Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2021

Á gröf hins látna blikar bensíntunna

Eitt af höfuðskáldum 20.aldar Steinn Steinar orti á sínum tíma um andlát Kommúnistaflokks Íslands, þegar Sameiningarflokkur alþýðu, Sósíalistaflokkurinn var stofnaður. Kvæðið hét Kommúnistaflokkur Íslands, in memoriam. Í lokahendingum kvæðisins segir:

"En orðstír hans mun lifa um ár og aldir

 þó allt hans starf sé löngu fyrir bí. 

 Á gröf hins látna blikar bensíntunna

 Frá British Petroleum Company"

Skáldinu fannst sínir gömlu félagar vera komnir í bland við hin kapítalísku tröll með því að samsama sig með Sósíalistaflokknum. 

Í gær fór Katrín Jakobsdóttir formaður VG í æðsta musteri kapítalískra pappírsbaróna, Kauphöllina til að hringja bjöllu til að opna fyrir það veðmang og lotterí kauphallarfursta, sem framleiðendakapítalistar hafa á stundum haft illar bifur á sbr. þá Thomas Alva Edison og Henry Ford, sem vildu með störfum sínum og uppfinningum leggja grunn að bættum lífskjörum hins vinnandi manns. En þeir gátu aldrei séð að kauphallarbrask gæti orðið til þess.

Varla er hægt að komast lengra frá sósíalískri hugsun en samsama sig með hugmyndafræði pappírsbarónanna eins og Katrín gerði í gær. Raunar verður að segja það pappírs- og lotterískapítalistunum á Nasdaq, það til hróss, að þeim tókst að selja alþjóðakvennahreyfingu og sumum stjórnmálamönnum þ.á.m. Katrínu, að bjölluhringing framákvenna til að opna fyrir viðskipti í hámusteri pappírskapítalismans einn dag á ári,  hefði eitthvað með kynjajafnrétti að gera.  

Upphaf kvæðis Steins Steinars gætu því sanntrúaðir sósíalistar nú kyrjað um útför sósíalískrar hugmyndafræði Vinstri grænna, sem er þó í sjálfu sér Guðsþakkarvert þar sem þeir hafa nú fundið hið Kapítalíska leiðarljós.

"Sic transit gloria mundi(Þannig fer um dýrð heimsins) mætti segja"

sagði Steinn Steinar í kvæði sínu um hugmyndafræðilegt andlát Kommúnistaflokks Íslands. Spurning er hvort það sama á ekki við um VG í dag.

 

 


Mitt er þitt

Ríkissjóður er rekinn með meir en milljarðs halla á sólarhring. Þannig gengur það ekki endalaust. Fyrr en síðar lendum við í ógöngum.

Einn af þeim sem skilur ekki samhengi á milli tekna og útgjalda ríkissjóðs er félagsmálaráðherrann Ásmundur Einar Daðason. Nýverið ákvað hann, að erlendir velferðarfarþegar, sem heita á fínu máli umsækjendur um alþjóðlega vernd skyldu fá sömu þjónustu og svonefndir kvótaflóttamenn.

Að sjálfsögðu er reginmunur á kvótaflóttamönnum,sem ríkisstjórn ákveður að taka inn í landið, vegna báginda sinna og hlaupastráka, sem leita uppi hagkvæmasta landið í Evrópu þar sem viðgjörningurinn er bestur og margir hafa þeir farið yfir mörg lönd Evrópu áður en þeir ákveða að reyna að koma sér inn hér á þeim vafasömu forsendum sem þeir jafnan byggja á.

Velferðarfarþegarnir eru venjulegast með nýjustu og dýrusta farsíma, en svo merkilega vill til að þeir hafa týnt öllum sínum persónulegu gögnum þ.á.m. vegabréfi og því upphefst dýr málarekstur á kostnað skattgreiðenda og á þeim tíma hefur félagsmálaráðherra ákveðið að þeir skulu hafa betri kjör en þeir Íslendingar sem lakast eru settir. 

Nú á að verðlauna þessa ólöglegu innflytjendur með því að útvega þeim sama viðgjörning og kvótaflóttamenn sem leiðir til verulegs útgjaldaauka ríkissjóðs. 

Af hverju er félagsmálaráðherra svona heillum horfinn, að hann telji rétt að verðlauna þessa svonefndu hælisleitendur með því að bjóða þeim upp á betri kjör en Íslendingum sem eru í fjárhagsvanda? 

Félagsmálaráðherra þykir greinilega mikilvægt að ólöglegu innflytjendurnir fái hér betri viðgjörning á kostnað skattgreiðenda úr galtómum ríkissjóði, en hann er tilbúinn til að bjóða þeim sem hafa íslenskan ríkisborgararétt. 

Ásmundur Einar telur þetta greinilega til vinsælda fallið. En er ekki rétt að íslenskir kjósendur sýni honum svörtu á hvítu í næstu kosningum að svona óráðssíufólk eins og hann eiga ekkert erindi í íslenska pólitík lengur. 

 


Sveltur sitjandi kráka.

Meðan heibrigðis- og forsætisráðherrar stöðugt fleiri Evrópuríkja sjá, að ekki er hægt að treysta yfirstjórn Evrópusambandsins til að tryggja aðgang að Covid bóluefnum aðhafast þær Katrín Jakobsdóttir og Svandís Svavarsdóttir ekki neitt og reyna að telja landsmönnum trú um það að best sé að láta Evrópusambandið um lyfjakaup fyrir íslensku þjóðina.

Nú síðast tilkynntu forsætisráðherrar Austurríkis og Danmerkur að þeir mundu leita eigin leiða til að tryggja sínu fólki Covid bóluefni sem allra fyrst. Áður höfðu Pólverjar, Slóvakar, Tékkar og Ungverjar haldið hver í sína sérleið. Ungverjar viðurkenna Sputnik V frá Rússlandi og ætla að kaupa það og það sama á við um Tékka og Slóvaka auk þess sem þessi ríki öll hafa leitað eftir að kaupa kínverkst bóluefni. 

Í sjálfu sér er eðlilegt að þjóðir Evrópu bregðist við með þessum hætti þegar í ljós kemur að Evrópusambandið er vanhæft til að tryggja eðlilegt framboð á bóluefni til jafns við ýmsar aðrar þjóðir. Þannig hafa Bretar nú tryggt bóluefni fyrir 32% þjóðarinnar en Evrópusambandið einungis tryggt bóluefni fyrir 7.54% íbúa sambandsins. 

Ríkisstjórnir gömlu Austur-Evrópu telja sig ekki eins bundnar af innkaupastefnu Evrópusambandsins og nú feta Austurríkismenn og Danir sama veg. En hér á Íslandi telja forsætis- og heilbrigðisráðherra sig meira bundnar Evrópusambandinu en mörg ríki sambandsins. Auk þess hafa þær engin önnur úrræði. 

Var íslenski heilbrigðisráðherran virkilega svo heillum horfin, að hún hafi talið, að vandinn yrði leystur með því að Ísland yrði tilraunaverkefni Pfizer lyfjarisans og þegar það brást, að þá hafi engin varaáætlun verið í gangi?

Sums staðar mundu ráðherrar þurfa að taka pokann sinn fyrir slíka vanrækslu. 


« Fyrri síða

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 292
  • Sl. sólarhring: 728
  • Sl. viku: 4113
  • Frá upphafi: 2427913

Annað

  • Innlit í dag: 268
  • Innlit sl. viku: 3804
  • Gestir í dag: 260
  • IP-tölur í dag: 249

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband