Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2010

Gylfi Magnússon verður að segja af sér

Gylfi Magnússon sagði Alþingi ekki satt um varðandi gengislánin þegar hann svaraði fyrirspurn varðandi þau á s.l. vetri.  Skýringar Gylfa eru ótrúverðugar.

Allir vita að svör við fyrirspurnum til ráðherra eru útbúin af starfsfólki viðkomandi ráðuneytis. Útilokað er að lögfræðingar ráðuneytisins hafi ekki komið að málinu. 

Þó svo væri að ráðherra hefði svaraði án þess að fá aðstoð úr ráðuneytinu þá bar lögmönnum ráðuneytisins að gera ráðherra aðvart um að hann færi með rangt mál þannig að hann gæti leiðrétt þetta á Alþingi.

Jafnvel þó Gylfi sé látinn njóta vafans þá er útilokað annað en hann hafi komist að lögfræðiáliti því sem Seðlabankinn hafði fengið um málið og afstöðu yfirlögfræðings Seðlabanka Íslands fljótlega eftir að hann svaraði fyrirspurninni á Alþingi. Honum bar þá þegar að gera Alþingi grein fyrir málinu.

Miðað við svör Gylfa í gær þá verður ekki annað séð en yfirlögfræðingur ráðuneytisins og hann sjálfur hafi gjörsamlega brugðist í þessu máli og Gylfi kemst ekki hjá því að axla ábyrgð á því og segja af sér sem ráðherra.

Það er svo annað mál að mér finnst ólíklegt að sá yfirlögfræðingur sem var í viðskiptaráðuneytinu á þessum tíma hafi ekki gert ráðherra fullnægjandi grein fyrir málinu. Hvað sem því líður þá getur niðurstaðan aldrei orðið önnur en að Gylfi Magnússon axli nú einu sinni ábyrgð með sama hætti og hann hefur áður krafist af öðrum.


Sigurbjörg stjórnsýslufræðingur kveður sér hljóðs

Sigurbjörg Sigurgeirsdóttur stjórnsýslufræðingur sem gat sér einstakt orð þegar hún brigslaði ranglega ónefndum ráðherra á óróleikafundi í Háskólabíói um að vilja meina henni um málfrelsi. Eftir þetta var hljótt um Sigurbjörgu þangað til Samfylkingin réði hana án eðlilegs ráðningarferlis til starfa í Háskóla Íslands.

Skömmu síðar var hún ítrekað kölluð til sem sérfræðingur af Samfylkingarfólki á fréttastofu RÚV,  til að gefa álit á málum sem hún hafði enga sérfræðiþekkingu á.  Eftir eitt slíkt rugl varð aftur hljótt um Sigurbjörgu stjórnsýslufræðing.

Nú sér Sigurbjörg stjórnsýslufræðingur ástæðu til að láta að sér kveða enn á ný. Henni er nóg boðið þegar Jón Ásbergsson er ráðinn forstjóri Íslandsstofu, þrátt fyrir að hann hafi yfirburða þekkingu og reynslu. Sigurbjörg stjórnsýslufræðingur segir að þessi ráðning beri ekki vott um góða stjórnsýsluhætti, en megi rekja til þröngrar lagahyggju.

Óneitanlega er athyglivert að Sigurbjörg stjórnsýslufræðingur skuli  gagnrýna mannaráðningar þegar þær eru á faglegum grunni.  Þá vekur athygli að Sigurbjörg stjórnsýslufræðingur sagði ekkert um  ráðningu félagsmálaráðherra í embætti umboðsmanns skuldara á dögunum.  Henni fannst heldur ekkert við ráðningu hennar sjálfrar til starfa í Háskóla Íslands að athuga.

Ef til vill finnst Sigubjörgu stjórnsýslufræðingi aðeins við þær stöðuveitingar að athuga þegar flokksskírteini í Samfylkingunni eru ekki virt ofar öðrum verðleikum umsækjenda.  Þá er það athyglivert að stjórnsýslufræðingurinn skuli viðhafa ummæli sem benda til þess að hún telji að ekki beri að fara að lögum við mannaráðningar  heldur önnur og óskilgreind atriði.

Skyldi þetta vera kennt í stjórnsýslufræði í Háskóla Íslands?


Og ríkisstjórnin situr um sinn

Ríkisstjórnin notar ítrekað peninga skattborgaranna til að tryggja sér stuðning á Alþingi.  Nokkrir þingmenn Vinstri grænna sögðust ekki styðja stjórnina lengur nema hún eyddi tugum milljarða í að ógilda samninga milli tveggja lögaðila sem koma ríkisstjórninni ekkert við og heyra ekki sérstaklega undir boðvald hennar.  Til að kaupa stuðning þessara þingmanna var ákveðið að skipa nefnd á kostnað skattgreiðenda. 

Friðunarnefndin var skipuð í gær. Kostnaður við nefndarstarfið greiðist úr ríkissjóði. Væntanlega hefur þá allt fallið í ljúfa löð á kærleiksheimili hinnar hreinu Vinstri stjórnar.  Hins vegar liggur ekki fyrir hvað á að gera við nefndarálitið.

Óneitanlega er það áleitin spurning hvað kaup Steingríms og Jóhönnu á fylgi einstakra þingmanna við ríkisstjórnina hafa kostað skattgreiðendur. Þá hljóta að vakna áleitnar spurningar um heimildir ríkisstjórnar til að kaupa sér meirihlutastuðning á Alþingi á kostnað skattgreiðenda. Siðfræði kaupa á sannfæringu þingmanna til stuðnings við ríkisstjórn er síðan mál sem e.t.v. þarf að skipa nefnd til að kryfja.

Hafi ríkisstjórnin talið að vafi léki á lögmæti kaupa Magma á hlutum í HS Orku hefði verið eðlilegt að hún aflaði sér lögfræðilegs álits um það atriði. En það er ekki viðfangsefnið heldur að friða órólegu deildina í Vinstri grænum. Skyldu nefndarmenn í friðunarnefndinni gera sér grein fyrir þessu?

Hvað á svo að gera við nefndarálitið?


Uppreisn Alþingis?

Fréttamaður Bloomberg fréttastofunnar á Íslandi sá ástæðu til þess að birta "ekki frétt" á fréttavefnum í gær sem er til þess fallin að skaða hagsmuni Íslands. Til þess fær hann sérstaka aðstoð Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur þingflokksformanns Vinstri grænna.

Í  fréttinni er sagt að Alþingi geri uppreisn gegn aðstoð við banka og haft er eftir Guðfríði Lilju að allt of miklum peningum hafi verið pumpað inn í fjármálakerfið nú þegar. Þá er sagt að 34 þingmenn muni greiða atkvæði gegn tillögu ríkisstjórnarinnar um að bjarga lánastofnunum. Inn í fréttina er síðan sett sú greining Moody´s um að lánshæfi Íslands yrði hugsanlega fært niður í ruslflokk.

Niðurstaða fréttarinnar er síðan sú með tilvísun í ummæli forstjóra FME að Ísland gæti verið á leið inn í aðra fjármálakreppu meðan Alþingi sé í fríi til 1. september. Þá segir að áhættan af öðru bankahruni ógni tilraunum Íslands til að byggja upp á nýjan leik samband við fjárfesta.

Þeir sem trúa þessari frétt geta ekki annað en ályktað sem svo að Ísland sé á leið í enn verri fjármálakreppu en nokkru sinni fyrr en Alþingi taki þessum alvarlegu málum svo létt að þar á bæ séu menn bara í góðu fríi og meiri hluti þingsins sé fyrirfram búinn að taka óábyga fyrirfram afstöðu til tillögu ríkisstjórnarinnar sem þó liggur ekki fyrir.

Því miður sér Guðfríður Lilja ástæðu til að bullukollast við fréttamanninn Ómar Valdimarsson, en sá bullukollugangur gefur rangri frétt ákveðinn trúverðugleika fyrir þá sem ekki þekkja til.

En hvernig á að bregðast við?

Í fyrsta lagi hljóta forsætis-fjármála- og viðskiptaráðherra að gefa út yfirlýsingar um íslenska fjármálamarkaðinn af gefnu tilefni sem og Seðlabankastjóri og forstjóri FME.

Síðan væri það mikill mannsbragur af þeim Bjarna Benediktssyni formanni Sjálfstæðisflokksins og Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni formanni Framsóknarflokksins að gefa út yfirlýsingar vegna fréttarinnar um að gætt verði íslenskra hagsmuna í hvívetna þar með talið hagsmuna íslenska fjármálakerfisins og því fari fjarri að Alþingi Íslands sé í uppreisn gegn ómótuðum hugmyndum ríkisstjórnar um hugsanlega aðstoð við lánastofnanir ef svo færi að ef til vill kæmi til þess að Alþingi þyrfti að fjalla um málið.

Staðreynd málsins er nefnilega sú að fréttin fjallar um uppreisn Alþingis gegn tillögu sem ekki er til vegna atburða sem ekki hafa orðið.  

Þrátt fyrir það að þessi vonda ekki frétt sé jafn fáránleg og hún er í raunveruleikanum þá verður að bregðast við henni vegna þess vantrausts sem er ríkjandi í þjóðfélaginu á fjármálastofnunum og Alþingi.  


« Fyrri síða

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 647
  • Sl. sólarhring: 1367
  • Sl. viku: 6292
  • Frá upphafi: 2276930

Annað

  • Innlit í dag: 611
  • Innlit sl. viku: 5849
  • Gestir í dag: 593
  • IP-tölur í dag: 582

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband