstæðisflokksins? En þá verða þeir fyrst að koma sér upp sameigilegri stefnu í málefnum ESB, svo er að sjá hvort sú stefna sé á sama róli og stefna Sjálfstæðisflokksins í þeim málum, verði hún einhverntíma ljós......

Halldór, Reykjavíkrflugvöllur á að vera þar sem hann er, enda er hann í þjónustu allra landsmanna, en ég er hræddur um að sú skoðun sé ekki pólitísk rétt í ranni margra sjálfstæðismanna og Jóns Magnússonar, hvers blogg þetta nú er.

Menn greinir á um svo margt.

Nökkvi (IP-tala skráð) 12.10.2008 kl. 14:41

10 Smámynd: Halldór Jónsson

Sæll Nökkvi

Sameiginleg stefna er ekki sama og að einn aðili taki upp stefnu hins í öllu þegar málið er umdeilt. Þessvegna er svona erfitt að eiga við ESB og flugvöllinn af því það eru annaðhvort- eða mál 

Halldór Jónsson, 13.10.2008 kl. 07:32

11 identicon

Halldór: Mér finnst ansi oft "trúabragðalykt" af þeirri afstöðu að ekki megi ræða aðild að ESB. Pistill Jóns er glettilega góður og lýsir vel hvernig svona fundir fara fram. Merkilegt að Jón skyldi ekki nefna þjóðnýtingarhugmyndir formanns FF. Ég hélt að ég myndi aldrei taka undir slíkar hugmyndir en geri það samt nú í bloggi, miðað við þjóðaraðstæður. kv gb

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 13.10.2008 kl. 10:30

12 identicon

Heldur einhver  að sjálfstæðismenn spái yfirleitt í einhverju öðru en eignsmunum????? Ég held bara að allir sem eru að lifa á Íslandi með OPIN AUGUN hljóti að sjá þokkalega. Einu sinni taldi ég mig sjálfstæðismann ,,en bara einu sinni!!!!!!!!!!Það er lang síðan! Fólk þroskast sem betur fer!

Heiðveig Maren Jónsdóttir (IP-tala skráð) 14.10.2008 kl. 05:03

13 Smámynd: Halldór Jónsson

Heiðveig mín,

í hvaða flokkum eru þeir stjórnmálamenn sem hugsa ekki um sjálfa sig og eftirlaunin sín ? Væri ekki góð byrjun að nafngreina bæði flokkana og einstaklingana ?

Halldór Jónsson, 14.10.2008 kl. 21:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 758
  • Sl. sólarhring: 772
  • Sl. viku: 5697
  • Frá upphafi: 2426331

Annað

  • Innlit í dag: 700
  • Innlit sl. viku: 5254
  • Gestir í dag: 638
  • IP-tölur í dag: 603

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband