Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2014

Kosningum afstýrt

Forsætisráðherra Svíþjóðar tilkynnti fyrir stundu að kosningum hefði verið "afstýrt". Kosningar voru ráðgerðar í mars 2015.  Í lýðræðisríki er nokkuð sérstakt að tala um að kosningum hafi verið afstýrt.

Ágreiningur var um fjárlög og Sósíaldemókratar og fylgihnettir þeirra gátu ekki komið fram fjárlögum í andstöðu við borgaraflokkana og Svíþjóðardemókrata. Nú hafa veður skipast þannig að borgaraflokkarnir sömdu við Sósíaldemókrata til að "afstýra" kosningum. Sósíaldemókratar ráða því í Svíþjóð enn um stund með fulltingi borgaraflokkana. Það er nýlunda.

Þeim holdsveiku í sænskri pólitík, Svíþjóðardemókrötum var spáð stórsigri í kosningunum í mars á næsta ári og þá bauð sænskur þjóðarsómi að komið yrði í veg fyrir það. Bandalag var stofnað til að afstýra því að þjóðarviljinn sem er ekki í samræmi við hefðbundnar skoðanir hefðbundinna sænskra stjórnmálaflokka fengi framgang. 

Miðað við stefnuskrá Svíþjóðardemókratanna þá er ekki um öfgaflokk að ræða eða hóp fólks sem boðar andstöðu við lýðræði eða lýðræðislega hugsun. Glæpur þeirra er að vilja breytta innflytjendalöggjöf.

Það er veikleiki í lýðræðisríki þegar ekki má ræða mikilvæga málaflokka og þeir sem víkja frá heðbundnum skoðunum eru stimplaðir öfgafólk þó þeir berjist á grundvelli lýðræðis.  


Kristið fólk þarf vernd.

Á þessu ári hefur kristið fólk orðið fyrir meir en 80% ofsókna gegn trúuðum. Sú tölfræði segir þó ekki allt. Ofsóknir gegn kristnum hafa verið þær alvarlegustu.  Kristið fólk hefur verið drepið, konur seldar í kynlífsánauð og þrælkun. Heilu söfnuðunum hefur verið eytt.

Elstu söfnuðir kristins fólks í Sýrlandi og Írak sem hafa lifað í sátt og samlyndi við umhverfi sitt í hartnær 2000 ár eru nú á flótta eða söfnuðunum verið eytt. Sums staðar hafa karlar og drengir verið drepnir en konur og stúlkur hnepptar í kynlífsþrælkun.  Í þessum löndum er kristið fólk ásamt Yasidum drepið eða selt í ánauð á meðan heimurinn horfir aðgerðarlaus á.

Í jólaboðskap sínum vék Franscis páfi sérstaklega að þessum ofsóknum gegn kristnum og hvatti til virkra aðgerða. Á sama tíma lagði biskupinn yfir Íslandi áherslu á að vinna gegn fordómum gegn öðrum trúarbrögðum með aukinni þekkingu á þeim. Boðskapur biskupsins var beint til kristinna, en ekki minnst á þær ofsóknir sem kristið fólk verður fyrir.

Ofsóknir gegn kristnu fólki eru svo miklar og alvarlegar að jafnvel systurflokkur Samylkingarinnar á Bretlandi, Verkamannaflokknum er nóg boðið. Þeir gagnrýna ríkisstjórn Cameron fyrir að vanrækja þá skyldu sína að bregðast við og koma í veg fyrir trúarlegar ofsóknir og hafa birt tillögur um að vinna gegn trúarofsóknum.

Talsmaður flokksins Douglas Alexander segir að margir stjórnmálamenn bregðist skyldu sinni með því að tala ekki um árásir á kristið fólk og kristni af því að það telji það ekki pólitískt rétt.

Óneitanlega er sú hugsun áleitin að biskupin yfir Íslandi forðist að minnast á ofsóknir gegn kristnu fólki af því að hún telji það ekki pólitískt rétt.

Það er rétt hjá biskupi að meiri hluti þjóðarinnar er kristinn og vill hafa kristin gildi í heiðri. En það þýðir ekki að kristið fólk vilji tilheyra kirkjudeild sem lætur sér ekkert um mannréttindi trúsystkina okkar varða og sneiðir hjá að hafa skoðun á mikilvægustu málum samtímans sem snertir siðferði og kristni.


Óslitin sigurför

En Guði séu þakkir, sem fer með oss í óslitinni sigurför Krists og lætur oss útbreiða ilm þekkingarinnar á honum á hverjum stað. Því að vér erum góðilmur Krists fyrir Guði meðal þeirra, er hólpnir verða, og meðal þeirra , sem glatast;

Þeim síðarnefndu ilmur af dauða til dauða, en hinum ilmur af lífi til lífs. Og hver er til þess hæfur?

Ekki erum vér eins og hinir mörgu er pranga með Guðs orð, heldur flytjum vér það af hreinum huga frá Guði frammi fyrir augliti Guðs, með því að vér erum í Kristi. (II Korintubréf 2 kap.14-17)


Ekki skjóta þá skýt ég ekki. Friðarboðskapur á jólanótt fyrir 100 árum.

Fyrir hundrað árum í desember 2014 í byrjun fyrri heimstyrjaldar höfðu Þjóðverjar sótt fram að landamærum Belgíu og Frakklands og voru þar í skotgröfum en andspænis þeim í skotgröfum nokkrum hundruð metrum frá voru hersveitir Breta.  Á milli þeirra á einskis manns landi voru lík fallinna félaga.

Á aðfangadagkvöld settu þýsku hermennirnir upplýst jólatré fyrir ofan skotgrafirnar og sungu Heims um ból. Bresku hermennirnir tóku undir. Eftir að hafa skipst á hrópum sín á milli "You no shoot, we no shoot" komu hermennirnir upp úr skotgröfunum til að heilsast og skiptast á sígarettum, skosku vískii og þýskum snafs. Þeir tóku þá ákvörðun að hafa vopnahlé á jóladag svo að þeir gætu hist aftur og grafið hina dauðu. Þeir hjálpuðust að við að grafa hina föllnu og héldu minningarmessu. Þeir sungu saman 23. Davíðssálm á þýsku og ensku jafnhliða. Hermennirnir skiptust síðan á gjöfum og kepptu í fótboltaleikjum.

Engin vildi halda stríðinu áfram. Ungir menn sem áttu framtíðina fyrir sér og vildu eiga hana í sátt og samlyndi við þá sem þeir voru í stríði við. Hershöfðingarnir urðu æfir þegar þeir fréttu þetta og hótuðu hermönnunum refsingum. Tilgangslausa stríðið hélt því áfram. Milljónir ungra manna féllu fyrir ekki neitt. Það var engin málsstaður sem verið var að berjast fyrir.

Þýskur hermaður skrifaði heim eftir jólavopnahléðo 1914 og sagði: "Mikið var þetta yndislegt, en samt svo skrýtið"  Haldið hafði verið að ungu mönnunum að hermennirnir í skogröfunum andspænis þeim væru samviskulausar skepnur- annað kom í ljós á aðfangadagskvöld. Þetta voru ungir menn sem voru að berjast á fölskum forsendum.

Því miður voru stjórnmálaforingjar stríðslandanna og herforingjaráðin svo heillum horfin að þeir gátu ekki horft á fáránleika stríðsins og samið vopnahlé og reynt a koma á friði.

Æskilegt væri að heimurinn í dag gæti tekið sér þýsku og bresku hermennina sem sömdu vopnahlé upp á sitt eindæmi til fyrirmyndar og sameinast um að gera heiminn betri og stuðla að bættum hag og aukinni velferð. Sá er í raun boðskapur jólanna.

Friður, fyrirgefning og kærleikur er inntak jólaboðsskaparins.

Vona að þið eigið öll kæru vinir gleðileg friðarjól.

Gangið á Guðs vegum.


Af hverju þessi fjandskapur við kristni?

Það er með ólíkindum hvað forustu Samfylkingarinnar er uppsigað við kristni og kirkjuhald. Þeir beita meirihuta sínum í Reykjavík ítrekað til að koma í veg fyrir að skólabörn fái að njóta jólaboðskaparins á sama tíma og þeir mæta tímanlega í öll jólaglögg á vegum Borgarinnar og aðrar uppákomur í tilefni jólanna. Slíkt er ekki hræsni að þeirra mati. En þetta sama fólk segir það hræsni þegar kristið fólk vill fylgja almennum helgisiðum.

Þegar borgarstjóranrflokkur Sjálfstæðisflokksins vonum seinna áttaði sig á nauðsyn þess að standa vörð um þau grunngildi sem kristið samfélag byggir á þá froðufellir margt Samfylkingarfólk af illsku.

Fyrstu verðlaun fær vafalaust Sigríður Ingibjörg Ingadóttir þingmaður Samfylkingarinnar sem kallar afstöðu borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins  "Djöfulsins teboðshræsni" Í sjálfu sér eðlilegt að þingmaðurinn skuli þegar á bjátar ákalla þann máttinn sem næst henni stendur.

Sósíaldemókratarnir í Samfylkingunn hafa fyrir löngu tapað hugmyndafræðilegum grundvelli sínum og viðurkenna í raun gjaldþrot hinna sósáilísku kenninga og yfirburði markaðssamfélagsins. Í þeirri pólitísku tilvistarkreppu hafa þeir tekið upp baráttu gegn kristni og kirkjuhaldi, fyrir opnum landamærum, réttindum samkynhneigðra og múslima.

Það hefði verið meira samræmi í stefnunni, ef þeir beittu sömu rökum um kristni og Íslam en því er heldur betur ekki þannig varið.

Nú er það svo að samkynhneigð er refsiverð og liggur jafnvel dauðarefsing við í flestum ríkjum sem játa Íslam og jafnstaða kynjana er ekki virt þar. En það veldur ekki vökum hjá hinu frjálslynda Samfylkingarfólki sem man ekkert þegar það á við.


Loftslagsleikrit í þrem þáttum.

9000 fulltrúar eyddu tveim vikum á fundi í Lima í Perú við að reyna að komast að samkomulagi um "alþjóðlegan loftslagssamning", sem vonir eru bundnar við að verði undirritaður í París á næsta ári.

Christopher Brooks dálkahöfundur í enska stórblaðinu Daily Telegraph segir í grein í gær að um hafi verið að ræða endurflutning á leikriti í þrem þáttum, sem hafi gengið í um 20 ára skeið. Fyrsti þáttur fjalli um ógnina af hnattrænni hlýnun af mannavöldum, sem sé nú verri en nokkru sinni fyrr. 

Í öðrum þætti krefjist þróunarríkin þess að Evrópusambandið, Bandaríkin og Japan borgi þeim þ.á.m. Kína og Indlandi 100 milljarða dollara á ári til að þau dragi úr kolefnalosun og um þetta sé deilt á ráðstefnunni þangað til sest sé niður til að ganga frá lokaályktun.

Þriðji þáttur er síðan um tilraun til að ganga frá lokaályktun sem venjulega takist um kl. 4 að morgni síðasta ráðstefnudagsins og það kynnt sem merkur áfangi. Loks samþykki allir lokaályktunina sem sé algjörlega meiningarlaust plagg sem skuldbindi engan til að gera neitt.

Höfundur segir að sama verði upp á teningnum á loftslagsráðstefnunni í París á næsta ári þannig að þessi farsi muni halda áfram þangað til dómsdagur kemur - sem eins og hlýnunin kemur aldrei með þeim hætti sem tölvuspárnar segja fyrir um eða þangað til allir deyja úr leiðindum.

Í hríðarkófinu og blindbylnum sem gengur yfir landið þessa daganna þá þykir væntanlega mörgum miður að við skulum ekki fá ögn meira af hnattrænni hlýnun jafvel þótt hún væri af mannavöldum. Slæmt er þó að svo virðist sem það sé að kólna þrátt fyrir allar dómsdagsspárnar.  

Verst er að þessi þráhyggja hlýnunarinnar tekur of mikið fé til sín og dregur athygli frá brýnni verkefnum á sviðum umhverfismála, sem eru ekki ævintýraveröld tölvuspádóma heldur bæði brýn og raunveruleg.


Talsmaður notaðra heimilistækja

Vilhjálmur Bjarnason þingmaður Sjálfstæðisflokksins hefur gerst talsmaður notaðra heimilistækja og sér möguleika á því fyrir sauðsvartan almúgann að geta nú veitt sér þann munað að kaupa heimilistæki af þeim efnammeiri sem verði líklegri til að skipta út því gamla og fá sér nýtt vegna verðlækkana í kjölfar afnáms vörugjalda.

Margir hafa tekið þessari hagsmunagæslu Vilhjálms fyrir notendur notaðra heimilistækja óstinnt upp. Ef til vill er það vegna þess að Vilhjálmur er helst þekktur af því að gæta hagsmuna fjármagnseigenda en ekki almennra neytenda. E.t.v er hann grunaður um græsku og horft er framhjá því hvaða hagsmunum þingmaðurinn var að tala um.

Fúkyrðin i garð Vilhjálms vegna þessara ummæla eru innistæðulaus. Vilhjálmur hefði getað orðað þetta með þeim hætti að valkostir neytenda aukist þar sem meira magn af notuðum vörum komi á markað og það betri notuðum vörum þar sem fólk fái sér nýja hluti fyrr en annars hefði verið. Þeir efnaminni hafa ótvírætt hagræði af því að fá betri vörur og minna notaðar á lægra verði af því að aukið framboð veldur verðlækkun á þessum markaði. Er eitthvað að því að orða þessa staðreynd?

Engum finnst neitt að því að kaupa notaðan bíl, húsgögn, ískáp, þvottavélar o.fl. heimilistæki nema stórbokkum og yfirlætisfullu fólki. Á netinu er afar þriflegur markaður með þessa muni. Það er þjóðhagsleg hagkvæmni að hlutum sé ekki hent þegar það er hægt að hafa full not af þeim. Fólk sem leggur áherslu á nýtingu og sparnað ætti að vera ánægt með að fá fleiri og betri muni til að velja úr á lægra verði. Var einhver ástæða til að sletta skyrinu á Vilhjálm fyrir þessi ummæli?

 


Mótmæli gegn ímyndaðri aðför

Hópur fólks ætlar að efna til samstöðufundar gegn meintri aðför að RÚV kl. 17 síðdegis. En hvaða aðför er verið að tala um?  Þeir sem fyrir fundinum standa og stjórnarandstaðan heldur því fram að verið sé í skipulagri aðför að RÚV undir forustu ríkisstjórnarinnar. Aðförin að RÚV sem talað er um er þó ekki til staðar nema í hugarheimi stjórnaranstöðunnar og samtöðuaðilanna sem ætla að skunda á Austurvöll í dag og treysta sín heit við stofnunina.

Fyrir nokkru rétti menntamálaráðherra RÚV um hálfan milljarð til að mæta útgjöldum vegna viðvarandi tapreksturs RÚV og jafnframt til að fresta því óumflýjanlega. Varla getur gjafmildi menntamálaráðherra á kostnað skattgreiðenda talist vera í aðför að RÚV. Þetta er fyrst og fremst aðför gegn skattgreiðendum.

Lífskúnstnerinn og listamaðurinn Jakob Magnússon einn þeirra sem stendur fyrir samstöðufundi ímundunarveikra á Austurvelli síðar í dag segir þann tilgang vera helstan með fundinum

"að við fáum að borga okkar útvarpsgjald með atbeina ríkisins"

Það þýðir að samstaðan er um að ríkið taki útvarpsgjöld af öllum hvort heldur þeir vilja þjónustuna eða ekki. Fundur Jakobs og félaga er þá samstaða um skattheimtu þeirra sem ekki vilja þjónustu fjölmiðils. Síðar talar Jakob um að hann vilji fá að borga 2.000 krónur á ári í útvarpsgjald og virðist ekki gera sér grein fyrir að útvarpsgjaldið er nánast tíu sinnum hærri fjárhæð.

Ímundunin og vænisýkin getur ekki orðið öllu meiri en staðfest er í viðtali við Jakob Magnússon. Í fyrsta lagi á að halda samtsöðufund til að mótmæla aðför að RÚV, sem engin er. Þvert á móti liggur fyrir að stofununin fær aukafjárveitingu. Í annan stað þá er það ímyndun fundarboðenda að útvarpsgjaldið sé 2.000 krónur þegar það er tæplega tíu sinnum hærra.

Væri nú ekki í ráð að ná samtöðu um að útvarpsgjaldið verði árlega það sem boðendur samstöðufundarins á Austurvelli berjast fyrir að útvarpsgjaldið verði kr. 2.000. Mér finnst ástæða til að hvetja fólk til að mæta og krefjast þess með Jakobi að útvarpsgjaldið verði í samræmi við það sem hann talar um eða 2000 krónur á ári.

 


Óbilgjarnir öfgasinnar

Guðmundur Andri Thorson segir í blaðagrein að óbilgjarnir öfgasinnar sæki að Ríkisútvarpinu með linnulausum árásum. Ekki gerir greinarhöfundur tilraun til að skilgreina hvað felist í því sem hann kallar óbilgjarnar árásir öfgasinna.

Nú er það svo að gagnrýni á RÚV er af mörgum og mismunandi toga. Einn hópur telur að þar sé um að ræða pólitíska hlutdrægni. Aðrir gagnrýna á þeim forsendum að það sé ekki nægjanlega faglega unnið og metnaður ekki nægur. Enn aðrir gagnrýna RÚV vegna stöðnunar og þess að ekki sé brotið upp á nýungum. Svo eru þeir sem segja að ekki sé farið nægjanlega vel með það mikla fé sem stofnuin fær af nefskatti fólks og fyrirtækja. Loks eru það óbilgjarnir öfgasinnar eins og ég að mati Guðmundar Andra sem gagnrýna það að geta ekki valið um það hvort ég vilji vera áskrifandi eða ekki.

Það er brot gegn sjálfsákvörðunarrétti mínum sem borgara að skylda mig til að greiða til ljósvakamiðils í eigu ríkisins. Með því að hafa þá skoðun er ég orðinn óbilgjarn öfgasinni?

Stofnun eins og RúV verður að þola gagnrýni. Stofnun eins og Rúv verður að sætta sig við að forsendur rekstrar ríkisfjölmiðils eru allt aðrar nú þegar hægt er að nálgast fréttir og afþreyingarefni með einföldum hætti nánast hvar sem er. Stofnun eins og RÚV hefur ekki brugðist við kalli tímans og brotið upp á nýungum í takti við breytingar á fjölmiðlaumhverfinu.  Ég get með engu móti séð hvernig það kemur heim og saman að þeir sem gagnrýna stöðnun og vond vinnubrögð RÚV séu óbilgjarnir öfgamenn sem vilji sundra þjóðinni.

Ekki dettur mér í hug að kalla Guðmund Andra óbilgjarnan öfgasinna þó við séum ekki á sama máli varðandi hljóðvakamiðlun. Mér finnst það hinsvegar öfgar hjá öllum þeim sem telja rétt að svipta mig og aðra frelsi til að vera áskrifendur að eða ekki áskrifendur að RÚV. Þeir eru að stela peningunum okkar til að þjóna lund sinni. Er slíkur þjófnaður á annarra fé með samþykki meiri hluta Alþingis ekki mun frekar brot á réttindum frjálsborins fólks til að ráða málum sínum sjálft?

Hver er þá óbilgjarn öfgasinni? Sá sem vill frelsi eða sá sem vill halda við helsi og frelsisskerðingu?


Góða stríðið

Aðgerðir sem gátu virst skynsamlegar í Washington og Whitehall reyndust fljótlega vera hræðilega kjánalegar og rangar á svæði þar sem jafnvel menntamálaráðherrann var ólæs. Þetta kemur m.a. fram í bók Jack Fairwather fyrrum blaðamann á Daily Telegraph og Washington Post um Afganistan stríðið "The good war. Why we could not win the war or the peace in Afganistan."

Í 9 ár voru herir Bandaríkjanna, Breta og fleiri í Afganistan. Billjónum dollara var eytt í aðstoð við landið. Hvaða áhrif hafði þetta svo allt saman?

Fairweather segir frá því hversu ruglað þetta var. Hroki og vanþekking helstu herveldanna (UK/USA) hafi komið fram aftur og aftur. Þess vegna hafi innrásarveldin misst af tækifærinu til að komast að samkomulagi um friðsamlega lausn. Hann segir að margir leiðtogar Talibana hafi strax árið 2001 viljað semja, en Bandaríkjamenn hafi hafnað því og það hafi tekið þau um áratug að átta sig á að einhverskonar friðarsamningur væru eina leiðin til að ná árangri.

Sagt er frá því hvernig Talíbanarnir styrktust með árunum og stríðsherrarnir í borgunum hafi náð völdum á nýjan leik og spilling aukist. Spilling varð gríðarleg ekki bara vegna opíum sölunnar heldur líka vegna billjóna dollara styrkja frá Bandaríkjunum sem oftar en ekki lentu í vitlausum höndum enda eftirlit bágborið.

Bandaríkjamenn misstu 2.353 hermenn fallna og Bretar 453. Þessir ungu menn voru fórnarlömb fáráða sem stjórnuðu ríkjum þeirra og skipulögðu hernaðaraðgerðir og billjóna dollara styrkveitingar. NATO hermennirnir voru á fölskum forsendum andstætt stofnskrá NATO og þeir voru líka fórnarlömb fáráða við stjórn ríkja sinna.

Skilningur á aðstæðum er forsenda þess að afkipti af erlendum ríkjum beri árangur og menn verða að gera sér grein fyrir takmörkunum þess að senda her segir Fairweather. Bandaríkin og Bretar ættu að hafa þetta í huga áður en þeir valda meiri skaða í heiminum.

Væri ég Bandaríkjamaður þá væri mér sem skattgreiðenda og hugsanlega foreldris hermanns sem hefði fallið algjörlega misboðið. Ég mundi krefjast þess að friðarverðlaunahafinn Obama, Bush jr. og fleiri yrðu dregnir til ábyrgðar. Ég myndi styðja Ron Paul sem og son hans en þeir eru einu málsmetandi stjórnmálamenn í Bandaríkjunum sem hafa allt tíð verið á móti þessum stríðsaðgerðum og talað af skynsemi. 

Þess vegna eru þeir stimplaðir hægri öfgamenn í Bandaríkjunum.

 


Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 174
  • Sl. sólarhring: 834
  • Sl. viku: 3995
  • Frá upphafi: 2427795

Annað

  • Innlit í dag: 162
  • Innlit sl. viku: 3698
  • Gestir í dag: 161
  • IP-tölur í dag: 158

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband