Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2019

Er þetta virkilega svona

Fyrir nokkru var skýrt frá því að bankastjóri Landsbankans hefði fengið ríflega launahækkun í prósentum talið. Í umræðum þann daginn varð hún óvinur þjóðarinnar og forsætis- og fjármálaráðherra sem og stjórnarformaður Bankasýslu ríkisins gerðu harkalegar athugasemdir við þessar launahækkanir. 

Landsbankinn og Íslandsbanki eru í eigu ríkisins nánast að öllu leyti og ríkið sem helsti hluthafinn eða eini hluthafinn mætir á aðalfundi hlutafélaganna sem reka bankann, kjósa bankaráðsfólk og samþykkja starfskjarastefnu fyrirtækisins fyrir næsta starfsár. Í hlutafélagalögum er mælt fyrir um það í grein 79 a með hvaða hætti og hvernig starfskjarastefna fyrirtækisins skuli vera næsta ár. 

Í ljós kom að bankastjóri Landsbankans er lægst launaði bankastjórinn af stóru viðskiptabönkunum þrem og fyrir lá mótuð starfskjarastefna samþykkt af ríkinu að hækka laun bankastjóra Landsbankans. Þegar það er skoðað þá er með ólíkindum að viðbrögð forsætis- og fjármálaráðherra skuli hafa verið með þeim hætti og þau voru hvað þá stjórnarformanns Bankasýslu ríkisins. 

Stóru spurningarnar sem krefjast svara í sambandi við viðbrögð ráðherranna og stjórnarformannsins eru þessar: Fylgist þetta fólk ekki með því sem gerist á aðalfundum stærstu fyrirtækja ríkisins og hvaða starfskjarastefna er mótuð? Eru viðbrögð þessa fólks bara látalæti til að slá ryki í augu almennings?


Vörn fyrir vondan málstað

Árið 1998 var sósíalistinn Hugo Chavez kosinn forseti Venesúela. Hann lofaði félagslegum umbótum og sósíalisma og ríkisvæðingu olíuframleiðslunnar. Chavez lagði mikla peninga í allskyns félagsleg verkefni og kom á sósíalísku hagkerfi, sem hafði það m.a. í för með sér, að framleiðsla á ýmsum nauðsynjavörum eins og t.d. klósettpappír varð út undan.

Ýmsir stjórnmálamenn á Vesturlöndum lýstu yfir ánægju með stjórnarhætti sósíalista í Venesúela þ.á.m. leiðtogi breska Verkamannaflokksins,sem sagði að Chavez hefði sýnt að þeir fátæku skipti máli og hægt væri að dreifa olíuauðnum. Hann hringdi síðan í Maduro árið 2014 og óskaði honum til hamingju með kosningasigur í kosningum, sem voru varla annað en nafnið tómt. Enn ein sönnun þess, að sósíalistum er ekki sérstaklega annt um lýðræðið. Þeir vilja sósíalisma hvað sem það kostar.

Nú þegar Maduro eftirmaðu Chavez þarf að þola afleiðingar sameiginlegrar stjórnarstefnu þeirra, hafa 3 milljónir manna flutst úr landi, óðaverðbólga er viðvarandi, skortur er á nauðsynjavörum þ.á.m. lyfjum og það er hungursneyð í landinu.

Þegar á það er bent, að þessar manngerðu hörmungar Venesúelabúa séu enn ein sönnun þess, að sósíalismi gangi ekki og leiði alltaf til fátæktar,vöruskorts, hungursneyðar og ógnarstjórnar, færa sósíalistar á Vesturlöndum, sem hafa margir hverjir dásamað stjórnarhætti í Venesúela fram þá vörn, að þetta sé allt Bandaríkjunum að kenna. Það er rangt.

Venesúela sýnir hættuna af róttækum sósíalisma. Þegar Chavez var kosinn forseti var Venesúela ríkasta land Suður Ameríku og lífskjör þar best. Nú hefur efnahagskerfið undir stjórn sósíalistanna dregist saman um helming. Kreppan í Venesúela byrjaði upp úr 2010, en fyrstu þvinganir sem Bandaríkin settu á landið, sem máli skipti komu árið 2017. Þá þegar var hungursneyð í landinu, fólk flúði land vegna vondra lífskjara og framleiðsla í landinu þ.á.m.í olíuiðnaðinum hafði minnkað um helming. Bandaríkjunum verður því ekki um kennt heldur eingöngu sósíalískri stefnu stjórnvalda. Sósíalistastjórnin getur ekki heldur kennt um lækkun á olíuverði. Framleiðsla olíu í landinu er nú helmingi minni vegna óstjórnar, en þegar Chavez komst til valda.

Saga Marxismans og sósíalismans er eins hvar svo sem slíkir stjórnarhættir hafa verið reyndir. Byrjað er á að slátra gæsinni sem verpir gulleggjunum þ.e.frjálsu framtaki og síðan hefst þjófnaður sem klæddur er í spariföt þjóðfélagslegs réttlætis. Afleiðingin er alltaf sú sama. Gjaldþrot, ógnarstjórn og verri lífskjör. Í Venesúela hafa þeir fátækari orðið fátækari, miðstéttin er nánast horfin og meiriháttar kúgun er til staðar.

Nú hafa nágrannaríki Venesúela sem og Bandaríkin, Kanada,Bretland og fleiri knúið á um að kosningar fari fram í landinu þar sem verk sósíalista verði lögð undir dóm kjósenda. Afskipti erlendra ríkja hafa enn sem komið er ekki verið meiri. Þó vísbendingar séu uppi um uppgjöf Maduro,þá er það ekki með öllu ljóst. Enn færa sósíalistar víða um heim m.a. hér á landi fram allar þær varnir sem þeim detta í hug fyrir ónýtt stjórnkerfi sósíalismans, en engin þeirra stenst. Þetta er einfaldlega dómur raunveruleikans yfir fáránleika sósíalismans.

Fari svo að rödd skynseminnar nái að nýju til þeirra sem stjórna Venesúela þá verða þær þjóðir sem nú knýja á um lýðræði í landinu, að vera tilbúnar til að rétta þjóðarbúið í Venesúela af og koma því aftur á þann rekspöl að frjálst framtak geti að nýju byggt upp auð, velsæld og gróskumikið þjóðfélag, en til að það geti orðið verður til að byrja með að tryggja landinu verulega efnahagsaðstoð eins og Evrópa naut frá Bandaríkjunum eftir lok síðari heimstyrjaldar.

(Heimildir m.a. úr Daily Telgraph og skýringum frá stjórnum ríkja sem hafa knúið á um lýðræðisumbætur í Venesúlea)


Sérstakur staður í helvíti

Bretar sögðu Þjóðverjum stríð á hendur árið 1939 þegar Þjóðverjar réðust inn í Pólland. Bretar höfðu ábyrgst landamæri og sjálfstæði Póllands og stóðu við það þegar á þá var ráðist.

Nú 73 árum síðar segir Pólverjinn, Donald Tusk forseti Evrópuráðsins, sem situr í samninganefnd Evrópusambandsins vegna útgöngu Breta úr Evrópusambandinu, að það sé "sérstakur staður í helvíti" fyrir þá sem börðust fyrir útgöngu Breta úr sambandinu. 

Nokkru síðar sagði Guy Verhofstadt þingmaður á Evrópuþinginu fyrir Belgíu og í samninganefndinni, að jafnvel Lucifer (skrattinn) myndi ekki bjóða þá sem styddu Brexit velkomna, vegna þess að eftir það sem þeir gerðu Bretlandi, þá gætu þeir jafnvel komið því til leiðar að valda sundrungu í helvíti. 

Yfirlýsingar pólska forseta Evrópuráðsins og belgíska þingmanns Evrópuþingsins og sitja í samninganefnd um útgöngu Breta úr Evrópusambandinu, voru gefnar degi áður en þessir herramenn hitta Theresu May. Þetta eru kaldar kveðjur áður en sest er að samningaborði og sýnir vel þann hroka og trúarsannfæringu sem þessir geirnegldu Evrópusinnar eru haldnir. 

Theresa May var spurð hvort ummæli Tusk mundi skapa jákvætt andrúmsloft á samningafundinum og því var svarað, að það væri undir Tusk komið hvort hann teldi svona ummæli vera til hjálpar. 

Óneitanlega sýna ummæli samningamanna Evrópusambandsins við Breta og helstu ráðamanna sambandsins inn í hæstu hæðir trúarsannfæringar og valdahroka, sem er fáheyrður í dag, en er meira í ætt við yfirlýsingar sigurvegara í styrjöldum á fyrri öldum. Ummælin sýna, að ráðamenn Evrópusambandsins ætla sér hvað sem það kostar, að fjötra Breta í viðjum Evrópusambandsins í trássi við vilja meirihluta kjósenda bresku þjóðarinnar. 

Að þessu virtu er það með ólíkindum, að stjórnmálaflokkurinn Viðreisn skuli hafa verið stofnaður til þess eins að berjast fyrir því, að setja þær viðjar á íslensku þjóðina, sem bretar eru nú í óða önn að varpa af sér og gengur illa. Hvernig mundi smáþjóð farnast í viðskiptum við þessa herramenn? 

Þó svo að margir hafi rennt hýru auga á tímabili til Evrópusambandsins m.a. sá sem þetta ritar, þá er nú ljóst, að aðild að bandalaginu felur í sér nánast algjört afsal fullveldis og stórs hluta sjálfstæðis íslensku þjóðarinnar. 

Þess vegna er það skylda allra þjóðhollra íslendinga að endurmeta stöðuna gagnvart Evrópusambandinu. Vilji Samfylkingin og Viðreisn vera í þeim hópi, þá verða þessir stjórnmálaflokkar að lýsa því yfir að aðild að bandalaginu sé ekki valkostur fyrir Ísland að óbreyttu. 


Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.12.): 22
  • Sl. sólarhring: 432
  • Sl. viku: 4238
  • Frá upphafi: 2449936

Annað

  • Innlit í dag: 20
  • Innlit sl. viku: 3949
  • Gestir í dag: 20
  • IP-tölur í dag: 20

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband