Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007

5.2% verðbólga.

Verðbólga mælist nú 5.2% samkvæmt nýjustu fréttum og þar kemur fram að hækkun á húsnæðiskostnaði vegi þar þyngst til hækkunar og einnig hækkun á vöxtum íbúðarlána. Þegar þetta er skrifað hef ég ekki séð sundurliðunina en það verður fróðlegt að fara í gegn um hana.

Miðað við þessar upplýsingar þá geta lanastofnanir hækkað skuldir þeirra sem tekið hafa lán með því að hækka vexti af íbúðarlánum þar sem slik hækkun mælist í vísitölunni. Er einhver glóra í slíkri heimild lánastofnana til sjálftöku?


Frelsi, umburðarlyndi og virðing.

Á fjölmennum fundi sem Landssamband kvenna í Frjálslynda flokknum hélt á föstudagskvöldið flutti ég ræðu um efnið: Stefnumótun og framtíð Frjálslynda flokksins. Í ræðunni vék ég að því að nauðsynlegt væri fyrir Frjálslynda flokkinn að marka sér stöðu sem frjálslyndur flokkur á grundvelli þeirra sjónarmiða og skoðana sem einkenndu meginhugsjónir og grundvöll frjálslynds fólks og frjálslyndra flokka.

Í því sambandi benti ég á þá áherslu sem frjálslynt fólk legði jafnan á einstaklinginn frelsi hans og möguleika til að fá að lifa lífi sínu með sem minnstum afskiptum opinberra aðila, reglna boða og banna. Jafnframt vék ég líka að því inntaki í frjálslyndum viðhorfum sem fælist í umburðarlyndi fyrir skoðunum og viðhorfum annarra jafnvel þó að okkur þyki þau röng og vék að þeirri spurningu sem er og verður einna mikilvægust í umræðu frjálslynds fólks um afskipti ríkisvaldsins, spurningin um hvað eiga stjórnvöld að hafa mikil afskipti af borgurunum og hvað mikil afskipti stjórnvalda af einstaklingnum eru réttlætanleg. Í þriðja lagi vék ég að því að virðing fyrir öðrum einstaklingum væri einnig mikilvægt inntak í frjálslyndum viðhorfum.

Þessi þrjú atriði sem nefnd eru hér að ofan ásamt því að Frjálslyndi flokkurinn reki þjóðlega stefnu með áherslu á íslensk lífsgildi, tungu og menningu verður Frjálslyndur flokkur að hafa að leiðarljósi í allri stefnumótun sinni.

Sem betur fer er mikill kraftur í flokksstarfinu. Landssamband kvenna í Frjálslynda flokknum hélt glæsilegan fjölmennan fund á föstudaginn og á þeirra vegum var fjölmenni í skoðunarferð um Alþingishúsið og síðan í Hellisheiðarvirkjun. Þá eru félögin í Reykjavík mjög virk og boða bæði til funda um stofnun starfshópa og stefnumótun á mánudaginn kemur. Félag Frjálslyndra í Suðvesturkjördæmi hefur margt í undirbúningi og það verður gaman að taka þátt í starfinu með þeim á næstunni. Ungt fólk í Frjálslynda flokknum hefur einnig látið til sín taka í auknum mæli. Þeir sem að þessum félögum standa eiga heiður skilinn fyrir mikið og þrotlaust starf. Forsenda þess að við náum þeim árangri sem við stefnum að í næstu kosningum er að við bjóðum upp á skýra stefnumörkun og byggjum flokkinn upp félagslega.  Sem betur fer hefur það gengið svo vel að það er ástæða til að vera bjartýnn á framhaldið.


Dýrt bensín.

Á sama tíma og sumir seljendur bensíns auglýsa í gríð og erg ódýrt bensín þá æðir bensínverð upp úr öllu valdi. Í þetta skipti er það ekki olíufélögunum fyrst og fremst að kenna heldur hækkuðu heimsmarkaðsverði.  Hinu má ekki gleyma að ríkissjóður Íslands er stærsti og heimtufrekasti olíufurstinn í landinu. Með hækkandi verði á bensíni og olíluvörum fær ríkissjóður verulega auknar tekjur. Á sama tíma hækka lán þeirra sem eru með vísitölutryggð lán vegna þess að olíuverð í heiminum hækkar.

Seðlabankinn hækkar og hækkar stýrivexti að því er bankastjórn Seðlabankans segir til að halda verðbólgu í skefjum. Á sama tíma aukast álögur ríkisins og samkvæmt fjárlagafrumvarpinu þá á að auka ríkisútgjöld langt umfram verðbólgu.

Væri ekki ráð að ríkið tæki aukið tillit til venjulegs fólks og lækkaði álögur á bensín og olíur meðan bensínverð er í háhæðum. Með því mundi ríkissjóður leggja ákveðið að mörkum til að vinna gegn vaxandi verðbólgu og vinna gegn óeðlilegum hækkunum á lánum. Væri það til of mikils mælst af ríkisstjórninni að hún kæmi með þessum hætti til móts við hagsmunir borgaranna í landinu?

Þegar allt bendir til að Seðlabankinn og viðskiptabankarnir séu í sameiningu að valda kreppu á íbúðalánamarkaðnum hvað ætlar ríkisstjórnin þá að gera. Á ef til vill ekkert að gera. Það er nauðsynlegt miðað við þessar aðstæður að koma með mótvægisaðgerðir fyrir venjulegt fólk gegn okurvöxtum og okurverði á bensíni. Ríkisstjórnin hefur þau ráð í hendi sér.


Kreppa á húsnæðismarkaðnum?

Lánastofnanir bjóða nú upp á mun lakari lánakjör en áður. Vextir hafa verið hækkaðir verulega af húsnæðislánum og lánakjör gerð óaðgengilegri fyrir lántakendur. Þetta gerist á þeim tíma sem ætla mátti að færi að draga úr eða farið var að draga úr þenslunni á húsnæðismarkaðnum.

Með þessum aðgerðum sínum geta lánastofnanir valdið verulegum erfiðleikum á þessum mikilvæga markaði sem munu hafa keðjuverkanir um allt þjóðfélagið. Mér þætti gaman að sjá hvað greiningadeildir bankanna segja núna um húsnæðismarkaðinn og hvernig þeir meta þróunina á þeim markaði.

Mér er gjörsamlega óskiljanlegt af hverju bankastjórn Seðlabankans fannst rétt að hækka stýrivexti við þær aðstæður sem nú ríkja í þjóðfélaginu. Sjálfur formaður bankastjórnar Seðlabankans fyrrverandi forsætisráðherra talar um dýfu í efnahagsmálum eða kreppu. Hækka menn stýrivexti Seðlabanka við slíkar aðstæður þegar þeir meta ástandið í efnahagsmálum þjóðarinnar sem dýfu eða kreppu. Það er alla vega hagstjórn sem er öfug við það sem aðrir seðlabankar beita í heiminum.

Sé það mat Seðlabankastjóra rétt að um dýfu sé að ræða eða kreppu á íslenska fjármálamarkaðnum þá er Seðlabankinn og lánastofnanirnar heldur betur að stuðla að því að dýfan eðan kreppan verði sem þungbærust.


Nú eflum við starfið.

Við Frjálslynd flytjum í nýja félagsaðstöðu að Skúlatúni 4 eins fljótt og auðið er. Það var löngu nauðsynlegt að fá húsnæði fyrir félagsstarfið en félögin í Reykjavík. Félag Frjálslyndra í Reykjavík suður og norður hafa bæði hafið störf með miklum krafti.

Í Skúlatúni 4 skulum við koma okkur vel fyrir og gera húsnæðið að félagsmiðstöð okkar Frjálsyndra þar sem við komum saman til að efla starfið og flokkinn, fræðast og hafa gaman af því að vera til og umgangast hvort annað.

 Fyrsta uppákoman í Skúlatúni 4 verður að Landssamband kvenna í Frjálslynda flokknum mun koma þar saman á laugardaginn síðdegis eftir að hafa skoðað Alþingi og Hellisheiðarvirkjun.


Ósæmilegir viðskiptahættir Kaupþings banka.

Kaupþing banki hefur tilkynnt að bankinn muni ekki heimila yfirtöku lána t.d. í fasteignaviðskiptum nema vextir af lánunum verði hækkaðir í 6.4% en þá vexti áskilur bankinn sér nú af verðtryggðum fasteignalánum til langs tíma.  Þessi vinnubrögð eru atlaga að viðskiptavinum bankans. Í fyrsta lagi neyðir það alla sem þurfa að selja eignir sem eru veðsettar hjá Kaupþingi að gangast undir þessa skilmála. Það er of dýrt að greiða uppgreiðslugjald og nýi aðilinn að greiða lántökugjald og stimpilgjald og þinglýsingu.

Kaupþing er með þessu að brjóta gegn góðum viðskiptaháttum og reynir með þessu að gera viðskiptavinum sínum erfitt fyrir í daglegu lífi og viðskiptum.

Það væri vert að rifja upp ummæli forustumanna bankans þegar þeir fóru í samkeppni á íbúðalánamarkaði og buðu 4.15% vexti af verðtryggðum lánum. Af hverju var það hægt fyrir nokkrum árum en er ekki hægt í dag. Verðtryggingin stendur jú alltaf fyrir sínu. 

Nú verður fróðlegt að sjá hvað hinir bankarnir og sparisjóðirnir gera. Fylgja þeir á eftir Kaupþingi. Gerist það þá er það þá yrði það enn ein sönnunin fyrir því að samkeppni er ekki á bankamarkaði gagnvart neytendum.

Svar stjórnvalda við þessu á að vera að afnema stimpilgjald og hraða afgreiðslu þingsályktunartillögu okkra Frjálslyndra um skoðun á lánakjörum og afnám vísitölubindingar lána.


Landsfaðirinn talar.

Svo virðist sem Davíð Oddsson telji sig enn vera hinn eina sanna landsföður en  Geir Haarde hafi ekki enn áttað sig á því að hann á að hafa tekið við því hlutverki af Seðlabankastjóra.

Ýmis ummæli Davíðs eru athygliverðar. Einkum ummæli hans um eignafærslu fyrirtækja. Hér hlítur Seðlabankastjóri aðallega að vera að tala um fyrirtæki sem eru á hlutafjármarkaði. Í því samhengi verða orð hans tæpast skilin með öðrum hætti en þeim að markaðsvirði margra fyrirtækja á hlutabréfamarkaði sé vafasamt þó það sé eins og Seðlabankastjóri kýs að orða það "innan löglegra og siðlegra marka". Sé svo að eignfærslan sé innan löglegra og siðlegra marka hvaða ástæða er þá til að vekja sérstaklega máls á þessu?  Væntanlega hefur Seðlabankastjóri ákveðin fyrirtæki í huga þegar hann kýs að orða hlutina með þeim hætti að farið sé á ystu brún eignfærslu hjá fyrirtækjum á eignum sem séu í raun óseljanlegar.

Hugsanlega getur Seðlabankastjóri ekki kveðið fastar að orði þegar hann kýs að vara fólk við því eins og ég skil ræðuna, að hlutabréfaverð hér kunni að vera ofmetið vegna ofmats eigna þó það sé innan bókhaldslegra leikreglna hvernig það er fært.


mbl.is Reglur í bókhaldi teygðar töluvert
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leyndarmál Orkuveitunnar.

Ekki má segja frá því hvað lykilstjórnendur Orkuveitu Reykjavíkur hafa í laun. Beiðni 24 stunda um þær upplýsingar var synjað. Sagt er frá því í svari Orkuveitunnar að upplýsingalög gildi ekki um starfsemi fyrirtækisins. 

Orkuveitan er sameignarfyrirtæki í eign þriggja sveitarfélaga en langstærsti eigandinn er Reykjavíkurborg. Orkuveitan er þannig fyrirtæki í opinberri eigu. Borgararnir eiga rétt á að fá allar upplýsingar um starfsemi slíks fyrirtækis og vilji fyirirtækið ekki veita nauðsynlegar eðlilegar upplýsingar eins og þessar verður að gera þá kröfu til lýðræðislega kjörinna fulltrúa í stjórn fyrirtækisins að þeir hlutist til um að upplýsa hver starfskjör lykilstjórnanda fyrirtækisins eru. Það á ekki að vera leyndarmál.

Miðað við heildarlaunagreiðslur til forstjóra og stjórnar þá virðist sem sumir lykilstjórnendur séu með svipuð laun eða jafnvel hærri en útvarpsstjóri. Þarf að hvíla meiri leynd yfir starfskjörum lykilstjórnenda Orkuveitunnar en útvarpsstjóra?


Er stolið af neytendum í verslunum?

Vinur minn sagði mér þá sögu að hann hefði þurft að kaupa smáræði og stöðvað við lágvöruverðsverslun en uppgötvað að hann var ekki með kreditkortið sitt og bara þúsund krónur. Hann sagðist  hafa farið inn í verslunina og keypt vörur fyrir 700 krónur samkvæmt verðmerkingum  en við kassann var honum gert að greiða kr. 868 eða um 24% meir en verðmerkingar sögðu. Hann benti afgreiðslumanninum á misræmið en sá skildi  ekkert í íslensku eða ensku en síðan hefði verið náð í íslending sem hefði leiðrétt þetta strax. Vörurnar fékk vinur minn því á kr. 700 eins og verðmerkingarnar sögðu til um en ekki á kr. 868 eins og krafist var við kassann.

 Vinur minn segist hafa velt því fyrir sér þegar hann gekk út úr búðinni hvað miklu væri stolið af neytendum með þessum hætti. Eftir þetta sagðist hann mundu skoða verð nákvæmlega og geyma strimlana en hingað til hefði hann ekki passað upp á að bera saman verðmerkingar og kassaverð.  Nú vissi hann að það skiptir máli. 

Þessi vinur minn sagðist ekki geta litið á þetta litla ævintýri sitt með öðrum augum en þeim að gerð hefði verið tilraun  til að stela af sér.

Voru þetta mistök? Var þetta slys? Eða eru þetta viðskiptahættir sem tíðkast almennt?

Það skiptir máli að við pössum okkur alltaf í viðskiptum.


Sameiginlegt lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn.

Valgerður Bjarnadóttir mælti fyrir frumvarpi sem hún flytur ásamt nokkrum öðrum þingmönnum um breytingu á lögum um eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.  Með flutningi frumvarpsins setur flutningsmaður fram það markmið að alþingismenn, hæstaréttardómarar, alþingismenn og ráðherrar njóti sömu lífeyriskjara og gilda um aðrar ríkisstarfsmenn.

Ég styð frumvarp Valgerðar en tel nauðsynlegt að skoða hvort ekki eigi að ganga enn lengra varðandi leiðréttingu. Samræmt lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn er það sem við eigum að keppa að. Það eiga allir að njóta velferðar í ellinni en ríkisvaldið á ekki að búa sumum borgurum betri kjör en öðrum.  Þau óþrif sem sett voru með lögum nr. 141/2003 um sérstök lífeyrisréttindi þarf að koma úr lögum. Fulltrúar fólksins mega ekki skapa sér sérkjör í ellinni, þeim ber að bjóða öllum borgurum viðunandi kjör í ellinni.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.4.): 117
  • Sl. sólarhring: 120
  • Sl. viku: 4353
  • Frá upphafi: 2291372

Annað

  • Innlit í dag: 106
  • Innlit sl. viku: 4012
  • Gestir í dag: 88
  • IP-tölur í dag: 83

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband