Leita í fréttum mbl.is

Það verður að breyta reglum um lífeyrissjóði.

Með lögum um lífeyrissjóði eru allir landsmenn skyldaðir til að greiða 12,5% af launum sínum í lífeyrissjóð. Þeir ráða því ekki í hvaða lífeyrissjóð þeir greiða og þeir fá ekki að velja sér lífeyrissparnað þó þeir fái hærri ávöxtun og betri kjör en ríkisskyldaða lífeyrissjóðinn. Ekki nóg með það ef einstaklingur sem greitt hefur í lífeyrissjóð alla ævi deyr áður en kemur til töku lífeyris þá fá erfingjarnir ekki peningana hans til baka.  Það væri hægt að hafa kerfið miklu betra og bjóða upp á meira einstaklingsfrelsi. En frelsisskerðing einstaklinga í lífeyriskerfinu í þessum þvingaða sparnaði er óásættanleg.

Með þvingunarlögunum um að allir skyldu greiða 12.5% af laununum sínum í lífeyrissjóði gætti ríkisvaldið ekki að því að tryggja lífeyrisþegum að þeir fengju peningana sína til baka. Það er undir stjórnendum lífeyrissjóðanna komið hvernig með þá er farið og hinn almenni lífeyrisþegi hefur ekkert um að að segja eða með það að gera. Lýðræðisskorturinn við stjórn lífeyrissjóðanna er óþolandi.

Nú liggur fyrir þegar stjórnandi Lífeyrissjóðs Verslunarmana lætur af störfum að eigin ósk að hann hefur verið á ofurlaunum og ofurfríðindum á kostnað þess fólks sem greiðir í lífeyrissjóðinn sem forustumenn verkalýðshreyfingarinnar segja að séu að greiða í lífeyrissjóðinn sinn en í raun er fólk að greiða í lífeyrissjóðinni þeirra. Þannig er það. Fólkið bara borgar en stjórnendurnir, valdsmennirnir, gera það sem þeim sýnist innan allt of rúmra marka frá ríkisvaldinu.

Það er óásættanlegt  fyrst á annað borð er verið með þetta kerfi þvingaðs sparnaðar að það séu ekki víðtækar hömlur á því með hvaða hætti stjórnendur lífeyrissjóða mega fara fram og hvaða ofurlaun þeim er heimilt að skammta sér.

Nú liggur fyrir að í mörgum tilvikum eru launþegar búnir að tapa miklu af lífeyri sínum vegna óábyrgra fjárfestinga stjórnenda sjóðanna. Hver bætir fólkinu það tap. Ríkisvaldið setur lög sem skyldar alla til að borga en kemur ekki við hvort að fólkið fær þennan þvingaða sparnað endurgreiddan.

En það skortir ekkert á að lífeyrissjóðirnir innheimti vangoldin lifeyri með allri þeirri hörku sem löglegi innheimtumarkaðurinn heimilar.

Ísland er eina landið þar sem að hús lífeyrisþega getur hugsanlega verið boðið upp ofan af honum til þess að honum geti hugsanlega liðið vel í ellinni ef hann lifir til þess tíma og stjórnendur sjóðanna eru ekki búnir að fordjarfa peningunum með röngum ákvörðunum og ofurlaunum sér til handa.  Getur þetta virkilega verið ásættanlegt kerfi.

Fyrst ríkið er að skylda fólk til að greiða með þessum hætti þá verður það annað hvort að stjórna þessum þvingunarsparnaði og tryggja fólki endurgreiðslu eða veita fólki fullt frelsi til að ávaxta peningana sína í lífeyrissjóðum eða sambærilegum sjóðum sem uppfylla nauðsynlegar kröfur. Einnig að tryggja að fólk geti fært peningana sína á milli sjóða og hafi áhrif á stjórn þeirra. Það eru lágmarkskröfur í lýðræðisríki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Jóhanna Sigurðardóttir lofaði að tala við Helga Vilhjálmsson kenndan við Góu fyrir 20 juní en hann safnaði 21 þúsund undirskriftum vegna óánægju fólks með lífeyrissjóðina. Málið er heitt og það þarf að koma reglu á þetta. 

Mér persónulega ofbýður óráðsían með ofurlaun forstjórans og 400 hestafla Caddilac-fríðindin sem áskriftar-sjóðurinn LIVE veitir stjórnandanum. Það getur tæplega verið erfitt að "reka" þessa skrifstofu með her manna í kringum sig auks óvígs hers lögmanna í innheimtum á eftir atvinnurekendum og sjóðfélögum.

Þetta er útúr öllum veruleika, enda maðurinn á förum en stjórnarmenn ætla að kóróna ruglið - draga upp ávísanaheftið og skrifa 15.000.000 króna ávísun handa honum.

Mjög góð samantekt hjá þér Jón og þið aðstoðið Jóhönnu við að koma skikki á þessi mál.

Hákon Jóhannesson (IP-tala skráð) 16.5.2009 kl. 18:00

2 Smámynd: Halldór Jónsson

Okkur þykir fyrir því að verða að drepa þig í dag til þess að þú þurfir ekki að líða skort í ellinni.

Ég hef alltaf haldið því fram,  að lífeyrissjóðakerfið myndi fyrr eða síðar lenda í ræningjahöndum.

Væru ekki flestir sjötugir betur settir núna með 10 % af ævitekjunum á verðtryggðri bók heldur en hjá jeppastjórunum ?

Halldór Jónsson, 17.5.2009 kl. 10:55

3 identicon

Góð grein hjá þér. 

Ef ég fengi ráðið þá væri ég búinn að afnema "þessa ánauð". Það væri þó "lýðræði" ef hver og einn fengi að ráða sparnaðarleið sinni sjálfur.

Ég vildi fá að ráðstafa mínum lífeyrissparnaði sjálfur    og standa og falla með því hvernig ég ávaxtaði þessa aura.  Það eru til ýmsar leiðir til þess sem ekki þurfa að tengjast ríkisskuldabréfum, bönkum eða lífeyrissjóðum í núverandi mynd.

Á ýmsan hátt má bera þetta saman við "kvótakerfið" þar sem þjóðin   leggur fram "auðæfin", fáeinir fá stjórna og hafa "verulegar" tekjur af en aðeins örfáir fá að hagnast ótrúlega mikið á.

Páll A. Þorgeirsson (IP-tala skráð) 17.5.2009 kl. 15:15

4 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Góður pistill Jón.

ER þér innilega sammála.

kv.Guðrún María.

Guðrún María Óskarsdóttir., 18.5.2009 kl. 00:37

5 identicon

Ágæta fólk. Ég held að sum ykkar séu að misskilja samtryggingarhluta lífeyrissjóðskerfisins. Hann snýst um að tryggja öllum ákveðinn lífeyri óháð því hvað þeir lifa lengi eða lenda í örorku fyrr á lífsleiðinni. Þetta er í raun eins og skyldutryggingarsjóður, sem passar upp á að allir hafi eitthvað á elliárunum. Hann er til að passa upp á fólkið, ekki erfingjana.

Deila má um skylduna til sparnaðar, en því miður myndu margir sóa öllu sínu jafnóðum ef ekki væri skildan. Auðvitað, fyrir þá sem sína aga í fjármálum, er þetta óþarft. Þá má ekki gleyma því að lífeyrissjóðurinn er vörn gegn gjaldþroti, þ.e. bjargar þeim hluti sparnaðar frá því að lenda í höndum kröfuhafa sem er bundinn í sjóðunum.

Ég skil annars ekki hvers vegna allir sjóðir hafa ekki sjóðfélagalýðræði eins og er í mínum sjóð (Lífeyrissjóði verkfræðinga), þar er stjórninni hent út ef hún stendur sig ekki að mati fundarmanna (sem eru allir greiðendur í sjóðinn).

Um fjárfestingar skal ósagt látið, en margir hefðu tapað meiru hefðu þeir séð um sparnaðinn sjálfir, aðrir minnu. Þannig er það alltaf. En þetta er lið er auðvitað á allt of háum launum, margt.

Haukur (IP-tala skráð) 19.5.2009 kl. 12:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.1.): 64
  • Sl. sólarhring: 808
  • Sl. viku: 6263
  • Frá upphafi: 2471621

Annað

  • Innlit í dag: 53
  • Innlit sl. viku: 5714
  • Gestir í dag: 51
  • IP-tölur í dag: 51

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband