Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2025

Ber ekki að verja grunngildi lýðræðisins?

Því er mótmælt af stúdentum í Bandaríkjunum að ríkisstjórnin hafi ákveðið að styrkja ekki Harvard háskóla meðan ekki er orðið við kröfum stjórnarinnar. Þeir sem hlusta á fréttir RÚV fá þá mynd, að þarna sé Trump með dólgshætti að vega að sjálfstæði skólans og gera þeim erfitt fyrir meðan þeir þybbast við að fara ekki að afarkostunum.

En er það svo?

Ríkisstjórnin gerir að forsendu styrkveitingar að fjárhæð 2.2 milljarða Bandaríkjadala, að Harvard háskóli hætti að mismuna nemendum á grundvelli kynþáttar, litarháttar, trúar, kyns eða uppruna og geri ráðstafanir til að koma í veg fyrir Gyðingahatur.

Óeðlilegar kröfur í lýðræðisþjóðfélagi? Er vegið að sjálfstæði skólans þegar lýðræðisríkið krefst þess að háskólinn virði grunnreglur lýðræðisins?

Við byggjum siðræn vestræn lýðræðisríki á jafnstöðu borgaranna? Er ekki rétt að gera þær lýðræðislegu, siðlegu lágmarkskröfur til háskóla í að þeir vegi ekki að grundvelli lýðræðis og borgaralegra mannréttinda?


Það sem ekki má tala um.

Varaforseti Bandaríkjanna(USA)sagði í heimsókn forsætisráðherra Bretlands(UK) í Hvíta húsið að „tjáningarfrelsið væri í í vaxandi mæli takmarkað í UK. Forsætisráðherrann mótmælti þessu og sagði að tjáningarfrelsi hefði verið í UK um langt skeið og mundi vera það áfram um langa framtíð.

Samt sem áður var húsmóðir í Bretlandi dæmd í 31 mánaðar fangelsi óskilorðsbundið fyrir „hatursorðræðu“ þegar hún setti færslu á vef sinn í geðshræingu eftir að þrjár litlar stelpur voru stungnar til bana af hryðjuverkamann í Southport á Englandi. Konan sagði að fólk mætti kalla sig rasista, en það þyrfti að losna við hælisleitendur úr hótelum og kveikja í þeim. Færsluna tók hún niður fjórum tímum síðar. En það skipti ekki máli. Hún var dæmd 31 mánaða fangelsi og fær ekki leyfi til að sinna fársjúkum eiginmanni sínum og 11 ára dóttur þó hún sé fyrirmyndarfangi og hafi afplánað meira en þriðjung refsingarinnar. Af hverju er refsing hennar þyngri en t.d. innbrotsþjófs?

Dómurinn yfir þessari konu og meðferð yfirvalda gagnvart henni sýna vel hve refsiákvæði um svokallaða hatursorðræðu geta verið varhugaverð.

Nú hefur innanríkisráðuneyti Breta bannað frönskum rithöfundi Renaud Camus að koma til Breta og flytja erindi um hætturnar sem stafa af fjöldainnflutningi fólks af framandi þjóðerni.

Árið 2011 kom út bók eftir Camus „Le Grand Remplacement“ (Endurnýjunin mikla), þar sem hann heldur því fram að óheftur innflutningur fólks til landa Vestur Evrópu, sé hluti af stefnu valdhafa, til að núverandi íbúum verði skipt út fyrir fólk með aðra menningu.

Þessa skoðun þolir innanríkisráðuneyti Breta ekki og tilkynnti Camus, að vera hans í Bretlandi mundi ekki stuðla að almannaheillum. Með öðrum orðum, er honum meinað að koma til Bretlands vegna skoðana sinna.

Þegar Camus er meinað að ræða um skoðanir sínar á innflytjendamálum, þá er það vísbending um að yfirvöld óttast skoðanir hans og umræður um þær. Þá er best að beita ofbeldi og þöggun.

Camus á hins vegar valkost vilji hann endilega koma til UK. Hann getur hent passanum sínum á leiðinni til UK og þá getur hann verið þar eins lengi og hann vill.

Afgreiðsla innanríkisráðuneytisins sýnir, að því miður hafði J.D.Vance varaforseti USA rétt fyrir sér þegar hann sagði að tjáningarfrelsið í UK væri í vaxandi mæli takmarkað. Því miður er það ekki svo bara í Bretlandi og mætti segja maður líttu þér nær.


Staðreyndir og trú. Er hann upprisinn?

Vormorgun árið 33 voru þrír menn teknir af lífi af rómverskum yfirvöldum fyrir utan Jerúsalem. Tveir voru ræningjar, en sá þriðji Jesús Kristur var dæmdur fyrir að segjast vera konungur Gyðinga.

Þrátt fyrir að boða frið, umburðarlyndi og fyrirgefningu og konungsríki Guðs hlaut hann þessi grimmilegu örlög. Þegar Jesús svaraði spurningu Pílatusar um hvort hann væri konungur sagði hann. „Ríki mitt er ekki af þessum heimi.“ Pílatus varðaði ekki neitt um hvaða ríki. Þett gat verið ógn við Róm og hann dæmdi Jesús til krossfestingar.

Af öllu því sem skrifað hefur verið um Jesú, þá er ekkert í lífi hans sem jafn mikið er fjallað um og aftaka hans. Guðspjöllin lýsa því með hvaða hætti og hvar hann var negldur á krossinn, en þær frásagnir hafa verið dregnar í efa, en nýjustu fornleifarannsóknir sýna í öllu að það sem skrifað er í guðspjöllunum reynist vera rétt.

Guðspjöllin lýsa því að kross Jesús var reistur rétt utan við Jerúsalem á Golgata og síðan lagður í gröf skammt frá. Á þeim tíma sem Jesús var krossfestur var staðurinn þar sem hin helga gröf er grjótnáma fyrir utan borgarmúra Jerúsalem, þar sem grafir voru högnar inn í kletta eins og lýst er um gröfina, sem Jesús var lagður í. Grafirnar sáust vel frá aftökustaðnum, Golgata.

Nýlegar rannsóknir vísindamanna frá háskólanum í Aþenu á grafarsvæðinu, með skanna, sýna að innan kapellu er líkan af grafsvæði sem eru leifar af steingröfum sem voru höggnar inn í klettana á fyrstu öld. Nýjar fornleifarannsóknir La Sapienza háskólans í Róm, sýna að umhverfið er það sem guðspjöllin lýsa. Nýjustu sagnfræðilegu- og fornleifarannsóknir staðfesta því frásagnir guðspjallanna um krossfestingu og með hvaða hætti Jesús var grafinn ekki aðeins í aðalatriðum heldur einnig í smáatriðum. En þó aukin þekking okkar sýni stöðugt betur, að frásagnir guðspjallana um aftöku Jesús hvar og hvernig og greftrun hans, er sönn, þá er það okkar að meta og trúa eða hafna upprisu Jesús Krists á páskadag.

Eftir að Jesús var handtekinn flúðu lærisveinarnir og helsti stuðningshópur hans fór í felur nema örfáir aðallega konur sem voru viðstödd krossfestingu og greftrun Jesús.

Hópurinn sem fylgdi Jesús til Jerúsalem hafði í fögnuði talað fyrir kærleika, friði og þá sérstaklega konungsríki Guðs, sem var allt annað ríki,en það þar sem þeir Kaífas æðsti prestur og Pontíus Pílatus höfðu með að gera.

Allt var þetta svo dásamlegt. En síðan var leiðtoginn tekinn af lífi. Allt hrundi. Fiskmennirnir frá Galíleu hugsuðu ekki um annað en að koma sér heim sem fyrst, hræddir og vonsviknir.

En svo gerðist undrið, sem gjörbreytti lífi þeirra og tilveru og veraldarsögunni. Þeir fylltust krafti og voru tibúnir til að ganga í gegn um raunir og píslir og dauða fyrir trú sína á fagnaðarerindið um Jesús Krist eftir að hafa orðið vitni að upprisu hans.

Svo hart sóttu kristnir menn fram eftir þetta í trúarhita, að þeir náðu að leggja sjálft hið ósigrandi Rómaveldi að velli. Hvort sem fólk trúir því eða ekki að Jesús hafi gert kraftaverk, þá er framganga kristins fólks með þeim hætti eftir upprisu Jesú að það er stórkostlegasta kraftaverkið. 


Jörðin er ekki flöt hún er hnöttótt.

Það þurfti dóm Hæstaréttar í Bretlandi til að skilgreina það augljósa, þá líffræðilegu staðreynd, að konur séu þær sem eru það líffræðilega. Konur eru með leg, en ekki æxlunarfæri karla hvort sem þau hafa verið fjarlægð eða ekki. 

Í kjölfarið hefur fréttastofa RÚV farið hamförum, þar sem talað er við forustufólk í samtökunum 78 og fleiri sömu gerðar, sem harma dóm Hæstaréttar Bretlands og telja vegið að mannréttindum óskilgreinds hóps fólks. Fréttastofa hefur ekki fjallað um dóminn málefnalega og hvað olli því að konur í Skotlandi töldu nauðsynlegt að fá niðurstöðu dómsins, svo konur gætu áfram nýtt áunnin réttindi í búningsklefum og klósettum. 

Vegna þessarar meintu mannréttindaskerðingar sem forustukona samtakanna 78 talar svo fjálglega um, þá hlítur grundvallarspurningin að vera: Getur einhver öðlast mannréttindi sem hann hafði aldrei eða glatað slíkum mannréttindum?

Þegar það þarf dóm Hæstaréttar í landi eins og Bretlandi til að dæma um augljósar staðreyndir, þá hlítur sú spurning að vakna hvenær sá sami Hæstiréttur fær að glíma við þá flóknu spurningu hvort jörðin sé flöt eða ekki. Í raun er viðfangsefið það sama. Spurningin um niðurstöðu á grundvelli heilbrigðrar skynsemi sem engilsaxar nefna "common sense".

Dómur Hæstaréttar Englands í þessu máli er bara "common sense" hvort sem fréttastofa RÚV gerir sér grein fyrir því eða ekki. 


Það er stöðugt verið að krossfesta kristið fólk.

Við sem trúum, að krossfesting Jesú og upprisan sé söguleg staðreynd höfum trúarsannfæringu sem Páll postuli víkur víða að í bréfum sínum sem mikilvægasta inntaki fagnaðarerindis. Krossfestingin og upprisan.

Krossfestingin var notuð til að niðurlægja þá sem verið var að taka af lífi og hún var aðallega notuð gagnvart þeim sem þóttu vera landráða- eða uppreisnarmenn. En af hverju var Jesús krossfestur þrátt fyrir að hann boðaði kærleika, frið og við ættum að elska náungann eins og sjálfa okkur?

Pílatus spurði Jesú hvort hann væri konungur og hann svaraði játandi, en sagði að ríki hans væri ekki af þessum heimi. Það skipti Pílatus engu máli. Að gangast við að vera konungur var nægjanleg landráðasök til að dæma mann til krossfestingar.  

Í Mið-Austurlöndum, Nígeríu, Pakistan og víðar eru milljónir kristins fólks sem stöðugt er ráðist á og þeim ógnað og það myrt oft á hroðalegan hátt. Síðast í gær voru fréttir af því að múslimar í Nígeríu hefðu tekið 6 kristna menn af lífi fyrir það eitt að vera kristnir.

Vestrænar ríkisstjórnir eða kristnar kirkjur aðhafast ekkert. Daglegar ógnanir, morð á kristnu fólki varna þeim ekki nætursvefns og þannig hefur það verið í meir en áratug. Kristið fólk í Írak og Sýrlandi hefur verið hrakið frá heimkynnum sínum,smáð, nauðgað og myrt.

Allt að 90% kristnum hafa verið myrtir eða flúið Írak frá árinu 2003 og nær helmingur Yasida undan Íslömsku trúarrasistunum.

Hjálparstarf Vesturlanda brást þessu fólki ekki síst hinn gjörspillti vestræni Rauði kross. Kristið fólk og Yasidar urðu fyrir þvílíkum ofsóknum m.a. í flóttamannabúðum, að þeim var ekki vært. Trúarlegur rasismi Íslam er því miður hluti af trúarkenningum múslima.

Einn af hverjum tíu Sýrlendingum var kristinn þegar borgarastyrjöldin hófst. Kristnu söfnuðurnir eru í miklum vanda og óljóst hvernig nýir stjórnendur fara fram gegn þeim,en alla vega verða þeir ekki betur settir undir hinni nýju stjórn.  

Munurinn á kristinni boðun og boðun Múhameðs er að skv. okkar boðun eigum við að hjálpa öllum óháð trúarbrögðum en í boðun Kóransins er byggt á trúarlegum rasisma.

Engir trúarlegir söfnuðir verða fyrir jafn miklum ofsóknum og þeir kristnu. Með því að neita að horfast í augu við þá staðreynd og gera ekki neitt,  eru stjórnmálamenn og kirkjuhöfðingjar Vesturlanda stöðugt að láta krossfesta Krist.   


Aðeins kona sem er það líffræðilega við fæðingu er kona

Hæstiréttur Bretlands kvað samhljóða upp þann dóm í gær, að aðeins þær sem eru konur líffræðilega séu konur (only biological women are women). Ekki komi málinu við með hvaða hætti einstaklingur kyngreinir sig.

Þetta hefur það í för með sér, að aðeins þær sem eru konur líffræðilega fá aðgang að svæðum sem fyrir konur, kvennadeildum sjúkrahúsa, kvennaklósettum, geta keppt sem konur í íþróttum  o.s.frv. Transkonur hafa ekki rétt til að fara á staði sem eru fyrir konur. Það þýðir líka að annaðhvort ertu kona frá fæðingu eða þú ert það ekki.

Samtök kvenna(women for Scotland)sóttu málið,en þær berjast fyrir að réttindi kvenna séu vernduð í Bretlandi og gerðu JK Rowling höfund Harry Potter bókanna að einkenni fyrir baráttu kvenna fyrir mannréttindum.

Dómurinn segir að transkonur séu ekki konur skv. lögum jafnvel þó þær hafi vottorð upp á það og að rugla mörkunum á milli kynjanna væru til þess fallið að valda vandamálum og ruglingi. Dómurinn segir líka að tvíhyggja í kynjahugmyndum sem gefi rúm til skilgreininga á kyni hafi engar forsendur skv.lögum.

Um allt Bretland fagna konur þessari niðurstöðu og telja hana mikinn sigur í réttindabaráttu kvenna.

Svo virðist af þeirri umfjöllun sem er um þetta mál í Bretlandi, að sterkur samhljómur sé hjá samtökum kvenna, að konur hafi með þessu unnið sigur í réttindabaráttu sinni, sem þær höfðu áður náð með áralangri baráttu en tapað aftur gagnvart þeim körlum sem skilgreindu sig sem konur skv. transfræðunum og þröngvuðu sér inn á svæði sem voru einungis ætluð konum.

Við höfum almennt miðað við það í vestrænum rétti, að mannrétti séu algild. Samt sem áður er það svo, að þegar konur í Bretlandi fagna sigri í réttindabaráttu, sem grundvallast á því að líffræðilegt kyn kvenna sé ákveðin staðreynd, sem miða beri við, þá kveður við annan tón hjá foringja samtakanna 78 á Íslandi. Hún fer hörðum orðum um niðurstöðu Hæstaréttar Breta og heldur því fram, að þarna séu um alvarlegar skerðingar á mannréttindum hinsegin fólks að ræða.

Er það virkilega svo? Búlkurinn af því fólki sem er í samtökunum 78 eru hommar og lesbíur. Eru réttindi þeirra að einhverju leyti skert? Vilja samtökin 78 berjast við Guð almáttugan um það með hvaða hætti hann útdeilir líffræðilegu kyni við fæðingu barna? 

Já en nú er spurning hvaða skoðun hafa kvenfélög á Íslandi um þetta mál eða kemur þeim þetta e.t.v. ekki við eins og svo margt annað sem vekur upp spurningar um hvaða tilgangi þau þjóna.


mbl.is Orðið kona vísi til líffræðilegs kyns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kæri vinur minn Dónald Trump.

Ágæti Donald Trump. Ég bind sennilega meiri vonir við þig en flestir aðrir í henni veröld, jafnvel þó þér hafi orðið á í ýmsu sbr.óskiljanlegan frekjugang varðandi Grænland svo dæmi sé tekið. Lýðræðissinnar þurfa alltaf að virða sjálfsákvörðunrrétt fólks og sleppa því að hóta fólki og þjóðum með beitingu hervalds, ef hlutir ganga ekki upp eftir okkar höfði. 

Við Íslendingar gætum komið að betri vörnum hér á Norðurslóðum ef þú hefur áhuga t.d. ásamt Dönum og við gætum boðið þér flotastöð í Finnafirði og öflugan herflugvöll á Melrakkasléttu svo dæmi sé tekið. Með því yrði hægt að fylgjast með öllum tilþrifum Rússa. 

Ég var mjög ánægður með það kæri Donald að þú skyldir hafa hugdirfsku til að setja það sem eitt af forgangsatriðum að ná fram friði milli Úkraínu og Rússlands. Sú styrjöld hefur verið hræðilegt blóðbað og mun verða enn verri ef áfram verður haldið. Mér hefur fundist furðulegt og jafnvel óskiljanlegt hvað vestrænum stjórnmálamönnum með herra Biden í broddi fylkingar fannst mikilvægt að viðhalda stríðsrekstrinum og moka vopnum í Úkraínumenn sem leiddi til meira og meira mannfalls án þess að marka aðra stefnu en að reyna að niðurlægja Rússa á allan hátt og gera ekkert í því að stuðla að friði þannig að slátrunum á ungum mönnum í tugþúsunda og e.t.v. hundraða þúsunda vís yrði hætt.  

Nú hefur þú lagt þín lóð á vogaskálina ágæti Dónald, en á það hefur skort, að þú leitaðir eftir víðtæku samráði við vinaþjóðir okkar í NATO, sem er æskilegt og raunar í samræmi við það sem Ronald Reagan vinur okkar gætti stöðugt að í forsetatíð sinni þegar hann ásamt Margrétu Thatcher o.fl. sigraði kommúnismann. Dónald þú yrðir meiri maður og meiri líkur á því að þér takist að gera Bandaríkin "great again" ef þú tækir þér hann til fyrirmyndar í auknum mæli. 

En vopnahlé hefur ekki orðið að veruleika og það gengur ekki þegar verið er að reyna að semja í styrjöld sem þessari þar sem herirnir eru á vígstöðvunum en fela sig ekki bakvið almenna borgara, að það sé liðið að tilgangslausar svívirðilegar loftárásir séu gerðar á almenna íbúa á svæðum þar sem engin hernaðarlegur tilgangur er með árásunum. Við slíkar aðstæður þarft þú ágæti Dónald að hringja í Pútín og segja honum að þetta verði ekki liðið hann verði að hætta þessu og hann þurfi að taka upp alvöru vopnahlés- og friðarviðræður og gera honum grein fyrir hverju það sæti að gera það ekki. 

Í framhaldi af því kæri Dónald ef ég má vera svo frekur, þá tel ég mikilvægt að þú farir fram á leiðtogafund NATO ríkjanna strax, þar sem þú ræðir við þá um vopnahlé og frið í Úkraínu og mætir síðan í heimsókn til Zelenskís og gaumgæfir aðstæður og býður síðan vini þínum Pútín upp á fund, þar sem þú setur fram friðarskilmála við Úkraínu og hann sé velkominn inn úr kuldanum svo fremi hann sé tilbúinn til að auka friðsamleg samskipti við Vesturlönd og byggja upp traust á milli aðila,aukin viðskipti, menningarsamskipti og í fyllingu tímans enn nánari samskipti gangi hlutir eftir. Á sama tíma að gera honum grein fyrir hverju það varði hann að hafna sanngjörnum friðarskilmálum og tilboði um breytta tilveru og betri fyrir rússneskan almenning. Já og þá muni Vesturlönd standa sameinuð gegn honum, draga línu í Úkraínu og gera Pútín grein fyrir því sem kalla má "hingað og ekki lengra"  

En ég segi eins og strákurinn sem var að biðja til Guðs sagði.

"Góði Guð ég vona að þér líði vel og allt sé gott hjá þér. Ef það er ekki, þá erum við í hræðilegum vandræðum."  Með sama hætti kæri Dónald ef þér tekst ekki að taka á málum röggsamlega með sanngjörnum hætti þá verðum við í hræðilegum vanda. 

Bestu kveðjur kæri Dónald til þín og  Melaníu frá okkur Möggu.


Gætið að svo ekki hendi annað verra

Það kom á óvart að lesa skýrslu ríkislögreglustjóra, sem sagði að hægri öfgamenn væntanlega hvítir, væru líklegastir til að fremja hryðjuverk á Íslandi. Þetta "woke" hjal stenst enga skoðun, en það er víðar sem lögreglan fær falleinkun.

Yfirmaður West Yorkshire lögreglunnar í Bretlandi hefur lokað fyrir umsóknir hvítra umsækjenda „til að auka fjölbreytni í lögreglunni“ þ.e. ekki farið eftir hæfi heldur litarhætti.

Thames Valley lögreglan sendir lögreglumenn á "jafnréttis" námskeið, til að upplýsa þá um að þeir séu hvít forréttinda stétt. Lögreglumenn eiga þá væntanlega að handtaka fólk eftir litarhætti til að sýna jafnrétti á grundvelli kynþáttahyggju.

Michael Deacon spyr í blaðgrein: „ef lögreglan trúir því, að „hvít“ forréttindi séu raunveruleg; „Hvað þá með fórnarlömb nauðgunargengjanna? Þúsundum barnungra hvítra stúlkna var nauðgað, hópnauðgað og hnepptar í kynlífsánauð af hörundsdökkum múslímskum afbrotamönnum, bendir það til þess, að þessar stúlkur hafi notið „hvítra forréttinda“ meðan þær voru dópaðar upp, nauðgað og kallaða „hvítar druslur“ og „hvítar hórur“?

Sé svo gæti það e.t.v. útskýrt af hverju lögreglan sýndi algjört áhugaleysi og hlustaði ekki á kvartanir þeirra og gerði ekkert til að draga glæpamennina, nauðgarana til ábyrgðar.“ Deacon segir: „þrátt fyrir að vera hvítar, þá nutu þessar stúlkur engra forréttinda,„hvít forréttindi“ eru í raun ekki til og slík staðhæfing er í ekkert annað en tilhæfulaust haturs bull,“

Að hverjum beinist þetta hatur? Það beinist að hvítu fólki. Lögreglan í Bretlandi má þakka fyrir það að hvítt fólk skuli ekki hafa gripið til aðgerða gegn þeirri kynþáttahyggju gagnvart því sem hefur heltekið lögregluna og allt „woke“ liðið. Þeir sem standa að baki „woke“ hugmyndafræðinni hafa fyrst og fremst í huga að eyðileggja grunnstoðir vestrænna lýðræðisþjóðfélaga og hefur orðið vel ágengt.

Í dag er forsætisráðherra í Bretlandi maður, sem vanrækti þá starfsskyldu sína að bregðast við til að vernda barnungar hvítar unglingsstúlkur frá því að vera dópaðar upp, hópnauðgað og svívirtar af múslimum vegna litarháttar síns. Hann berst nú af öllu afli gegn því að ítarleg rannsókn málsins fari fram.

Hvar skyldu þá hvítu forréttin vera þar sem hvítt fólk sem hefur orðið fórnarlömb svívirðilegra glæpa, fær mál sín ekki rannsökuð.

Einu sinni var lögreglan í Bretlandi fyrirmynd en ekki lengur.

Það er illt til þess að vita að Ríkislögreglustjóri virðist ætla að feta í fótspor þeirrar blindu andþjóðfélagslegu kynþáttahyggju sem breska lögreglan er heltekin af. Hvað svo ef hvítt fólk bregst til varnar til að geta notið borgaralegra réttinda, sem lögreglan sér ekki um að verja vegna kynþáttahyggju?

Er það fólk þá hvítir hægri öfgamenn?


Greiningardeild fær falleinkun

Nýlega er lokið síðari landsleik Ísrael og Íslands í handknattleik. Rétt er að óska leikmönnum íslenska landsliðsins til hamingju með sigur í leikjunum og tryggja sér far á HM. Engir áhorfendur fengu að vera á leikunum vegna tilmæla greiningardeildar ríkislögreglustjóra(RLS). 

Nokkru áður en síðari landsleikurinn hófst sendi greiningardeildin frá sér skýrslu um öryggismál og segir þar að "aukin ógn á Íslandi vegna hryðjuverka skýrist af því að á Íslandi séu einstaklingar/hópar sem aðhyllast ofbeldisfulla hægri öfgahyggju og jafnframt hafi þekktan ásetning eða getu til að framkvæma hryðjuverk" Af ofangreindu má því ætla að það sé og hafi verið mat greiningardeildar RLS að þessir hægri öfgamenn væru þeir sem þyrfti að óttast væri áhorfendum leyft að horfa á leikinn. Nokkur mótmæli voru fyrir utan leikstaðinn, en þar var aðallega fólk veifandi fána Hamas, innflytjendur frá Gasa og fólk sem þekkt er fyrir að vera yst til vinstri í litrófi íslenskra stjórnmála.

Meintir öfgahægrimenn létu sig greinilega algjörlega vanta. 

Nú verður sá sem þetta ritar að viðurkenna það, að hann þekkir ekki til samtaka öfga hægrimanna hvað þá til þeirra af þeirri tegund sem hafa vilja eða getu til að framkvæma hryðjuverk. Hins vegar eru hægri menn velþekktir og einkenni þeirra er að vilja lifa í sátt og samlyndi við annað fólk og gæta þess að þjóðleg gildi og menning sé virt. Ef til vill er það sú hætta sem greiningardeild RLS er að vísa til.

Þegar búið er að segja A þá þarf líka að segja B. Hvaða samtök öfgahægri manna eru það sem RLS á við?  Hvar og hvernig birtist áróður frá slíkum aðilum. Hvaða viðbúnað hafa þau haft og hvaða hryðjuverk hafa þau framið eða verið með undirbúning að. 

Frá aldamótum hafa yfir 90% mannskæðra hryðjuverka í Evrópu verið framin af öfgaíslamistum. Er þá ekki líklegt að hættan hér á landi sem og annarsstaðar í Evrópu stafi frá slíkum hópum. Af hverju er ekki vikið að því í skýrslu RLS?

Allt þetta hjal RLS bendir til þess, að þeir sem vinna þá greiningu sem um ræðir séu ekki vandanum vaxnir heldur hrapi að niðurstöðum á grundvelli fordóma en sleppi raunveruleikanum.

Í sjálfu sér ekki ólíkt því sem breska lögreglan gerði eftir hryðjuverkin í París þar sem róttækir Íslamistar myrtu í hryðjuverkaárás alla ritstjórn grínblaðsins Charlie Hebdoe, en þá var Bretland sett á hert viðbúnaðrstig og lögreglan safnaði upplýsingum um hverjir væru áskrifendur að Charlie Hebdoe og tók þá einn af öðrum til skýrslugjafar vegna gruns um möguleg hryðjverk. Þessir starfshættir bresku lögreglunnar varð aðhlátursefni, en sýndi vel hvílíkri blindu lögregluyfirvöld þar í landi eru og voru haldin, sbr. fjölda hryðjuverkaárása íslamista í Bretlandi og hróp þúsunda breskra stúlkubarna sem voru hnepptar í kynlífsánauð af íslamistum meðan lögreglan horfði í hina áttina. 

Í dag ákvað ein stærsta lögregludeild Bretlands að setja lögreglumenn í sérstakt próf þar sem hvítir lögreglumenn þurfa að gangast undir sérstakar spurningar til að áunnin forréttindi þeirra trufli ekki störfin.  Ef slíkt væri gert við hörundsdökka mundi heldur betur heyrast hljóð úr horni.

Það er alvarlegt mál hvort sem það er hér á landi eða erlendis þegar lögreglan hefur forgöngu um það að halla réttu máli og reyna að rugla umræðuna já og neitar jafnvel staðreyndum. Það hefur því miður gerst um alla Evrópu og einna frægast þegar lögreglan í Köln og reyndar Þýskalandi mótmælti því að nauðganir eða því um líkt hefði gerst við dómkirkjuna í Köln á nýársnótt. Síðar var upplýst að um víðtækar hópnauðganir ólöglegra innflytjenda frá Arabíu og Afríku hafði verið um að ræða, en hvorki lögregla né borgarstjórnaryfirvöld vildu við það kannast, en þökk sé samfélagsmiðlum þá var sannleikurinn leiddur í ljós. 

Það er dapurlegt að íslenska löreglan skuli vera komin í hóp afvegaleiddustu lögregludeila í álfunni og kunni ekki hverju sem það svo sætir, að átta sig á mismuninum á lambaspörðum og eplum hvað þá öðru sem meira máli skiptir.

Eru þeir sem bera sig af jafn lélegum vinnubrögðum og röngum niðurstöðum og greiningardeild RLS gerir í þessu plaggi, líklegir til að geta staðið vel að öryggishagsmunum Íslendinga?

 

 

 


mbl.is Aukin ógn vegna ofbeldisfullrar hægri öfgahyggju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Handbolti og samkynhneigð

Ríkislögreglustjóri hefur mælst til þess að landsleikir Íslands og Ísrael verði háðir fyrir luktum dyrum vegna óútskýrðrar hættu sem væri fyrir hendi ef leikurinn yrði spilaður með fullu húsi af áhorfendum.  Ekki fæst uppgefið hvað er um að ræða, en forusta handknattleiksssambandsins samþykkti þetta eftir að hafa fengið skýringar frá greiningardeild Ríkislögreglustjóra. 

Íslendingar eru ekki þekktir fyrir að láta ófriðlega á landsleikjum. Þarf þá að grípa til ráðstafana vegna ofstopaliðs, sem hingað hefur flust eða verið flutt síðustu misseri? Ríkislögreglustjóri verður að upplýsa það. 

Á sama tíma og loka verður fyrir aðgengi almennings að kappleik, segja fulltrúar samkynhneigðra að þeir verði varir við aukna fordóma í sinn garð, en segja ekki hvað um er að ræða. Getur verið að sama liðið sýni þessa fordóma og þeir sem valda því að nauðsynlegt reynist að loka fyrir áhorf á landsleik. Hvarvetna í Evrópu þar sem fulltrúar Íslamskra fordóma hafa flutt eykst andúð og ofsóknir gegn samkynhneigðum í réttu hlutfalli. 

Hvað svo sem veldur á almenningur rétt á að fá fullnægjandi upplýsingar um hvað er að gerast. 

 


Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 16
  • Sl. sólarhring: 742
  • Sl. viku: 3118
  • Frá upphafi: 2515863

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 2859
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband