Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2013

Gáfumannafélagið fellur á enn einu prófi

Gáfumannafélagið undir forustu Egils Helgasonar pistlahöfundar á Eyjunni finnur nú Brynjari Níelssyni alþingismanni allt til foráttu. Brynjar er kallaður nettröll, heimskur og jafnvel geðveikur.

Ástæða þessara skrifa Egils og aðdáenda er sú að Brynjar skrifaði málefnalega grein fyrir nokkrum dögum um starfsemi embættis Sérstaks saksóknara. Í grein Brynjars kom fram m.a. hvað ákært hefði verið í fáum málum sem vörðuðu gjaldþrot stóru viðskiptabankanna 2008 og ekkert málanna varðaði í raun það að banki eða bankar fóru í þrot.  Þá benti Brynjar á hvað gríðarlegur fjöldi mála hefði verið felldur niður af Sérstökum saksóknara, sem er að hluta til vegna þess að Gunnar Andersen þáverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins skóflaði til hans lítt eða óunnum og ónýtum málum undir húrra- og fagnaðarhrópum Egils Helgasonar og Þorvaldar Gylfasonar prófessors.

Allt eru þetta staðreyndir sem Brynjar fjallar um og ekkert af þessum atriðum varðar andlega hæfi hans. Umfjöllun Brynjars er innlegg í málefnalega umræðu um staðreyndir.

Þessir forustumenn hins eina sannleika bankahrunsins, þeir Egill Helgason og Þorvaldur Gylfason sporgöngumenn Evu Joly virðist í mun að girða fyrir málefnalega og vitsmunalega umræðu um staðreyndir málsins. Sjálfsagt vegna þess að við skoðun kemur í ljós að það stendur ekki steinn yfir steini af fullyrðingum þeirra eða Evu Joly varðandi gjaldþrot bankanna í kjölfar gjaldþrots þeirra.

Umræða eins og sú sem Egill Helgason stendur fyrir sem miðar fyrst og fremst að því að vega að einstaklingi og hæfileikum hans í stað þess að fjalla málefnalega um efnisatriði er í samræmi við þá greindarlegu hugsun hans og Þorvaldar Gylfasonar að bankarhrunið sé stjórnarskránni að kenna.


Er tími til kominn?

Vilhjálmur Birgisson verkalýðsleiðtogi á Akranesi segir að það vanti 700 milljarða í lífeyriskerfið þrátt fyrir skerðingar.   Hvað er til ráða. Hækka lífeyrisaldur upp í 70 ár e.t.v. 75 ár. Hækka iðgjöld upp í 19%. Breyta um kerfi.

Hvað með að láta það vera hlutverk ríkisins að annast um heilbrigðismál og vistun aldraðra sem og annarra. Hvað fólk sparar að öðru leyti ætti að vera mál þess sjálfs. Tónleikar, leikhúsferðir, utanlandsferðir eða annað í ellinni á að lúta sömu lögmálum og annarra borgara. Það þarf ekki þvingaðan sparnað í lífeyrissjóði til þess.

Hvernig ætlum við að komast í gegn um erfiðleika sem blasa við eins og svokallaða snjóhengju upp á rúma 500 milljarða. Lífeyrissjóðsvanda upp á rúma 700 milljarða. Einna skuldugustu fyrirtæki og fjölskyldur í Evrópu. Launakjör sem duga vart til framfærslu hjá stórum hluta launþega.

Það er kominn tími til að hugsa þetta upp á nýtt. Hvað með að láta markaðslausnir ráða í stað þess að hneppa borgarana í stöðugt meiri sósíalíska ánauð ofurskatta og ofurgjalda til lífeyrissjóða. Svo ekki sé minnst á lánskjör sem miðast við hagsmuni lífeyrissjóða en hvorki eðlilega vaxtatöku á markaði né almenn sjónarmið varðandi lánakjör.

Er ekki tími til kominn að velja leið frelsisisins en hafna ánauðinni?


Reykingarfasisminn

Ég er á móti tóbaksreykingum og mér finnst sígarettureykur óþægilegur og vil vera laus við hann. Reykingafólk á samt sinn rétt og verður að fá að stunda nautnalíf sitt með þeim hætti að það skaði ekki aðra en sig sjálft.

Tóbaksreykingar eru hættulegasta fíkniefnið hvort sem er ólöglegt eða löglegt af því að þær drepa flesta. Þrátt fyrir það telur löggjafinn rétt að leyfa þetta fíkniefni en banna önnur sem valda minna tjóni.

Fyrst notkun þessa fíkniefnis tóbaks er leyft þá er ekkert sem réttlætir að yfirvöld banni ákveðnar tegundir tóbaksreykinga eins og sígarettur með mentolfílter meðan fílterlausar lútsterkar Camel sígarettur eru látnar óáreittar. Það ekkert óáþekkt að banna bjór og leyfa brennivín.

Tilraunir alræðissinnaðs rétthyggjufólks til að setja sem víðtækustu takmarkanir á réttindi reykingafólks til að stunda þessa viðbjóðslegu nautn sína minna á hugmyndafræði alræðisríkis fasista á Ítalíu í tíð Mussolinis þegar ákveðna hluti skyldi framkvæma með þeim hætti sem voru að skapi Il Duce (leiðtoganum)

Fyrst við viljum banna að selja annað en vondar sígarettur af hverju færum við þetta ekki á aðrar skaðlegar nautnir eins og t.d. sykurneyslu sem drepur líka marga. Hvað segðu súkkulaði og sælgætisneytendur við því að hvorugt væri sjáanlegt í búðum og það þyrfti að biðja um það sérstaklega og þá yrðu lokaðir kassar opnaðir. Þá er spurning um hvort banna eigi sérstaklega sælgæti sem börn eru líkleg til að ánetjast eins og t.d. kókómjólk og Coco Puffs.

Svo má banna transfitu og krefjast þess að 29 vikur á ári borði fólk samkvæmt matseðli frá Lýðheilsustofnun.

Svo er líka til sú leið að gera fólk ábyrgt gerða sinna, uppfræða það og leyfa því síðan að lifa lífinu án afskipta Ríkisins af neysluvenjum borgaranna.


Á forsetinn frjálst val?

Mikið eigum við gott að hafa ungað út fjölda fræðimanna sem fjölmiðlamenn tala við um málefni sem þeir fræðimenn hafa enga sérfræðiþekkingu á.

Eitt af þessum málum sem stjórnmála- og stjórnsýslufræðingarnir virðast sammála um er að forsetinn eigi frjálst val um það hvort hann samþykkir eða synjar lagafrumvarpi staðfestingar.

Með sama hætti gætu stjórnsýslu- og stjórnmálafræðingar komist að þeirri niðurstöðu að embættismenn ættu frjálst val um afgreiðslu mála að geðþótta, ef eitthvað væri óljóst eða tæki ekki af öll tvímæli í reglugerð eða lögum. Embættismennirnir verða að fylgja þeim reglum sem stjórnsýslan hefur mótað og geta ekki afgreitt sambærilega hluti með jái í dag en neii á morgun. Sömu reglur gilda um æðsta embættismann þjóðarinnar, forsetann.

Forsetinn verður að vera sjálfum sér samkvæmur og virða  meginreglur. Forsetinn hefur ekki almennan málsskotsrétt til þjóðarinnar og fram til þess tíma að Ólafur Ragnar hafnaði að staðfesta fjölmiðlalögin hafði engin forseti eða hann sjálfur synjað lögum staðfestingar. Synjun forseta á staðfestingu fjölmiðlalaganna var óheppileg pólitísk geðþóttaákvörðun og andstæð gildandi stjórnsýsluhefð. Forsetinn var þá undir miklum þrýstingi frá helsta auðhring landsins og fjölmiðlaveldi sem hafði stutt hann.

Synjun Ólafs Ragnars á Icesave samningunum var annars eðlis þar var ekki tekist á um flokkspólitískt deilumál í raun heldur rétt fólksins gagnvart frekju og yfirgangi Breta og Hollendinga. Ólafur Ragnar gaf bestu skýringuna á réttmæti þess að vísa þeim samningum ítrekað til þjóðarinnar með þeim ummælum sem hann viðhafði um Gordon Brown fyrrverandi forsætisráðherra Breta á alþjóðavettvangi í vor.

Ólafur Ragnar á þess ekki kost að synja lögum um breytingar á veiðigjaldi staðfestingar. Geri hann það er hann orðinn virkur þáttakandi í daglegum stjórnmálum og synjunin er andstæð eðlilegri lögskýringu á 26.gr. stjórnarskrárinnar. Miðað er við í 26.gr. stjórnarskrárinnar að forsetinn fylgi eigin sannfæringu en ekki áskorunum á undirskriftarlistum. Forsetinn verður að taka af öll tvímæli hvað það varðar í dag.


Áskorun á menntamálaráðherra

Sú ákvörðun stjórnenda Verslunarskóla Íslands, að stytta stúdentsnám um eitt ár er áskorun á menntamálaráðherra að láta hendur standa fram úr ermum varðandi þau sjónarmið sem hann hefur sett fram sem stefnumörkun í þeim málum.

Það er fráleitt að íslenskt námsfólk skuli útskrifast stúdentar tveim árum síðar en ungt fólk á hinum Norðurlöndunum, Bretlandi og Þýskalandi svo dæmi séu tekin. Íslenskt námsfólk er ekki verr gefið eða seinþroskaðra en ungt fólk í nágrannalöndunum þannig að það er kerfisvilla sem veldur þessu.

Þegar búið verður að koma á þeirri nauðsynlegu kerfisbreytingu að fólk verði almennt stúdentar 18 ára að aldri þá sparar það gríðarlega fjármuni bæði fyrir einstaklinga og ríkið. Það má líka rökfæra það að brotthvarf frá námi muni þá minnka verulega. Fólk væri þá að koma út í atvinnulífið með háskólapróf 23-24 ára.

Takist menntamálaráðherra að koma þessum breytingum í kring að stytta stúdentsnámið um tvö ár þá hefur hann unnið þrekvirki og full ástæða að skora á hann að láta hendur standa fram úr ermum hvað þetta varðar.


Fjölmiðlar, arabíska vorið eða hvað?

Arabíska vorið var það kallað þegar forseta Túnis var steypt af stóli eftir að óeirðir urðu í landinu eftir að Mohammed Bouazizi kveikti í sér og brann á fjölförnu markaðstorgi fyrir tveim árum. Í framhaldinu urðu mótmæli í Cairó og Moubarck Egyptalandsforseta var steypt af stóli. Þá var röðin komin að Ghaddafi einræðisherra í Líbýu og hann var drepinn með aðstoð Breta og Frakka.

Vestrænir fjölmiðlar fóru hamförum og dásömuðu frelsisþránna sem birtist í mótmælunum en könnuðu aldrei hvað var á ferðinni og skrifðu fréttir sem gáfu iðulega alranga mynd af því sem var að gerast. Fjölmiðlafólki liggur svo mikið á að segja frá atburðum að þeir mislesa iðulega það sem er að gerast, kynna sér ekki sögu eða menningu og gefa því iðulega alranga mynd af þeim atburðum sem eiga sér stað.

Nú spyrja margir hvort við séum þessa daganna að horfa á Arabíska vorið spilað aftur á bak eftir að Egypski herinn hefur aftur tekið völdinn ógilt stjórnarskrána og vikið forsetanum úr embætti. En um hvað snérist og snýst þetta allt þarna í Norður Afríku?

Maðurinn sem brenndi sig í Túnis var ekki að kalla eftir lýðræði heldur frjálsri markaðsstarfsemi öðru nafni kapítalisma. Hann var að mótmæla aðferðum lögreglunnar sem hafði gert notuðu raftækin sem hann seldi og innkomu upptæka. Sagt er að það hafi tekið undir stjórn Moubarak um 500 daga að fá leyfi fyrir smásöluverslun og það þurfti að eiga við 29 stjórnarstofnanir. Lítið lagaðist skrifræðið í stjórnartíð Morsis.

Hernando de Soto hagfræðingur frá Perú rannsakaði ástæður ókyrrðarinnar í Norður Afríku og komst að þeirri niðurstöðu að mótmælin væru til að ná fram grundvallarmannréttindum eins og starfs- og eignarréttindum. Hann sagði í skýrslu til Bandaríkjaþings að fólk á Vesturlöndum hefði misskilið það sem væri að gerast þarna og krafan væri fyrst og fremst um vernd grundvallarmannréttinda eins og starfs- og eignarréttar. Með því að sinna þessum kröfum og gera það að skilyrði aðstoðar að þessi grunnmannréttindi væru virt þá gætu Vesturlönd eignast milljónir nýrra vina í þessum ríkjum.

Vandamálin í þessum löndum eru mikil og um helmingur íbúanna eru 25 ára og yngri.  Spurningin er hvort þessi ríki þurfi ekki einmitt á sama meðali að halda og Alþýðulýðveldið Kína á sínum tíma. Aukna markaðshyggju og meiri virðingu fyrir atvinnu- og séreignarrétti.


Einstaklingsfrelsi-Ofurríki og Snowden

Frelsi felst ekki eingöngu í almennum kosningarétti. Frelsi felst einnig í því að borgarinn sé látinn í friði og fái að haga lífi sínu og starfi innan ramma laganna án stöðugs eftirlits og afskipta ríkisins.

Öll viljum við hafa einkamál okkar fyrir okkur sjálf og finnst ógeðfellt að opinberir aðilar fylgist með símtölum okkar, tölvupóstum, sms, vörukaupum og fleiru. Persónuvernd og einstaklingsfrelsi er grundvallaratriði í frjálsu þjóðfélagi.

Í bók sinni 1984 fjallar George Orwell um ofurríkið þar sem fylgst er með hverju fótmáli einstaklinga. Margir töldu áður að Sovétríkin væru að verða ríkið sem fjallað var um í bók Orwell. Nú virðist sem helsta forusturíki hins frjálsa heims Bandaríkin feti sig dyggilega í átt að því að verða slíkt ofurríki.

Uppljóstranir Edward Snowden um njósnir ríkisstjórnar Bandaríkjanna um einstaklinga, stofnanir og fyrirtæki ætti að vera umhugsunarefni fyrir frjálslynt og hægri sinnað fólk. Snowden eyddi 30 ára afmælisdegi sínum á flótta frá landi "hinna frjálsu" virðist vera einstaklingshyggjumaður sem er á móti ofurríkinu. Einstaklingur sem er ásamt svo fjölmörgum öðrum er á móti því að búa við að það samtöl þeirra séu hleruð og hljóðrituð. Einstaklingur sem er í hópi fjölmargra sem hefur ákveðna þjóðfélagsvitund einstaklingsfrelsi án þess endilega að skilgreina sig sérstaklega pólitískt.

Edward Snowden studdi frjálslynda einstaklingshyggjumanninn Ron Paul í forkosningum Repúblikana til forseta í fyrra. Ron Paul vill draga úr völdum og áhrifum ríkisins og beitingu Bandaríkjahers. 

Þrátt fyrir ofurvald Bandaríkjanna og kröfu um framsal Snowden þá verða hvorki hann né hans líkar stöðvaðir. Hann er í hópi fjölmargra sem gera það sem þeir telja að samviska þeirra bjóði þeim að sé rétt.  Snowden segir: "Sannleikurinn mun koma fram og það er ekki hægt að stöðva hann. 

Einstaklingshyggjumenn mættu og ættu að skoða hvort hugsun og sjónarmið sem Snowden stendur fyrir séu ekki nær hugmyndafræði einstaklingshyggju og frjálshyggju en hugmyndafræði vinstra fólks.

Miðað við þær forsendur er öfugsnúið að Ögmundur Jónasson og Birgitta Jónsdóttir skuli berjast fyrir réttindum Snowden og hann njóti verndar og fái notið mannréttinda, en hvorki Bjarni Benediktsson né Sigmundur Davíð.

 


Ríkisbankar og bankahrun

Margir trúa því að ríkisbankar séu þeirrar náttúru að þeir fari ekki á hausinn. Margir héldu því fram við bankahrunið, að stofna bæri ríkisbanka í stað einkabanka. Skýrsla um starfsemi Íbúðalánasjóðs var birt í dag. Staðreyndin er sú að Íbúðalánasjóður er margfalt gjaldþrota og hefur tapað yfir 370 milljörðum.

Íbúðalánasjóður sem átti að hafa með höndum einfalda og örugga banka-og fjármálastarfsemi fór samt á hausinn. Ekki var þar um að kenna græðgisvæðingu og frjálshyggju, sem fyrrum forsætisráðherra og einn helsti örlagavaldur Íbúðalánasjóðs Jóhanna Sigurðardóttir taldi orsök falls einkabanka árið 2008.

Annar hópur opinberra og hálfopinberra fjármálafyrirtækja, lífeyrissjóðirnir, sem fólk verður nauðugt viljugt að borga 12% af tekjum sínum samkvæmt þrælalögum frá Alþingi hafði tapað við hrun um 600 milljörðum.

Samtals hafa þessar opinberu og hálfopinberu fjármálaaðilar tapað um 1000 milljörðum eða sem svarar til nokkrum snjóhengjum og þrefallt því sem þarf til að lagfæra verðryggingarhallann fyrir almenning með niðurfærslu höfuðstóla verðtryggðu lánanna. Enn stjórna þeir sömu og áður þessum opinberu og hálfopinberu sjóðum nema þeir hafi horfið til annarra starfa eða hætt fyrir aldurs sakir.

Versta fyrirbrigði í fjármálaheiminum eru einkabankar sem reknir eru á ábyrgð skattgreiðenda. Í ljósi þessara staðreynda er eðlilegt að velta því fyrir sér hvort sé betra ríkisbankar á ábyrgð skattgreiðenda eða einkabankar á ábyrgð eigenda sinna.

Þegar öllu er á botninn hvolft er þá ekki einkareksturinn á ábyrgð eigenda besti kosturinn?

  

 

 


Spygate

Leyniþjónusta Sovétríkjanna KGB var umtöluð á sínum tíma fyrir að setja hljóðnema út um allt, en jafnvel þó allt það sem um þá leyniþjónustu var sagt hefði veri rétt, þá jafnast það ekki á við þær ofurnjósnir sem ríkisstjórn Bandaríkjanna stendur fyrir. 

Síðustu daga haf borist upplýsingar um að ríkisstjórn Obama hafi víðtækt njósnanet hjá þeim þjóðum sem þeim eru vinnveittust.  Fylgst er með því sem kemur frá ríkisstjórnum í Evrópu og Evrópusambandinu sem og tölvupóstsamskiptum stjórnmála- og embættismanna. Fyrst svona víðtækt njósnanet hjá helstu vinaþjóðum Bandaríkjanna er talið nauðsynlegt af Obama forseta til að tryggja öryggi Bandaríkjanna, hvað þá um ríki sem eru Bandríkjunum óvinveitt.

Þessar víðtæku njósnir Bandaríkjanna eru óafsakanlegar.  Bandaríkin hafa misst bæði traust og álit og þa verður erfitt að endurvinna það. Einhverjir verða að bera ábyrgð á þessum mannréttindabrotum og liggur þá beinast við að þeir sem halda um taumanna á þeim stofnunum sem þessar njósnir stunda segi af sér. Þá verður heldur ekki hjá því komist að Barrack Obama verði að axla ábyrg með sama hætti og Richard Nixon gerði á sínum tíma og segi af sér. 

Þessar njósnir eru það víðtækar og hafa staðið það lengi að það er útilokað að þær hafi verið skipulagðar og stundaðar án vitundar og beinna fyrirmæla frá sjálfum Bandaríkjaforseta.  

Sú var tíðin að forstöðumaður CIA í Mið-Austurlöndum skrifaði um að njósnakerfi Bandaríkjanna þar væri í molum og hann hætti og skrifaði bókina "Sleeping with the Devil." sem fjallar um samskipti Bandaríkjanna og Saudi Arabiu. Merk lesning sem sýnir að því miður er langt síðan Bandaríkin fóru hugmyndafræðilega út af sporinu.

En með spygate er gengið út yfir öll mörk í samskiptum þjóða og Bandaríkin verða að endurvinna traust með því að viðurkenna og samþykkja að þeir lúti sömu lögmálum og aðrar þjoðir og  þeir sem ábyrgð bera á þessari njósnastarfsemi segi af sér.


Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.1.): 131
  • Sl. sólarhring: 1302
  • Sl. viku: 5273
  • Frá upphafi: 2469657

Annað

  • Innlit í dag: 118
  • Innlit sl. viku: 4826
  • Gestir í dag: 118
  • IP-tölur í dag: 118

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband