Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2025

Donald Trump forseti.

Í dag 20. janúar, verður Donald Trump settur í embætti forseta Bandaríkjanna (USA) í annað sinn. Fróðlegt verður að hlusta á innsetningarræðu hans, en sú staðreynd að hann skyldi hafa verið endurkjörinn forseti hefur þegar valdið gríðarlegum breytingum í alþjóðastjórnmálum. Vonandi gengur honum vel og vonandi áttar hann sig á, að það gengur ekki að vera með tuddagang gagnvart vinum og bandamönnum Bandaríkjanna hvort heldur það er Danmörk eða önnur vinveitt ríki.

Með endurkomu Trump hættu mörg af risafyrirtækjum USA að vera með dyggðaflöggun fyrir woke mál. Nú er stefnt að meiri háttar áherslubreytingum í stjórnmálum USA. Áhersla er lögð á vöxt og velmegun.

Fróðlegt verður að sjá hve vel Elon Musk nýtist í sparnaðarmálaráðuneyti, en hann hefur talað um að leggja niður fjölda ríkisstofnana.

Áhersla er lögð á orkumál og það sé jafnan til gnægð ódýrrar orku og orkumálaráðherra Trump, Doug Burgum hefur varað við því að USA muni tapa fyrir Kína hvað varðar gervigreind, ef ekki kemur til gnægð ódýrrar orku. Trump hefur lofað að raforkuverð lækki um helming fyrstu 12 mánuði eftir að hann tekur við embætti. Hugmyndir um kolefnishlutleysi eða „net zero“, sem Evrópa er heltekin af verða ekki á dagskrá.

USA mun því eiga alla möguleika að skáka Evrópu algjörlega og stinga af í efnahagslegu tilliti og fleiru á meðan „stjórarnir“ í Brussel verða uppteknir við að finna sem djöfullegustu reglur stöðnunar og kyrrstöðu, varðandi „kyn“ og „hamfarahlýnun“.

Fróðlegt verður að sjá hvernig Trump og félögum gengur að minnka ríkisbáknið og ná markmiðum sínum í orkumálum, til þess að auka hagvöxt og arðsemi, það er að mörgu leyti undirstaða þess að önnur stefnumál ríkisstjórnar Donald Trump nái fram að ganga.


Hvað nú Jóhann Páll?

Við það verður ekki unað, að hagfelld, náttúrvæn virkjun eins og Hvammsvirkjun verði stöðvuð vegna vægast sagt sérkennilegs héraðsdóms.

Því miður er svo komið að við búum við orkuskort á meðan við eigum gnógt vistvænnar, náttúrlegrar orku í ám og fallvötnum. Á starfstímabili sínu sem stjórnmálaflokkur tókst Vinstri grænum að vera á móti öllum tillögum um vantsaflsvirkjanir og töluðu jafnan um að það væri verið að drekkja landinu. Allt var það froðusnakk og bull.

Nú er svo komið að regluverk og rammaáætlanir varðandi raforkuöflun eru orðnar með þeim hætti, að nýr orkumálaráðherra getur ekki annað í framhaldi af þessum héraðsdómi, hversu vitlaus svo sem hann kann að vera, en taka alla löggjöf orkumála til gagngerðrar endurskoðunar og einfalda og auðvelda ferli bygginga nýrra vatnsaflsvirkjana. 

Jóhann Páll Jóhannsson orkumálaráðherra verður strax að láta ganga frá frumvarpi til laga um Hvammsárvirkjun, sem lagt verður fyrir Alþingi sama dag og það kemur saman og stefnt á að það verði afgreitt á fyrstu starfsdögum þingsins.  

Ef til vill verða vindmyllugarðar sem raska verulega ósnortnu víðerni og útsýni það sem helst kemur til að minna á afleiðingar af orkufjandsamlegri stefnu Vinstri grænna þann tíma sem sá flokkur hafði áhrif í íslenskum stjórnmálum illu heilli. En þeirra tími er liðinn og nú verður að láta verkin tala.

Orkumálaráðherra á tvo kosti að láta verkin tala og knýja á um að vinna við Hvammsárvirkjun hefjist þegar í stað. Eða að verða  odæmdur af  verkleysi. 

 


Orkuskortur er ekki slys

Hvers vegna er stöðnun í Evrópusambandinu (ES) og Bretlandi á meðan allt annað er að gerast í Bandaríkjunum. Mismunurinn hvað varðar orkumál er áberandi. Bretland og ES ríkin gera allt til að rýra samkeppnishæfni sína á grundvelli kolefnisjöfnunar (net zero)en á sama tíma lofar Trump að styrkja orkugeirann til að koma á efnahagslegum stöðuleika, betri lífskjörum og framförum.

Orkuskortur Evrópu er ekki slys heldur afleiðing af röngum ákvörðunum og forgangsröðun á grundvelli grænu hugmyndafræðinnar sem er látin ráða umfram heilbrigða skynsemi. Þetta rugl knúði líka dyra hjá okkur og náði hámarki með innleiðingu orkupakka ES og margvíslegri löggjöf til að leggja hömlur á eðlilega orkuöflun. Afleiðing þess sést m.a. í því að ekki má lengur virkja álitlegar sprænur vegna innleiðingar ES reglna og óvandaðrar lagasetningar Alþingis m.a. vegna bullhugmynda Vinstri grænna með meðábyrgð Sjálstæðis- og Framsóknarflokks. 

Forsenda velfarnaðar er að standa utan ES sem sjálfstæð fullvalda þjóð og neita að taka upp regluverk sem er kyrkingaról um framleiðslu, skattlagningu og lífskjör í landinu.

ES er ekki tilbúið til að móta stefnu styrkleika eins og Trump ætlar sér að gera í Bandaríkjunum. Eftir að ES hefur verið í stöðugri afturför miðað við aðrar iðnvæddar þjóðir væri ánægjulegt að heyra nýar og framsæknar raddir frá Brussel, en það gerist því miður ekki. Þar vantar forustu og nýja nálgun. 

Evrópa á merkustu söguna vegna þess að fólk og þjóðir höfðu hugrekki til að tryggja almenn mannréttindi, frelsi atvinnulífsins og samkeppni til að fullkomna þá möguleika sem voru og eru fyrir hendi. Við eigum að vera kyndilberar þess sem gerði Evrópu sterka með því að sýna hugvit, dirfsku og skynsemi. Það gerum við utan ES af því að þangað er ekkert að sækja.

Við þurfum allra síst að fara yfir bæjarlækinn til að sækja ráð hjá þeim, sem eru að glutra öllu niður um sig.

 

 

 


Hvers vegna Evrópusambandið?

Á sama tíma og Evrópusambandið (ES) á í miklum og vaxandi vanda er ríkisstjórn á Íslandi, sem telur á trúarlegum forsendum að mikilvægt sé að Ísland gangi í ES.

Framleiðsla, framleiðni og hagvöxtur í Evrópu er á niðurleið. Fjölda innflutningur fólks hefur lamandi áhrif og ríkisskuldir flestra aðildarríkjanna aukast. Evrópa er meginland sem er í alvarlegri efnahagskreppu.

Í mörg ár hefur stjórnmálastétt Evrópu verið haldin hugmyndafræðilegum ranghugmyndum, sem veldur alvarlegri hnignun. Miðstýrð stjórnsýsla setur regluverk og efnahagsstefnu, sem dregur úr hagvexti og leggur þyngri og þyngri byrðar á framleiðendur og flóknara regluverk. Evrópa dregst aftur úr Bandaríkjunum og fleirum vegna óstjórnar og dyggðaflöggunar fáránleikans.

Mótmæli bænda vítt og breitt um Evrópu á síðasta ári sýna vel hvað skrifstofuveldi ES í Brussel er komið algjörlega úr takt við raunveruleikann og hvað þarf til að hægt sé að stunda arðbæran atvinnurekstur.

Forustlönd Evrópu eiga bæði í efnahagsvanda auk stjórnmálavanda. Stjórnmálastéttin í Frakklandi neitar að horfast í augu við að áframhaldandi skuldasöfnun gengur ekki. Öflugasta ríki ES, Þýskaland stendur frammi fyrir miklum efnahagslegum vandamálum. Ráðandi stjórnmálaöfl í Þýskalandi hafa ekki hugrekki til að yfirgefa stefnu hnignunar og orkuskorts og vilja lappa upp á ónýtt kerfi. Hvaða hagkvæmni getur verið fólgin í því fyrir Ísland að fara í aðildarviðræður við ES þegar þessar staðreyndir blasa við?

Við eigum ekki að ganga í bandalag sem skerðir hagsmuni okkar og kemur í veg fyrir framfarasókn íslensku þjóðarinnar. ES er þar af leiðandi ekki valkostur.


Stríð eða friður

Það eru tvær leiðir til að ljúka stríði. Annar aðilinn vinnur eða gerðir eru friðarsamningar. 

24.febrúar n.k. hefur stríð  Rússlands og Úkraínu staðið í þrjú ár. Stríðið hefur verið kyrrstöðustríð í tvö ár með gríðarlegum mannfórnum. Varfærnar spár telja að allt að fimmhundruð þúsund ungra manna hafi fallið og eignatjón er gríðarlegt. Samt sem áður hafa engar markvissar tilraunir verið gerðar til að ná friðarsamningum.

Biden stjórnin hefur haft mestan hug á því að nota þetta stríð til að  einangra Rússa og valda þeim sem mestu tjóni. Þeir sem hafa kallað eftir friði hafa verið úthrópaðir sem sporgöngumenn Rússa. Afleiðingin er sú m.a. að styrkja stöðu Írana, Norður Kóreu og Kína. Gat það virkilega verið markmið Nato þjóðanna?

Þessi stefna Biden stjórnarinnar, sem Evrópuþjóðir tóku upp líka þar á meðal illu heilli Ísland hefur kostað gríðarlega fjármuni og verri lífskjör í Evrópu vegna hækkunar orkukostnaðar, matvælaverðs, vaxta o.s.frv.

Biden stjórninni hefur verið einkar hugleikið sem og forustu NATO þjóðanna, að standa sem dyggastan vörð um þau landamæri sem Jósep Stalín og kommúnistastjórn hans drógu í lok síðari heimstyrjaldar. Peningum hefur verið mokað til Úkraínu til að þeir geti haldið áfram að stríða og svarað fyrir sig og valdið sem mestu tjóni í Rússlandi. 

Raunar hefur Biden stjórnin gert Zelensky forseta Úkraínu að koma með hverja stríðsáætlunina á fætur annarri sem sýndi fram á fullnaðarsigur Úkraínu meira að segja að þeir ynnu Krímskagann til baka. Öllum var ljóst að þessar áætlanir mundu ekki standast, en samt var billjónum evra og dollara hellt áfram á ófriðarbálið á grundvelli þessarar lygi, sem allir sem hafa einhverja glóru í höfðinu var ljóst, að gæti aldrei staðist.

Stjórnendur Íslands urðu svo helteknir af Biden heilkenninu, að þeir gengu lengra en aðrir og lokuðu sendiráði Íslands í Moskvu og girtu fyrir eðlileg samskipti og viðskipti á milli þjóðanna, á meðan þjóðir þar sem vitsmunir stjórnenda og virðing fyrir hagsmunum eigin borgara er ögn meiri eins og Danir héldu áfram viðskiptum og selja Rússum t.d. lyf og aðrar nauðsynjavörur.

Það er löngu kominn tími til þess að NATO ríkin taki af skarið og falli frá skammsýnni fáránlegri stefnu Biden og félaga og stefni að samningum. Zelensky er farinn að tala um samninga og Trump sem tekur við sem forseti Bandaríkjanna innan 5 daga. Rússar hafa líka sent ákveðin merki sem benda til að þeir séu reiðubúnir til viðræðna.

Um hvað á að semja og um hvað er hægt að semja? Rússar munu vafalaust ekki fallast á að Úkraína verði NATO ríki, en þeir gætu samþykkt að aðildarviðræður Úkraínu og Evrópusambandsins gætu hafist. Hægt væri að semja um menningarleg og tungumálaleg réttindi minni hluta innan Úkraínu og e.t.v. að hluti hernumina svæða í Úkraínu yrði skilað á sama tíma og viðurkennt yrði að Krím væri rússneskt og fallið yrði frá öllum efnahagsglegum og stjórnmálalegum þvingunaraðgerðum gegn Rússum.

Með því að ná þessu fram nær Úkraína þeim árangri að hafa á vígvellinum tryggt sjálfstæði Úkraínu sem gæti orðið aðili að Evrópusambandinu innan tveggja ára. NATO og Úkraína eiga þann kost að ná fram friðarsamningum þar sem erfiðasti hlutinn yrði að kyngja því að Rússar fengju Krímskagann eða halda áfram að vera í stríði með tilheyrandi billjóna evra og dollara útgjöldum vegna stríðs,sem mun aldrei geta fært Úkraínu meiri ávinning en þann sem líklegt er að næðist fram við samningaborðið núna. 

Er ekki skynsamlegt að Ísland láti af þeirri utanríkisstefnu stríðs og hernaðarátaka sem mótuð var af fyrri ríkisstjórn og núverandi hefur tekið undir, en hverfi aftur að þeirri utanríkisstefnu sem var Íslandi svo farsæl frá lokum síðara heimsstríðs 1945:

"Ísland er vopnlaus þjóð og tekur ekki þátt í styrjaldaraðgerðum." 

Þess vegna neituðu íslenskir stjórnmálamenn að segja Þjóðverjum og Japönum stríð á hendur í lok hildarleiks síðari heimstyrjaldar og urðum fyrir vikið að þola þær refsiaðgerðir að fá ekki að vera ein af stofnþjóðum Sameinuðu þjóðanna. En Ísland stóð vel eftir og stærra en áður fyrir þessa stefnufestu friðar á grundvelli hagsmuna Íslands og íslendinga.


Áhersla á það mikilvægasta

Við höfum fylgst með hræðilegum gróðureldum í Los Angeles (LA) undanfarna daga. Eldurinn eirir engu og æðir áfram. Ótrúleg vandamál koma upp í slökkvistarfi m.a. vantar vatn á brunahana. LA er ekki landlukt, þess vegna er með ólíkindum að það skuli skorta vatn til slökkvistarfs.

Að vonum hlupu hamfarahlýnunarfólk upp með loftslagsvána og sögðu þetta dæmi um hamfarahlýnun af mannavöldum. Raunar bendir allt til að um manngerða íkveikju sé að ræða. 

Það er hins vegar ekki með öllu rangt aldrei þessu vant, að loftslagsváin svokölluð eigi sinn þátt í því hversu illa er komið í LA. Ekki vegna hlýnandi veðurs heldur áherslna stjórnvalda í LA og Kaliforníu sem hafa dregið saman fjárframlög til slökkvuliðsins, en aukið framlög til "loftslagsmála". 

Í pólitík er alltaf spurning um hvernig er forgangsraðað. Sömu krónunni verður aldrei eytt tvisvar. Þegar náttúruvá ber að höndum, þá er það iðulega svo að stjórnmálamönnum er ranglega kennt um. Nú háttar hins vegar svo til í LA, að stjórnendum borgarinnar öfgafólkinu úr Demókrataflokknum er að nokkru um að kenna hvernig komið er.  Yfirvöld í LA ákváðu nefnilega að greiða gríðarlegar fjárhæðir til svonefndra loftslagsmála á sama tíma og slökkviliðið var fjársvelt. 

Dyggðaflöggun vinstri sinnaðra "woke" stjórnmálamanna virðist því miður girða fyrir augsýn þeirra á heilbrigða skynsemi og nauðsynleg úrlausnarefni og hvað skipti öryggi borgaranna mestu máli. 


Af hverju þingmaður?

Verður næsti formaður Sjálfstæðisflokksins að vera þingmaður? Það er ekki hæfisskilyrði skv. skipulagsreglum Flokksins. 

Á sínum tíma sátu eingöngu þingmenn í miðstjórn Flokksins. Haldið var, að þingmenn væru þeir allra hæfustu til að sitja í miðstjórn aðrir kæmu eiginlega ekki til greina.

Ekki var fallist á þessi rök þáverandi flokksforustu og einræði þingflokksins á stjórn Flokksins lauk þar með. Aldrei hefur það komið að sök.

Hvað skiptir mestu máli að næsti formaður Sjálfstæðisflokksins geti og geri? Hvaða kröfur þurfum við að gera til hans?

Svari nú hver fyrir sig, en í mínum huga skiptir mestu að fá formann, sem byggir upp hugmyndafræðilega sterkan Sjálfstæðisflokk á grundvelli borgaralegra gilda og mannúðlegrar markaðshyggju, megrun báknsins og góðri fjármálastjórn.

Formann, sem er líklegur til að halda vel á málum í rökræðum við andstæðingana. Formann sem sættir ólík sjónarmið svo að Flokkurinn starfi sem ein órofa heild.

Næsta markmið er síðan að ná saman borgaralegum öflum í einn flokk á nýjan leik. 

Formaðurinn þarf því ekki að vera þingmaður, en hann verður að hafa þá kosti hvort sem hann er utan þings eða ekki að geta ráðið við ofangreind verkefni. 

Loks á Sjálfstæðisfólk að hafa þann lýðræðislega metnað, að allt flokksfólk hafi kosningarétt í formanns og varaformannskjöri. Annað sæmir ekki lýðræðisflokki. 

 


Skyggnst um á liðinni öld

Ég lauk fyrir nokkru lestri bókarinnar M - samtöl. Í bókinni er úrval viðtala sem Matthías Johannessen fyrrum ritstjóri Morgunblaðsins á við marga sem settu svip á fyrri hluta og miðja síðustu öld.

Matthías var snillingur í að draga fram aðalatriði í viðtölum við fólk og gera þau lifandi og skemmtileg. 

Viðtölin við Stein Steinar skáld eru gerð með þem listilega hætti og svo lifandi,að mér fannst ég vera með í samtalinu þó það væri tekið fyrir 70 árum. 

Sá þjóðlegi fróðleikur sem kemur fram í viðtölunum er síðan ómetanlegur. Samtalið við Hlín Johnson sambýliskonu Einars Benediktssonar er einkar fróðlegt hvað varðar samband þeirra og þeirri virðingu sem hún bar fyrir skáldinu sínu. Viðtal við Maríu Markan lýsir konu, sem taldi það skipta mestu að vinna fyrir þá sem áttu um sárt að binda og fyrir flokkinn sinn.

Lengi mætti áfram telja, en ég læt hér staðar numið að öðru leyti en því að benda á viðtalið við Guðmund Guðmundsson í Víði og þau lífsviðhorf, sem þar koma fram. Guðmundur braust áfram til ríkidæmis og atvinnusköpunar þrátt fyrir alvarlega fötlun. 

Viðtalsbók Matthíasar geymir ómetanlegan fróðleik um tíðarandann um miðja síðustu öld og viðhorf fólks sem setti svip sinn á  síðustu öld. Það er því óhætt að mæla með henni og eitt er víst að engum mun leiðast að lesa hana. 


Húsið brennur

Sænska stúlkan Gréta Túnberg byrjaði að skrópa í skólanum og mótmæla hlýnun í heiminum af mannavöldum fyrir rúmum 9 árum.

Vinstri elítan bar hana á höndum sér og tók hvert orð sem foreldrar hennar höfðu lagt henni í munn sem spádómsorðum. 

Fyrir 6 árum ávarpaði hún Evrópuþingið og síðar alsherjarþing Sameinuðu þjóðanna (SÞ). Hún sagði að jörðin(húsið) væri að brenna og við hefðum eyðilagt æsku hennar ásamt öðrum vísdómsorðum um nauðsyn þess að snúa til baka og lifa sjálfþurftarbúskap í eymd og volæði. Sem hún gerir ekki.

Kommúnistinn framkvæmdastjóri SÞ tók undir hvert orð eins og Guð hefði sagt það og sama gerði öfgavinstri elítan og óprúttnir kaupahéðnar, sem sáu gróðafæri í bullinu, þar sem almenningur yrði skattlagður og þeir gætu grætt á öllu með sölu og kaupum á loftslagskvótum og fáránlegum aðgerðum eins og henda trjákurli í sjó eða dæla koltvísýringi niður í hraun á Íslandi.

Liðin eru 6 ár og Gréta verið upptekinn í mótmælum vinstra fólks og kommúnista við að mótmæla  samkeppnisþjóðfélaginu.

Á sama tíma hefur komið í ljós að allt sem hún og  Guterres framkvæmdastjóri sögðu var rugl. Ekkert af því hefur komið fram. Húsið er ekki að brenna. Ísbirnir lifa góðu lífi í Grænlandi, Svalbarða og víðar. Sjávaryfirborð hefur ekki hækkað. Ekkert eyland hefur farið á kaf. Grænlandsísinn er enn of mikill.

Þessi sjúka galna barátta gegn koltvísýringi hefur hins vegar haft þær afleiðingar að raforkuverð í Evrópu hefur hækkað svo mikið að sumt fólk á þann eina kost að velja að hita húsin sín eða hafa nóg að borða. 

Það væri verðugt rannsóknarefni fyrir háskóla í Evrópu að kanna hvað mikið af eldra fólki hefur dáið vegna aðgerða í loftslagsmálum sem hefur leitt af sér hærra vöruverð og hærri skatta og margföldun raforkuverðs í álfunni. En slík rannsókn verður sennilega ekki gerð vegna þess að engin ríkisstjórn mun styðja hana á sama tíma og þær henda milljörðum í alls kyns rannsóknir um að allt sé að fara til helvítis vegna hlýnunar.

Sérkennilegt að stjórnmálaelítan í Evrópu og demókratar í Bandaríkjunum skuli telja það brýnasta í pólitík að gera lífskjör borgaranna verri. 

 


Ekki bregður fréttastofa RÚV vana sínum

Í gær birti ég umfjöllun um hryllinginn þegar tugir þúsunda jafnvel milljón varnarlausra ungra breskra stúlkna voru hnepptar í kynlífsánauð allt niður í 11 ára gamlar stúlkur, þar sem þeim var hópnauðgað, hellt yfir þær bensíni og hótað að kveikja í ef þær hlýddu ekki. Yfirvöld brugðust. Lögregla,stjórnamálamenn, barnarverndaryfirvöld og fréttamiðlar. 

Fréttastofu ríkisútvarpsins hefur ekki þótt þetta skipta svo miklu máli að ástæða sé til að fjalla um þetta hvað þá að kalla til einhvern af sínum rómuðu fréttaskýrendum. 

Þessi mál múslimsku karlabba frá Pakistan, sem voru með nauðgunargengi í mörgum borgum Bretlnds komst aftur á dagskrá vegna ummæla Elon Musk. Ekki orð um það hjá RUV, en þess í stað kom ekki frétt, þar sem vísað væri til að margir fordæmdu Musk fyrir viðræður við hægri sinnaða stjórnmálamenn í Evrópu. Af alkunnri hlutlægni RÚV var talað við sósíalistana forsætisráðherra Noregs, Þýskalands og Bretlands.

Yfirbragð fréttarinnar var að Musk væri að takmarka tjáningarfrelsið. Staðreyndin er þó sú, að hann opnaði fyrir möguleika fólks til tjáningar þegar hann fór að reka X svo mjög að nú segist eigandi Facebook að þeir muni draga úr ritskoðun. 

Ekki var hinsvegar minnst á það hjá fréttastofu RÚV að í gær fór fram atkvæðagreiðsla í breska þinginu um tillögu Kemi Badenoch formanns Íhaldsflokksins um opinbera rannsókn á nauðgunargengjunum og ábyrgð þeirra sem áttu að gæta öryggis okkar minnstu bræðra og systra en gerðu það ekki. Tillaga Kemi Badenoch var felld. Allir þingmenn Verkamannaflokksins greiddu atkvæði gegn tillögunni. Sjálfur hefur formaður flokksins Keith Starmer verið sakaður um að bera mikla ábyrgð í þessu máli. 

En hvað þurfa þingmenn Verkamannaflokksins að fela og hvaða hagsmuni eru þeir að verja með því að stilla sér upp við hlið nauðgunargengjanna og spilltu embættismannanna og hvaða hagsmuni er fréttastofa RÚV að vernda með því að skýra ekki frá neinu sem kemur illa við glansmyndina um fjölmenninguna.

Sú glansmynd fjölmenningarinnar hefur heldur betur verið dregin fram aftur og aftur í fréttamiðli allra landsmanna á meðan þess er vandlega gætt að skýra ekki frá neinu sem fellt gæti skugga á þá glansmynd.

M.a. þessvegna segir RÚV ekki frá því að 33% afplánunarfanga á Íslandi eru ef erlendu bergi brotin og 70% þeirra sem sátu í gæsluvarðhaldi á síðasta ári. Sennilega er það líka þess vegna sem fréttastofa RÚV segir ekki frá nauðgunargengjum múslímskra karlmanna í Bretlandi því ekkert kusk má koma á glansmynd fáránleikans sem RÚV ber svo innilega fyrir brjósti.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Feb. 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.2.): 99
  • Sl. sólarhring: 453
  • Sl. viku: 4022
  • Frá upphafi: 2478408

Annað

  • Innlit í dag: 88
  • Innlit sl. viku: 3709
  • Gestir í dag: 88
  • IP-tölur í dag: 87

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband