Leita í fréttum mbl.is

Hvers konar einelti er þetta?

Aðgerðarhópur Vinstri Grænna fyrir landamæralausu Íslandi hélt fund á Lækjartorgi í hádeginu með tilstyrk þingkonunnar Birgittu Jónsdóttur úr Hreyfingunni. Rúmlega 40 mótmælendur mættu til að mótmæla því að farið skyldi eftir lögum í landinu.

Fylgisleysi þessa aðgerðarhóps afhjúpaðist gjörsamlega á útifundinum á Lækjartorgi í hádeginu og eiga skipuleggjendur mótmælanna sérstakar þakkir skildar fyrir það. 

Vegna vonbrigða sinna fór þessi aðgerðarhópur upp í Háskólabíó til að koma í veg fyrir með hrópum og háreysti að dómsmálaráðherra gæti flutt mál sitt. Það vafðist ekkert fyrir þessu sjálfskipaða  baráttufólki fyrir mannréttindum að taka málfrelsið af dómsmálaráðherra.

Mér er spurn af hverju leggur þessi aðgerðarhópur dómsmálaráðherra í einelti vegna þess að hún lætur framfylgja íslenskum lögum og fjölþjóðasamningum. Væri ekki nær fyrir hópinn að fara fram á það við þingmanninn sinn Birgittu Jónsdóttur  og sambærilega Vinstri græna að hún  og þeir eftir atvikum leggi fram tillögur um að breyta lögunum, en það er jú forsenda fyrir því að hægt sé að taka á málum í samræmi við kröfur aðgerðarhópsins.

Væri ekki nær fyrir hópinn að þjarma að Birgittu Jónsdóttur fyrir að hafa ekkert gert í málinu á Alþingi í stað þess að leggja dómsmálaráðherra í einelti?

Baráttufólk fyrir landamæralausu Íslandi neitar greinilega að horfast í augu við þær staðreyndir sem við blasa vegna hömlulítils innstreymis útlendinga undanfarin ár og lesa má um í fréttum á degi hverjum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Sammála hverju orði. Góð skrif.

Stefán Friðrik Stefánsson, 16.10.2009 kl. 18:33

2 Smámynd: Heimir Tómasson

Ég er sammála þér þarna. Það er stjórnarskrárbundinn réttur fólks að mótmæla en fólk virðist taka það sem rétt til þess að vera með skrílslæti.

Heimir Tómasson, 16.10.2009 kl. 18:46

3 Smámynd: Jón Magnússon

Þakka þér fyrir Stefán

Jón Magnússon, 16.10.2009 kl. 19:22

4 Smámynd: Jón Magnússon

Það er alveg rétt Heimir og sumir virðast gleyma því hvað felst í borgaralegum mótmælum. Þar er m.a. miðað við að fólk særi ekki eða meiði annað fólk eða eigur þess.

Jón Magnússon, 16.10.2009 kl. 19:24

5 Smámynd: Auðun Gíslason

VinstriGrænna?  Hvar voru þeir, þessir meintu aðgerðasinnar Vg?  Þetta er útí hött hjá þér!  Þetta er sami söngurinn og heyrðist í vetur að það væru bara VinstriGrænir að mótmæla á Austurvelli.  Sem var náttúrulega vitleysa.  Það eru ekki svo margir í Vg.

Auðun Gíslason, 16.10.2009 kl. 19:39

6 Smámynd: Steinar Immanúel Sörensson

Því miður er það svo Jón að Borgaraleg Mótmæli eru notuð sem sefjunartæki á almenning, ráðamenn segja jú það er auðvitað réttur ykkar að mótmæla meðan þið gerið það eins og við viljum, við þurfum auðvitað ekkert að taka mark á ykkur...þetta afskiptaleysi stjórnvalda af borgaralegum mótmælum kallar á róttækari aðgerðir þvi miður.

Steinar Immanúel Sörensson, 16.10.2009 kl. 19:39

7 Smámynd: Auðun Gíslason

Hvernig tengist Birgitta Jónsdóttir Vg?  Er hún ekki þingmaður svokallaðrar Hreyfingar, áður Borgarahreyfingin?

Auðun Gíslason, 16.10.2009 kl. 19:43

8 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Sammála að venju!

Það er ekki langt síðan að Björn Bjarnason var lagður í einelti út af svipuðu máli, en minni fólks er ekki mikið í þessum efnum.

Það eina jákvæða, sem ég sé við þetta er að þessir "aktívistar" leggja vinstri stjórnir jafnt sem hægri stjórnir í einelti - þ.e.a.s. gera ekki mannamun! 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 16.10.2009 kl. 20:11

9 Smámynd: Eysteinn Þór Kristinsson

Já þau voru sérkennileg þessi mótmæli. Ekki voru þau vegna áhuga á mannréttindum því um leið og dómsmálaráðherra hætti við sína ræðu hurfu mótmælendurnir. Þá voru 7 fyrirlestrar um mannréttindamál eftir!

Eysteinn Þór Kristinsson, 16.10.2009 kl. 20:31

10 Smámynd: Rauða Ljónið

 Hvar var þetta fólk þegar Íslensk kona var gert að færa börnin sín til útlanda sama um Íslensk börn en beygja sig fyrir útlendingu.?    

Þeir sem berjast ekki fyrir Íslenskir konu mæðrum og börnum og er sama þegar mannréttundum er brotin á íslenskum þegnum en mótmæli fyrir útlendingu eru ekki sannir Íslendingar.                         Þá heyrðist ekki múkk.

Íslensk kona hefur verið skikkuð með dómsúrskurði til snúa til Bandaríkjanna með tvo drengi á barnsaldri fyrir sunnudaginn næstkomandi.

Borghildur Guðmundsdóttir á drengina með bandarískum hermanni sem vill höfða forræðismál í Bandaríkjunum og freista þess að fá börnin til sín. Brynhildur segist spyrja sig hvort það sé hægt að henda íslenskum ríkisborgurum úr landi eins og tuskum án þess að neitt sé hægt að gera. Hver sé réttur barnanna, hvort það megi svipta þau móður sinni og öllu öryggi sem þau þekki. Hvort ríkið ætli virkilega að henda þeim úr landi.

Hún á ekki fyrir miðunum, dvalar- og atvinnuleyfi hennar í Bandaríkjunum er runnið út og hún segist ekki eiga neina peninga eða aðstoð vísa til að reka mál sitt fyrir bandarískum dómstól. Hún höfðaði mál til að fá úrskurðinum hnekkt en tapaði málinu bæði í héraði og fyrir Hæstarétti. Hún segist hafa leitað til lögfræðinga og dómsmálayfirvalda eftir aðstoð en ekkert sé að hafa, hvorki hér né þar.

Kv. Sigurjón Vigfússon

Rauða Ljónið, 16.10.2009 kl. 20:35

11 identicon

Þetta er nú bara því miður týpísk hegðun hjá ákveðnum öfgahóp innan VG. Anarkistakommaskríll er líklega réttnefni yfir þetta fólk.

Páll (IP-tala skráð) 16.10.2009 kl. 21:41

12 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Sammála öllum ritmönnum.

Ef breyta ætti lögunum þá myndi ég vilja sjá heimildir til að vísa fólki án íslensks ríkisborgararétts úr landi sem grunað væri um refsivert athæfi. Ef það væri sýknað, fyrir dómi, mætti hleypa því aftur inn í landið.

Sindri Karl Sigurðsson, 16.10.2009 kl. 22:52

13 Smámynd: Gústaf Níelsson

Ég er þó mest hissa á því að ráðherrann skuli láta svipta sig málfrelsinu og ganga á braut. Þar með var tilganginum náð hjá skrílnum.

Gústaf Níelsson, 16.10.2009 kl. 23:16

14 identicon

Mér finnst nú ekki mikil reisn yfir þessari Birgittu og spurning hvort hún verðskuldi að vera titluð þingkona.

Magnús Gunnarsson (IP-tala skráð) 16.10.2009 kl. 23:49

15 Smámynd: Katrín Linda Óskarsdóttir

Sammála þér Jón. Skömm að því þegar fólk getur ekki komið skoðunum sínum að með kurteislegum hætti

Katrín Linda Óskarsdóttir, 17.10.2009 kl. 02:25

16 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Það vefst ekkert fyrir þessum bullum að fara á svig við mannasiði hvað þá lög. En sem betur fer eru þetta ekki margir einstaklingar en afar hvimleiður hópur. En þetta er allt hárrétt hjá þér Jón.

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 17.10.2009 kl. 06:32

17 identicon

hvað er að? Er fólk virkilega að hrósa þessum skrifum?

Hérna er farið með staðfærsluvillur eins og ekkert væri. Þessi pistill er svo stútfullur af lygum að fyrverandi blaðamenn Pravda myndu blotna við að lesa þetta.

Í fyrsta lagi var það hópur byltingasinnaðra stúdenta, Öskra, sem greip fram í fyrir dómsmálaráðherra í Öskju -ekki Háskólabíó-. Öskruliðar afneyta fulltrúalýðræðinu og að bendla þá við VG er jafn mikið kjaftæði og að bendla Davíð Oddsson við Öskru.

Í öðru lagi var boðað til mótmæla -óháð stjórnmálaskoðunum- á lækjartorgi til að mótmæla framkomu stjórnvalda gegn flóttafólki. Kannski vildi svo til að flestir þarna aðhylltust stefnu VG að einhverju leyti, en mig grunar þó að þarna hafi að mestu verið anarkistar sem líta á VG sem sama meinið og Sjálfstæðisflokkinn, sem og Framsókn, Venstre, Repúblikana og sósíaldemókrata í Noregi. Að bendla þetta við einhverja stjórnmálahreyfingu er því argasta bull.

Í þriðja lagi þá eru engin lög sem skylda dómsmálaráðherra til að reka fólk úr landinu, ekki frekar en það eru lög skylda mig til að reka svangan mann út úr mínum húsum. Dómsmálaráðherra hefði jafnmikið verið að fara eftir lögum hefði hún gefið þessum mönnum dvalarleyfi.

Í fjórða lagi hefur þessi aðgerðahópur gefið dómsmálaráðherra allt of langan tíma til að útskýra sitt mál og því kominn tími til að taka málfrelsið af henni á enn einni glimmersamkomuni sem hafði víst það að markmiði að fegra ímynd vesturlanda hvað mannréttindi varðar, gefa einhverja glansmynd af sannleikanum. Auk þess þá voru einungis forréttindi tekin af dómsmálaráðherra, þ.e. þau forrétindi að fá að tala gagnrýnislaust á hærri palli en aðrir. Hún missti þarna kannski 1/1.000.000 af þeim réttindum sem hún svipti Noor, Múhameð og Múhameð daginn áður.

Þegar fólk er lagt í einelti er oft spurt afhverju þeir sem sáu það gerast gerðu ekkert í því. Dómsmálaráðherra er hluti af vestrænni elítu sem leggur hörundsdekkri útlendinga í einelti með því að stríða svo á heimalandi sumra að þau hafa gert þeim ólíft þar. Ef það sem Öskra gerði var einelti, þá var því ætlað að stöðva frekara einelti, ekki veit ég hvort þér finst það réttlætanlegt. En það er að minnsta kosti skárra en að gera ekki neitt.

Og í síðasta lagi. Það eru til meira en 6.000.000.000 útlendinga í heiminum. Að alhæfa að hver og einn þeirra myndi valda usla við að setjast að hérna eru fordómar af verstu sótt. Ef þér er svona annt um þetta gráa, illlykta Ísland þitt, ert hræddur um að vondu svörtu útlendingarnir komi og geri það að einhverju glæpahreysi. Þá ætturðu að reyna að eyða þörfinni fyrir flóttafólk, frekar en að búa það til með nýjum vestrænum kúgunum og stríðum hingað og þangað.

Rúnar Berg Baugsson (IP-tala skráð) 17.10.2009 kl. 07:52

18 Smámynd: Jón Magnússon

Auðun var það ekki Öskra félag róttækra stúdenta sem hafði veg og vanda af þessari uppákomu. Tengjast félagar þar ekki Vinstri Grænum? Birgitta Jónsdóttir var  hún ekki fylgiskona Vinstri grænna áður en hún fór í Borgarahreyfinguna. Er hún ekki skoðanalega næst VG?

Jón Magnússon, 17.10.2009 kl. 07:56

19 Smámynd: Jón Magnússon

Steingar. Borgaraleg mótmæli eru ekki uppfinning til að sefa lýðinn eins og þú heldur fram. Borgaraleg mótmæli eru tæki almennings í lýðræðisríkjum til að gera réttkjörnum stjórnvöldum grein fyrir barátttumálum sínum og eru liður í lýðræðislegri tjáningu og aðgerðum.  Slík mótmæli hafa haft mikla þýðingu í mörgum tilvikum þannig að það er ekki rétt hjá þér að borgaraleg mótmæli skipti ekki máli. Hver er svo hinn valkosturinn sem þú telur nauðsynleg og nefnir róttækari aðgerðir.  Allt eru það aðgerðir sem vega að rótum lýðræðisins. Í raun ert þú að tala um að fólk eigi að beita andlýðræðislegum aðgerðum.

Jón Magnússon, 17.10.2009 kl. 08:01

20 Smámynd: Jón Magnússon

Guðbjörn já það er rétt hjá þér mér virðist sem við séum sammála í öllum aðalatriðum.  Hitt er að ég er á móti ofbeldi eins og þessi aðgerðarhópur VG beitir jafvel þó það beinist að hluta gegn þeirra eigin mönnum.  Það verður að standa vörð um lýðræðisleg gildi einnig þegar vandræðavinstristjórn er við völd.

Jón Magnússon, 17.10.2009 kl. 08:03

21 Smámynd: Jón Magnússon

Það er fróðlegt að heyra Eysteinn og góðar upplýsingar að áhugi þessa óeirðahóps fyrir mannréttindum hafi í raun engin verið. Fyrst tóku þeir málfrelsið af dómsmálaráðherra og síðan þurftu þau ekki að vita neitt eða hlusta á neitt. Það er þannig iðulega með það fólk sem telur sig hafa fundið stóra sannleikann. Í raun er það ekkert annað en óvirðing við skoðanir annarra.

Jón Magnússon, 17.10.2009 kl. 08:21

22 Smámynd: Jón Magnússon

Það er rétt Rauða ljón að áhugamál þessa fólks snúast fyrst og fremst um að opna landamæli Íslands.

Jón Magnússon, 17.10.2009 kl. 08:24

23 Smámynd: Jón Magnússon

Þakka ykkur fyrir ykkar athugasemdir Gústaf, Hafsteinn, Katrín og Magnús ég hef ekkert við þær að bæta.

Jón Magnússon, 17.10.2009 kl. 08:26

24 Smámynd: Sigurbjörg Eiríksdóttir

Góður pistill..Takk Jón.

Sigurbjörg Eiríksdóttir, 17.10.2009 kl. 10:43

25 Smámynd: Baldvin Björgvinsson

Þetta er það mesta bull sem ég hef heyrt lengi.

Ég hefði haldið að vel menntaður maður eins og Jón léti frá sér eitthvað gáfulegra en þetta.

Hvað er einelti ? “Einelti er skilgreint sem endurtekin eða viðstöðulaust áreyti/ valdbeiting, munnleg, sálfræðileg eða líkamleg, framkvæmdar af einstaklingi eða hóp einstaklinga sem beita sér gegn annarri manneskju eða hóp einstaklinga gegn þeirra vilja.”

Embættismenn, ráðherrar og stjórnmálamenn eru ekki lagðir í einelti, þeir taka afleiðingum gjörða sinna. Ef þeir þola ekki að gjörðum þeirra sé andmælt þá eru þeir ekki hæfir til starfsins.

Fólk ber sína persónulegu ábyrgð á því að taka þátt í því að senda manneskjur út í opinn dauðann, eins og vel líklegt er með suma þeirra sem sendir voru burt nýlega.

Nákvæmlega eins og í seinni heimstyrjöldinni felur fólk sig bakvið það að vera að fylgja skipnunum, fylgja lögum eða gera eins og þeim er sagt að gera. Ábyrgðin er sett á einhvern annan. Það breytir því ekki að flugstjóri flugvélarinnar, ökumaður lögreglubílsins, sá sem tekur þátt á hvaða hátt sem er að senda manneskju út í opinn dauðann ber persónulega ábyrgð á gjörðum sínum og hægt er að sæka viðkomandi til saka, þótt síðar verði. Það á líka við um ráðherra.

Það er engin skylda að senda þetta fólk úr landi, þó það megi samkvæmt einhverjum erlendum lögum.

Það er ekki siður íslendinga að reka fólk út í opinn dauðann.

Við gerum ekki svoleiðis.

Baldvin Björgvinsson, 17.10.2009 kl. 11:30

26 Smámynd: Jón Magnússon

Þakka þér fyrir Sigurbjörg.

Jón Magnússon, 17.10.2009 kl. 11:51

27 Smámynd: Jón Magnússon

Baldvin það verður hver að meta það fyrir sig hvað er gáfulegt og hvað ekki. Þú átt miðað við ofangreind skrif ekki sérstakan einkarétt á því að gefa slíkar einkunnir. Að sjálfsögðu geta ráðherrar lent í því að vera lagðir í einelti. Þannig var Björn Bjarnason t.d. lagður í einelti í dómsmálaráðherratíð sinni og nú er verið að leggja núverandi dómsmálaráðherra í einelti með því að raska friðhelgi heimilis hennar og koma í veg fyrir að hún geti tjáð sig á fundi um mannréttindi.

Baldvin þú veist sjálfsagt að allir sem hingað koma hælisleitendur eða ólöglegir innflytjendur njóta vafans og mál þeirra eru könnuð rækilega og með þau er farið í samræmi við íslensk lög og fjölþjóðlega samninga. Ertu að halda því fram að dómsmálaráðherra eða útlendingastofnun hafi brotið lög eða samninga við meðferð mála gagnvart hælisleitendum eða ólöglegum innflytjendum?

Það er ekki verið að senda fólk út í opinn dauðan með því að senda það til Grikklands það er fásinna að halda slíku fram.

Jón Magnússon, 17.10.2009 kl. 11:59

28 Smámynd: Tinna Gunnarsdóttir Gígja

Rétt eins og það var ekki verið að senda fólk út í opinn dauðann þegar Gyðingar sem leituðu hælis hér voru sendir aftur til Danmerkur?

Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 17.10.2009 kl. 14:49

29 Smámynd: Árni Gunnarsson

Það er fátt auðveldara en að finna sér leið til að fordæma skrílslæti. Skrílslæti kallast það þá þegar hinn óþægi hluti samfélagsins er búinn að komast að þeim vonda sannleika að stjórnvöld láta sig litlu skipta hvort þau stjórna í sátt við sína umbjóðendur eða sýna þeim hroka og fyrirlitningu. Undanfengin missiri hafa stjórnvöld gengið fram af þjóð sinni með áþreifanlegri hætti en áður hefur þekkst. Afleiðingarnar sér enginn fyrir ennþá.

Árni Gunnarsson, 17.10.2009 kl. 14:51

30 Smámynd: Jón Magnússon

Ég átta mig ekki á til hvers þú ert að vísa Tinna en sé það til þess sem gerðist í síðari heimstyrjöld þá varð það þannig í Danmörku að danska þjóðin reis upp til hjálpar Gyðingum og þeim var almennt komið yfir til Svíþjóðar. Það var svo merkilegt að Danir voru eina Evrópulandið sem var hernumið af Þjóðverjum í síðari heimstyrjöld þar sem þjóðin reis upp til varnar Gyðingum.

Jón Magnússon, 17.10.2009 kl. 18:00

31 Smámynd: Jón Magnússon

Árni það á ekki við um dómsmálaráðherra í málefnum hælisleitenda eða ólöglegra innflytjenda.

Jón Magnússon, 17.10.2009 kl. 18:01

32 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Sæll Jón.

Vil undirstrika það að það þarf að breyta lögum þannig að vafinn lendi í hlut þjóðarhagsmuna. Geri mér alveg grein fyrir því að þar gæti verið troði eilítið á rétti einstaklingsins. Mér finnst aftur á móti í þessu, það vera fyllilega réttlætanlegt, meiri hagsmunir fyrir minni og nóta bene einstaklingurinn á ekki lögfestu, sem slíka, hér á landi.

Það er ekki verið að senda hann í dauðann þó hann sé rekinn af velli og settur í tveggja leikja bann.

Sindri Karl Sigurðsson, 17.10.2009 kl. 21:15

33 identicon

Framkoma þessa fólks nei skríls í garð ráðherra er því til ævarandi skammar og þetta á ekkert skilt við mótmæli þetta er einfaldlega skríll með skrílslæti og ef það er einhver eða einhverjir sem eru að teima þennan skríl á asnaeyrunum þá dæma þeir sig sjálfir og þora sennilega aldrei að koma fram.

Magnús Gunnarsson (IP-tala skráð) 17.10.2009 kl. 22:58

34 identicon

Ég vill fá að vita á hvaða forsendum þú kaust að birta ekki póstinn minn frá því í gær

Rúnar Berg Baugsson (IP-tala skráð) 18.10.2009 kl. 10:56

35 Smámynd: Jón Magnússon

Rúnar Berg í fyrsta lagi þá vil ég taka fram að það voru mistök að samþykkja ekki póstinn þinn þar sem mér einfaldlega yfirsást þessi athugasemd og bið velvirðingar á því. En svo vikið sé að efnisatriðum í póstinum þínum. Ég ætla ekki að gera ágreining við þig vegna blaðamanna Pravda í gömlu Sovétríkjunum enda eru þeir vafalaust að hugsunarhætti og þjóðfélagsskoðunum náskyldari þér.

En það er rétt hjá þér að það er missagt í greininni að fundurinn hafi verið í Háskólabíói hann var í Öskju eins og þú bendir réttilega á en það er ekki aðalatriði í því sem um ræðir heldur algjört aukaatriði.

Í öðru lagi þá heldur þú því fram að Öskra og VG eigi ekkert sameiginlegt en segir síðar í athugasemd þinni að flestir Öskruliðar sem þarna voru aðhyllist skoðanir VG að einhverju leyti eins og þú orðar það. Það er einmitt það sem ég er að vísa til.

Í þriðja lagi þá er það rangt að það séu engin lög sem skylda dómsmálaráðherra til að fara að með þeim hætti að vísa ákveðnum útlendingum úr landi þá er það ekki rétt hjá þér. Í fyrsta lagi þá heyrir málið undir Útlendingastofnun sem ber skylda til að fara að lögunum og hafa einsleita stjórnarframkvæmd og málið heyrir undir þá stofnun. Dómsmálaráðherra er yfirmaður stofnunarinnar en tekur ekki persónulegar ákvarðanir í málum eins og þessum. Í þessu máli var algjörlega farið að lögum og þið hafið ekki bent á eitt einasta atriði sem sýnir fram á annað.

Í þriðja lagi þá getið þið verið á móti borgaralegu lýðræði en það gefur ykkur ekki sérstakan rétt til að haga ykkur ósæmilega og veitast að einstaklingum eins og þið hafið gert og taka mannréttindi af fólki eins og þið gerðuð gagnvart dómsmálaráðherra.  Það er einstakt að segjast berjast fyrir mannréttindum í einu orðinu og vera á móti þeim í öðru.

Í fjórða lagi þá gefið þið ekki dómsmálaráðherra tíma til einhvers. Þið getið komið athugasemdum ykkar að en eins og ég vakti athygli á þá eigið þið að tala við þingmanninn ykkar Birgittu Jónsdóttur og biðja hana um að taka málið upp á þeim vettvangi sem hún getur þ.e. Alþingi. Af hverju gerið þið það ekki? Ætlist þið e.t.v. ekki til neins af Birgittu eða viljið þið e.t.v. ekkert hafa með Alþingi að gera af því að þið eruð á móti borgaralegu lýðræði?

í fimmta lagi þá hafa aðgerðir Útlendingastofnunar ekkert með hörundslit að gera og þú getur ekki bent á að stofnunin hafi beitt  sér gagnvart fólki af mismunandi kyn- eða litarhætti ólíkum aðgerðum eftir því hver í hlut á. Þessi skírskotun þín til rasisma dómsmálaráðherra og undirmanna hennar er gjörsamlega fráleit.

Í síðasta lagi þá finnst mér lokaathugasemdin þín ekki svaraverð en sýnir glögglega hvaða hug þú berð til þjóðar þinnar sem þú lýsir sem " þetta gráa illlykta Ísland þitt"    Þetta er að gera lítið úr þjóð sinni og menningu hennar og það svífur því miður iðulega yfir vötnum hjá fólki sem aðhyllist skoðanir eins og þær sem þú segist aðhyllast ásamt félögum þínum í Öskru.

Jón Magnússon, 18.10.2009 kl. 11:42

36 Smámynd: Jón Magnússon

Ég er alveg sammála þér Sindri. Ef eitthvað er þá er brýnt að stytta þann tíma sem Útlendingastofnun tekur til að skoða mál hvers og eins. Það er slæmt að ólöglegir innflytjendur séu að valsa hér um allt í allt að því eitt ár eftirlitslaust áður en þeim er vísað úr landi af því að skoðunin sýnir að saga þeirra stenst ekki skoðun.

Jón Magnússon, 18.10.2009 kl. 11:44

37 Smámynd: Jón Magnússon

Magnús eins og kemur fram í athugasemd  Rúnars Berg hér að ofan þá telur þetta fólk að það gildi sérréttindi um þau af því að þau eru á móti þjóðskipulaginu.  Það er merkilegt að í háskólasamfélagi Vesturlanda skuli alltaf koma upp svona öfgahópar sem neita að horfast í augu við staðreyndir en búa sér til sinn sýndarveruleika.

Jón Magnússon, 18.10.2009 kl. 11:47

38 identicon

Ókei Jón, mér langar ótrúlega að vera með skítkast varðandi Pravda, meint tengsl Öskru við VG, kynþáttahyggju, forréttindum dómsmálaráðherra og sómasamlega hegðun valdlausra gagnvart svoleiðis valdafólki o.s.frv. en þess í stað ætla ég að beina umræðunni í einn ákveðinn farveg. Þ.e. þessi meintu lög sem skylda valdbera að reka ákveðna einstaklinga úr landi.

Jón (eða einhver hvað það varðar), værirðu til í að benda mér á þessi lög?

Eða annars, þú þarft þess ekkert frekar. Því í raun er mér sama um hvort þau séu til. Séu þau til þá eru þau asnaleg og ætti þar með að hunsa (rétt eins og að fólk gekk ekki hér um alla seinustu öld að drepa Tyrki (eða múslima; fer eftir túlkun) bara vegna þess að lögfræðilega voru þeir réttdræpir). Það er nefninlega ansi slæmt ef að valdamenn þessa heims hagi sér eins og hundar Pavlovs, nema bara í staðin fyrir bjöllu þá hafa þeir lög eða æðra vald, og í stað þess að slefa þá fara þeir að stunda ómannúðlega hegðun gagnvart öðrum. Ég skora á þig Jón, og alla þá sem eru sammála þér, að flétta upp í niðurstöðum Milgramsrannsóknarinnar, þar sem að þorri þátttakanda voru reiðubúnir gefa annarri manneskju lífshættulegt raflost bara vegna þess að eitthvað æðra vald sagði þeim að gera það. Viljum við byggja samfélagið okkar á lögum þá þurfum við alltaf að vera meðvituð um þessa eiginleika æðra valds (ef þú ert ennþá í vafa um þetta þá byð ég þig um að skoða hvernig fólk hagaði sér í þriðja ríkinu bara vegna þess að það var að fylgja lögum og skipunum). Og sé hinn minnsti vafi um ómannúðlega eiginleika einhverra laga að þá ber manneskjum að gagnrýna þau, endurskoða þau, hunsa þau, brjóta þau og að lokum gera allt til að afnema þau ef ekkert annað hefur virkað. Eða eins og Búdda sagði (ég veit þversögnina í þessu): „Ekki trúa neina bara vegna þess að það stendur í einhverjum gömlum bókum.“

Rúnar Berg Baugsson (IP-tala skráð) 18.10.2009 kl. 18:23

39 Smámynd: Jón Magnússon

Rúnar þetta er ágætis hugleiðing hjá þér á köflum og sem betur fer full af innbyrðis ósamræmi sem bendir til þess að þú sért ekki forstokkaður heldur geti verið tímanum í það eyðandi að benda þér á grundvallaratriði lýðræðisskipulagsins og sjónarmið fólks eins og mín sem vill sem minnst ríkisafskipti.

Vegna þess að maðurinn er ófullkominn eins og þú bendir réttilega á þá skiptir máli að takmarka ríkisvaldið eins og gert er t.d. með ákvæðum í stjórnarskrá. Síðan er spurning um það hvort að ríkisvaldið sé ekki farið að taka sér of mikið vald í lýðræðisþjóðfélagi t.d. þegar það tekur meiri hluta tekna fólks til að ráðstafa.

Það vill svo til að ég hef sérstaklega kynnt mér hegðun fólks bæði í þriðja ríkinu og í Sovétríkjunum. Einnig vil ég benda þér á bækur Arnulf Överland sem sat í fangabúðum nasista í Noregi á stríðsárunum þar sem hann lýsir því hvernig margir Norðmenn brugðust við eftir að landið var hernumið. Það er mjög athyglivert.

Þannig að við getum sameinast um sjónarmiðin sem Búdda setti fram og þú vísar í, en við getum ekki átt samleið alla vega eins og þú hugsar í dag varðandi réttarríkið. Ef við virðum ekki réttarríkið og þau lýðræðislegu stjórnvöld sem eru réttkjörin hverju sinni þá endar það með að þeir sterku kúga þá veikari. Í stað alræðis öreiganna eins og Marx talar um þá kemur alræði hinna fáu sterku.

Að hluta til lifðum við þannig tíma á árunum fyrir bankahrunið þegar milljarðarskuldararnir réðu mestu í þjóðfélaginu. Þið í Öskru ættuð að velta því fyrir ykkur hvort það sé réttlætanlegt að sumir af milljarðaskuldurnum skuli enn ári eftir hrun vera helstu atvinnurekndur og athafnamenn í landinu. Er það ekki verkefni til að taka fyrir á fundum hjá ykkur?

Jón Magnússon, 18.10.2009 kl. 22:26

40 Smámynd: Árni Gunnarsson

Jón.Það sem ég meinti var auðvitað sá algeri trúnaðarbrestur milli stjórnvalda og þjóðar. Við þær aðstæður myndast upplausn sem hefur lítið með dómgreind og yfirvegun að gera.

Árni Gunnarsson, 19.10.2009 kl. 12:31

41 Smámynd: Árni Gunnarsson

Gleymdi að taka fram að auðvitað var þessi aðför að dómsmálaráðherra skelfilegt slys, ósæmandi og óverðskulduð. Hún er að framfylgja lögum.

Árni Gunnarsson, 19.10.2009 kl. 12:44

42 Smámynd: Jón Magnússon

Ég er alveg sammála þér Árni.

Jón Magnússon, 19.10.2009 kl. 16:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 26
  • Sl. sólarhring: 743
  • Sl. viku: 3847
  • Frá upphafi: 2427647

Annað

  • Innlit í dag: 23
  • Innlit sl. viku: 3559
  • Gestir í dag: 23
  • IP-tölur í dag: 23

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband