Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007

Þjóðarflokkur?

Fram kemur á bloggi Björns Bjarnasonar í dag að Sjálfstæðisflokkurinn sé slíkur þjóðarflokkur að innan hann geti allir rúmast. Hann víkur máli sínu að Ellert B. Schram og bendir síðan á ummæli Bubba Morthens.

Vissulega er það rétt hjá Birni Bjarnasyni að innan vébanda Sjálfstæðisflokksins rúmast margar og mismunandi skoðanir og mikið af dugmiklu ágætisfólki er starfandi innan flokksins. Sjálfstæðisflokkurinn átti því möguleika á að verða raunverulegur þjóðarflokkur en sveigði af leið og kaus að gæta sérhagsmuna.

Sjálfstæðisflokkurinn er ólíkur hægri flokkum og frjálslyndum flokkum að því leyti að hann hefur á síðari árum hvorki gætt aðhalds og sparnaðar í ríkisrekstri né rekstri þeirra sveitarfélaga þar sem flokkurinn er í meirihluta. Þá er hann ólíkur frjálslyndum flokkum m.a. að því leyti að hann hefur tekið sérhagsmuni fram yfir hagsmuni heildarinnar. Frjálslyndur flokkur.já  og líka flokkur sem hefði haft frjálshyggju að leiðarljósi hefði aldrei mótað gjafakvótakerfi eins og Sjálfstæðisflokkurinn gerði. Hann hefði aldrei mótað framleiðenda- og neytendastefnu eins og Sjálfstæðísflokkurinn hefur gert.

Sjálfstæðisflokkurinn rígheldur í höft þar sem því verður við komið. Fjölþjóðlegt samstarf í Gatt og síðan Alþjóðaviðskiptastofnuninni og Evrópska efnahagssvæðinu þvingaði flokkinn til að samþykkja nútímaleg lög um samkeppni, neytendavernd og draga úr tollvernd. Á öll þessi atriði benti ég og barðist fyrir frjálslyndum sjónarmiðum í atvinnu- og neytendamálum meðan ég var í Sjálfstæðisflokknum og fékk mikið fylgi við þau sjónarmið. Þau komust þó aldrei í framkvæmd vegna þess að hin ósýnilega ráðandi bláa hönd fór sínu fram eins og hentaði og gerir enn. Landsfundarsamþykktum var þá vikið til hliðar. Nú eru slíkar samþykktir þannig orðaðar að bláa höndin getur gert nánast hvað sem er vegna möguleika á mismunandi túlkunum.

Alþýðuflokkur Jóns Baldvins Hannibalssonar var á tímbili frjálslyndari og víðsýnni en Sjálfstæðisflokkurinn og gat markað sér stöðu og náð áhrifum í íslenskri pólitík. Alþýðuflokksmenn þraut hins vegar erindið og létu leiða sig í samstarf með kommum og kvennalista. Úr varð sálarlaus hentistefnuflokkur, Samfylkingin. Þess sér nú merki við stjórnarmyndun þar sem Samfylkingin heldur engu til streitu og hefur engar sérstakar meiningar í íslenskri pólitík og sérhagsmunirnir eru enn í forgangi við ákvarðandi nýrrar ríkisstjórnar.

Í dag virðist stefna beggja flokka Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar vera sú ein að vera í ríkisstjórn. Ráða.  Fróðlegt verður að fylgjast með hvernig samstarfið gengur þegar gleðileik aukinnar skuldasöfnunar og hágengis lýkur.

Frjálslyndi flokkurinn á þess kost að marka sér stöðu með sama hætti og frjálslyndir flokkar hafa gert í nágrannalöndum okkar og á meginlandi Evrópu. Það verður verkefnið á þessu kjörtímabili. Gangi það vel mun Frjálslyndi flokkurinn verða sigurvegari næstu kosninga. Raunverulegur Þjóðarflokkur.


Aðför að tjáningafrelsinu.

Tímaritið Ísafold fæst ekki lengur í Nóatúni og öðrum verslunum sem heyra undir þá keðju. Stjórnendur keðjunar bönnuðu sölu á blaðinu í verslunum sínum. Ég vænti þess að stjórnendur keðjunnar átti sig á að með þessu eru þeir að gera aðför að tjáningarfrelsinu.

Það er eðlilegt að fólki finnist sitthvað um það sem fram kemur í einstökum prentmiðlum en það að banna sölu tímarits er alvarlegt mál. Sérstaka ritskoðun af þessu tagi er ekki hægt að líða. Stjórnendur fyrirtækja eins og þess sem hér á í hlut bera ákveðna samfélagslega ábyrgð. Þá ábyrgð eru stjórnendur fyrirtækisins ekki að axla með því að vega að tjáningarfrelsinu.


Skuggi á þingsetningu.

Þingsetningin var hátíðleg eins og venjulega. Forseti Alþingis var kjörinn með nánast öllum greiddum atkvæðum. Borin var fram tillaga af hálfu stjórnarflokkana að ekki yrði kosið í nokkrar fastanefndir Alþingis en sú tillaga sætti mótmælum stjórnarandstæðinga.  Spurning var hvaða máli þetta skipti. Skipti það nokkru máli þó kosið yrði í nefndirnar og gerðar breytingar þegar sú stjórnkerfisbreyting sem ríkisstjórnin hefur boðað var orðin að veruleika. Slíkt hefði verið réttur framgangsmáti. Það að nýta meirihlutann til að knýja fram vilja sinn við þingsetningu í máli eins og þessu gefur ekki góð fyrirheit um raunverulegan vilja stjórnarflokkana til að virða eðlilegar lýðræðishefðir.

Þetta atvik setti óneitanlega skugga á annars hátíðlega athöfn þar sem orð höfðu fallið af hálfu forseta lýðveldisins og nýkjörins forseta Alþingis um mikilvægi lýðræðis og rétt minnihluta.


Stefnuræða forsætisráðherra.

Stefnuræða forsætisráðherra var nánast upplestur á stjórnarsáttmálanum. Athygli vakti að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir skyldi engu svara beittum ásökunum Steingríms J. Sigfússonar í hennar garð. Hún hefur greinilega ekki talið sig eiga góða vígstöðu á þessum vígvelli að sinni. Þá vakti athygli ummæli hennar um Írak og fróðlegt verður að vita hvað samstarfsflokkurinn segir um þau atriði.

Af stefnuræðum talsmanna stjórnarflokkana að dæma verður ekki annað séð en flokkarnir hafi einungis samið um samstöðu í ákveðnum útgjaldamálum en ýmis brýn mál á sviðum utanríkismála, atvinnumála og orkumála hafi hreinlega ekki verið rædd í þaula.  Það hefði e.t.v. verið í lagi að taka lengri tíma og ræða málin út í hörgul.


« Fyrri síða

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 63
  • Sl. sólarhring: 1271
  • Sl. viku: 1593
  • Frá upphafi: 2293061

Annað

  • Innlit í dag: 56
  • Innlit sl. viku: 1447
  • Gestir í dag: 56
  • IP-tölur í dag: 56

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband