Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2023

Það er ljótt að hræða börn og unglinga.

Fleiri og fleiri átta sig á,að tími óábyrgs hjals og upphrópana um hamfarahlýnun vegna loftslagsbreytinga er hættulegur. Þessvegna nálgast nokkrir fjölmiðlar málið nú af mun meiri skynsemi og hlutlægni en verið hefur. Það mátti t.d. glögglega sjá af leiðara breska stórblaðsins Daily Telegraph þ. 21. maí s.l., en ólíklegt er að blaðið hefði leyft slík leiðaraskrif fyrir einu hvað þá heldur tveim árum. Í lauslegri þýðingu minni segir leiðarahöfundur DT þetta: 

"Fyrir 80 árum þegar kjarnorkuvopn voru raunveruleiki þurftu börn að standa andspænis þeim veruleika, að möguleiki gæti verið á skyndilegum heimsenda. Börnum var kennt hvernig þau ættu að bregðast við ef að þriðja heimstyrjöldin mundi brjótast út. Nú er börnum kennt að loftslagsbreytingar séu álíka hættulegar og geti valdið heimsendi.

Eðlilega eru margir í öngum sínum af hræðslu. Þeir sem standa fyrir þessum hræðsluáróðri bera gríðarlega ábyrgð. Ef fjöldi jafnvel meirihluti unglinga heldur, að það verði heimsendir á þeirra æviskeiði vegna loftslagsbreytinga, þá eru þeir ekki að fá hlutlæga fræðslu.

Afleiðingar af einhliða eða rangri upplýsingagjöf um hnattræna hlýnun valda því að margir eiga við sálræn vandamál að stríða, aðrir vilja ekki eiga börn til að koma í veg fyrir offjölgun þrátt fyrir að fæðingartíðini þróuðu ríkjunum sé mjög lág.

Einhliða áróður um hamfarahlýnun og skortur á því að fræða fólk um að vísindamenn hafa mjög mismunandi viðhorf til hnattrænnar hlýnunar m.a. hvað varðar hraða og hækkun hitastigs leiðir til ótta. Svona ótti og vonleysi er órökrétt og fráleit, þegar litið er til hæfni mannkynsins til aðlögunar og nýrra uppgötvana, sem leiða til jákvæðra breytinga og bættra lífskjara.

Því miður hafa stjórnmálamenn ekki nálgast málið út frá þessum sjónarmiðum og halda sig fast við að ná kolefnisjafnvægi árið 2050. Á sama tíma er ekki gert nógu mikið til að tryggja að það sé næg orka frá öðrum orkugjöfum. Þegar sólin skín ekki og vindurinn blæs ekki er ekki neina orku að fá frá vindmyllum eða sólarsellum. Mikið af svokölluðum árangri varðandi orkuskipti hafa náðst vegna gríðarlegra styrkja og hafa hafa hækkað orkuverð mun meira en það hefði annars verið.

Vandi umhverfisstefnunnar felst m.a. í því að það er verið að setja sér óraunhæf markmið.

Það ætti að kenna börnum að horfa til framtíðarinnar vongóð um, að þau geti umfaðmað möguleika framtíðarinnar án ótta við þær áskoranir sem eru framundan. Það er ábyrg afstaða, en að ala á ótta um að framtíð þeirra sé líf í fátækt, sem sé eina ábyrga afstaðan er fánýtt hjal, rangt og hættulegt. Það á ekki að leyfa heimsendaspámönnum að nota skólastofurnar fyrir einhliða og rangan áróður af því tagi."


Glórulaus áróður og viðbrögð við loftslagskvíða.

Áróðursþáttur frá BBC var sýndur í sjónvarpinu í kvöld. Þetta rifjaði upp fyrir mér skrif Fraser Nelson um viðbrögð við loftslagskvíða.

Fraser sagðist hafa fengið tölvupóst frá bæjarfélaginu þar sem boðið var upp á námskeið fyrir fólk með loftslagskvíða. Loftslagssálfræðingur (hvað svo sem það nú er) hefði stjórnað hópnum og spurt fólk um líðanina. Svörin voru:hræddur,sakbitinn hjálparvana,reiður. Stjórnandinn sagði það eðlilegt, en fólk ætti að halda sér frá umræðum um loftslagsmál.

Það er hægara sagt en gert. Endalaus áróður er í sjónvarpi. Lloftslagsáróður er kennsluefni í skólum. Dálkahöfundurinn vísaði til loftslagsáróðursþáttarins sem sýndur var í sjónvarpinu í gærkvöld og þess neikvæða áróðurs sem þar var. Stjórnmálamenn, fjölmiðlar og „vísindamenn“ sem lifa á því að halda fram að það sé banvæn loftslagshlýnun hamast við að yfirbjóða hvern annan og mála hlutina stöðugt dekkri litum.

Afleiðingin af þessu ofstæki er að koma í ljós. Sumir eru dauðhræddir einkum börn og unglingar. Fólk neitar sér jafnvel um að eiga börn. Samt er ekkert merkilegt að gerast nema á teikniborði þeirra sem vilja bara skoða neikvæðar fréttir.

En skattlagning á almenning og afleiðingarnar af „grænu stefnunni“ sem felst aðallega í að styrkja ákveðin fyrirtæki og millifæra peninga frá skattgreiðendum til ákveðinna framleiðenda er aftur á móti að koma í ljós og fleirum og fleirum ofbýður þrátt fyrir allan áróðurinn og átta sig á að þetta er komið allt of langt.

Hollenskir bændur hafa orðið illilega fyrir barðinu á þessum trúarbrögðum og mótmæla kröftuglega. Sænski umhverfisráðherrann er í rólegheitum að útvatna grænu lögin sem hún tók í arf frá sósíalistunum og Emanuel Macron er í vandræðum heima fyrir þar sem gulvestungarnir neituðu að taka meiri hækkunum á orkuverði og hófu mótmælaaðgerðir og hafa krafist þess að Evrópusambandið hætti þessu og segja það sé þegar nóg komið. Þýskaland skrifaði upp á að bensínbílar yrðu bannaðir frá árinu 2035, en er nú á móti þeirri hugmynd.

Þegar loftslagspólitíkin fór á flug í Evrópu, þá var aldrei spurt hvað kostar þetta. Hverju náum við fram. Þýski flutningamálaráðherrann leyfði sér meira að segja að spyrja um daginn. „Hvaða skynsemi er í því að kaupa rafmagnsbíl ef rafmagnið er framleitt með því að brenna kolum“?

En það er aldrei minnst á jákvæðu hliðarnar sem eru að gerast á henni jörð. Jörðin hefur aldrei verið grænni og dauðsföllum tengdum loftslagi hefur fækkað um 90% á einni öld.  Ástæðan er einföld ríkar þjóðir eiga betra með að takast á við náttúruvá.

Með því að veikja efnahagslegar undirstöður Vesturlanda má búast við að hættan aukist frá því sem nú er í stað þess að það dragi úr henni. 

En það er ekki beint búin að vera hamfarahlýnun á Íslandi síðustu misserin og það eru engar stórkostlegar breytingar á veðurfari eða loftslagi umfram það sem gerist og gerst hefur í sögu jarðarinnar. Við erum frekar svo heppin að búa við meiri stöðugleika en iðulega hefur verið fyrir hendi - og þá þarf að skattleggja það að fólki líður vel og hræða það.


Er kominn tími á mið-vinstri stjórn í landinu?

Viðtal við Kristrúnu Flosadóttur í Morgunblaðinu í dag er um margt athyglisvert. Svo virðist sem Kristrún sé ekki haldinn þeim vinstri derringi og dreissugheitum, sem hefur einkennt flestar flokkssystur hennar enda fékk hún pólitískt uppeldi annarsstaðar en þær. 

Kristrún leggur málin fram með jákvæðum hætti og vísar til að Samfylkingin sé hluti alþjóðlegrar hreyfingar sósíaldemókrata. Ég vona að hún sé með því m.a. að vísa til stefnu danskra sósíaldemókrata í hælisleitendamálum. Þeir nálgast þau mál af skynsemi, andstætt þeirri ómálefnalegu og þjóðfjandsamlegu umræðu sem einkennt hefur afstöðu Samfylkingarinnar til þeirra mála.

Þá er athyglisvert, að Kristrún útilokar ekki stjórnarsamvinnu við neinn flokk, en segir að mikilvægt sé að ná þeim styrk, að Samfylkingin þurfi ekki á Sjálfstæðisflokknum að halda. M.ö.o. þá þýðir það að hún hugsi að líklegasta stjórnarsamvinnan verði með Samfylkingu og Sjálfstæðisflokki nema verulegar breytingar verði á fylgi flokkana. 

Þó Kristrún sé almennt jákvæð og athyglisverður stjórnmálamaður, þá kom það óþægilega á óvart, að hún sér að það geti helst orðið til varnar vorum sóma, að auka skattlagningu á borgarana. 

Í viðtalinu segir hún orðrétt: "Það þarf að byrja á fjármálaráðuneytinu og endurskoða tekjuhliðina því stór ástæða þess að við erum með halla á ríkissjóði er ekki bara útgjaldavandi heldur tekjuvandi."

Kristrún er því ekki stjórnmálamaður, sem boðar aðhald og sparnað þrátt fyrir að bruðlið og óhófið blasi við hvar sem litið er í ríkisbúskapnum. Hennar lausn eins og annarra sósíaldemókrata því miður er að leggja auknar byrðar á skattgreiðendur. 

Því miður kveður því ekki við nýjan og ferskan tón hjá Kristrúnu hvað þetta varðar heldur samsamar hún sig rækilega með sitjandi stjórnmálaelítu, sem hefur aukið útgjöld ríkissjóðs svo gríðarlega á undanförnum árum, að ekki verður séð hvernig á að leysa vandann sem við blasir nema með markvissum niðurskurði útgjalda. 

En niðurskurður útgjalda ríkis og sveitarfélaga hefur aldrei verið atriði sem sósíaldemókratar hafa í langri sögu sinni haft áhyggjur af. Því miður virðist sem Sjálfstæðisflokkurinn sé fyrir nokkru kominn í sömu vegferð og sósíalistarnir. 

Vandinn er sá að núna er ekkert pólitískt afl í landinu sem berst fyrir aðhaldi og sparnaði. Það kann ekki góðri lukku að stýra. 

Ég hafði vonað að nýr formaður Samfylkingarinnar hefði einmitt boðað afturhvarf frá eyðslustefnunni sem bitnar alltaf á endanum á þeim sem minnst hafa fyrir sig að leggja. 

 


Life of Brian og mannréttindi

Kvikmyndin "The life of Brian" var gerð fyrir 44 árum. Myndin var af mörgum talin guðlast m.a. kaþólsku kirkjunni á Írlandi. Þó Monthy Python grínleikararnir sem gerðu myndina hafi iðulega farið á tæpasta vað, þá er kvikmyndin tær snilld. Svona kvikmynd væri ekki hægt að gera í dag vegna hugmyndafræðinnar um rétt fólks til að móðgast. Einna fremst í þeim flokki fer transhugmyndafræðin.

John Cleese helsti forstöðumaður Monthy Python hópsins og einn höfuðleikari myndarinnar Life of Brian, segir að hann hafi fengið aðvaranir og kröfur um breytingar vegna nýju hugmyndafræðinnar um "kynlast" að taka út atriði um mann sem vill vera kona og eiga börn. Hann segist ekki skilja þetta, þar sem þetta hafi þótt gott grín í meira en 40 ár. 

Í kvikmyndinni er fundur hjá baráttuhópnum "The Peoples Front of Judea". Naður nefndur Stan, segist vilja vera kona og það eigi að kalla sig "Loretta"  og hann vilji eiga börn. Cleese sem leikur Reg segir, að það sé ómögulegt af því að hann hafi ekki móðurlíf. En Stan/Loretta segir að það sé réttur hvers einstaklings, sem vill, að eiga börn.Reg ítrekar að viðkomandi hafi ekki móðurlíf, en að "The People’s Front" ákveður að berjast fyrir rétti Stan/Lorettu til að eiga börn, þar sem það sé táknrænt fyrir baráttu gegn kúgun.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Reykjavíkurborgar ákvað að verða þáttakandi í þessari kómedíu með því að færa hópnum "Trans Ísland" mannréttindaverðlaun Reykjavíkur árið 2023.

Hópurinn tekur þá væntanlega upp þar sem frá var horfið af "The Peoples Front of Judea",réttindabaráttu Lorettu fyrir því að eignast börn,  þó hún hafi ekkert móðurlíf, þar sem það er barátta gegn kúgunaröflunum í þjóðfélaginu og réttur hvers einstaklings að eiga börn. 


Gleðileikur innihaldsleysisins.

Leiðtogafundi Evrópuráðsins er lokið. Allir eru sammála um að umbúnaður fundarins, öryggisgæsla og framkvæmd hafi verið frábær. Við eigum því hrós skilið. Jákvæður árangur af fundinum er fyrst og fremst, að það var fjölgað í lögreglunni og hún fékk þjálfun og tæki,sem á hefur skort í langan tíma.

Fundir sem þessir eru athyglisverðir einkum fyrir þá sök, að þeir sem taka til máls eru sammála síðasta ræðumanni og reyna að yfirbjóða hann í orðfæri og framsetningu. Megintemað Rússar eru vondir komst vel til skila.

Niðurrigndir fulltrúar með kalda sultardropa í nefinu komnir inn í Hörpu úr norðannepjunni töluðu um ógnir af loftslagshlýnun, sem er álíka raunveruleg og Grýla og Gilitrutt í hugum ungbarna á árum áður.

Utanríkisráðherra meinaði breska forsætisráðherranum að taka á dagskrá, raunveruleg vandamál þ.e. Innflytjendamálin og vandamál vegna furðulegra dóma Mannréttindadómstóls Evrópu. Sagt er að honum hafi verið svo misboðið að hann lét sig hverfa þegar hann hafði gætt sér á lambalærinu og fúlsaði við skyrinu sem sletta átti í hann í eftirrétt.

Í sjálfu sér var eðlilegt að utanríkisráðherra meinaði Rishi Sunnak forsætisráðherra Breta, að tala um eitthvað sem gæti eyðilagt þann guðdómlega gleðileik innihaldsleysisins, sem fram fór í Hörpu sl. þriðjudag og miðvikudag.

Ef til vill vantaði mann eins og listmálarann Jóhannes Sveinsson Kjarval til að greina mikilleik ráðstefnu eins og þeirri sem fram fór í Hörpu. Hann var fyrir löngu á fundi í Félagi íslenskra myndlistarmanna og fannst lítill árangur af fundarstörfum og tók því til máls og sagði:

"Heiðruðu félagar. Áður en ég kom á fundinn var ég að lesa í Vísi og rakst þar á auglýsingu um að grár köttur hefði tapast. Eins og þið finnið þá er frost og nepja, svo að veslings kötturinn getur haft illt af. Nú er það svo, að félag þetta hefur fátt unnið sér til fræðgar eða ágætis, þá legg ég til að við slítum fundinum nú þegar og förum að leita að kettinum. Það er ekki víst að við finnum köttinn, en það verður þó líklega fjallað um þetta framtak í blöðunum."


Barátta fyrir aukinni fátækt og fækkun valkosta.

Hvað varð um baráttu stjórnmálamanna fyrir bættum lífskjörum fólks. Af hverju hafa t.d. sósíalistar snúið við blaðinu í þessum efnum ef undan eru skilin vígorð þ.1.maí. Sósíalistar ásamt og umfram flesta stjórnmálamenn á Vesturlöndum berjast nú hatrammri baráttu fyrir að gera fólk fátækara, fækka valkostum og tækifærum. Allt á grundvelli pólitísku veðurfræðinnar um kolefnisjöfnuð. 

Róttækt vinstra fólk í VG og Samfylkingunni segir í öðru orðinu að vinnandi fólk fái of lítil laun, en á sama tíma berjast þau gegn því að verkalýður og neytendur geti notið lífsgæða, sem fram að þessu hafa verið talin sjálfsögð og segja að fólk geti veitt sér of mikið og þessvegna verði að leggja sérstaka skatta á lífsgæði sem hingað til hafa verið talin sjálfsögð.

Því miður er Sjálfstæðisflokkurinn heltekinn af þessum ruglanda í stað þess að standa fast á þeim grundvallarskoðunum sínum, að fólk beri sem mest úr bítum fyrir vinnu sína og geti ráðstafað sem mestu af launum sínum án þess að kreppt sé að því með ofurskattheimtu eða neyslustýringu.

Barátta vinstri manna gegn því að fólk geti notið lífsgæða og því verði kaldara vegna hækkunar á orkuverði og geti ekki farið til heitari landa þegar norðangarrinn hamast á hurðum,gluggum og veggjum í hamfarahlýnuninni er ótrúleg og gjörsamlega fráleit. Almenningur á að finna afsökun eða þola refsingu, fyrir að hita heimili sín, kaupa bensín á bílinn hvað þá að fara í flugferðir.

Á sama tíma og meginhluti stjórnmálaelítunnar berst fyrir minni lífsþægindum borgaranna, þá er bent á einhverja draumaveröld orkuskipta, þar sem öll óleysanleg vandamál verða leyst. Þetta er gert jafnvel þó að allt hugsandi fólk viti að hagkvæmir kolefnissnauðir orkugjafar verða ekki til á næstu áraum eða áratugum. 

Það er lyginni líkast að stjórnmálastéttin og fréttaelítan skuli hafa snúist gegn eigin þjóðfélögum velmegun og framleiðslu. Nú skal framleiðsla eyðilögð vegna þess að hún er ekki nógu vistvæn og helst ber líka að senda nútíma landbúnað sömu leiðina.

Stjórnmálastéttin hfur gert og er að gera mikil mistök með því að brjóta niður og setja í höft framtak, framsýni og dugnað fólksins á þeim forsendum að það sé allt af hinu illa þrátt fyrir að einmitt þeir hlutir hafi orðið til þess að stuðla að aukinni velmegun og jafnari tekjuskiptingu í landinu. Já og draga úr mengun.

Athyglisvert, en kemur í sjálfu sér ekki á óvart, að nú eru það stjórnmálamenn sem sagðir eru yst til hægri á vettvangi stjórnmálanna, sem berjast fyrir auknum jöfnuði í samfélaginu, aukinni velmegun almennings, frelsi fólks til orðs og athafna og fjölbreyttu gróskumiklu atvinnu- og þjóðlífi? 


Dagur dúkkulísunar og miðaldahugsunarinnar.

Á morgun verður hátíðisdagur í Bretlandi þegar Karl 3 verður krýndur konungur í Bretaveldi með öllu því miðalda umstangi sem fylgir slíkri viðhöfn og gjörhugulli athygli  royalista og annarra um allan heim, sem hafa gaman af að sjá glitta í ytra borð heims dúkkulísanna.

Allar eru þessar dúkkulísur í konungsfjölskyldu Bretlands orðum prýddar og þau öll óverðug þeirra titla, en það er í samræmi við kveðskap mörlandans hér uppi á Íslandi sem orti um orður og titla sem úrelt þing, sem notaðist helst sem uppfylling í eyður verðleikanna. 

Á 18.öld skrifaði baráttumaðurinn Thomas Paine ritgerðina "common sense", sem fjallar um það hversu fáránlegt það sé að hafa konungsveldi, þar sem byggt er á þeirri hugsun, að konungar séu öðruvísi fólk og betur af Guði gert og æðra en venjulegt fólk. Konungar séu fæddir til að stjórna skv. ákvörðun Guðs almáttugs. Ætla hefði mátt, að lýðræðisríki, sem byggja á jafnræði og jafnstöðu borgaranna mundu afnema þessa miðaldahefð, sem byggist á enn fornari hugmyndafræði um sérstaka hæfileika konungsborins fólks til að skipa almúganum til verka eða þýum sínum.

Thomas Paine er talinn eiga bróðurpart í sjálfstæðisyfirlýsingu Bandaríkjanna,sem Thomas Jefferson færði í letur, en þar eru m.a. tekið orðrétt ýmislegt, sem Paine skrifaði í bók sína "The rights of man".

Lýðveldi er ríki, sem hafnar miðaldahugsuninni um að konungar séu öðrum æðri og viti allt best. "Vér einir vitum" var og hefur verið vígorð arfakónga í gegnum tíðina og þá hugsun fékk Karl þriðji í arf með móðurmjólkinni, svo sem forverar hans. 

Á sama tíma og konungssinnar og aðrir sem hafa gaman að sjá dúkkulísur upp á sitt besta, fagna krýningu hins nýja, gamla konungs, kemur samt fram í skoðanakönnunum, að um helmingur þegna konungsins vill losna við konungsdæmið og afgerandi meirihluti ungs fólks vill það burt sem allra fyrst. 

Vonandi kemur sá tími, að lýðræðissinnar varpi þeirri hugmynd fyrir róða, að sumir séu valdir til þess af Guði að stjórna öðrum af því að þeir eða þau hafi unnið sér slíkt vald með því að vera ákveðinnar ættar. Þessi konungshugsun er algerlega andstæð hugmyndafræði lýðræðisins ogfólk séu borgarar í ríkjum sínum en ekki þegnar eða þý. En áfram má síðan hafa skrúðgöngur með dúkkulísum til að gleðja fólk sem hefur gaman af slíku tilstandi, en það er þá undir þeim formerkjum að þar fari dúkkulísur en ekki fólk sem stjórni þjóðfélaginu.

Sú hugmyndafræði konungssinna er andstæð þeim fornnorrænu viðhorfum sem komu fram, þegar norrænir menn herjuðu á England á 11. öld, og sátu um borg mig minnir London. Sendimenn voru sendir á þeirra fund, sem báðu um að konungur þeirra kæmi til friðarviðræðna og því var þá svarað:

"Við höfum engan konung. Við erum allir jafnir."


Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.1.): 26
  • Sl. sólarhring: 819
  • Sl. viku: 5762
  • Frá upphafi: 2472432

Annað

  • Innlit í dag: 22
  • Innlit sl. viku: 5250
  • Gestir í dag: 21
  • IP-tölur í dag: 21

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband