Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2017

Sjálfstæði Kúrda

Í dag ganga Kúrdar að kjörborðinu í Írak til að greiða atkvæði um sérstakt ríki Kúrda. Ekki er vafi á því að mikill meiri hluti Kúrda mun greiða atkvæði með sjálfstæðu ríki, en spurningin er bara hvort það verða 90% eða meira af Kúrdum sem greiða því atkvæði. 

Kúrdar eru sérstök þjóð og eiga mikla og langa sögu og menningu. Saladin sá frægi soldán og hershöfðingi sem náði m.a. Jerúsalem frá Kristnu krossförunum var Kúrdi svo dæmi séu nefnd og Kúrdar hafa átt sameiginlega sögu og baráttu að hluta með öðrum í Arabíu, en eru samt þjóð með sama hætti og Norðmenn eru ekki Svíar og Danir og Hollendingar eru ekki Þjóðverjar.

Kúrdar eru aðallega í Tyrklandi, Írak, Íran og Sýrlandi og eru allsstaðar undirrokaðir og njóta ekki fullra mannréttinda nema e.t.v. í Írak frá falli Saddam Hussein. Alþjóðasamfélagið hefur brugðist Kúrdum og stórveldin hafa látið aðra hagsmuni en frelsi og sjálfsákvörðunarrétt þjóða ráða umfram það að vilja tryggja þjóðum sjálfsögð mannréttindi og sjálfstætt þjóðríki. 

Fólk sem ann frelsi, mannréttindum og sjálfsákvörðunarrétti fólks ætti að skipa sér í fylkingu með þeirri sjálfsögðu réttindabaráttu Kúrda að fá að vera í sjálfstæðu Kúrdistan og stjórna eigin málum eins og aðrar þjóðir. Allt annað er undirokun, mannréttindaskerðing og kúgun. 


Stórsigur AfD í Þýskalandi.

Alternativ für Deutchland vann stórsigur í þýsku kosningunum og fékk 13% atkvæða og er þriðji stærsti flokkurinn. Flokkurinn hafnar stefnu Merkel um opin landamæri og gerir kröfu til þess að hælisleitendur þurfi að sæta ábyrgð og njóti ekki betri réttar en Þjóðverjar.

Nú ætlar Merkel sér að mynda stjórn með vinstri flokknum Græningjum og hægri flokknum FDP. Fróðlegt að sjá hvort að slíkt samstarf gangi, en sósíaldemókratar eru búnir að segja Merkel upp og formaður Sósíaldemókrata sendir henni núna heldur betur tóninn. Hefði sjálfsagt átt að gera það fyrr. 

Hefðbundin stjórnmál í Þýskalandi eru ef eitthvað er einsleitari en hér þó fólk ímyndi sér að það sé einhver reginmunur á milli flokka bæði þar og hér. AfD er ólíkur hinum flokkunum og þorir að tala um það sem hefðbundnir stjórnmálamenn á meginlandinu hamast við að þegja í hel og kalla öfgar.  

Nái Merkel að mynda stjórn með FDP og Græningjum er hún með Sósíaldemókrata og Vinstriflokkinn til vinsti við sig og AfD til hægri. Hætt er við að tap hennar verði því stærra þegar næst verður kosið en nú og þykir þó mörgum, að flokkur Merkel CDU og systurflokkurinn í Bæjaralandi CSU megi muna fífil sinn fegri þegar þeir voru með um helming kjósenda í stað þriðjungs eins og nú.

Það er fagnaðarefni að hrist sé upp í steindauðum stjórnmálum Þýskalands og var virkilega mál til komið að Merkel fái verðuga stjórnarandstöðu frá hægri.  


Af lögbrotum þingmanns Bjartrar framtíðar.

Lögfræðimenntaður þingflokksformaður Bjartrar framtíðar sagði eftir fund þingnefndar með dómsmálaráðherra í gær, aðspurð af fréttamanni RÚV að í því máli sem um var fjallað hefði ráðherra framið fjöldamörg lögbrot.

Aldrei þessu vant spurði fréttamaður RÚV sjálfsögðu spurningarinnar. Hvaða lögbrot eru það? Lögfræðimenntaða þingflokksformanni Bjartrar framtíðar vafðist þá tunga um tönn og setti á almennt fjas út í bláinn. 

Lögfræðimenntaði þingflokksformaðurnn veit það vel að sá sem sakar einstakling hvort heldur það er ráðherra eða annan um lögbrot verður að finna þeirri ásökun stað og vísa til þeirra lagaákvæða sem viðkomandi telur að hafi verið brotin. Sé það ekki gert er öll sú ræða og ásakanir ónýt og rugl eitt. 

Það er ábyrgðarhluti að saka fólk um lögbrot. Þingmenn hafa ekki sérstaka undanþágu frá því að fara með rétt mál. Jafnvel skásti þingmaður Bjartrar framtíðar Theódóra S. Þorsteinsdóttir sem viðhafði ofangreint rugl er þar heldur ekki undanþegin. 

Það er síðan umhugsunarefni í aðdraganda kosninga hvort það lið sem eyðir ómældum tíma í rannsóknarstörf á hinu liðna með ærnum upphrópunum, en sinnir ekki vandamálum nútíðar með tilliti til framtíðar á nokkurt erindi í pólitík.

Hefði ekki verið nær að eyða nokkrum tíma í húsnæðis- og fjárfestingavanda unga fólksins. Ruglaðar reglur og kjör sem öldruðum eru búin svo fátt eitt af því brýnasta sé tekið.

Þar skortir hugmyndir umræður og framtíðarsýn. 

 


Skylda Alþingis og stjórnarfarsleg upplausn.

Miklu skiptir að stjórnmálamenn axli þá ábyrgð sem starfi þeirra fylgir. Sú ábyrgð felst m.a. í því að tryggja landinu starfhæfa ríkisstjórn og koma í veg fyrir upplausnarástand. Þess vegna skiptir máli fyrir Alþingismenn að reyna til þrautar að mynda ríkisstjórn í stað þess að rjúfa stöðugt þing og efna til nýrra kosninga án þess að fullreynt sé hvort takist að leysa upplausnarástand og tryggja að nýju stjórnarfarslegan stöðugleika í landinu.

Forseti lýðveldisins ber nú þunga ábyrgð á framvindu mála. Miklu skiptir að hinn nýi forseti Guðni Th. Jóhannesson sýni nú myndugleika og það að hann sé starfi sínu vaxin og tali um fyrir forustumönnum flokka og fái þá til að axla sína ábyrgð og reyna til þrautar að gegna þeirri lýðræðisskyldu sinni að ná þeim málamiðlunum sem nauðsynlegar eru í lýðræðisþjóðfélagi og mynda sterka starfhæfa ríkisstjórn.

Í umræðum gærdagsins virtist því miður ekki nema einn stjórnmálaleiðtogi átta sig á þessari brýnu skyldu Alþingis og stjórnmálaflokka, en það var formaður Framsóknarflokksins. 

Eins og málin standa í dag þá virðist sem einungis séu þrír stjórnmálaflokkar á Alþingi sem hafi þá burði og innviði sem eru nauðsynlegir til að tryggja stöðugt stjórnarfar í landinu, en það eru Framsóknarflokkur, Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri grænir. Miklu skiptir að forustumenn þessara flokka sýni nú fulla ábyrgð og reyni til þrautar að vera starfi sínu vaxnir sem stjórnmálamenn.

Í stað þess að reyna að slá pólitískar keilur og hræra í gruggugu vatni þá skiptir meira máli fyrir land og þjóð að viðhalda þeirri velferð sem ríkir og tryggja að sú tryllta uppsveifla sem er í landinu fái ekki harða lendingu. Á því er veruleg hætta verði landið stjórnlaust eða stjórnlítið næstu misseri. 

Stjórnmálamenn ættu að horfa til Samfylkingarinnar og hvernig fór fyrir þeim flokki þegar þeir hugsa sér gott til glóðarinnar til að reyna að koma óréttmætum höggum á aðra flokka. 

Spor og framganga Samfylkingarinnar ættu því að hræða forustufólk ábyrgra flokka á Alþingi, frá því að leika aftur sama leikinn og leikinn hefur verið undanfarin ár í stað þess að stjórna landinu með þeim hætti sem fólkið í landinu á skilið.

Þingrof og nýjar kosningar nú er uppgjöf Alþingis fyrir verkefni sínu og þeir stjórnmálaflokkar sem eru ekki tilbúnir til að axla sína ábyrgð nú og reyna til þrautar að mynda starfhæfa ríkisstjórn eru tæpast trausts verðir.


Afleiðingar án orsakatengsla og ríkisstjórn springur.

Óttar Proppé og þingflokkur hans sleit stjórnarsamstarfi vegna þess að faðir forsætisráðherra mælti með að afbrotamaður sem hafði afplánað refsingu fengi uppreisn æru.

Í öllu því argafasi sem er í dag vegna þeirra sem fengið hafa uppreisn æru þá virðist sem fjölmiðlafólki og ýmsum hefðbundnum álitsgjöfum sjáist yfir þær grundvallarstaðreyndir að þeir sem skrifa upp á meðmæli með því að einstaklingar fái uppreisn æru eru hvorki að samþykkja né leggja blessun á eða samsama sig með þeim glæp sem viðkomandi framdi. Alls ekki.

Hvað eru þeir sem skrifa á bréf eins og þessi að gera. Þeir eru að votta samkvæmt þeirra bestu vitund þá hafi viðkomandi hagað sér vel eftir afplánun refsingar. Meðmælandinn í þessu tilviki Benedikt Sveinsson er ekki að samþykkja eða lýsa yfir velþóknun á afbrotinu fjarri því.

fMeðmælabréf föður forsætisráðherra um uppreisn æru hefur ekkert með starf ríkisstjórnar að gera og er syni hans forsætisráðherra óviðkomandi enda vissi hann ekki af bréfi föður síns fyrr en dómsmálaráðherra upplýsti hann um það í júlí. 

Sú málsvörn Óttars Proppé fyrir þeirri glórulausu ákvörðun að slíta stjórnarsamstarfi vegna greiðasemi föður forsætisráðherra og hann hafi ekki verið upplýstur um bréfið í rúman mánuð girði fyrir traust í ríkisstjónarsamstarfi er vægast sagt harla aumleg og hefur ekkert með landsstjórnina að gera. 

Vænn maður og greiðvikinn eins og Benedikt Sveinsson skrifar bréf, sem lýsir hegðun manns eftir að hann afplánar refsingu. Hann ber ekki brigður á að viðkomandi hafi gerst sekur um alvarlegan glæp eða reynir að afsaka glæpinn. Hann segir einungis að hegðun hans hafi verið með ákveðnum hætti eftir að afplánun lauk. Eru íslensk stjórnmál virkilega kominn í svo galna pópúlíska umgjörð að það geti talist tæk skýring á því að stjórnmálaflokkur slíti stjórnarsamstarfi.

Braut Benedikt Sveinsson af sér með þessu? Telji einhver svo vera í hverju var þá afbrot hans fólgið? Mátti hann ekki segja frá því hver viðkynning hans var af manninum. Já og jafnvel þó fólk segi að það hafi verið ótækt hvernig í ósköpunum fá menn sem þykjast ábyrgir, þá orsakasamband milli landsstjórnarinnar og greiðasemi föður forsætisráðherra. 

Málið kemur forsætisráðherra og landsstjórninni ekki við og það að reyna að tengja það og búa til dramaleikrit vegna þess er óheiðarlegt og rangt. Það mun á endanum hitta þá fyrst fyrir sem því beita. 

Skipti ekki meira máli að forða þjóðinni frá hugsanlegri óðaverðbólgu sem verður óhjákvæmilega staðreynd ef pólitísk upplausn verður næsta skref óábyrgra stjórnmálamanna.

 

 

 

 

 


Lögreglan ekki óvopnuð í Víðines- No go Zone?

Á fundi í gær lýsti forsætisráðherra hversu vanhugsað það hafi verið og mikil atlaga að íslensku samfélagi og öryggi borgaranna að samþykkja Útlendingalögin og opna allar flóðgáttir fyrir svonefndum hælisleitendum. 

Forsætisráðherra upplýsti, að lögreglan færi ekki óvopnuð í Víðines, þar sem yfirvöld leigja aðstöðu fyrir hælisleitendur. Fyrst svo er komið að lögreglan telur ekki öruggt að fara í Víðines nema vopnuð er þá ekki komið sama ástand og í Rosengård hverfinu í Malmö í Svíþjóð. 

Fyrst lögreglan metur aðstæður með þessum hætti í Víðinesi hvað þá með íbúa sem búa næst þessum stað. Hvaða þýðingu hefur það fyrir öryggi íbúanna og gæti þetta haft þau áhrif að fasteignaverð í Mosfellsbæ og Kjalarnesi snarlækki í verði?

Þá nefndi forsætisráðherra sem valkost, að teknar yrðu upp vegabréfsáritanir til Íslands. Þá hljóta spurningar að vakna. Hvað með ferðamannalandið Ísland. Af hverju vegabréfsáritun. Af hverju nefnir forsætisráðherra þetta sem valkost? Hvaða vandamál er verið að leysa með því?

Ári eftir samþykkt útlendingalaganna erum við komin með No go Zone þar sem lögreglan treystir sér ekki nema vopnuð. Við erum með þvílík vandamál og kostnað vegna ólöglegra hælisleitenda að varðar sennilega um eða yfir 10 milljarða í ár auk þess vanda sem forsætisráðherra lýsti og varðar aukna ógn í samfélaginu.

Miðað við ummæli forsætisráðherra ætlar ríkisstjórnin samt að stinga höfðinu í sandinn. Ríkisstjórnin ætlar ekki að stórefla lögreglu og löggæslu í landinu til að mæta þeirri vá sem forsætisráðherra lýsir. Það á ekki að breyta útlendingalögnum, en halda áfram að bæta í með töku fleiri kvótaflóttamanna.

Engin fréttamiðill hefur birt frétt um þessi ummæli forsætisráðherra nema Morgunblaðið í almennri frásögn af fundinum. Skrýtið? 

Það er allt í stakasta lagi sagði strúturinn um leið og hann stakk höfðinu í sandinn til að sjá ekki ljónið sem kom hlaupandi á móti honum. 

 


Hin mikla reiði

Fréttamaður sjónvarpsins ræddi við formann Samfylkingarinnar í kvöldfréttum RÚV í gær og byrjaði á að tala um hina miklu reiði sem væri í samfélaginu vegna afgreiðslu Útlendingastofnunar og úrskurðarnefndar á málefnum hælisleitenda, sem á að vísa úr landi í samræmi við lög.

Sjónvarpsfréttamaðurinn spurði hvort væntanlegt frumvarp formanns Samfylkingarinnar um að Alþingi setji lög til að ógilda ákvarðanir stjórnsýslunnar væri andsvar við reiðinni miklu og var því jánkað.

Hvaða reiði er fréttamaðurinn að tala um? Er einhver reiði? Hefur það verið kannað? Var útifundurinn sem boðað var til í gær vegna málsins mælikvarði á hina miklu reiði? Sé svo þá má álykta sem svo að það sé engin reiði og flestir telji þetta eðlilega málsmeðferð. En fréttastofa RÚV les annað út úr hlutum með sínum gleraugum.

Athyglisvert er að engin fréttamiðill hefur talað um þau "víðtæku" mótmæli í þjóðfélaginu sem hljóta að hafa átt sér stað vegna hnnar "miklu reiði". Það mótmælir raunar engin nema hefðbundinn kjarna vinstri elítunnar með Ofbeldisskáldið Hallgrím Helgason í broddi fylkingar. 

Það mældist engin reiði nema hjá Fréttastofu RÚV og vinstri no border elítunni.

Enn einu sinni er fréttastofa RÚV með vonda og ávirka áróðursfréttamennsku. Ágæta útvarpsráð. Er ekki kominn tími til að gera þá kröfu til starfsmanna RÚV að þeir fari að minnsta kosti eftir þeim lögum sem gilda um stofnunina sem þeir vinna hjá svo sem með tilliti til hlutlægni og sanngirni o.s.frv.

Já og biðjist afsökunar þegar þeir fara með rugl og dellu og skaða fólk og fyrirtæki.


Fara skal að lögum eftir hentugleikum

Salvör Norðdal umboðsmaður barna taldi eðlilegt að sitja í stjórn Haga h.f. og þiggja stjórnarlaun í tvo mánuði eftir að hún var skipuð umboðsmaður barna þrátt fyrir ákvæði 3.mgr. 2.gr. laga um umboðsmann barna þar sem segir: "umboðsmanni barna er óheimilt að hafa með höndum önnur launuð störf". Skv. ársskýrslu Haga h.f. eru stjórnarlaun á mánuði kr. 300.000.- Ef til vill var þetta allt í lagi hjá siðfræðingnum Salvöru Norðdal þar sem að lagabrot hennar stóðu ekki lengur en í tvo mánuði.

Salvör Norðdal sá ástæðu til þess að fjargviðrast út í fjölmarga einstaklinga sem gegndu hinum ýmsustu störfum fyrir bankahrun og taldi að þeir hefðu ekki staðið siðfræðilega rétt að málum. Ekki skipti þá máli hvað lögin sögðu enda var lagahyggja svonefnd töluð niður af siðfræðingum eins og Salvöru, sem og fleirum sem að verkinu komu. 

Nú þegar loksins er kominn dómsmálaráðherra, sem hefur hugrekki til að fara að lögum, en hafnar því að hlaupa eftir upphlaupshópum sem krefjast þess að aðrar reglur gildi fyrir suma og þeir skuli ekki þurfa að hlíta lögum,  þá finnst Salvöru Norðdal rétt að slást í þann hóp og gera athugasemdir við að dómsmálaráðherra skuli ætla að fara að lögum og virða niðurstöðu Útlendingastofnunar og úrskurðarnefndar útlendingamála. 

Sú var tíðin að Salvör var formaður svonefnds stjórnálagaráðs og þótti bera af flestum sem þar sátu fyrir vitsmuna sakir. Í sjálfu sér gaf það þó Salvöru ekki  úrvalseinkunn á því sviði. Í niðurstöðu ráðsins sem skilað var til forseta Alþingis segir að ráðsmenn vilji byggja réttlátt samfélag þar sem allir sitji við sama borð.

Af gefnu tilefni þá spyr ég, fyrrverandi formann stjórnlagaráðs, núverandi umboðsmann barna, fyrrum stjórnarmann í Högum hf. og yfir siðfræðing; Hvernig er hægt að tryggja að allir sitji við sama borð nema tryggt sé, að allir séu jafnir fyrir lögunum og að farið sé að lögum?

Það er athyglisvert að "góða fólkið" sem boðar til mótmæla á Austurvelli á morgun telur nauðsynlegt að farið skuli að lögum þegar það hentar því, en annars eigi lögin ekki að skipta máli og víkja skuli þeim til hliðar og ráðherra taka í taumana skv. geðþóttaákvörðunum til hagsbóta fyrir suma en ekki aðra.

Yrði slíkt athæfi ráðherra til að tryggja að allir sætu við sama borð og væru jafnir fyrir lögunum? Finnst Salvöru Norðdal slík hentistefna og geðþóttaákvarðanir ráðherra til þess fallnar að stuðla að betra og réttlátara samfélagi? 

Gleymdist hið gullvæga: "Með lögum skal land byggja og ólögum eyða. 

Það er e.t.v. ekki grundvallarregla siðfræðinga eða hvað?


Yfirlæti - Hroki - Metnaður og RÚV

Fyrir nokkru birti fréttastofa RÚV í sjónvarpsfréttum æsifrétt um stjórnendur veitingastðarins Sjanghæ á Akureyri. Eigandi staðarins var nánast tekin mannorðslega af lífi og staðurinn stimplaður sem miðstöð þrælahalds. 

Engin innistæða reyndist fyrir fréttinni eins og ítarlega var rakið í leiðara Morgunblaðsins um daginn. Hver skyldu þá viðbrögð fréttastofu RÚV vera. Leiðréttir fréttastofan hina röngu frétt? Biðjast þeir afsökunar?

Eða láta fréttastjórarnir rigna upp í nefið á sér eins og jafnan og halda áfram í sjálfbirgingshætti og hroka?

Óneitanlega er sorglegt að sjá og fylgjast með hvernig komið er fyrir fréttastofu RÚV. Í morgunfréttum Ríkisútvarpsins kl. 6 og síðar eru iðulega tvær fréttir. Hér á árum áður þegar Jón Thordarson og hinn voru á næturvaktinni þá voru ítarlegar fréttir frá kl. 5 að morgni. 

Fréttamat RÚV í sjónvarpi er síðan einstakt ef borið er saman við aðrar fréttastofur sem ég fylgist með og satt að segja ekki boðlegt og hef ég þó tíða skoðun á dönskum, norskum, sænskum og  enskum fréttum sem og Euronews, RT og Al Jaseera. Fréttastofa RÚV ber af fyrir bull- rugl og einhliða fréttir, sem engum af virtari fréttastofum mundi til hugar koma á senda frá sér. 

Hversu lengi á þetta að ganga svona. Sjái menntamálaráðherra ekki ástæðu til aðgerða getum við  þá fengið að losna undan skylduáskrift að þessum miðli. Annað er skerðing mannréttinda.

 


Aðallinn á Alþingi virðir ekki rétt Íslendinga til jafns við hlaupastráka erlendis frá.

Ókeypis hádegisverður er ekki til. Stjórnmálafólki sést iðulega yfir þessi einföldu sannindi og telur að þó það noti peninga í ákveðin verkefni þá megi líka nota þá til annarra hluta. En það einhver borgar, jafnvel þó sumum sé boðið.

Peningar sem eru greiddir vegna hælisleitenda og fóttamanna er eytt. Þeir nýtast ekki til annarra hluta eins og Einar Hálfdánarson endurskoðandi og lögfræðingur benti réttilega á í grein í Morgunblaðinu í síðustu viku.

Íslenskir alþingismenn samþykktu samhljóða fáránleg útlendingalög. Alþingismenn ákváðu að leggja þær byrðar á skattborgaranna að standa undir öllum útgjöldum hælisleitenda. Hælisleitendur skulu fá borgað fyrir læknisþjónustu, lyf, sálfræðiþjónustu, tannlækningar, húsnæði, mat og fleira.

Ágætur læknir sagði mér að sér fyndist ömurlegt að horfa upp á aldraða íslendinga sem ættu lítið fyrir sig að leggja tína síðustu krónurnar upp úr veskjunum á meðan strákarnir sem skráðir eru  hælisleitendur framvísuðu greiðslutilvísunum á ríki eða borg.

Það er ekkert stjórnarskrárákvæði sem ver skattgreiðendur fyrir heimsku, fljótræði, mútum og yfirboðum stjórnmálamanna,en sú eina breyting á stjórnarskránni að koma slíku ákvæði inn er brýnni en nokkur önnur. Skattheimta eykst vegna yfirboða og gjafmildi stjórnmálamanna á annarra kostnað. Samt hafa þessir sömu stjórnmálamenn engin úrræði til að leysa húsnæðisvanda ungs fólks og engin úrræði til að sinna þörfum aldraðra íslendinga með sóma.

Fyrst Alþingismenn töldu rétt að samþykkja, að veita Útlendingum sem hingað koma í "hælisleit" svo myndarlega fyrirgreiðslu og telja það lágmarksvelferð fyrir þá. Er þá til of mikils mælst að þeir hinir sömu Alþingismenn samþykki Íslendingalög, sem kveði á um að bornir og barnfæddir Íslendingar skuli ekki njóta lakari kjara en hælisleitendur gera á grundvelli Útlendingalaga? 

Óneitanlega er ömurlegt að sjá forréttindaaðalinn á Alþingi belgja sig út yfir manngæsku sinni með því að veita hælisleitendurm og kvótaflóttamönnum allt, á sama tíma og þessi aðall á Alþingi, sér ekki sóma sinn í að búa öldruðum áhyggjulaust ævikvöld, leysa húsnæðisvanda unga fólksins og sinna hagsmunum fólksins í landinu þannig að það búi ekki við lakari kjör en þeir hlaupastrákar erlendis frá, sem alþingismenn hafa skenkt svo ríkulega á kostnað borinna og barnfæddra Íslendinga. 

 


Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.12.): 17
  • Sl. sólarhring: 429
  • Sl. viku: 4233
  • Frá upphafi: 2449931

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 3944
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband