Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2024

Orkuskortur og vindmyllur

Í áratugi hafa Vinstri grænir barist gegn vistvænum vatnsafslvirkjunum. Fyrrverandi formaður VG hafði ekki erindi sem erfiði þegar hann hrópaði aftur og aftur að verið væri að drekkja landinu, því hann var áhrifalaus og áfram haldið í uppbyggingu vistvænna orkuvera landi og þjóð til góðs. 

Núverandi formaður VG hefur haft meiri áhrif til ills í þessum málum, þó lítið fari fyrir henni og í tíð ríkisstjórnar hennar hafa engar nýjar vistvænar virkjanir verið reistar. Afleiðingin er orkuskortur, sem hamlar framþróun og dregur úr möguleikum landsmanna til betri lífskjara.

Afleiðingin er líka sú, að nú hafa stórgróðapungar séð sér hag í því að eyðileggja óbrenglað útsýni í landinu og reisa viðamikla vindmyllugarða. Gerð er grein fyrir því í dag með hvaða hætti meiningin er að eyðileggja óbrenglað útsýni og landslag Norðurárdals í Borgarfirði. Önnur svæði landsins munu fylgja á eftir.

Vindmyllur eru vondur og dýr kostur til orkuöflunarþ Vegna þvergirðingsháttar stjórnmálamanna,sem haldnir eru sömu firrum og VG í loftslagsmálum hafa margir slíkir risið vítt um Evrópu og iðulega valdið tímabundnum straumrofum og það sem verra er að verð á raforku til neytenda hefur hækkað gríðarlega. 

Það á ekki að leyfa VG að eyðileggja landið með þvergirðingshæatti í orkumálum og koma því til leiðar í skjóli Evrópusambands reglna að neytendur þurfi að greiða mun hærra verð fyrir orkuna en áður.

Það er óskiljanlegt hvernig Sjálfstæðisflokkurinn hefur getað hengslast í ríkisstjórn með VG og bera nú ásamt VG ábyrgð á orkuskortinum. 

Eftir að hafa verið undir pilsfaldinum hjá VG í tæpan áratug er trúverðugleiki Sjálfstæðisflokksins sem flokks frelsis, framfara og takmarkaðra ríkisafskipta ekki lengur til staðar. 

Spurningin er þá góðir Sjálfstæðismenn. Hvað má til varnar verða vorum sóma?

 


Banki allra landsmanna

Ánægjulegt að Þórdís fjármálaráðherra skuli hafa brugðist við til að reyna að koma í veg fyrir kaup "banka allra landsmanna" Landsbankans á tryggingarfélagi. Það voru hins vegar vonbrigði að hún skyldi telja það rétt, að fjármunir til kaupanna gengju í þess stað til þess að fjármagna óhófseyðslu Ríkisins. 

Af hverju ætti Landsbankinn að fjárfesta í tryggingarfélagi? Ekki getur það verið til að rekstur bankans verði betri og skilvirkari hvað þá að viðskiptavinir bankans njóti þess. 

Í stað þess að Landsbankinn reki áhættusama fjárfestingastefnu að hætti íslenskra fjármálafyrirtækja fram að Hruni,þá væri eðlilegra að ríkisbankinn einbeitti sér að þjónustu við almenning í landinu m.a. með því að stuðla að betra lána- og vaxtaumhverfi fyrir viðskiptavini sína.

Taka má undir með þeim sem hafa gagnrýnt stjórnendur Landsbankans fyrir að vanrækja eðlilegt samráðsferli við hluthafa bankans, en framganga stjórenda bankans í því efni er óafsakanleg. Að sjálfsögðu bar yfirstjórn Landsbankans að greina hluthöfum og Bankasýslu með formlegum hætti um fjárfestingu í fyrirtæki á samkeppnismarkaði upp á tæpa 30 milljarða. Það hefði verið mannsbragur af því ef Kristrún Frostadóttir hefði undirstrikað það í stað þess að vera með orðhengilshátt í Kastljósi í gærvköldi. 

Rétt væri að sú stefna yrði mótuð varðandi Landsbankann, að hann verði þjónustubanki fyrir viðskiptavini sína, en vogunarsjóðsdeild uppkaupa og sölu að hætti útrásarvíkinga árið 2007 ásamt yfirstjórn bankans yrði seld og/eða útvísað til þeirra sem vilja reka slíka starfsemi.

 

 


Fals, lygi og óboðleg vinnubrögð.

Í Mbl.í dag greinir frá röngum upplýsingum Hamas um mannfall á Gaza. Jake Wallis Simons ritstjóri ræddi þetta í blaðagrein í DT fyrir nokkru og segir sérkennilegt að alþjóðlegar fréttastofur skyldu ekki kanna málið, en taka upplýsingum frá Hamas, sem heilögum sannleika.

Hamas segir, að yfir 31.000 hafi fallið og 70% þeirra séu konur og börn. Abraham Wyner, tölfræðiprófessor við Pennsylvaníu háskóla, hefur skoðað upplýsingarnar og séð að þær standast ekki tölfræðilega. Sem dæmi nefnir hann að upplýsingar um fjölda fallinna og samsetningu þeirra (konur, börn, karlmenn) séu nánast þær sömu dag eftir dag. Skv. upplýsingunum frá 29. október, hefðu 26 karlmenn átt að lifna við skv. skýrslunum og marga daga létu bara konur lífið. Semsagt falsfréttir.

Í febrúar viðurkenndi Hamas að hafa misst 6.000 vígamenn eða um 20% þeirra sem eiga að hafa fallið. Væri sú staðhæfing rétt, að 70% þeirra sem hefðu dáið væru konur og börn, væru tveir kostir. Enginn karlmaður,sem óbreyttur borgari hefði dáið í átökunum eða að allir karlmennirnir sem hefðu fallið væru Hamas vígamenn.

Prófessor Wyner telur, að þeir sem hafa særst eða dáið í átökunum séu ekki aðallega konur og börn, heldur sé meirihluti fallinna, vígamenn Hamas.

Í Financial Times þ. 14.mars s.l. segir, að Hamas hafi haft um 40 þúsund vígamenn undir vopnum í byrjun átakanna, en um helmingur þeirra séu fallnir alls 20.000. Þegar þessar tölur eru skoðaðar þá sést að ályktanir prófessors Wyner og rannsóknir eru réttar og fjölmiðla- og stjórnmálaelítan hefur verið að hneykslast á fölskum forsendum yfir hlutum sem þessir aðilar áttu að sjá að gátu ekki staðist.

Mestur hluti fallinna eru vígamenn Hamas og hlutfall óbreyttra borgara sem hafa fallið á Gasa er lítið miðað við stríðið við ISIS t.d. í borgunum Raqqa og Aleppo. Prófessor Wyner segir að þetta bendi til að varnarsveitum Ísrael hafi tekist að koma í veg fyrir hlutfallslega hátt hlutfall óbreyttra borgara fallinna í átökum við illa sýnilega óvinahermenn(Hamas) sem skýla sér á bakvið óbreytta borgara.

Alþjóðlegar fréttastofur hafa heldur betur látið annað í veðri vaka, allt byggt á falsfréttum Hamas. Allt tal um þjóðarmorð er því della.

Þegar Hamas réðist á Ísrael 7.okt. s.l, drápu Hamas liðar eingöngu almenna borgara og misþyrmdu konum og börnum og drápu með viðbjóðslegum hætti, nauðguðu konum, drápu þær og svívirtu lík þeirra. Merkilegt að fólk á Vesturlöndum skuli afsaka slíkar gerðir um leið og það fordæmir varnarviðbrögð Ísrael, sem beinast að vígamönnum Hamas.

Hamas ætlar hinsvegar að drepa alla Gyðinga hvar sem þeir finnast. Það er yfirlýsing og vilji til þjóðarmorðs.

Í ljósi þessara staðreynda er með ólíkindum, að fjölmiðlar og stjórnmálamenn á Vesturlöndum skuli standa fyrir skefjalausum áróðri gegn Ísrael og aðgerðum þeirra til að tryggja öryggi sitt á fölskum forsendum áróðursvélar Hamas.

Það er líka dapurlegt að horfa upp á bandamenn Ísrael hvika og blakta eins og strá í vindi þegar gefur á bátinn vegna falsfrétta Hamas.

Það er síðan hryllilegt að horfa upp á að vofa Gyðingahatursins skuli enn á ný rísa í Evrópu, sporin ættu að hræða. 


140 þúsund

Ef forseti Bandaríkjanna segði, að hann og ríkisstjórn hans ætluðu að flytja 140 þúsund Gasabúa til Bandaríkjanna,mundu hans eigin flokksmenn og Repúblikanar hlutast til um það að hann yrði látinn segja af sér og koma í veg fyrir slíkt brjálæði. 

140.000 er sambærileg tala hlutfallslega miðað við fólksfjölda eins og ríkisstjórnin er að flytja til Íslands þessa daganna.

Ólíkt okkur eru Bandaríkjamenn ekki að reyna að slá öll met í vitleysu varðandi hælisleitendur. Við höfum tekið við metfjölda hælisleitenda undanfarin ár og kerfið þolir ekki meira. Þar til viðbótar bætast náttúruhamfarir í Grindavík, sem valda því, að fjöldi fólks hefur þurft að yfirgefa heimili sín og þarf á nýjum samastað að halda. 

Vitleysisgangurinn í útlendingalögunum er slíkur, að hælisleitendunum verður útvegað húsnæði, dagpeningar, læknishjálp, tannlælknishjálp, sálfræðimeðferð o.fl. o.fl. sem stendur Grindvíkingum ekki til boða. 

Víða erlendis vekur það furðu þeirra sem hafa áhuga á Íslandi, að hér skuli vera svo vitlaus ríkisstjórn, að henni skuli detta í hug að flytja inn fjölda óviðkomandi  fólks, þegar allir innviðir eru sprungnir og náttúruhamfarir bætast við. 

Það er ekki hægt að hafa ríkisstjórn sem áttar sig ekki á þeirri grunnforsendu þjóðríkisins, að ríkisstjórn ber fyrst og fremst skylda til að huga að velferð eigin þjóðar og gæta hagsmuna hennar. 


Að hafast ekki að

Allt of langlíf ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur virðist starfa eftir þeirri meginreglu, að gera ekkert nema í algjört óefni sé komið. Ekki er gætt hagsmuna skattborgarana og meðferð opinbers fjár í höndum ríkisstjórnarinnar er eins og peningar í höndum barns í sælgætisverslun. Ekki er hugað að því að tryggja þjóðinni næga vistvæna orku- og er þá fátt eitt talið. 

Verst af aðgerðarleysi og roluhætti ríkisstjórnarinnar er þó aðgerðir eða mun frekar aðgerðarleysi í málefnum útlendinga þá sérstaklega hælisleitenda. Aðgerðirnar hafa miðað að því að troða inn í landið svonefndum kvótaflóttamönnum og aðgerðarleysið birtist helst í algjöru stjórnleysi á landamærunum.

Landamærin eru galopin og þar ríkir algjört stjórnleysi. Þó svo hafi verið um langa hríð, hefur ekkert raunhæft verið gert. Margir hafa séð að nauðsynlegt væri að ganga úr Schengen strax sem einn lið í að ná stjórninni en þrátt fyrir Schengen er hægt að grípa til aðgerða til að ná stjórn á landamærunum ef stjórnvöld hafa vilja dug og þor. 

Vanrækt var að tryggja að erlent afbrotafólk verði sent tafarlaust úr landi. Stjórnvöld hafa ekki gert neinn reka að tryggja öryggi fólksins í landinu gagnvart þeim. Afleiðingin er m.a. sú, að enginn er óhultur ekki einu sinni einn æðsti maður réttargæslunnar í landinu. 

Breytingar á lögum um leiguakstur, er síðan gott dæmi þar sem vanrækt var að gæta að nauðsynlegri neytendavernd varðandi gjaldtöku og öryggi farþega. Viðskiptavinir leigubifreiðastjóra eru iðulega í viðkvæmri stöðu og því brýn nauðsyn að gæta að öryggi þeirra.  Nánast daglega má lesa í fréttum vandamál sem þessi algjöru lausatök ríkisstjórnar og Alþingis valda. 

Stefnulaus ríkisstjórn óeiningar og sundurlyndis gerir engum gagn með því að sitja nema e.t.v. þeim ráðherrum sem telja að ríkisstjórnarseta sé eitt stórt partý sem nauðsynlegast sé að standi sem lengst. 


Íran er ekki á dagskrá bara Ísrael

Árum saman hefur klerkastjórnin í Íran unnið að því að gerð verði allsherjarárás á Ísrael úr mörgum áttum og eytt hundruðum milljarða í það verkefni.

Árásarhringurinn um Ísrael, sem klerkastjórnin hefur búið til er Hesbollah í Líbanon, Hamas á Gaza, Vígasveitir m.a. íranskar í Sýrlandi og vígasveitir á svokölluðum  Vesturbakka. Árás Hamas á Ísrael 7.okt.s.l. var skipulögð og fjármögnuð af Íran.

Vestrænir fjölmiðlar fjalla ekki um þessi mál og hvað mikið er lagt í sölurnar til að ná fram allsherjarútrýmingu á Gyðingum ekki bara Gyðingum í Ísrael heldur öllum Gyðingum. Klerkastjórnin í Íran og ofangreindir nótar þeirra eru mun róttækari en nasistarnir á miðri síðustu öld, en glæpur þeirra ætti að vera öllum víti til varnaðar. 

Á Vesturlöndum hefur engin mótmælt þessum hrikalega stríðs undirbúningi klerkana í Íran eða hvatt fólk til að sniðganga Íranskar vörur.

Árið 2022 leyfði 22 ára stúlka í Íran Masha Amin sér að ganga um án þess að hylja hár sitt. Hún var handtekin og drepin. Frelsi til að ráða klæðaburði sínum nær ekki til kvenna í Íran þrátt fyrir langa baráttu. Kvennasamtök um allan heim horfa framhjá því þegar þær hitta kvenkyns fulltrúa klerkana á ráðstefnum. 

Í kjölfar drápsins á Masha Amin urðu mikil mótmæli og klerkastjórnin drap fjölda fólks aðallega ungt fólk allt niður í 9 ára börn. Margir halda því fram, að fleiri hafi verið drepnir vegna mótmælanna í Íran en fallið hafa á Gasa. 

Á Vesturlöndum hafa mótmæli verð óveruleg vegna þessarar kúgunar, illmennsku og morða í Íran. Ekki eru gerðar kröfur um að fólk kaupi ekki vörur frá Íran og þessi hryðjuverkastjórn verði sniðgengin. Á sama tíma æða þúsundir vinstri sinnaðs fólks og nytsamra sakleysingja í mótmælum gegn Ísrael og er orðið að fimmtu herdeild Írana í  fyrirhuguðu útrýmingarstríði þeirra gagnvart Ísrael. Þetta fólk tekur undir hugmyndir Hamas, Hesbollah og Íran um að má Ísrael út af landakortinu. Þess er krafist að fólk hætti að kaupa vörur frá Ísrael og sniðgangi fyrirtæki eins og Rapid, sem ekkert hefur til saka unnið, út frá rasískum forsendum.

Þetta er krafa af sama meiði og nasistarnir á síðustu öld beittu gegn Gyðingum. Þeir sem þekkja þá sögu blöskrar það sem nú er að gerast meðal vinstri sósíalista í Evrópu. Þeir hafa tekið sér þjóðernissósíalistanna á síðustu öld til fyrirmyndar. Gegn slíkum útrýmingar rasisma verður að bregðast af hörku. 

Þeir sem hingað til hafa jafnan haft rasistaheiti á hraðbergi gagnvart fólki sem vill vernda þjóðleg gildi og takmarka aðgengi ólöglegra hælisleitenda til landsins er fólkið sem nú gerir sig sekt um að vera hinir raunverulegu rasistar. Til dæmis um það má benda á,að engin af þessu liði setur fram kröfu á hendur Hamas að þeir láti eftirlifandi gísla sem voru á sínum tíma meir en 200 lausa. Enginn.

Er það ekki sérkennilegt að kröfur þessa fólks skuli bara vera á annan veginn og beinast á rasískum forsendum að Gyðingum. 

 

 

 


Við gefumst upp?

Danski stjórnmálamaðurinn Mogens Glistrup sagði að danski herinn gæti ekki varið Danmörku og þessvegna væri best að koma upp á öllum landamærastöðvum sjálfvirkum símsvara sem segði á öllum tungumálum "Við gefumst upp." Síðan þá hefur danski herinn heldur betur látið til sín taka.

Mér var hugsað til þessa þegar ég hlustaði á umræður á Alþingi vegna fyrirspurna Diljá Mist Einarsdóttur um stöðuna á landamærum þjóðarinnar. Svörin voru nánast þau, að ekkert væri hægt að gera vegna Schengen reglna, reglna Evrópusambandsins skorti á áhættumati Ríkislögreglustjóra og fram eftir þeim götunum. 

Hvað gerir þjóð sem ráðist er á? Hún gefst upp eins og Mogens Glistrup talaði um. Eða hún tekur til varna. Hún tekur til varna strax og árásin á sér stað, en bíður ekki eftir áhættumati Ríkislögreglustjóra, að Alþingi samþykki breytingar á lögum eða leyfi fáist frá Schengen. Skylda ráðamanna er við þjóðina en ekki við Schengen og Evrópusambandið. Taka verður strax á þeim málum sem þola enga bið.

Stjórnleysið á landamærunum verður að taka enda núna. 

Stjórnleysið við að koma ólöglegum innflytjendum úr landi verður að taka enda núna. 

Öryggi landsmanna og velferð er í húfi. 

 

 


Að gera skyldu sína.

Hælisleitandinn,sem ógnaði vararíkissksóknara er síbrotamaður, sem ítrekað hefur gerst sekur um alvarleg afbrot. 

Maðurinn fékk dvalarleyfi,sem er löngu útrunnið, samt hefur honum ekki verið komið úr landi. Hvað veldur? Af hverju gera yfirvöld ekki neitt. 

Þrátt fyrir að vararíkissaksóknari o.fl. hafi setið undir ógnunum hælisleitandans, þá var ekki brugðist við frekar en í svo ótal öðrum sambærilegum málum. 

Nú reynir á dómsmálaráðherra og sjá til þess að þeir embættismenn sem málið heyri undir geri skyldu sína og komi öllum í burtu, sem eru ólöglega í landinu. 

Ógnin sem beinist að saksóknara í dag,beinist líklega síðar að þeim. 

Þeir hælisleitendur sem hingað koma verða að vita að lögum sé framfylgt og fólk sent í burtu þegar það er hér ólöglega. Annars gera þeir bara réttilega grín að okkur og skilaboðin fara út um allt að takist fólki að komast inn í Ísland þá þurfi ekki að óttast að vera sent í burtu. Hvaða áhrif hefur það? 

Brottvísun ólöglegra hælisleitenda ásamt landamæraeftirliti skilar árangri og það fyrr en ráðgerðar breytingar á útlendingalögum.

Dómsmálaráðherra verður að bregðast við og gera það sem þarf til að lögum sé framfylgt og öllum hælisleitendum sem eru hér ólöglega verði tafarlaust komið í burtu. Ekki seinna en strax. 


Hverju mega þá aðrir búast við?

Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari gerir grein fyrir því í blaðaviðtali, að erlendur hælisleitandi og afbrotamaður, hafi ítrekað haft í hótunum við sig m.a. hótað sér lífláti. Hann þurfti að vara börnin sín við að opna ekki útidyr og vera á varðbergi gagnvart ógnvaldinum.

Þrátt fyrir að um sé að ræða mann sem á töluvert undir sér, þá fékk hann enga vernd og mátti þola að vera stöðugt á varðbergi gagnvart hugsanlegri árás á sig og fjölskyldu sína. 

Fyrst svo er komið með vararíkissaksóknara, hvernig er þá staða almennra borgara? Hvaða réttarvernd hafa þeir? Sagt er að margir láti nú þegar hjá líða að gæta réttar síns til að lenda ekki í útstöðum við erlend glæpagengi á Íslandi.

Af öllum hópum innflytjenda er reynslan sú, að þeir sem eru seinfærastir og erfiðastir og liggja að meginhluta upp á velferðarkerfinu með hæstu glæpatíðni, koma frá því svæði í Mið-Austurlöndum, sem ríkisstjórnin hamast við að flytja inn sem flesta. Þetta er gert þrátt fyrir að reynsla allra þjóða af innflutningi fólks frá þessum heimshluta.

Fyrst stjórnleysið er orðið svo mikið sem kemur fram hjá vararíkissaksóknara nú þegar við hverju má þá búast í framtíðinni eftir helstefnu ríkisstjórnarinnar í málefnum hælisleitenda. Já og hvernig á að bregðast við til að tryggja að við búum í virku réttarþjóðfélagi þar sem fólk getur gengið öruggt um göturnar og búið við öryggi heima hjá sér?   


Hnignun stjórnmálastéttarinnar

Í grein, sem Francis Fukuyama skrifaði í helgarblað Financial Times þ. 2.mars s.l., segir hann að skv. niðurstöðu rannsóknarstofnunarinnar "Freedom House" (FH) hafi stjórnmálastéttinni í lýðræðisríkjum heimsins hrakað mikið síðustu 18 árin. Alvarlegasta ástandið sé í Bandaríkjunum.

Hnignun stjórnmálastéttarinar og stofnana þjóðríkis verður m.a. þegar þessir aðilar bregðast ekki við og aðlaga sig ekki að breyttum aðstæðum.

Þegar litið er á Ísland verður ekki annað séð, en niðurstaða FH sé í samræmi við það sem hefur verið að gerast hér. Stjórnmálastéttinni hefur hnignað bæði hvað varðar mannval og siðferðilegar viðmiðanir. Sem dæmi eru ofurlaunin sem stjórnmálamenn skammta sér, vaxandi sveit verklítilla pólitískra aðstoðarmanna og milljarðarnir sem stolið er úr ríkissjóði til að fjármagna starfsemi stjórnmálaflokka.

Greinarhöfundur telur að hnignun stjórnmálastéttarinnar sé mest í Bandaríkjunum og bendir á komandi forsetakosningar mili Joe Biden og Donald Trump.

Margir spyrja hvernig standi á því að Bandaríkin, sem búa yfir miklum mannauði skuli vera í þeirri stöðu að sitjandi forseti sem kemst varla skammlaust fram úr skrifuðum ræðum, getur ekki setið fyrir svörum svo vel sé og rugli jafnvel saman Úkraínu og Gaza í umræðum verði frambjóðandi Demókrataflokksins.

Hvað þá að frambjóðandi Repúblíkanaflokksins verði Donald Trump, sem átti dapra leiki þegar hann var að láta af embætti fyrir fjórum árum síðan, sem m.a. leiddi til skrílsláta og árásar á þinghús Bandaríkjanna. Flestir hefðu talið að það mundi nægja til að hann yrði ekki aftur í kjöri, en sú varð ekki rauninn. Nýlega bauð hann Rússum að ráðast á hvaða NATO ríki sem væri, sem borgaði ekki ímyndaða skuld við bandalagið. 

Við höfum lítið með forsetakosningar í Bandaríkjunum að gera,en úrslitin þar skipta okkur og heimsbyggðina miklu.

Eitt af því sem ekki er nefnt í greininni, en skiptir miklu er sú staðreynd, að hugmyndafræðilegur ágreiningur meginflokka er ekki lengur til staðar og stjórnmálamenn þeirra eru þáttakendur í stjórnmálapartíi en ekki stjórnmálum sbr. íslensku ríkisstjórnina. 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 292
  • Sl. sólarhring: 724
  • Sl. viku: 4113
  • Frá upphafi: 2427913

Annað

  • Innlit í dag: 268
  • Innlit sl. viku: 3804
  • Gestir í dag: 260
  • IP-tölur í dag: 249

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband