Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2011

Við erum epli sögðu hrútaberin

Enn eru erlendir fjölmiðlamenn sem leggja við hlustir þega forseti lýðveldisins segir þeim frá því sem er að gerast á hinu fjarlæga Íslandi. Virðingar þjóðarinnar vegna vonar maður oft að fjölmiðlamennirnir kanni ekki frekar upplýsingar forsetans eins og þær sem hafðar eru eftir honum í dag.

Í frétt á BBC í dag er haft eftir forsetanum að Íslendingar dæli ekki fé í fjármálastofnanir heldur láti þær fara á hausinn. Þetta er ekki allskostar rétt. Fram til þess tíma að Steingrímur J. Sigfússon tók við völdum með Jóhönnu var ekki dælt fé í fjármálastofnanir en Steingrímur hefur verið iðinn við það síðan.

Þá segir forsetinn að hagkerfið á Íslandi vaxi nú hraðar en í flestum öðrum Evrópulöndum. Miðað við opinberar hagtölur þá stenst þessi fullyrðing því miður ekki en óskandi að svo væri. Þetta er því miður rangt.

Forsetinn segir að halli hins opinbera sé minni en í öðrum Evrópulöndum.  Þetta kemur í kjölfar fréttar um að ríkissjóðshallinn á Íslandi sé með því mesta sem þekkist í Evrópu.

Lykillinn að endurreisninni sé þó ekki aðeins sá að koma skikki á bankakerfið heldur einnig að taka vilja þjóðarinnar fram yfir fjármálastofnanir er einnig haft eftir forseta Íslands.  Skyldi það vera þannig. Er það þjóðin sem vill halda áfram að stynja undir oki verðtryggingar og verstu lánakjörum sem þekkjast í okkar heimshluta. Varla er það að taka vilja þjóðarinnar fram yfir fjármálastofnanir?

Loks er haft eftir forsetanum að krónan sé lykilatriði í efnahagsbata Íslands.  Skyldi þessi staðhæfing vera rétt? Hefur ekki gengisfall krónunar valdið því að laun á Íslandi eru með því lægsta sem þekkist í Evrópu. Hefur íslenska krónan ekki valdið því að skuldir heimilanna á Íslandi eru þær mestu í heimi. Hefur ekki íslenska krónan valdið því að verð á fasteignum í Evrum eða Dollurum talið hefur hrunið um rúmlega 60%.  Hvað er eiginlega svona gott við krónuna?

Óneitanlega minnti þessi frásögn af fullyrðingum forsetans við fréttamann BBC um ástandið á Íslandi mig á  orðtakið: Við erum epli sögðu hrútaberin.


Mínútuþögn á morgun vegna atburðanna í Noregi

Norðmenn og Svíar ætla að hafa mínútuþögn á morgun kl. 12 að staðartíma þar.  Ef ég fer ekki villur vegar þá þýðir það kl. 10 hjá okkur. 

Mér finnst að við eigum að taka höndum saman með þessum frændþjóðum okkar og hafa mínútuþögn á sama tíma til að minnast fórnarlambanna og samhryggjast með vinum og ættingjum hinna myrtu og Norðmönnum öllum.

Árás vitfirrta hryðjuverkamannsins á samlanda sína í Osló og unga fólkið í Útey var um leið árás á lýðræðið og stofnanir þess.

Við skulum því hafa mínútu þögn á morgun kl. 10. 

Ég skora á  yfirvöld að taka þetta upp opinberlega og skora á fólk að hafa þagnar og minningarstund á sama tíma og frændur okkar í Noregi og Svíþjóð.  


Hræðilegt ódæði

Fréttirnar af hryðjuverkinu í Noregi eru hræðilegar og enn finnast mér þær ótrúlegar.

Hvernig gat þetta gerst í friðsælasta ríki heims, þar sem velmegun er meiri en annarsstaðar í heiminum, þar sem hernaður og hernarðarhugsunu er fjarlægari en í flestum öðrum ríkjum. Fyrirfram hefði margir fullyrt að svona nokkuð gerðist aldrei á Norðurlöndum. En það gerðist samt.

Hvað veldur því að einstaklingur láti sér detta í hug og framkvæmi svona hryðjuverk?  Við þurfum að hugleiða það og velta fyrir okkur leiðum til að draga úr hættunni á því að svona sturlun geti aftur leitt til hryðjuverks eins og þess sem unnin voru í Noregi í gær.

Flestum er vafalaust eins farið og mér að fyllast óhug yfir fréttunum af fjöldamorðunum í Noregi og standa með frændum okkar í sorginni og hluttekningunni með þeim sem misstu börn sín, ættingja eða vini. 

Við verðum að standa saman um að gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma í veg fyrir að svona harmleikur geti átt sér stað.


Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.1.): 26
  • Sl. sólarhring: 819
  • Sl. viku: 5762
  • Frá upphafi: 2472432

Annað

  • Innlit í dag: 22
  • Innlit sl. viku: 5250
  • Gestir í dag: 21
  • IP-tölur í dag: 21

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband