Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2009

Ráð undir rifi hverju

Þegar aðilar vinnumarkaðarins gera ítrekaðar tilraunir til að stjórna þjóðfélaginu með undirliggjandi hótunum bregst stjórnmálamaðurinn Steingrímur J. Sigfússon við af einurð og festu. Ekki skortir hann hugmyndir.

Sameinaður þrýstihópur verkalýðs og atvinnurekenda mótmælir fyrirhuguðum orku- og umhverfissköttum og formaður vinstri grænna segir það vera í lagi aðeins þurfi að finna nýja skatta.  Þó hugmyndaríkur sé þá sér vinstri græni formaðurinn og fjármálaráðherrann þá helstu lausn á hverjum vanda að auka skattlagningu. Lausnin var ekki langt undan. Hækka á tryggingargjald sem mun auka launakostnað fyrirtækja og auka atvinnuleysi. Forseti ASÍ fann bæði  hægri og vinstri hringleið til að útskýra að sú leið væri fín fyrir verkalýðinn.

Þetta er frábært úrræði. Samkvæmt álagningaskrá tryggingagjalds greiðir ríkissjóður tæpan fjórðung þess. Sveitarfélögin og fyrirtæki þeirra og ríkisins greiða síðan stærsta hluta tryggingagjaldsins. Með sama áframhaldi og hugmyndaauðgi og stefnufestu verður ríkissjóður skattlagður meir og meir til að eyða ríkissjóðshallanum. 


Ríkisstjórnin mótmælir

Það er fátítt í lýðræðisríkjum að ríkisstjórnir grípi til sérstakra mótmæla í ályktunarformi. Það gerðist þó í gær þegar ríkisstjórn Íslands sá ástæðu til að mótmæla mótmælum og aðför að heimilum dómsmálaráðherra og forstjóra álbræðslunnar í Straumsvík.

Af gefnu tilefni velti ég því fyrir mér hvort ekki var sama ástæða til að koma þessum sjónarmiðum ríkisstjórnarinnar á framfæri þegar aðför var gerð að heimilum annars fólks eins og staðið hefur yfir í tæpt ár.  Má e.t.v. gera aðför að heimilum sumra en ekki annarra? 

Ég hef fordæmt þessi hermdarverk óháð því að hverjum þau beinast.  Sjálftökufólk réttlætisins hafa aldrei reynst góðir dómarar og rýfur jafnan öryggi og innanlandsfrið.  Þess vegna þarf allt ábyrgt fólk að fordæma brot á friðhelgi einstaklinga og heimila þeirra óháð því hverjir eiga í hlut.

Ég velti því líka fyrir mér hvernig mótmæladrottningin frá því í janúar 2008, Álfheiður Ingadóttir heilbrigðisráðherra, og þeir aðrir sem sitja í ríkisstjórninni og  studdu aðförina að Alþingi, ríkisstjón, Seðlabanka og Fjármálaeftirliti greiddu atkvæði um þessi einstöku mótmæli ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur.


Eygló Harðardóttir tekur varðstöðu Halldórs Ásgrímssonar fyrir gjafakvótann

Eygló Harðardóttir þingmaður Framsóknarflokksins hefur tekið að sér þá varðstöðu sem Halldór Ásgrímsson stóð jafnan um hagsmuni gjafakvótakerfisins. Í dag talaði hún um að svokölluð fyrningarleið þ.e. að innkalla 5% af gjafakvótanum árlega gengi ekki. Eygló segir að ríkið muni tapa svo miklu vegna þess að kvótinn hafi verið veðsettur Landsbankanum og þá mundu þessi veð ríkisins í bankanum tapast.

En er það svo? 

Með því að innkalla kvótann og bjóða út veiðiheimildir koma þá ekki inn sambærilegar tekjur til ríkisins þannig að í sjálfu sér er ekki verið að færa nema úr einum vasanum yfir í hinn hjá ríkinu og því orðræða þingmannsins eingöngu varðstaða um óbreytt ástand?

Það er annars merkilegt að fylgjast með umræðunni vegna hugmynda stjórnarflokkanna um að fara fyrningarleið. Í fyrsta lagi koma ýmsar sveitarstjórnir og álykta að héraðsbrestur verði ef fyrningarleiðin verði farin. Ekkert styður þó slíkar staðhæfingar. Nú geta eigendur kvótans fært sig milli byggðarlaga eins og þeim hentar og hafa gert þannig að víða hefur orðið héraðsbrestur vegna þess. Þeir sveitarstjórnarmenn sem leggjast gegn fyrningarleiðinni neita að horfast í augu við þá staðreynd.

Nú hefur síðan Eygló Harðardóttir arftaki Halldórs Ásgrímssonar fundið það út að verðmæti ríkisins sem veð í Landsbankanum sé meira virði en eignarhald ríkisins á sömu verðmætum sem ríkið getur fénýtt sér til hagnaðar.  Steingrímur Hermannsson segir efnislega frá því í ævisögu sinni að Halldór Ásgrímsson hafi verið svo á kafi í vasanum á LíÚ forustunni þegar hann mótaði kvótakerfið að það hafi ekki einu sinni sést í hárið. Ekki vll Eygló Harðardóttir fá sömu eftirmæli?

 


Einstök óvirðing ríkisstjórnarinnar við Alþingi

Ríkisstjórnin gerði samning við Breta og Hollendinga vegna Icesave reikninganna í vor. Að því loknu lagði ríkisstjórnin fyrir Aþingi að skrifa upp á samningana. Alþingi hafnaði að gera það nema með verulegum fyrirvörum. Í framhaldi af því fór ríkisstjórnin að semja upp á nýtt við Hollendinga og Breta og hefur nú gert nýjan samning og undirritað hann af sinni hálfu án þess að leggja málið undir Alþingi.

Nýji samningur ríkisstjórnarinnar um Icesave er andstæður ýmsum ákvæðum sem Alþingi samþykkti í vor. Samt sem áður hikar ríkisstjórnin ekki við að skrifa undir samning sem er ekki í samræmi við nýsamþykkt lög frá Alþingi um málið.

Ég hygg að sjaldan í þingsögunni hafi ríkisstjórn sýnt Alþingi eins mikla óvirðingu og ríkisstjórnin með því að semja við erlendar þjóðir andstætt þeim vilja sem kom fram hjá löggjafarvaldinu mánuði áður.

Það er e.t.v. tímanna tákn um hverfulleika hugsjónanna að Helgi Ás Grétarsson sem keyptur var inn í Háskóla Íslands af Landssambandi íslenskar útvegsmanna, til að verja fiskveiðistjórnarkerfið, varð síðan einn helsti andstæðingur Icesave samninganna en kemur nú fram sem ráðgjafi ríkisstjórnarinnar í málinu.

Í framhaldi af því lýsir systir hann Guðfríður Lilja formaður þingflokks Vinstri Grænna yfir stuðningi við málið.  Hvað ætli sannfæring eins ráðgjafa eins og Helga Áss Grétarssonar kosta og hvað réð skoðanaskiptum systur hans? 

Stendur nú Ögmundur einn?  Eða hvað?


Yrðum við betur sett án samnings við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn?

Þjóðir leita ekki til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrr en í nauðirnar rekur. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn metur stöðuna og gerir ásamt stjórnvöldum viðkomandi ríkis áætlun um það með hvaða hætti komast megi sem fyrst út úr vandanum. Það þýðir að grípa þarf til aðhaldsaðgerða. Afleiðingin verður lakari lífskjör og iðulega atvinnuleysi. Í nánast öllum tilvikum hefði samt lífskjörin orðið enn lakari og atvinnuleysið enn meira og kreppan dýpri ef aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefði ekki komið til.

Á sama tíma og krónan er lægri en nokkru sinni fyrr gagnvart erlendum gjaldmiðlum vill meirihluti þjóðarinnar segja upp samningnum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Þeir sem það vilja verða að svara því hvort þeir telji að með því muni traust á Íslandi aukast. Hvort að líkur séu á að krónan styrkist eða kreppan verði minni og auðveldara verði að ráða við hana.  Mér er nær að halda að í öllum tilvikum yrði svarið að það er betra fyrir okkur að hafa samninginn við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn auk þess sem hann veitir ábyrðgarlítilli ríkisstjórn ákveðið aðhald.

Hér hefur því verið haldið fram í umræðunni að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sé notaður eins og handrukkari fyrir Breta og Hollendinga vegna Icesave. Það er ekki allskostar rétt.  Talsmenn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafa hins vegar ítrekað sagt að engin þjóð ekki einu sinni Norðmenn eða aðrar vinaþjóðir okkar á hinum Norðurlöndunum væri reiðubúin til að koma að aðstoð við okkur og lánafyrirgreiðslu nema frá ágreiningi okkar við Breta og Hollendinga yrði gengið. Engin krafa er hins vegar um það með hvaða hætti það á eða átti að gera.

Vinsælasti stjórnmálamaður landsins Steingrímur J. Sigfússon hefur gert ómögulegan samning fyrir okkar hönd og nái hann fram að ganga er ljóst að íslendingar þurfa að greiða milljarða sem þeir hefðu komist hjá hefði eðlilegir samningar verið gerðir á grundvelli fjármálatilskipunar Evrópu. Miðað við 90% endurheimtuhlutfall forgangskrafna Landsbanka Íslands er ljóst að íslenska ríkið hefði aldrei þurft að greiða eina krónu, pund eða evru hefðu samningar verið gerðir á grundvelli íslenskra laga og fjármálareglugerðar Evrópusambandsins.

Handrukkarinn er því ekki Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn heldur í raun vinsælasti stjórnmálamaður þjóðarinnar fjármálaráðherrann Steingrímur J. Sigfússon

Það er oft þannig að kænir stjórnmálamenn kenna Alþjóðagjaldeyrissjóðnum um þau vandamál sem þeir sjálfir hafa búið til og bera ábyrgð á.


Hvers konar einelti er þetta?

Aðgerðarhópur Vinstri Grænna fyrir landamæralausu Íslandi hélt fund á Lækjartorgi í hádeginu með tilstyrk þingkonunnar Birgittu Jónsdóttur úr Hreyfingunni. Rúmlega 40 mótmælendur mættu til að mótmæla því að farið skyldi eftir lögum í landinu.

Fylgisleysi þessa aðgerðarhóps afhjúpaðist gjörsamlega á útifundinum á Lækjartorgi í hádeginu og eiga skipuleggjendur mótmælanna sérstakar þakkir skildar fyrir það. 

Vegna vonbrigða sinna fór þessi aðgerðarhópur upp í Háskólabíó til að koma í veg fyrir með hrópum og háreysti að dómsmálaráðherra gæti flutt mál sitt. Það vafðist ekkert fyrir þessu sjálfskipaða  baráttufólki fyrir mannréttindum að taka málfrelsið af dómsmálaráðherra.

Mér er spurn af hverju leggur þessi aðgerðarhópur dómsmálaráðherra í einelti vegna þess að hún lætur framfylgja íslenskum lögum og fjölþjóðasamningum. Væri ekki nær fyrir hópinn að fara fram á það við þingmanninn sinn Birgittu Jónsdóttur  og sambærilega Vinstri græna að hún  og þeir eftir atvikum leggi fram tillögur um að breyta lögunum, en það er jú forsenda fyrir því að hægt sé að taka á málum í samræmi við kröfur aðgerðarhópsins.

Væri ekki nær fyrir hópinn að þjarma að Birgittu Jónsdóttur fyrir að hafa ekkert gert í málinu á Alþingi í stað þess að leggja dómsmálaráðherra í einelti?

Baráttufólk fyrir landamæralausu Íslandi neitar greinilega að horfast í augu við þær staðreyndir sem við blasa vegna hömlulítils innstreymis útlendinga undanfarin ár og lesa má um í fréttum á degi hverjum.


Ógeðfelld aðför að lögreglu og heimili dómsmálaráðherra

Aðgerðarhópur sem berst gegn því að lögmæt stjórnvöld fari að lögum í landinu safnaðist saman við lögreglustöðina í gær og krafðist þess að ekki yrði farið að lögum hvað varðar óleglega innflytjendur sem á að flytja til þess lands sem þeir komu inn á Schengen svæðið í samræmi við íslensk lög og samevrópskar reglur.  Í framhaldi að aðför sinni að lögreglustöðinni í Reykjavík hélt hópurinn að heimili dómsmálaráðherra eins ógeðfellt og það er og andstætt eðlilegum samskiptakröfum í lýðræðisþjóðfélagi.

Svona aðgerðir eru fordæmanlegar. Fólk sem er á móti lögunum um innflytjendur og útlendinga á að snúa sér til þess aðila sem hefur með málið að gera. Aðför að embættismönnum og lögreglu er óafsakanleg fordæmanleg þvingunartilraun af hálfu þessa fólks.

Því miður þá hafa núverandi stjórnarflokkar kallað yfir sig allskyns óværu af þessu tagi.  Nokkrir ráðherrar í ríkisstjórninni lögðu á ráðin og studdu aðför óeirðafólks að Alþingi í byrjun ársins og á stjórnarráðið, Fjármálaeftirlitið og Seðlabankann.  Þá hafa fjölmiðlar látið óátalið og jafnvel sumir þátttastjórnendur  og þáttahöfundar ríkistútvarpsins lýst yfir velþóknun í látæði og framsetningu við persónulegri aðför að ákveðnum einstaklingum. 

Stjórnmálamenn hafa ekki fordæmt með þeim hætti sem þeim ber það löglausa athæfi gagnvart einstaklingum sem birst hefur í því að veist hefur verið að einstaklingum eða eigum þeirra. Við slíkar aðstæður verður engin óhultur og vegið er að grundvelli réttarríkisins.

Er það þannig þjóðfélag sem við viljum?


Okur á plastpokum

Bónus hefur hækkað verð á plastpokum í 20 krónur. Framleiðslukostnaður á poka er innan við 5 krónur þannig að það er drjúg álagning þar.

Fyrir mörgum árum komu flestir kaupmenn sér saman um að stofna sjóð sem þeir kölluðu pokasjóð og ákváðu að meirihluti okurverðs þeirra á plastinnkaupapokum rynni í þennan sjóð. Neytendur voru ekki spurðir um það hvort þeir vildu þetta eða ekki. Þarna var um samræmda skattlagningu kaupmanna að ræða sem að Samkeppnisstofnun lagði blessun sína yfir.

Nú eiga neytendur að bregðast við og fá sér innkaupatöskur til að setja innkaup sín í en láta plastpokana eiga sig.  Þá græðum við tvöfalt. Í fyrsta lagi spörum við okkur kaup á pokum og í öðru lagi þá drögum við úr notkun á einnota umbúðum.


Til varnar Sigmundi Davíð

Er hægt að áfellast stjórnmálamann fyrir að leita til helstu vinaþjóðar Íslands með fyrirspurn um hvort þessi ríka vinaþjóð okkar sé reiðubúin til að lána okkur peninga? Ég get ekki séð neitt óeðlilegt við það að formaður Framsóknarflokksins leiti til Norðmanna með beiðni um lánafyrirgreiðslu.  Þá get ég ekki séð neitt athugavert við það að formaður Framsóknarflokksins taki með sér ráðgjafa jafnvel þó að þeir hafi unnið hjá einhverjum útrásarvíking áður.

Sigmundi Davíð er ljóst að ríkisstjórnin er úrræðalaus og sýnir ekkert frumkvæði. Hann reynir því að hafa frumkvæði og leggur þar með sitt á vogaskálarnar eins og allir góðir Íslendingar eiga að gera við þessar aðstæður. Hvað kemur fólki til að hneykslast á þessu frumkvæði formanns Framsóknarflokksins.

Það væri nær fyrir vinstra # í landinu að hneykslast á forsætisráðherranum sem skrifar sérstaklega bréf til flokksbróður síns í Noregi til að koma endanlega í veg fyrir að þessi tilraun formanns Framsóknarflokksins gangi upp.  Er það ekki einmitt aðgerðir Jóhönnu og Stoltenberg leiðtoga norsku Samfylkingarinnar og forsætisráðherra sem fólk ætti að hneykslast á.

Mér finnst það ekki hafa verið í lagi hjá Jóhönnu að bregðast við með þeim hætti sem hún gerði. Hún þurfti þess ekki nema í þeim eina tilgangi að reyna að skemma fyrir. Eða gat tilgangurinn verið annar?


Vinstri grænir og leikhús fáránleikans

Fyrir rúmri viku sagði Ögmundur Jónasson þáverandi heilbrigðisráðherra af sér. Í framhaldi af því var haldinn kvöld og næturfundur í þingflokki Vinstri grænna. Að fundinum loknum féllust þingmenn Vinstri grænna í faðma og lýstu yfir órofa stuðningi við formann sinn Steingrím J. Sigfússon, ríkisstjórnina og hvert annað. Steingrími J var gefið umboð þingflokksins til að klára Icesave málið.

Nokkru síðar þurfti Steingrímur J að bregða sér af bæ. Meðan Steingrímur talaði við forustumenn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og fulltrúa Breta o.fl. jukust viðsjár með Vinstri grænum innbyrðis og við samstarfsflokkinn. Formaður þingflokks Vinstri grænna  lýsti megnri óánægju með brotthvarf   Ögmundar úr ríkisstjórn. Því var fylgt eftir með yfirlýsingum Ögmundar og opnuviðtali í Morgunblaðinu. 

Svo kom foringinn heim og annar kvöld og næturfundur var haldinn í þingflokki Vinstri grænna. Aftur féllust þingmenn Vinstri grænna í faðma og lýstu yfir stuðningi við ríkisstjórnina en nú var ekki lýst yfir sérstöku umboði Steingrími J til handa um að klára Icesave. Formaður þingflokks Vinstri grænna kom síðan í morgunútvarpið og fylgdi þeirri gullvægu leiðbeiningu Biblíunnar þar sem segir: Svar þitt skal vera já já og nei nei og ekkert umfram það.

Vinstri græn virðast ekki átta sig á því að þeirra er fyrst og fremst ábyrgðin á Icesave samningunum. Foringi þeirra skipaði vanhæfa forustumenn samninganefndarinnar um Icesave sem komu heim með ómögulegan samning sem Steingrímur J lýsti stuðningi við og undirritaði. Það eru afleiðingar þessara gjörða Steingríms J. sem Vinstri græn bera alla ábyrgð á. Kostir þeirra eru því í raun tveir. Að samþykkja gjörðir foringja síns eða lýsa vantrausti á hann.

Raunar verður orðræða ýmissa þingmanna Vinstri grænna ekki skilin með öðrum hætti en þar sé verið að lýsa vantrausti á gerðum Steingríms J. Sigfússonar í Icesave málinu.


Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.12.): 39
  • Sl. sólarhring: 439
  • Sl. viku: 4255
  • Frá upphafi: 2449953

Annað

  • Innlit í dag: 37
  • Innlit sl. viku: 3966
  • Gestir í dag: 37
  • IP-tölur í dag: 37

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband