Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2009

Leiðin til stjórnleysis.

Daglega berast fréttir af einstaklingum sem missa stjórn á skapi sínu og telja sér heimilt að ráðast til atlögu við dauða hluti eða lifandi fólk. Allt of oft verða ýmsir til að afsaka slíkt og benda á að bankahrunið valdi ójafnvægi hjá mörgum. Vel kann það að vera.  Samt sem áður þá er engin afsökun fyrir því að valda eignaspjöllum eða ráðast á fólk sem er að sinna störfum sínum.

Flestum er verulega brugðið við að lesa um  hvernig margir í viðskipta- og fjármálalífi landsins störfuðu fyrir hrun.  Mörgum gremst hvað seint gengur að koma lögum yfir þá sem virðast hafa gerst sekir um mjög alvarleg brot og valdið þjóðinni hundraða milljarða skaða.  Allt venjulegt fólk kallar eftir því að þessi mál verði gerð upp og verulegur kraftur settur í rannsókn og saksókn þessara mála. En þó að seint gangi þá gefur það engum rétt til að taka lögin í sínar hendur.

Saving Iceland hópurinn er sérstakt fyrirbrigði stjórnleysingja sem hafa talið sér heimilt að eyðileggja eignir fyrirtækja og ráðast gegn þeim sem eru að sinna löggæslustörfum. Það er ekki hægt að líða slíka framkomu. Réttarríkið byggir á því að fólk mótmæli með friðsamlegum. Slík mótmæli eru liður í lýðræðislegum afskiptum fólks. Þegar farið er yfir þau mörk þá er réttarríkinu ógnað.

Það er alvarlegt hvað stjórnvöld hafa lítinn skilning á nauðsyn þess að efla lögregluna. Það er ljóst að lögreglan þarf að takast á við mun fleiri og alvarlegri verkefni en áður. M.a. vegna þjóðfélagsástandsins, aukinnar fíkniefnaneyslu, vaxandi andfélagslegra viðhorfa og útlendra glæpahópa. 

Á sama tíma og draga á saman í lögreglunni og borið við fjárskorti á að setja 500 milljónir í stjórnlagaþing. Er það eðlileg forgangsröðun?  Mér finnst það ekki.

Krafan hlítur því að vera sú að efla lögregluna í stað þess að veikja hana. 

Mikilvægasta hlutverk réttarríkisins er að halda uppi lögum og innanlandsfriði. Það verður gert m.a. með öflugri löggæslu og hörðum refsingum yfir þeim sem hindra störf lögreglunnar eða ráðast á lögregluþjóna í starfi. 

Mér finnst alvarlegt að ríkisstjórnin skuli ekki hafa skilning á þörf traustrar löggæslu í landinu.


mbl.is Sparkað í höfuð lögreglumanns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skilanefndir í Danmörku og á Íslandi.

Það er athyglivert að skilanefnd Hróaskeldubanka hafi tilkynnt að hún muni ákæra fyrrum forstjóra bankans og krefjast skaðabóta. Ég geri ráð fyrir að forstjóri Hróarskeldubanka hafi verið í svipuðu hlutverki og bankastjórar hér.

Ég hef ekki kannað að hvaða leyti eða hvort starfssvið skilanefndar Hróarskeldubankans séu með öðrum hætti en starfssvið skilanefndanna hér, en sé svo ekki þá má spyrja hvort að skilanefndirnar hafi unnið með eðlilegum hætti að því að koma hugsanlegum afbrotamálum stjórnenda og endurskoðenda á framfæri eftir atvikum við Sérstakan saksóknara eða Fjármálaeftirlit.

Alla vega gengur hægt að rannsaka hugsanleg brot vegna bankahrunsins hér og stjórnvöld verða að gera sér grein fyrir því að almenningur í landinu áttar sig ekki á því af hverju ekki er meiri þungi í þeim málum.

Það er slæmt að helstu upplýsingarnar vegna bankahrunsins skuli koma frá uppljóstrurum sem leka upplýsingum í trássi við lög og geta átt á hættu að fá á sig ákæru fyrir.

Það verður að láta hendur standa fram úr ermum. Bæði vegna þess að það er vont að sekir menn gangi lausir án þess að það sé hróflað við þeim, en  það er líka slæmt að menn megi þola ávirðingar og níð samborgara sinna mánuðum og jafnvel árum saman þó þeir hafi ekkert til saka unnið.


mbl.is Stjórnendur bankans ákærðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tveggja mánaða afmæli Icesave samningsins.

Í dag eru liðnir tveir mánuðir frá því að ríkisstjórnin samþykkti Icesave samninginn.

Það er raunar merkilegt að segja að ríkisstjórnin hafi samþykkt samninginn miðað við það sem sumir ráðherrar einkum Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra hafa síðar sagt um þann hinn sama Icesave samning og ríkisstjórnin þar á meðal hann samþykktu þann 5. júní 2009.

Forsætisráðherra segist þá væntanlega af þessu gefna tilefni að grein sem Eva Joly ráðgjafi sérstaks saksóknara vegna efnahagshrunsins og þingmanns á Evrópuþinginu, að hún hafi í öllum aðalatriðum rétt fyrir sér. Það er raunar sérkennilegt að forsætisráðherra skuli í öllum aðalatriðum vera sammála því sem kom fram í blaðagrein Evu Joly einkum vegna þess að Icesave samningurinn sem hún hefur samþykkt gengur þvert á þau meginsjónarmið sem koma fram í grein Evu.

Aðspurð um hvort hún ætli að bregðast við að einhverju leyti vegna þeirra sjónarmiða sem Eva Joly setti fram og forsætisráðherra tekur undir að öllu leyti þá segir forsætisráðherra að hún ætli ekki að gera það á þessu stigi þar sem málið sé í höndum þingsins en segist munu e.t.v. gera það á síðari stigum. 

Mér er lífsins ómögulegt að skilja hvaða stjórnkænsku Jóhanna Sigurðardóttir er að boða með þessum ummælum. Á fyrst að samþykkja ríkisábyrgð fyrir Icesave samningnum á Alþingi og fara síðan í samningaviðræður um að Icesave samningurinn gildi ekki?  Eða á fyrst að fella ríkisábyrgðina á Alþingi og fara þá fram á viðræður við hina samningsaðilana?

Vandinn er þó einfaldlega í hnotskurn sá að ríkisstjórnin hefur ekki starfhæfan meirihluta þingmanna á Alþingi á bak við sig.

Það þarf ekki að velkjast fyrir neinum að ástand þjóðmála er þannig að brýn þörf er á sterkri starfhæfri ríkisstjórn sem veit hvað hún vill  og hefur möguleika á að koma mikilvægustu málum sínum fram á þingi.  Þess vegna gengur þessi ríkisstjórn ekki lengur. 

Stjórnarsamstarf með Vinstri grænum er viðvarandi stjórnarkreppa vegna upplausnar í þingflokki VG.


mbl.is Segir Ísland geta staðið við skuldbindingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 308
  • Sl. sólarhring: 1061
  • Sl. viku: 6052
  • Frá upphafi: 2277803

Annað

  • Innlit í dag: 293
  • Innlit sl. viku: 5599
  • Gestir í dag: 291
  • IP-tölur í dag: 284

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband