Leita í fréttum mbl.is

Öllu má nú nafn gefa

Hópur "mótmælenda" kom saman á Lækjartorgi í gærkvöldi og kveikti þar bálköst segir í frétt af því sem gerðist í miðbæ Reykjavíkur í gærkvöldi. En hverju var fólkið að mótmæla? Það kemur ekki fram í fréttinni.

Er það rétt að kalla fólkið sem kveikti bál í miðbæ Reykjavíkur í gær mótmælendur? 

Ekki veit ég hverjir voru þarna að verki en ljóst er að nokkuð skipulag hefur  verið vegna þess að bíll sá um aðdrætti að eldsmat.  Svona framkoma á ekkert skylt við þjóðfélagsbaráttu. Í daglegu mæltu máli er eðlilegra að kalla svona háttalag skrílslæti. 

Af hverju nota fjölmiðlar ekki eðlileg orð og hugtök yfir þá sem valda lögreglu og venjulegu fólki erfiðleikum og vinnur skemmdarverk á eigum einstaklinga og þjóðfélagsins.


mbl.is Bál kveikt á Lækjartorgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur Th Skúlason

þetta eru ekki  friðsamir mótmælendur skrílslæti vera kveikja elda um nótt þegar flestir eru sofandi við vitum hverjar geta orðið af þessu

Ólafur Th Skúlason, 15.2.2009 kl. 10:48

2 identicon

Sammála Jón.

sandkassi (IP-tala skráð) 15.2.2009 kl. 10:48

3 identicon

Aðgerðin var ágætlega kynnt fyrirfram auk þess sem fólk gekk um með gjallarhorn og útskýrði fyrir áhorfendum hvað væri í gangi.

Þetta var hávaðaaðgerð á vegum Öskru, félags byltingarsinnaðra háskólastúdenta. Aðgerðinni var beint gegn viðleitni lögreglu til að hindra mótmælendur í því að valda truflun með hávaða. Hávaði er eina vopnið sem við höfum sem hingað til hefur skilað áþreyfanlegum árangri og sem betur fer ætlar unga kynslóðin ekki að láta það viðgangast að það vopn sé tekið frá okkur.

Ég tek því tíu sinnum ofan fyrir Öskru.

Eva Hauksdóttir (IP-tala skráð) 15.2.2009 kl. 10:48

4 Smámynd: Sigurður Hrellir

Jón, hvaða flokk ætlar þú næst að heiðra með nærveru þinni?

Sigurður Hrellir, 15.2.2009 kl. 10:49

5 Smámynd: Einar Axel Helgason

Án þess að vilja fordæma möguleikann á skemmdarverkum, þá vildi ég spyrja hvort þér væri kunnugt um að unnin hafi verið skemmdarverk við þetta tilefni? Áttir þú kannski brettin sem voru brennd?

Einar Axel Helgason, 15.2.2009 kl. 11:14

6 identicon

Ég er ekki sammála Evu Hauksdóttir,

Háskólastúdentar eiga að læra sín námsefni skila góðum prófum.  þeir eiga ekkert að vera þvælast úti í nóttinni með eldfæri og raska ró höfuðborgarbúa um miðjar nætur.  Hver hefur alið þetta unga fólk upp?   Mér er spurn?

J.þ.A (IP-tala skráð) 15.2.2009 kl. 11:17

7 Smámynd: Einar Axel Helgason

JÞA, í hverju ertu ekki sammála Evu Hauksdóttur? Tekurðu ekki tíu sinnum ofan fyrir stúdentunum?

Það er fyndið hvernig fólk býr í huga sér til tilgang handa öðru fólki. „...eiga að læra sín námsefni [sem er raunar eintöluorð, nokkuð sem þú vissir, hefðir þú lært þitt námsefni í grunnskóla] skila góðum prófum.“ Líkt og góð próf feli í sér einhvers konar efnahagslegan eða siðferðislegan ávinning fyrir þjóðina! Ég reikna raunar með því, JÞA, að þú hafir ekki raunverulega hugmynd um hvort þetta fólk hafi lært sitt námsefni eða skilað góðum prófum. Að minnsta kosti margt þessa fólks tekur sitt námsefni alvarlega og af virðingu, þykist ég viss um, enda krefst málstaður Öskru þess að fólk læri að hugsa svolítið óhlutbundið og út fyrir viðjar samfélagsins.

Á hinn bóginn kemur það þér ekki við hvernig fólk tekur sitt námsefni. Falli fólk, þá fellur það. Dugnaður er blekking hins dygga fasista um að það komi öðru fólki við hvort starfsmaðurinn í Hagkaup bara stendur og slæpist, líkt og hann langar til, eða hvort hann er að þurrka af glerinu við salatbarinn. Fasistinn vill að allir séu duglegir, lífið snúist fyrst og fremst um að afneita sér um það sem lífið býður upp á. Roosevelt lýsti því yfir þegar kreppa reið yfir á síðustu öld að ef engin stör fengjust væri betra en ekkert að láta fólk vinna við að grafa skurði og moka ofan í þá aftur. Ég held það segi nokkuð um siðferði kapítalísks hagkerfis.

Einar Axel Helgason, 15.2.2009 kl. 11:46

8 identicon

Ég verð að vera alfarið ósammála Einari Axel postula okkar hér í meðferð Íslensku. Þá þykir mér hann ofnota kommur og skorta fagurfræði sem gæfi til kynna aðdáun hans á tungumálinu.

Varðandi eftirfarandi fullyrðingu þá eru jú menn sem vinna og aðrir sem láta vinna fyrir sér, kosta sig til náms sem þeir standa sig illa í ect.

"Roosevelt lýsti því yfir þegar kreppa reið yfir á síðustu öld að ef engin stör fengjust væri betra en ekkert að láta fólk vinna við að grafa skurði og moka ofan í þá aftur. Ég held það segi nokkuð um siðferði kapítalísks hagkerfis."

sandkassi (IP-tala skráð) 15.2.2009 kl. 13:02

9 Smámynd: Einar Axel Helgason

Ég held að ég hafi nú ekki gerst sekur um postulahátt – að minnsta kosti ekki í íslensku. Ég benti bara á kaldhæðnina í því að hæða fólk fyrir að stunda ekki nám sitt vel í sömu setningu og fáránleg málfarsvilla kom fram. Ég tala og skrifa íslensku á nákvæmlega þann máta sem mig langar til og ég hvet aðra til að fara eftir því sjónarmiði.

Ég er á hinn bóginn meira en til í að prédika um kapítalið og ríkisskipulagið: Að láta aðra vinna fyrir sig er nokkuð sem viðgengst ekki með róttækustum hætti hjá stúdentum eða atvinnulausum, heldur í efstu lögum samfélagsins. Það segir mér enginn að halda megi því fram að auður Björgólfs Guðmundssonar og hans nóta sé á nokkurn hátt í hlutfalli við vinnuframlag eða framleiðslu. Eru peningar ef til vill siðferðislegur skali út af fyrir sig?

Á meðan stúdentar lifa af öðru en beinu vinnuframlagi eru þeir þó ekki uppteknir við að steypa þjóðinni í svo botnlausar skuldir að almenningur ber ekki einu sinni skynvitund á fjárhæðirnar sem um er að ræða. Flestir félausir stúdentar efast ég um að viti einu sinni hvernig ætti að fara að slíku eða gætu það yfirhöfuð, hvort sem þeir reyndu eða ekki.

Einar Axel Helgason, 15.2.2009 kl. 14:28

10 Smámynd: Ragnar Gunnlaugsson

Er þetta kannski fólk sem við ölum á námslánum.

Ragnar Gunnlaugsson, 15.2.2009 kl. 14:50

11 Smámynd: ÖSSI

Því miður þá eru þessir svokölluðu mótmælendur orðnir eins og litlir krakkar sem leggjast í jörðina og grenja ef þeir fá ekki það sem þeir vilja.....Ef þetta er það sem koma skal, að allir mótmæli öllu sem er ekki eins og eftir þeirra höfði þá erum við komin í alvarleg vandamál....Á næst að mótmæla því ef veðrið er ekki eins og fólk vildi hafa það?

ÖSSI, 15.2.2009 kl. 14:52

12 Smámynd: Einar Axel Helgason

Ragnar minn, ég kannast ekki við að þú eða nokkur annar hafi alið mig á námslánum. Tekið hef ég námslán og ég reikna ekki sérstaklega með að LÍN muni sleppa þeirri skuld fyrr en ég hef greitt hana að fullu (og væntanlega rúmlega það) eða ég ligg undir grænni.

Það sem mér þykir fyndið er að menn sem sveifla golfkylfum eins og þeir eigi það skilið að fá að slæpast á golfvellinum fremur en stúdentar eiga skilið að slæpast í Hljómskálagarðinum komast enn upp með það að væna fólk sem hefur uppi kröfur í sífellu um frekju. Ég man ekki beinlínis hvenær hæstaréttarlögmenn eða fjármálaverkfræðingar gerðu heiminum síðast gagn, frekjan í auðvaldinu er að sjálfsögðu sú gegndarlausasta.

Ég get að minnsta kosti fundið að heimspekingar, ljóðskáld, rithöfundar og stærðfræðingar geri heiminn örlítið fallegri meðan það eina sem „fólk með peninga“ hefur lagt til heimsins eru gjörningar á borð við að fylla göturnar af ógeðslegum jeppum.

Einar Axel Helgason, 15.2.2009 kl. 15:20

13 Smámynd: Georg P Sveinbjörnsson

Margir af fyrirlitlegustu karakterum þessarar þjóðar eru auðmenn, þjóðsagan um auðmanninn sem komst í álnir af eigin verðleikum hefur verið afhjúpuð sem slík, verðleikar koma lítið við sögu en svindl, arðrán  og svínarí á kostnað almennings reglan frekar en undantekning.

Sumir eru samt sáttir við að vera þrælar alla sína tíð og munu úthrópa þá sem vilja ekki vera það.

Georg P Sveinbjörnsson, 15.2.2009 kl. 16:18

14 identicon

Viðar,

Ég held samt að þessi "læti" og ofbeldi við alþingishúsið hafi ekki verið afgerandi í þessu.

sandkassi (IP-tala skráð) 15.2.2009 kl. 17:40

15 Smámynd: Einar Axel Helgason

Mér finnst fyndið að sjá hvernig alþingismaðurinn og hæstaréttarlögmaðurinn Jón Magnússon lætur sér nægja að varpa fram færslunni en lætur gervihnetti á borð við Gunnar um að verja annars illverjandi fullyrðingar sínar.

Einar Axel Helgason, 15.2.2009 kl. 18:12

16 identicon

Bíddu nú við:) kallar mig "gervihnött" en ert sjálfur "kommúnisti" á námslánum (samkvæmt eigin skilgreiningu),,,,

sandkassi (IP-tala skráð) 15.2.2009 kl. 18:46

17 Smámynd: Einar Axel Helgason

Já.

Einar Axel Helgason, 15.2.2009 kl. 18:55

18 identicon

Þú villt kannski útskýra mál þitt vinur,,,,

sandkassi (IP-tala skráð) 15.2.2009 kl. 18:58

19 identicon

Ég er ekki á þeirri skoðun að kommúnismi muni hjálpa Íslendingum í þeirri stöðu sem er uppi.

Aftur á móti eru þeir sem hafa aldrei unnið fyrir sér og eru nógu efnaðir/eða foreldrar þeirra til þess að geta leyft sér skoðannir þær sem lúta að kommúnisma.

Það er ekki til meira tvöfalt siðgæði, við vinnandi fólk í landinu höfum komið málum þannig fyrir að þú færð þín námslán. Ég hef ekki áhuga á að borga undir rassinn á þér vinur ef þú ert að rústa miðbænum um helgar.

sandkassi (IP-tala skráð) 15.2.2009 kl. 19:29

20 Smámynd: Einar Axel Helgason

Ég sé ekki alveg hvað er að útskýra, sérlega ekki í samhengi við að kalla þig gervitungl Jóns Magnússonar, sem var raunar ekki það sem fólst helst í fullyrðingu minni, heldur að þú værir gerður út sem slíkt gervitungl við þetta tilefni.

Að auki sé ég í gegnum orðalag þitt („vinur“). Þú telur þig geta sagt sjálfum þér að ég er, líkt og stúdentar, kollegar mínir, yngri og síður reyndur en þú og á þann veg lokið máli þínu. Hann lærir seinna, greyið. Mér þykir þetta orðalag óþokkalegt, þótt þú kunnir að halda að það líti aðeins eðlilega út.

Ég tel ekki tilefni til þess að útskýra kommúnisma á annan hátt en þann að ég aðhyllist hann í nokkuð útvíkkuðum skilningi, viljir þú fræðast um hann er nóg efni á netinu og víðar.

Tvöfaldasta siðgæðið felst ekki í hugmynd um meðvitað jafnrétti heldur í því að búa til frasa eins og vinnandi fólk. Þar eru lagðir að jöfnu auðmagnseigendur á borð við Björgólf Thor Bjórgólfsson og hin vinnandi alþýða. Hvernig er það, er það einhvers konar mælikvarði á dugnað þeirra ofurríku að eiga auð sem metinn er tíu þúsund eða hundrað þúsund sinnum meiri en auður hins almenna miðstéttarmanns? Má ef til vill segja að auðsköpunin sé meiri? Hvað þá með þig, sem vinnur við að búa til tónlist? Býrð þú til nokkurn alvöru auð? Hvernig er það sambærilegt?

Auðseign í frjálshyggjuríki er enginn mælikvarði á neinn praktískan eða siðferðislegan eiginlega eigandans, heldur bara viðleitni hans við auðsöfnun. Líklega eru margir sem líta á peningaeign sem kvarða á eitthvað slíkt, sjálfvirkan og auðlesanlegan – en það viðhorf er þægileg leið til að sleppa fram hjá alvöru siðferði.

Þér að segja tel ég raunar að tónlist sé ómissandi í veruleikanum. Ég læri stærðfræði og jafnvel þó það komi þér ekkert við, þá er ég vel að því kominn. Ef til vill munt þú ekki kunna að meta neitt það sem ég mun skapa sem stærðfræðingur en fegurð stærðfræðinnar er að engu minni heldur en fegurð tónlistarinnar, jafnvel þótt fleiri kunni að vilja greiða fyrir tónlistina.

Letingi eða auðnuleysingi eru orð sem frjálshyggjumenn nota til einföldunar um alla þá sem eiga minni pening en þeir sjálfir, hvað ef fólk langar bara að gera eitthvað sem erfitt er að hafa pening úr? Svo sem stærðfræði? Er lénsveldi peninganna náttúrulegt réttlæti til þess að skera úr um hver má hvað hvar og hvenær?

Afneitun á þessum einföldunum er bara eitt sem dregur mig frá þjóðskipulagi nútímans.

Einar Axel Helgason, 15.2.2009 kl. 22:45

21 Smámynd: Georg P Sveinbjörnsson

Kommúnismi/Kapítalismi, tvær leiðir að sama marki, alræði efsta lags auðvaldsins. Það er spilað á þjóðir heimsins eins og fiðlu og hefur verið gert lengi. Menn skiptast í fylkingar og koma sér fyrir í skotgröfum á meðan klíka alþjóðlegra bankamanna og auðhringjaeigenda nýr saman loðnum lófunum, arðránslistin gengur síðan mann fram af manni í sumum öflugum og fyrirferðamiklum fjölskyldum í elítunni. Mæli með Firewall til að komast aðeins út úr hægri/vinstri hjólförunum svikulu og skoða hlutina í aðeins stærra samhengi.

Georg P Sveinbjörnsson, 15.2.2009 kl. 23:06

22 identicon

Ég þakka þér fyrir skemmtilegt svar og líkar mér betur við þig en þig grunar. Þú ert augsýnilega klár í kollinum og ert með ástríðu fyrir stærðfræði sem er frábært.

Ég get vissuleg séð samhengi milli stærðfræði og tónlistar ekki hvað síst á því sviði sem ég starfa mest á sem er kennsla. Ég er ekki sérlega talnaglöggur maður en passa mig á að hafa nóg af talnaglöggu fólki í kringum mig.

En sem vísindagrein er stærðfræði öruglega frábær og öruglega alveg jafn mögnuð og tónlist.

Ég er ekki ríkur Einar, er einungis með venjuleg laun eins og allir aðrir. En arguement við allt sem heitir kommúnismi er að öll félagsvæðing vill oft á tíðum vinna gegn einkaframtakinu. Sjálfur hef ég þurft að fást við kerfið, einu sinni í nokkur ár erlendis þar sem að kerfið meinaði mér um að stunda vinnu í tónlist eins og ég vildi.

Seinna hér heima þurfti ég að fást við hið opinbera og berjast með kjafti og klóm til nokkurra ára til þess að fá að starfa eftir mínu höfði. Það er ekki auðvelt þegar menn eru með konu og börn að þurfa að mölva ríkjandi kerfi með áróðri og yfirgangi til þess að fá vinnufrið.

En ég gerði það og er sterkari fyrir vikið, hræðist engan og er stoltur af verkum mínum. Stjórnarhættir geta þó breyst og kannski mun einhverntíman einhver banna mér að vinna eftir mínu höfði. Þá verða aftur læti.

En varðandi Auðjöfrana sem þú talar um þá er ég alveg sammála þér með þá Bjöggana og allt þetta Bonus lið og allt heila klabbið.

Annars þakka ég þér bara fyrir snarpar og skemmtilegar samræður, þú ert flottur!

sandkassi (IP-tala skráð) 15.2.2009 kl. 23:08

23 identicon

Mér skilst að þessi mótmælendahópur hafi verið að mótmæla flokkaflökkurum og fyrrverandi stjórn Fjármálaeftirlitsins.

Stefán (IP-tala skráð) 16.2.2009 kl. 09:03

24 identicon

Kjánaleg hugtakavilla í gangi hér. "Satellite" hefur fleiri, frábrugnar og verulega eldri merkingar en gervihnöttur. Kunni menn ekki ensku, ættu þeir ekki að slá um sig með henni. Kannski að læra eitthvað í háskólanum?

Hins vegar vegar, ef hópur fólks sér ástæðu til að koma saman, með tilskyldum leyfum, til að styðja eða mótmæla einhverjum gjörningi, ætti þeim að vera það frjálst. Að kveikja bál á Austurvelli, er hins vegar aldrei nema í besta falli sóðalegt, og í versta falli eignarspjöll.

Tilskylin leyfi ættu þó ekki að ná yfir röskun á næturró, og starfsfriði helstu stofnanna landsins.

Haukur (IP-tala skráð) 16.2.2009 kl. 12:15

25 Smámynd: Einar Axel Helgason

Haukur, ég geri mér fyllilega grein fyrir því sem ég segi. Jafnvel þótt íslenskan hafi ekki alveg jafngott orð fyrir það sem ég vil segja og enska orðið „satellite“ – þá þjónar orðið gervitungl fyllilega sínum tilgangi, að minnsta kosti sem líkingamál. Það þýðir ekkert að hafa við málfarsfasisma til þess að beina sjónum frá innihaldi orðanna.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að útskýra aðgerðina frekar en þegar er orðið. Ég vil bara segja að stjórnarskráin tryggir rétt manna til að safnast saman, tilskilin leyfi á ekki að þurfa til. Á hinn bóginn þá má vísa í þá klausu sömu greinar sem segir að banna megi samkomur þyki uggvænt að af þeim leiði óspektir. Þetta er að sjálfsögðu álitamál og það er að nokkru leyti, að ég fæ best skilið, tilgangur aðgerðarinnar að teygja merkingu laganna og ögra þeim.

Af hverju segir þú ekki bara það sem í raun býr að baki orða þinna:

„Svona gerir fólk bara ekki!“

Því það er rétt, þetta brýtur í bága við venjur samfélagsins og sá er tilgangurinn.

Gunnar, þegar svona samræður snúast upp í hrós verð ég óhjákvæmilega hálfvandræðalegur, ég vil ekki láta eins og orð mín eða þín hafi einfaldlega verið leikur.

Á hinn bóginn kann ég að meta það þegar fólk ber fyrir mér virðingu og sýnir það svo ég þakka fyrir það. Ég þakka fyrir samræðurnar sömuleiðis. Ólíkt mörgu frjálshyggjufólki sýnist mér að hjá þér kunni að búa að baki raunveruleg ást á frelsinu og þú þekkir jafnvel gagnrýni á auðvaldið.

Sjáumst í byltingunni.

Einar.

Einar Axel Helgason, 16.2.2009 kl. 15:54

26 identicon

Já enda ber að varast að tengja afbrotamenn við frjálshyggju og gerendur í Íslenska efnahagshruninu eru afbrotamenn og ekkert annað.

sandkassi (IP-tala skráð) 16.2.2009 kl. 16:58

27 Smámynd: TARA

Tek undir með þér Jón, það koma hvergi fram hverju var verið að mótmæla og mér fannst það í hæsta máta glannaskapur að kveikja eld. Það hefði getað farið á verri veg. Fólk þarf að hugsa áður en það framkvæmir.

TARA, 18.2.2009 kl. 00:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 61
  • Sl. sólarhring: 1323
  • Sl. viku: 4519
  • Frá upphafi: 2466731

Annað

  • Innlit í dag: 58
  • Innlit sl. viku: 4198
  • Gestir í dag: 57
  • IP-tölur í dag: 57

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband