Leita í fréttum mbl.is

Aðgerðarsinnar?

Í Fréttablaðinu í dag er sagt frá því að "aðgerðarsinnar" hafi valdið milljónatjóni á húsi og bifreið  Hjörleifs Kvaran forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur. Í frétt blaðsins er því síðan lýst með hvaða hætti "aðgerðarsinnar" skemmi eigur fólks.  Hingað til hefði talist eðlilegt að kalla þetta fólk skemmdarvarga eða hryðjuverkahópa. Hér er um að ræða fólk sem fremur afbrot. Það veldur eignaspjöllum og ræðst gegn friðhelgi einkalífs þeirra sem árásirnar beinast að.

Orðanotkun skiptir máli. Hugtakið aðgerðarsinni er jákvætt orð. Það vísar til þeirra sem gera eitthvað, annast um eitthvað eða framkvæma.  Þetta orð er það nýtt að ég finn það ekki í orðabókum en mér sýnist helst að andstæða orðsins sé aðgerðarleysi sem er neikvætt.  Með því að velja þetta orð er Fréttablaðið sennilega ómeðvitað að taka afstöðu með og/eða  með ákveðnum hætti að afsaka þau afbrot sem framin eru af þessum skemmdarvörgum.  

Mér finnst óviðunandi að fréttamiðill eða fréttamiðlar (Fréttablaðið er ekki eini fréttamiðillinn sem hefur notað þetta orð um þessa skemmdarvarga) noti ekki rétt hugtök um þá sem veitast að samborgurum sínum með eignaspjöllum og skemmdarverkum. Með því að nota jákvæðar umsagnir um slíka glæpi er viðkomandi fréttamiðill í raun að leggja blessun sína yfir afbrotið og með því að stuðla að frekari afbrotum sömu tegundar.

Fréttafólk verður að átta sig á að það ber mikla ábyrgð og má ekki misfara með það vald sem það hefur í störfum sínum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Skemmdarverkamenn heitir svona framganga á réttri íslenzku.

Hjörtur J. Guðmundsson, 13.8.2009 kl. 10:21

2 Smámynd: Jón Magnússon

Sammála.

Jón Magnússon, 13.8.2009 kl. 12:45

3 Smámynd: J. Einar Valur Bjarnason Maack

Tja...

...já.

Það má vera. 

Ég myndi samt kalla útrásarvíkingana terrorista og skemmdarverkamenn fyrst.

Mér er skítsama um einhverjar bíltíkur.

Þessir menn hafa skemmt landið okkar.

J. Einar Valur Bjarnason Maack , 13.8.2009 kl. 13:08

4 Smámynd: Ómar Bjarki Smárason

Það er rétt hjá þér, Jón, að það er óþarft að gera svona háttsemi jákvætt yfirbragð. Í raun mætti líklega færa rök fyrir því að "aðgerðarsinni" höfði til þeirra sem vilja koma einhverju í verk sem er einmitt það sem við þurfum á að halda núna. Þannig ættu "aðgerðarsinnar" að hvetja forstjóra Orkuveitunnar til framkvæmda, þó ég efist reyndar um að það sé þeirra tilgangur með þessum skemmdarverkum.

Ég vil svona í leiðinni vekja athygli þína á orði sem ég er að reyna að koma inn í íslenskt mál, en það er "auðvisi", og á að notast um hina föllnu útrásarvíkinga.....

Ómar Bjarki Smárason, 13.8.2009 kl. 13:47

5 identicon

Það er eðlilegt að menn hafi mismunandi skoðanir á því hvaða aðgerðum fólk beitir til að koma málstað sínum á framfæri. Það er líka eðlilegt, eins og þú bendir á, að það skiptir miklu máli fyrir umræðuna hvaða nöfnum hlutir eru kallaðir.

En hvað í ósköpunum á þetta að fyrirstilla:

"Hingað til hefði talist eðlilegt að kalla þetta fólk skemmdarvarga eða hryðjuverkahópa. Hér er um að ræða fólk sem fremur afbrot. Það veldur eignaspjöllum og ræðst gegn friðhelgi einkalífs þeirra sem árásirnar beinast að."

Það er engin hefð fyrir því í íslenskum fjölmiðlum eða í íslenskri stjórnmálaumræðu að kalla aðgerðir eins og þessar "hryðjuverk". Skemmdarvarga, já. Óþjóðalýð, eða eitthvað í þeim dúr - en það að vilja kalla öll lögbrot eða eignaspjöll sem eru með einhverjum hætti pólítísk "hryðjuverk" er nýtilkominn leiðindaósiður. Ég hef grun um að hér séu á ferðinni bandarísk menningaráhrif, því þessi hryðjuverkaþráhyggja virðist hafa farið mjög vaxandi eftir septemberlok 2001.

Þegar Fréttablaðið talar um "aðgerðarsinna" er það að nota það hugtak sem "aðgerðarsinnar" vilja sjálfir nota um sig. Ég hef fylgst mjög vel með fjölmiðlaumfjöllun um "aðgerðarsinna" og aðgerðir þeirra, og ég get ekki séð að hún hafi verið eitthvað sérstaklega jákvæð, eða að reynt hafi verið að lofsyngja aðgerðir aðgerðarsinna. Þvert á móti hefur fréttaflutningur af aðgerðum þeirra yfirleitt verið frekar neikvæður.

Magnús Sveinn Helgason (IP-tala skráð) 13.8.2009 kl. 13:52

6 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Alveg sammála ykkur.

Ágúst H Bjarnason, 13.8.2009 kl. 14:21

7 Smámynd: Jón Magnússon

Einar það má vel vera að einhver hafi brotið af sér en það er ekki það sem ég er að fjalla um heldur það með hvaða hætti skrif fréttamiðla er háttað. Eignaspjöll eru ekki afsakanleg alveg óháð því hvað sá hefur gert sem á viðkomandi eign.

Jón Magnússon, 13.8.2009 kl. 17:13

8 Smámynd: Jón Magnússon

Ómar Bjarki ég næ ekki alveg hvað býr að baki orðinu auðvísi sem þú talar um.

Jón Magnússon, 13.8.2009 kl. 17:14

9 Smámynd: Jón Magnússon

Magnús Sveinn ég hef ekki orðið var við að fréttir af aðgerðum skemmdarvarganna sem þú nefnir ítrekað aðgerðarsinna eins og Fréttablaðið hafi verið neikvæðar.   Mér finnst skipta máli að fordæma eignaspjöll. Af hverju stendur þetta fólk ekki frekar fyrir aðgerðum og mótmælir gagnvart þeim sem það telur hafa brotið á hlut sinn og/eða þjóðarinnar. Það er aðgerð sem er eðlilegur liður í lýðræðislegu þjóðfélagi.

Jón Magnússon, 13.8.2009 kl. 17:17

10 Smámynd: Jón Magnússon

Ágúst ég reikna með að þú sért að lýsa yfir samþykki við þau sjónarmið sem komu fram hjá mér og Hirti J. en við vorum þeir einu sem vorum búnir að tjá okkur um málið þegar þú sendir inn athugasemdina þína.

Jón Magnússon, 13.8.2009 kl. 17:18

11 Smámynd: J. Einar Valur Bjarnason Maack

OK, Jón, við getum verið sammála um það að eignaspjöll eru ekki af hinu góða...

...en í landi þar sem Alþingi er steingelt og EKKERT hefur verið aðhafst í því að réttlæta hlut þjóðarinnar vegna eigna þeirra sem þessir menn hafa eyðilagt finnst mér þetta réttlætanlegt.

Þú gerir þér vonandi grein fyrir því að þessi eignarspjöll eru ekki uppí nös á ketti í samanburði við þau gífurlegu eignarspjöll sem framin hafa verið á eigum almennra Íslendinga af höndum þessara aðila?

J. Einar Valur Bjarnason Maack , 13.8.2009 kl. 17:29

12 identicon

Jón: Menn geta líklega haft skiptar skoðanir á því hvað er jákvæður fréttaflutningur og hvað neikvæður.

Og það er athyglisvert, í ljósi þess sem ég benti á, að það hafi ekki verið Fréttablaðið sem fann upp á því að kalla "aðgerðarsinna" aðgerðarsinna, að þú skulir ennþá kjósa útúrsnúning eins og þennan: "skemmdarvarganna sem þú nefnir ítrekað aðgerðarsinna eins og Fréttablaðið..."

Sem er enn makalausara í ljósi þess að ég kaus að nota orðið "aðgerarsinni" innan gæsalappa.

 Eftir stendur að það er fráleitt að ætla að fara að tala um "hryðjuverkamenn" - og skrýtið að vilja gera Fréttablaðinu upp einhverjar annarlegar hvatir þegar blaðið kýs að kalla fólk þeim nöfnum sem það sjálft kýs sér.

Magnús Sveinn Helgason (IP-tala skráð) 13.8.2009 kl. 17:51

13 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Pólitískar eignir fjármálaterroristanna hreyfa ekki við þeim og raunar eru terroristarnir sjálfir enn grasserandi í hræjum bankanna og segja núverandi lepp sínum í stól bankamálaráðherra að halda kjafti þegar hann vill fá upplýsingar um yfirtöku hræjanna á gjaldþrota fyrirtækjum hér og þar. Hvað á fólk eiginlega að gera? Þetta er algjörlega siðlaust kerfi drifið af raðlygurum og búið að stela hagkerfinu og flytja það út og almenningur fær reikninginn. Það hlýtur að vera til eitthvað sem heitir borgaraleg réttindi fólks, neyðarréttur. Hvenær tekur hann eiginlega við? Hvenær eiginlega er pólitískur leppsháttur við fjármálaterroristana uppurinn? Mér er spurn.

Baldur Fjölnisson, 13.8.2009 kl. 19:18

14 Smámynd: Jón Magnússon

Einar ekki bæta þessi eignaspjöll þjóðarhag. Eignaspjöllin sem skemmdavargarnir valda er ekki hægt að afsaka. Hvorki ég eða þú getum tekið réttlætið í fangið hversu mjög sem okkur kann að langa til þess.

Jón Magnússon, 13.8.2009 kl. 20:28

15 Smámynd: Jón Magnússon

Magnús Sveinn ég er ekki að snúa út úr. Ég hef sjálfsagt ekki tekið eftir gæsalöppunum  hjá þér.  Mér finnst hins vegar að fjölmiðill eigi að nefna hlutina réttum nöfnum en ekki tilbúnum frá þeim sem kjósa að gefa illu athæfi jákvæð nöfn.

Jón Magnússon, 13.8.2009 kl. 20:29

16 Smámynd: Jón Magnússon

Baldur. Hvorki ég eða þú vorum í veislu útrásarvíkinga eða pappírbaróna. Það gefur okkur hins vegar ekki rétt til að fara ekki að lögum.

Jón Magnússon, 13.8.2009 kl. 20:31

17 Smámynd: J. Einar Valur Bjarnason Maack

Jón, það eina sem þarf til þess að illskan fái að ráða ríkjum er aðgerðaleysi að hálfu góðra manna.

Það að hið gelda yfirvald geri ekkert í málum þessara níðinga gerir það að verkum að gott fólk rís upp.

Ég er hreinlega hissa á að enginn þessara manna hefur verið beittur alvarlegu ofbeldi eða eigur þeirra skemmdar á alvarlegri máta en þessar áminningar með málningu.

Það er merkilegt hvað Íslendingar vilja kyssa vöndinn í sífellu.

J. Einar Valur Bjarnason Maack , 13.8.2009 kl. 20:33

18 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Ég er ekkert að mæla með skemmdarverkum eða lögleysu og stend sjálfur ekkert í slíku. En ég get hins vegar skilið að ýmsar þversagnir í kerfinu fari fyrir brjóstið á mörgum. Hvort vegur meira siður eða lög? Og hvaða öfl og þrýstingur settu lögin? Hvað er terroristi? Hver er skilgreiningin? Við erum með gjaldþrota þjóðarbú eftir ótrúlega lygasúpu fjármálaspekúlanta, ruslveitna og pólitíkusa sem í sameiningu lugu þessa svikamyllu í þrot og ljúga enn. Þannig að þetta er greinilega algjörlega einbeittur brotavilji frá fjármálamafíunni og pólitískum eignum hennar. Hvað á almenningur eiginlega að gera til að bregðast við þessu?

Baldur Fjölnisson, 13.8.2009 kl. 20:47

19 Smámynd: Skríll Lýðsson

á ýmsan hátt er ég sammála þér Jón en þó er ég ósammála orðavali þínu, mér finnst of djúpt í árinni tekið að nota orðið "hryðjuverk" það orð hefur allt aðra meiningu en "skemmdaverk".

Ég ætla á engan hátt að standa í orðaskaki við þig um hvað sé rétt eða rangt við þennan verknað, lög eru jú brotin með þessum gjörningi og samkvæmt þeim skal viðkomandi sæta refsingu, ef til hans næst :)

En þetta eru skemmdarverk sem voru framin í skjóli nætur, þegar orðalag einsog hryðjuverk er notað verður manni ósjálfrátt hugsað til sprengjutilræða eða skotárása á saklausa vegfarendur á fjölförnum götum, þessi gjörningur jafnast ekki á við slíka voðaverk.

Góðar stundir

Skríll Lýðsson, 13.8.2009 kl. 22:15

20 Smámynd: Þórólfur Ingvarsson

Sæll Jón og þakka þér þessa færslu, hjartanlega samál því að ábyrgð fjölmiðla er mikil og því miður standa þeir ekki alltaf undir henni. En hvað eignarspjöllin varðar þá get ég ekki séð tilgang í því að eyðileggja meira í framhaldi af því sem þegar hefur verið eyðilagt.

Þórólfur Ingvarsson, 13.8.2009 kl. 22:43

21 Smámynd: Ómar Bjarki Smárason

Auðvisi er einskonar afsprengi af aukvisi. Svona auli til auðs. Hélt að þetta væri nokkuð vel skiljanlegt og lægi í augum uppi, þó það færi kannski ekki vel í lögfræðitexta...

Ómar Bjarki Smárason, 13.8.2009 kl. 23:28

22 Smámynd: Halldór Jónsson

Auðvisi er nýyrði frá Ómari Bjarka. Það tákanr gjaldþrota útrásarvíking og háloftamíg, hvers auður hefur visnað. Gamli Bjöggi er einhver fyrsti íslenzki  auðvisinn. og á auðvitað að fara í Íslandssöguna sem slíkur.

Það er ekki sama hver segir frá og hver verður fyrir. Bofors í Svíþjóð framleiðir "Fredskanonor" en Ford og Colt framleiða drápstól og vígvélar til að kúga soltna alþýðu úti í heimi. Rússar framleiða vin þjóðfrelsins, AK47 Kalashnikov. Ameríkanar M16 sem er tákn harðstjóranna.

Halldór Jónsson, 13.8.2009 kl. 23:38

23 Smámynd: Jón Magnússon

Það er alveg rétt hjá þér Einar með illskuna og aðgerðarleysið. Ég er ekki að mæla með aðgerðarleysi heldur því að farið sé að lögum og reglu og fólk taki ekki lögin í sínar hendur.

Jón Magnússon, 14.8.2009 kl. 00:13

24 Smámynd: Jón Magnússon

Baldur almenningur á að krefjast réttlætis en ekki gera löglegum yfirvöldum erfiðara fyrir með óknyttum og skemmdarverkum. Það tefur bara fyrir að lögum verði komið yfir þá sem þú talar um að þurfi að taka út sína refsingu.

Jón Magnússon, 14.8.2009 kl. 00:15

25 Smámynd: Jón Magnússon

Það er einmitt það Þórólfur ég get heldur ekki séð gagnsemina í eyðileggingu.

Jón Magnússon, 14.8.2009 kl. 00:16

26 Smámynd: Jón Magnússon

Þakka þér fyrir Ómar Bjarki þá veit ég það.

Jón Magnússon, 14.8.2009 kl. 00:16

27 Smámynd: Jón Magnússon

Það er einmitt málið Halldór það er ekki sama hvaða orð eru notuð eins og þú bendir réttilega á.

Jón Magnússon, 14.8.2009 kl. 00:17

28 identicon

en orð geta tekið merkingarbreytingu saman ber stökkbreytingum.

einu sinni var orðið útrásarvíkingur, jákvætt orð og menn fengu fálkaorður fyrir að vera útrásarvíkingar og húrrahróp, nú er það skammyrði,ekki svo?

Hildur (IP-tala skráð) 14.8.2009 kl. 14:05

29 Smámynd: Jón Magnússon

Það er alveg rétt hjá þér en þetta orð er nýyrði og það er verið að nota það í rangri merkingu um skemmdarvarga.

Jón Magnússon, 14.8.2009 kl. 14:20

30 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Það að ná réttlæti fram í þessu sambandi myndi þýða andlát fjórskipta einflokksins og embættismannakerfis hans og helstu ruslveitna líka og því er borin von að það gerist.

Baldur Fjölnisson, 15.8.2009 kl. 17:49

31 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Það er rétt Jón.  Ég sá ekki hvar ég var í röðinni, en var að vísa til þín og Hjartar.

Ágúst H Bjarnason, 15.8.2009 kl. 21:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.1.): 690
  • Sl. sólarhring: 931
  • Sl. viku: 6426
  • Frá upphafi: 2473096

Annað

  • Innlit í dag: 627
  • Innlit sl. viku: 5855
  • Gestir í dag: 602
  • IP-tölur í dag: 589

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband