Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008

Forsætisráðherra telur ekki ástæðu til að gera neitt.

Í viðtali við Stöð 2 að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun sagði forsætisráðherra, að vandinn í efnahagslífinu væri ekki kominn á það stig að það kallaði á ráðstafanir.  Þá lagði forsætisráðherra áherslu á að það ástand sem væri í efnahagsmálum þjóðarinnar væri ekki bundið við Ísland heldur væri um alþjóðleg vandamál að ræða. Spurður um gjaldmiðilinn þá sagði forsætisráðherra að fall hans endurspeglaði það sem væri að gerast á alþjóðlegum mörkuðum.

Er það svo að fall krónunnar sé vegna aðstæðna á erlendum mörkuðum? Hlaut ekki að koma að því að krónan félli af því að hún hefur verið allt of hátt skráð vegna hávaxtastefnu Seðlabankans og gríðarlegrar erlendrar lántöku.  Ekki hefur Evran fallið eða Pundið. Hávaxtamyntirnar hafa hins vegar fallið en krónan mest. Endurspeglar það ekki frekar þann vanda sem við erum í vegna glórulausrar efnahagsstjórnar á undanförnum árum og glórulausrar gengisstefnu?

Spurningin er hvenær verður ástandið komið á það stig að það kalli á aðgerðir að mati ríkisstjórnarinnar?  Verðbólgan mælist nú rúm 8% og á sennilega eftir að hækka. Kallar það ekki á aðgerðir. Vandi unga fólksins vegna veðtryggðu lánanna sem munu hækka verulega á næstunni vegna verðbólgunnar kallar það ekki á aðgerðir.  Er ekki rétt að bregðast við fyrirfram og huga að því að afstýra lánsfjárkreppu en margt bendir til þess að sameiginlegar aðgerðir Seðlabanka og viðskiptabankana muni leiða til lánsfjárkreppu og minnkandi peningamagni í umferð. Gangi það eftir verða vandamálin gríðarleg. Er ekki ástæða til að bregðast við í tíma?


Íslenskir hagsmunir í Kabúl?

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingarinnar var í Danmörku í síðustu viku að gera Dönum grein fyrir hvað allt væri í góðu lagi í efnahagsmálunum á Íslandi. Á sama tíma var pólitískur ástmögur hennar Geir H. Haarde formaður Sjálfstæðisflokksins að segja frá því á Amrískum fréttamiðlum eins og CNN hvað íslenska efnahagslífið væri ofboðslega flott. Þetta forustufólk í flokkum sínum og ríkisstjórn hefur talið heppilegra að tala hlýlega um efnahagsástandið í landinu erlendis en forðast það að taka á málunum hér heima.  Það er alltaf flott að vera flottur í útlandinu.

Nú ekur Ingibjörg Sólrún ásamt íslenskum sérsveitarmönnum  á brynvörðum bifreiðum um götur Kabúl til að skoða stríðsástandið í landinu. Á sama tíma fellur flotkrónan sem aldrei fyrr og hlutabréfavísitalan sömuleiðis. Hvorki utanríkisráðherra né forsætisráðherra hafa séð ástæðu til að móta stefnu sem gæti verið trúverðug fyrir fólkið í landinu sem er áhyggjufullt yfir þeirri þróun sem er að verða og hefur verið í gangi í haust. Það er mikilvægt að forusta ríkisstjórnarinnar sinni  hagsmunum íslensku þjóðarinnar en láti það mæta afgangi að vera flott í útlöndum.

Ingibjörg hefur ekkert til Afghanistan að sækja nema þá íslensku friðargæsluliðana sem hún hefur illu heilli sent þangað.


mbl.is Ingibjörg Sólrún í Afganistan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Krónan og hlutabréfavísitalan falla mikið.

Krónan hefur fallið mikið í morgun og Evran kominn yfir 117 krónur og Pundið í 150. Hlutabréf falla mikið í verði. Ástand íslensks efnahagslífs er hvað sem hver segir grafalvarlegt. Svo alvarlegt að það kallar á skoðun stjórnvalda á því með hvaða hætti megi koma til móts við almenning í landinu sem hefur tekið verðtryggð lán sem munu hækka gríðarlega á næstunni vegna gengisfalls krónunnar.

Ólíkt því sem það er í nágrannalöndum okkar og Bandaríkjunum þar sem verðbólga vinnur á langtímalánum þá hækka lánin á Íslandi sem aldrei fyrr þegar flotkrónan, lottógjaldmiðillinn gefur eftir.  Enn lítur út fyrir að stjórnvöld ætli unga fólkinu að bera mestu byrðarnar hvað það varðar.

Það verður að leita leiða um nýja þjóðarsátt um stjórn efnahagsmála. Stóru liðirnir í þeirri þjóðarsátt er að við búum við gjaldmiðil sem má treysta en feykist ekki undan á floti eins og nú er. Að almenningur búi við sambærileg lánakjör og verðlag og í nágrannalöndum okkar. Okurstefnan gengur ekki lengur.  Allra síst þegar sverfur að.

Er ekki kominn tími til að breyta til og taka almannahagsmuni framyfir sérhagsmuni? Það er hægt að stjórna betur.  


Helgi Hallvarðsson skipherra fallinn frá.

Helgi Hallvarðsson vakti athygli á sér sem traustur gæslumaður þjóðarhagsmuna sem starfsmaður en lengst af skipherra hjá Landhelgisgæslunni þegar harðast var sótt sérstaklega af Bretum að hagsmunum íslensku þjóðarinnar. Helgi Hallvarðsson ávann sér traust og virðingu íslensku þjóðarinnar fyrir framgöngu sína og skarpa dómgreind á þeim viðsjáverðu tímum.

Við Helgi kynntumst í starfi hjá Sjálfstæðisflokknum og síðar í starfi hjá Frjálslynda flokknum. Helgi var ákveðinn en  hlýr og skemmtilegur maður og ógleymanlegur okkur sem fengum að njóta samvista við hann.

Ég votta eftirlifandi eiginkonu Helga og börnum hans svo og öðrum aðstandendum hans innilega samúð mína.


Hvar eru flestir milljarðamæringar

Ég var undrandi að lesa það að flestir milljarðamæringar í einni og sömu borg í heiminum eru í Moskvu í Rússlandi eða 74. Næstflestir í New York 71. Þá  kemur London með 36 og svo Istanbul í Tyrklandi með 34. Höfuðborg Japan Tokyo kemur í 10 sæti með 15. Einna athygliverðast fannst mér samt að Mumbai á Indlandi er í 7 sæti með 20 milljarðamæringa.

Ef til vill er ekkert sérkennilegt að lönd eins og Rússland, Indland og Tyrkland eigi jafn marga milljarðamæringa og raun ber vitni en í þessum ríkjum öllum er gríðarleg misskipting borgaranna og ríkisvald sem vanrækir að nota skattakerfið sem vald- og auðdreifingartæki. Íslenska  ríkið hefur verið að þróa skattkerfið í sömu átt og hjá þeim þjóðum þar sem misskipting borgaranna er mest. Auðmönnum er hyglað en þeir sem hafa eingöngu atvinnutekjur eru þrautpíndir í skattheimtu.

Það verður að breyta þessu. Við eigum að sejta okkur markmið almennrar velferðar og tekjudreifingar, leið mannúðlegrar markaðshyggju í stað þeirrar markaðshyggju ójöfnuðar og misskiptingar sem hefur verið að þróast hér og er við lýði í  vanþróaðri ríkum heims. Viljum við  vera í þeim flokki?


Skattpíningu á almenning verður að linna.

Ríkisstjórnin lækkar skatta á fyrirtæki þó að brýnasta þörfin fyrir skattalækkun sé hjá launafólki. Nú er það enn einu sinni staðfest að ríkisstjórnin er ójafnaðarstjórn. Hlutafall skatta hækkar á barnafólki á sama tíma og hún lækkar í öllum ríkjum OECD. Það verður að breyta þessu.

 Skattpíningu á venjulegt fólk verður að linna.


mbl.is Áfellisdómur yfir skattastefnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sendiherrar alltof margir.

Valgerður Sverrisdóttir fyrrverandi utanríkisráðherra upplýsir að ríkið þurfi að greiða dýra starfslokasamninga við þá sendiherra sem láta af störfum á næsta ári. Þetta verður ekki vegna þess að sendiherrarnir láti af störfum vegna aldurs heldur verður það lesið út úr ummælum fyrrverandi utanríkisráðherra að það sé vegna þess að rýma þurfi til fyrir nýjum sendiherrum. Í gær var sagt frá því að Ingibjörg Sólrún hefði skipað 3 nýja. Það er athyglivert að Valgerður Sverrisdóttir sem gegndi utanríkisráðherraembætti fram á síðasta ár segir að

"augljóst að sendirherrar íslensku utanríkisþjónustunnar eru of margir. Ég giska á að þeir séu sex til sjö of margir. Það skortir verkefni og hefði þurft að líða lengri tími þar til væri farið að fjölga sendiherrum enn frekar"

Þetta segir sá utanríkisráðherra sem skipaði engan sendiherra í ráðherratíð sinni. Nokkuð annað en Davíð sem skipaði 10 á þeim stutta tíma sem hann var utanríkisráðherra.

Fullt tillit verður að taka til ummæla Valgerðar Sverrisdóttur. Þar mælir kona sem þekkir málið betur en flestir aðrir. Hún segir að sendiherrar séu of margir en þrátt fyrir það skipar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir 3 til viðbótar.  Þetta er að fara illa með fé skattborgaranna. Þetta er auk heldur óásættanlegt að ráðherra skuli eiga og/eða taka sér sjálfdæmi með þessum hætti í þeirri trú að gerðir hennar verði staðfestar eftir á eða séu innan þeirra allt of rúmu fjárheimilda sem utanríkisráðuneytið hefur.


Þrír nýir sendiherrar.

Utanríkisráðherra hefur skipað 3 nýja sendiherra. Ekki er vitað hvert þeir eiga að fara eða yfir höfuð hvort þeir fara nokkuð.

Ég hélt að nóg væri komið að sendiherrum. Davíð skipaði 10 þann stutta tíma sem hann var í embætti. Ef til vill ætlar Ingibjörg Sólrún að bæta um betur.  En af hverju voru þessir nýju sendiherrar skipaðir? Voru einhverjir að hætta? Er þetta e.t.v. hrein viðbót við báknið í utanríkisráðuneytinu?

Vonandi svelgist utanríkisráðherra ekki á svínasteikinni og Waldorfsalatinu við tilhugsunina um að með aukinni útþenslu báknsins verður minna eftir hjá þrautpíndum skattborgurum þessarar þjóðar. En að sjálfsögðu á Ingibjörgu Sólrúnu ekki að svelgjast á þó að ríkisvæðingin aukist. Hún er jú sósíalisti. Samstarfsflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn er löngu orðinn ríkishyggjuflokkur og samþykkir aukin ríkisútgjöld hægri vinstri. 

En er nokkur þörf fyrir þessa nýju sendiherra?


Yfirdráttarskuldir heimila aukast.

Í lok síðasta árs skulduðu íslensk heimili um 76 milljarða í yfirdráttarlánum. Vextir af yfirdráttarlánum eru nú á bilinu 17.5-24.45%. Þessi vaxtataka er gjörsamlega óviðunandi.  Sérstakir vanskilavextir, dráttarvextir eru 25% og eru því nánast orðnir þeir sömu og vextir af yfirdráttarlánum. Þetta vaxtaokur á almenning getur ekki gengið.  Venjulegt fólk verður að eiga kost á lánum á sambærulegum vöxtum og  annarsstaðar í okkar heimshluta. Nú eru vextirnir af þessum lánum um helmingi hærri en víðast hvar í nágrannalöndum okkar. Reikningsglöggir menn geta reiknað hvað það eru miklir fjármunir sem þannig eru teknir frá íslenskum heimilum á hverjum mánuði með okurvöxtum.

Finnst íslenskum stjórnvöldum, ríkisstjórn og Seðlabanka þetta ásættanlegt. Finnst þeim það viðunandi að fólkið í landinu búi við þessa afarkosti? Hægt er að svara þessu að hluta. Seðlabankanum finnst það allt í lagi og bankastjórn hans hefur sagt að ættu íslensk heimili kost á sambærilegum lánum og í nágrannalöndum okkar væri úti um stöðugleika í efnahagskerfinu. Hvaða stöðugleika? 

Þá er spurningin hvort ríkisstjórnin telji ásættanlegt að fjöldi heimila stefni í gjaldþrot?


Fleira fólk til Afghanistan. Hversvegna?

Nú eru 13 íslenskir friðargæsluliðar á vegum íslenska ríkisins í Afghanistan og til stendur að senda fleiri. Hvað er meiningin að senda marga í allt?  Upplýsingafullrtúi utanríkisráðuneytisins segir að meiningin sé að færa fólk aðeins meira í uppbyggingarstarf. Í havða starfi hafa friðargæsluliðarnir verið. Áttu þeir ekki allan tímann að vera í uppbyggingarstarfi?

Mér finnst sérkennilegt að ríkisstjórn Hamid Karsai sem setið hefur í 6 ár skuli ekki hafa getað byggt upp þann innri styrk gagnvart vondum Talibönum og öðrum óaldarlýð í landinu að ríkisstjórn hans stæðist ekki ef unglingar frá Vestur Evrópu og Norður Ameríku færu frá landinu og hættu að vera í fremstu skotlínu í átökunum í landinu.

Af hveru eigum við að skipta okkur af málum í Afghanistan?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 250
  • Sl. sólarhring: 776
  • Sl. viku: 4071
  • Frá upphafi: 2427871

Annað

  • Innlit í dag: 233
  • Innlit sl. viku: 3769
  • Gestir í dag: 229
  • IP-tölur í dag: 222

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband