Leita í fréttum mbl.is

Hverjum er ekki ofboðið?

Mér er ofboðið að heyra að "fjármálasnillingar" þjóðarinnar sem náðu tangarhaldi á Sjóvá-Almennum tryggingum skuli hafa notað þetta áður stönduga og vel rekna fyrirtæki sem seðlaprentun fyrir sjálfa sig til að fara á flug í fráleitum áhættufjárfestingum í Asíu og víðar.

Miðað við þá fjárfestingu sem helst hefur verið  sagt frá þá velti ég því fyrir mér hvort þessir fjárfestar og sérfræðingar þeirra fylgist ekki með og hafi ekki lesið varnaðarorð um fasteignabóluna þegar þeir ákváðu að fjárfesta í fasteignum í Asíu. Hvaða fjármálasérfræði og þekking lá að baki þessum fjárfestingum? Mér er nær að halda að það hafi ekki verið mikið vit eða þekking sem lá þar á bakvið því miður.

Enn einu sinni leggur ríkið einkafyrirtæki til gríðarlega fjármuni 16 milljarða í þessu tilviki,  vegna óreiðustjórnar einkafyrirtækis.  Mér finnst það rangt. Þeir sem eiga og reka einkafyrirtæki eiga að bera ábyrgðina en ekki skattgreiðendur.   Hvað er athugavert við það að fyrirtæki sem eru komin í þrot fari í gjaldþrotameðferð? 

Það er ljóst að það verður að gera grundvallarbreytingar á löggjöf þjóðarinnar til að tryggja það að skattgreiðendum komi einkafyrirtæki ekki við og beri ekki ábyrgð á þeim sem þar starfa. Hugmyndafræði markaðshyggjunnar byggist á því að þeir sem eiga og reka fyrirtæki taki áhættuna en geti ekki látið aðra borga áhættuna fyrir sig þegar illa gengur. 

Mér er nánast orða vant að sjá að helstu "fjármálasnillingar" þjóðarinnar hafa verið hinir verstu fáráðar og anað út í glórulausar fjárfestingar hver á fætur öðrum á ábyrgð þjóðarinnar.


mbl.is 16 milljarðar inn í Sjóvá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Þess vegna virkar ekki kapitalisminn,  illa reknum fyrirtækjum er ekki leyft að fara á hausinn

Jenný Stefanía Jensdóttir, 9.7.2009 kl. 01:04

2 identicon

Þú skrifar

"Mér er nánast orða vant að sjá að helstu "fjármálasnillingar" þjóðarinnar"

Ég tel að það hafi verið hlutverk FME og Seðlabankans, ásamt pólitískri forystu á Íslandi að koma í veg fyrir að þjóðin væri rænd innanfrá.

Jón líttu á raunveruleikann. Ekki tala pólitísku!

Birgir Rúnar Sæmundsson (IP-tala skráð) 9.7.2009 kl. 08:22

3 identicon

Jón sæll. Sammála þessu en minnstu ekki ógrátandi á markaðshyggjuna. Lögmál hennar eru þverbrotin um leið og stórskuldug fyrirtæki hafa aðgang að fjármagni gegn um eignarhald á bönkum eða sambönd/klíku við þá aðila. Hér á landi getur fyrirtæki ekki ,sem skuldar hundruði milljóna,hvað þá milljarða, rétt sig af þó ekki væri nema vegna vaxtastigsins sem við búum við.  Frelsi er auðvitað gott en fer ekki vel saman við breiskleika, áhættusækni og vankunnáttu íslenskra kaupahéðna.  Með kveðju

Sigurður Ingólfsson (IP-tala skráð) 9.7.2009 kl. 11:31

4 Smámynd: Jón Magnússon

Ég er sammála því Jenný að markaðsþjóðfélagið virkar ekki þegar illa rekin fyrirtæki er bjargað stærðarinnar vegna eða einhvers annars og þau þvælast þá fyrir þeim sem geta rekið sín fyrirtæki og draga úr nauðsynlegri hagræðingu í þjóðfélaginu.

Jón Magnússon, 9.7.2009 kl. 11:39

5 Smámynd: Jón Magnússon

Það er einmitt mergurinn málsins Sigurður að lögmál markaðshyggjunnar voru þverbrotin. Afleiðingin varð sú að eðlileg samkeppni þreifst ekki í landinu og búin var til gerviþennsla þar sem tugir þúsunda útlendinga voru fluttir inn til að vinna að verkefnum sem alveg máttu bíða og hefðu átt að bíða þar til hægðist um á vinnumarkaðnum.

Jón Magnússon, 9.7.2009 kl. 11:54

6 Smámynd: Halldór Jónsson

Það eru gjaldþrotalögin sem eru að gera okkur mikið ógagn. Menn reyna að hanga á vonlausum fyrirtækjum vegna persónuábyrgðarinnar sem fylgir venjulega. Bankarnir lánuðu líka eins og fífl því þeim var stjórnað af fíflum, sem þóttust vera alheimsséní.Gjaldþrot er hreinsiventill kapítalismans. með því að fitla við hann og stilla gorminn, þá fer allt á verri veg en það þyrfti.

Ný gjaldþrotalög eru nauðsyn. Burt með öll fyrirtæki með neikvæða eiginfjárstöðu, þau eiga að fara í gjaldþrot strax. Einstaklingar eiga að geta valið gjaldþrot, skilað lyklunum að veðinu til bankans og búið spil. Kennitalan er gjaldþrota en hún verður ekki sótt frekar vegna skulda sem eru frá fyrirgjaldrotstíma.Aðrir verða að passa sig sjálfir hverjum þeir lána. Íslendingar eru alltof duglegir við að heimila úttektir án greiðslu. Lánsviðskipti eiga ekki að vera til milli fyrirtækja og einstaklinga eða fyrirtækja. Bönkum á að vera stjórnað með yfirlitstölvukerfi þar sem allar skuldbindingar liggja fyrir. Sá sem ekki staðgreiðir vexti af lánum með peningum 1.hvers mánaðar á að hljóta eindögun yfirdráttar og uppsögn lánssamnings..

Halldór Jónsson, 9.7.2009 kl. 23:45

7 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Jamm Jón um þetta getum við verið innilega sammála, enda trúlega bæði með hagfræðilegan hægri heila, spurning hvar vinstri heilahvelið þitt liggur?

Gaman að fá að spjalla opinskátt við sinn gamla kennara!

Jenný Stefanía Jensdóttir, 10.7.2009 kl. 03:15

8 identicon

Þú sem róttækur byltingarsinni "in this times"sást sorann á undan mörgum öðrum og vissir að ég held a.m k. hefðir átt tildæmis að upplýsa fjármálaeftirlitið um hugrenningar og brjóstvit þitt í tíma,þá hefði margur sonurinn sloppið við útskúfun og niðurlægingu í sínu starfi og til eilífðar hjá öreigastéttinni.

Lúðvík (IP-tala skráð) 10.7.2009 kl. 10:41

9 Smámynd: Jón Magnússon

Sammála þér Halldór um að við erum allt of duglegir við að heimila úttektir án greiðslu. En það hefði ekki átt að gera við einkavæðingu stórfyrirtækja. Greiðsla eða traust greiðslutrygging hefði átt að liggja fyrir þegar skrifað var undir samninga.

Jón Magnússon, 10.7.2009 kl. 12:12

10 Smámynd: Jón Magnússon

Jennú ef þú ert að vísa til þess hvaða afstöðu ég hef til velferðarmála þá liggur það fyrir að ég hef ætíð talað fyrir traustu velferðarkerfi. Ef þú ert að vísa til hægri vinstri í stjórnmálum þá hefur það í raun litla raunverulega merkingu í dag aðra en einna helst spurningin um afstöðu til ríkisafskipta og skattheimtu. Ég vil sem minnst ríkisafskipti og skattheimtu og tryggja það að skattgreiðendur beri ekki ábyrgð á því sem fólk út í bæ hvort heldur það eru bankastjórar, tryggingafélög eða aðrir eru að gera.

Jón Magnússon, 10.7.2009 kl. 12:14

11 Smámynd: Jón Magnússon

Lúðvík ég hef varað við þessum bólum og hvað óvarlega væri farið bæði í ríkisfjármálum og fjárfestingum áður en bankarnir voru einkavæddir. Fljótlega eftir að þeir voru einkavæddir þá gerði ég alvarlegar athugasemdir við það og starfshætti bankanna og lagaumgjörðina og krafðist breytinga á því regluverki sem um þá giltu. Mér fannst eins og ég væri hrópandinn í eyðimörkinni.

Ef þú skoðar þingræður mínar frá því ég kom á þing þá vakti ég ítrekað athygli á hættu á efnahagshruni allt frá haustinu 2007.  En þar talaði ég líka fyrir algjörlega daufum eyrum því miður.  Ég verð að viðurkenna það Lúðvík að stundum velti ég því fyrir mér hvað það væri sem mér sæist yfir vegna þess að mér fannst þetta allt vera risastórar bólur með lofti en án annars innihalds.

Ég geri mér líka grein fyrir því Lúðvík og þú gerir það væntanlega líka að forsætisráðherra á þeim tíma og utanríkisráðherra þurftu að taka ákvörðun um það strax á vormánuðum 2008 hvort þau ætluðu að standa með bönkunum eða fella þá. Þau tóku þá pólitísku ákvörðun að standa með þeim  eins og alkunna er.  Þá hefði verið ábyrgðarleysi af eftirlitsaðilum eins og Fjármálaeftirliti og Seðlabanka að gefa út opinbera yfirlýsingar sem fóru þvert á stjórnarstefnuna.

Við skulum bíða og sjá hvað það var sem gerðist í aðdraganda hrunsins, hverjir vöruðu við inni í kerfinu og stóðu sína vakt eða gerðu það ekki. Það ætti að fást niðurstaða í það fljótlega þegar rannsóknir mála liggja fyrir.

Mín afstaða hefur hins vegar alltaf legið fyrir og ég hafði aldrei trú á hlutabréfabólunni, bankabólunni, húsnæðisbólunni eða Decode ævintýrinu svo það sé nú rifjað upp. Það hefur fyrst og fremst með þá lífsskoðun mína að gera að raunveruleg framleiðsla, nýsköpun og ný tækni og hagræðing sé forsenda hagnaðar. Aðrir hafa aðra skoðun en það sýnir sig nú að ég hafði rétt fyrir mér. Því miður. Mikið vildi ég hafa haft rangt fyrir mér og allt væri hér í blóma.

Jón Magnússon, 10.7.2009 kl. 12:27

12 identicon

"Þá hefði verið ábyrgðarleysi af eftirlitsaðilum eins og Fjármálaeftirliti og Seðlabanka að gefa út opinbera yfirlýsingar sem fóru þvert á stjórnarstefnuna. "

Er það !?  Er ekki einmitt hlutverk eftirlitsaðila að hafa eftirlit og láta hvorki pólitíkusa né aðra komast upp með að fara með rangt mál!

Eru þessar stofnanir þá ekki að láta kúga sig rétt eins og þú ýjar að með að Höskuldur hafi verið kúgaður í pistlinum á eftir þessum!?

Viktor E (IP-tala skráð) 10.7.2009 kl. 13:38

13 Smámynd: Jón Magnússon

Það verður alltaf að vera matsatriði þeirra sem um halda Viktor hvenær það er við hæfi að gefa yfirlýsingar og við hverja og hvernig. Þar gildir það sama um forsvarsmenn stofnana og einstaklinga. Í fjármálalífinu liggur fyrir að það verður að fara varlega.  Seðlabankastjóri hefur t.d. lýst því yfir að hann hafi ítrekað varað ráðamenn við. Upplýsingar um það hver sagði hvað ættu að koma fram ekki seinna en í vetur og við skulum spara okkur palladóma um embættismenn og stofnanir þangað til.

Við vitum hins vegar betur hvað stjórnmálamennirnir voru að gera eða ekki að gera en ekki hvaða varnaðarorð þeir fengu.

Það má ekki gleyma því Viktor að hefðu annað hvort Fjármálaeftirlitið eða Seðlabankinn gefið út dökka mynd af ástandinu þá hefði mátt búast við áhlaupi á íslenska fjármálakerfið í heild sinni strax og slík yfirlýsing hefði legið fyrir.

Jón Magnússon, 10.7.2009 kl. 14:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.1.): 70
  • Sl. sólarhring: 812
  • Sl. viku: 6269
  • Frá upphafi: 2471627

Annað

  • Innlit í dag: 59
  • Innlit sl. viku: 5720
  • Gestir í dag: 57
  • IP-tölur í dag: 57

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband